Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Lokaverkefni sálfræðinema

 

Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES): Algengi vægrar vitrænnar skerðingar með minnistapi meðal aldraðra
(Titill á frummáli: The AGES-Reykjavik Study: The Prevalence of Amnestic
MCI in an Elderly Population)

Cand. psych. ritgerð
Júní 2009

Höfundur: Vin Þorsteinsdóttir

Leiðbeinandi: Dr. María K. Jónsdóttir

Heilabilun þróast á mörgum árum og merki sjúkdómsins koma fram löngu áður en greiningarskilmerki eru uppfyllt. Millistig heilbrigðis og heilabilunar kallast væg vitræn skerðing (VVS) (e. mild cognitive impairment, MCI). Sem verulegur áhættuþáttur heilabilunar er VVS
mikilvægt rannsóknarefni. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka algengi VVS með minnistapi (mVVS), sem hefur verið talin sú tegund VVS sem helst spáir fyrir um yfirvofandi Alzheimers sjúkdóm.Tilgangur rannsóknarinnar var í fyrsta lagi að áætla algengi tveggja undirtegunda vægrar vitrænnar skerðingar með minnistapi, sértækrar og víðtækrar og í öðru lagi að athuga tengsl aldurs, kyns og menntunar við báðar þessar undirtegundir. Í því skyni voru fengnar niðurstöður taugasálfræðilegra prófa hjá 1557 þátttakendum í  öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES-Reykjavík), á aldrinum 66 til 92 ára. Algengi VVS m/minnistapi mælidist 13,8%, víðtæk og sértæk undirtegund voru jafnalgengar, 6,9% hvor. Algengi jókst með hækkandi aldri og var það hærra hjá körlum en konum (áhættuhlutfall 1,3). Karlar milli 66 og 69 ára aldurs voru marktækt líklegri en konur á sama aldri til að hafa sértækt mVVS (áhættuhlutfall 6,9), sama er að segja um karla undir 75 ára aldri (áhættuhlutfall 2,1) en ekki var marktækur munur milli kynja á algengi sértæks mVVS eftir 75 ára aldur. Samvirkni kyns og aldurs náði þó ekki marktækni. Algengi víðtækrar mVVS jókst einnig með hækkandi aldri en ekki var marktækur kynjamunur. Ekki kom fram marktækur munur á algengi undirtegunda mVVS eftir menntunarstigi. Samvirkni kom fram milli tengsla menntunar og undirtegunda mVVS við aldur, þannig að fólk með meiri menntun þróaði seinna með sér mVVS og var munurinn meiri fyrir víðtæka mVVS en sértæka mVVS.

 

Fyrstu viðmið fyrir íslenska gerð Mattis heilabilunarkvarðans (MDRS-2)

Cand. psych. ritgerð
Júní 2009

Höfundur: Sigrún Vilborg Heimisdóttir

Leiðbeinandi: Dr. María K. Jónsdóttir

Heilabilun er vaxandi samfélagslegt vandamál sökum hækkandi aldurs Íslendinga og eru hrörnunarsjúkdómar s.s. Alzheimers og heilaæðasjúkdómar algengustu orsakavaldarnir. Aukin krafa um taugasálfræðilega greiningu kallar á bætt greiningartæki og var meginmarkmið þessarar rannsóknar að vinna fyrstu viðmið (norm) fyrir íslenska gerð MDRS-2 heilabilunarkvarðans (Mattis Dementia Rating Scale-2) fyrir 65 ára og eldri.
MDRS-2 heilabilunarkvarðinn hefur góða próffræðilega eiginleika og er talið eitt besta skimunartækið til mats á einkennum heilabilunar. Greiningarhæfni kvarðans er góð fyrir greiningu Alzheimerssjúkdómsins og til aðgreiningar Alzheimerssjúklinga með væg einkenni frá heilbrigðum einstaklingum. Einnig nýtist það til að greina á milli meðalalvarlegra og alvarlegra einkenna Alzheimerssjúkdómsins og til að fylgjast með framgangi hans. Prófið hefur einnig nýst vel í öðrum sjúkdómum. Til viðbótar hefur þótt áhrifaríkt að nota tvo af fimm undirkvörðum prófsins, minni og frumkvæði og hjakk við snögga skimun á skilningi og minni. Þannig er ljóst að prófið gefur ýmsa möguleika í klínískri notkun og greiningu.
MDRS-2 heilabilunarkvarðinn hefur áður hefur verið þýddur og forprófaður í íslensku þýði 65 ára og eldri en íslensk viðmið hefur skort. Úrtakið í rannsókninni samanstóð af 137 Íslendingum 65 ára og eldri og fóru prófanir fram á fjórum stöðum á landinu Akureyri, Ísafirði, Reykjavík og Selfossi. Læknar á heilsugæslum þessara staða og öldrunardeildum bæði á Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar mátu þátttakendur hæfa til þátttöku út frá fyrirframsettum skilmerkjum. MDRS-2 kvarðinn var lagður fyrir þátttakendur sem og tveir aðrir skimunarkvarðar fyrir heilabilun, MMSE og 3MS. Einnig var skimað fyrir mögulegum neikvæðum áhrifum andlegrar vanlíðunar á vitræna getu til að draga úr líkum á falskjákvæðri svörun. Í þeim tilgangi voru þrír sjálfsmatskvarðar fyrir þunglyndiseinkenni, einmananleika og minni, notaðir.
Fyrstu viðmið voru reiknuð út frá aldri og menntun bæði fyrir heildarkvarða og undirkvarða MDRS-2 prófsins, þar sem þessir þættir hafa áhrif á útkomu. Skor á MDRS-2 heilabilunarkvarðanum voru á bilinu 128,4 (aldur > 81, grunnskólamenntun eða minna) til 136,6 (aldur 65-70, stúdentspróf eða meira). Einnig var reiknuð fylgni  milli bæði heildar- og undirkvarða MDRS-2 og skimunarprófanna MMSE og 3MS. Niðurstöður sýna að heildarútkoma á MDRS-2 prófinu hefur marktæka fylgni við útkomu viðmiðunarprófana tveggja, sem og allir undirkvarðar þess nema teikning flatarmynda.  Niðurstöður samræmast nokkuð vel niðurstöðum erlendra rannsókna en prófið fer þó ekki í notkun hérlendis strax því gert er ráð fyrir að í endanlegu stöðlunarúrtaki verði 450 þátttakendur. Frekari söfnun viðmiða fyrir stærra úrtak er því áætluð.

  

Áhrif kynferðisofbeldis á líðan þolenda sem leita til Stígamóta: Tengsl áfallastreitueinkenna, áfengis- og vímuefnavanda og bjargráða

Cand. psych. ritgerð

Höfundur: Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

Leiðbeinendur: Berglind Guðmundsdóttir og Jakob Smári

Kynferðislegt ofbeldi er stórt samfélagslegt vandamál bæði erlendis og á Íslandi og þurfa þolendur þess oftar en ekki að takast á við alvarlegar og í mörgum tilfellum varanlegar afleiðingar ofbeldisins. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni áfallastreitueinkenna, áfengis- og vímuefnavanda hjá fólki sem leitar til Stígamóta í kjölfar kynferðisofbeldis, en Stígamót eru samtök sem bjóða fólki aðstoð til að takast á við kynferðisofbeldis og afleiðingar þess. Einnig var tilgangur rannsóknarinnar að kanna bjargráð og áhrif þeirra á tengsl áfallastreitueinkenna og áfengis- og vímuefnavanda. Nánar tiltekið var athugað hvort að þeir sem nota minna af jákvæðum tilfinningamiðuðum bjargráðum, þ.e. tilfinningaúrvinnslu eða tilfinningatjáningu eða meira af reynsluforðunar bjargráðum greini frekar frá áfallastreitueinkennum eða áfengis- eða vímuefnavanda. Þátttakendur voru 48 þolendur kynferðisofbeldis sem leituðu aðstoðar Stígamóta á tímabilinu janúar til apríl 2009. Helstu niðurstöður voru þær að 58,7% þolenda greindu frá áfallastreitueinkennum, um 20,8% greindu frá áfengisvanda og 16,6% greindu frá vímuefnavanda. Þolendur sem nota minna af tilfinningaúrvinnslu og tilfinningatjáningu en meira af reynsluforðun greindu frekar frá áfallastreitueinkennum. Auk þess greindu þolendur sem nota minna af tilfinningaúrvinnslu og meira af reynsluforðun frekar frá áfengisvanda. Niðurstöðurnar sýna að meirihluti þolenda sem leita til Stígamóta á við margvísleg vandamál að stríða. Auk þess gefa þær mikilvægar upplýsingar varðandi hvað geta reynst þolendum kynferðisofbeldis hjálplegar og óhjálplegar aðferðir við að takast á við áfallastreitueinkenni og áfengisvanda.

 

Samanburður á niðurstöðum greindarprófs Wechslers (WISC-IVIS) meðal barna með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) og stöðlunarúrtaks

BA ritgerð

Höfundur: Guðlaug Marion Mitchison

Leiðbeinendur: Jakob Smári, Páll Magnússon og Guðmundur Skarphéðinsson.

Athyglisbrestur með ofvirkni (Attention-Deficit Hyperactivity Disorder; ADHD) er röskun á sviði taugaþroska barna. Helstu einkenni eru athyglisbrestur, hvatvísi og hreyfiofvirkni. Markmið ritgerðarinnar er að bera saman niðurstöður WISC-IVIS (Wechsler Intelligence Scale for Children, fourth edition; íslensk útgáfa) greindarprófsins hjá börnum með ADHD við staðlað úrtak. Fyrsta tilgátan er sú að það sé munur á niðurstöðum prófsins hjá börnum með og án ADHD, einkum í mælitölum vinnsluhraða (processing speed), vinnsluminnis (working memory) og undirprófum (subtests) þeirra prófhluta (index). Önnur tilgátan er sú að munur sé á heildartölu greindar hjá börnum með og án ADHD. Þriðja tilgátan sú að það sé enginn munur á milli kynja í frammistöðu á prófinu. Fjórða tilgátan er sú að enginn munur sé á heildartölu greindar milli kynja með ADHD. Fimmta og síðasta tilgátan er sú að því yngri sem börnin eru því lægri sé heildartala greindar. Þátttakendur í rannsókninni voru 39 talsins og voru börnin á aldrinum 6 til 17 ára, öll með ADHD samkvæmt greiningu Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Ekki var unnið beint með þátttakendum heldur aðeins með niðurstöður prófsins. Til þessa hefur frammistaða íslenskra barna með ADHD ekki verið metin í íslensku útgáfu greindarprófs Wechslers og engar rannsóknir á samanburði þess við stöðlunarúrtak. Munur var á frammistöðu barna með ADHD á greindarprófinu í samanburði við stöðlunarúrtak og einnig var munur á heildartölu greindar hjá börnum með og án ADHD. Þar með styðja niðurstöður fyrstu tvær tilgáturnar. Það var einnig munur á niðurstöðum milli kynja með ADHD á prófinu, en enginn munur á heildartölu greindar á milli kynjanna. Þar með var þriðja tilgátan ekki studd en fjórða tilgátan studd. Því eldri sem börnin voru því lægri var heildartala greindar. Þar með var fimmta og síðasta tilgátan ekki studd. Niðurstöður þessarar rannsóknar staðfesta ekki aðeins sumar tilgátur rannsóknarinnar heldur bjóða einnig upp á margar rannsóknir í framhaldinu.

 

Fræðslunámskeið fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra

BA ritgerð
Maí 2008

Höfundur: María Reykdal

Leiðbeinendur: Friðrik Helgi Jónssson og Heiðdís Valdimarsdóttir

Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur fræðslunámskeiðanna ,, Aukin þekking, betri líðan” sem hafa verið haldin í Skagafirði og á Akureyri síðan haustið 2003. Þetta eru sérhönnuð námskeið fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. Við hönnun námskeiðanna var tekið mið af námskeiðinu ,,Að lifa með krabbameini”  og sjálfsstyrkingarnámskeiðum sem haldin voru fyrir krabbameinssjúklinga á Endurhæfingardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss í Kópavogi. Leiðbeinendur voru fagfólk á heilbrigðissviði sem býr og starfar á Norðurlandi. Veitt var fræðsla um krabbamein og ýmsar leiðir til að takast á við það. Markmið námskeiðanna er að fræða sjúklinga og aðstandendur þeirra um sjúkdóminn og andlegar og líkamlegar afleiðingar hans og gera þá hæfari til að takast á við krabbameinið og lifa  með því.

Þátttakendur voru sextíu og átta krabbameinssjúklingar af miðnorðurlandi og aðstandendur þeirra. Þeir voru af báðum kynjum á aldrinum nítján ára til áttatíu og tveggja ára, meðalaldur var fimmtíu og sex ár. Af þeim voru 62%  krabbameinssjúklingar og 38% aðstandendur.

Tilgátur rannsóknarinnar voru að þekking  á krabbameini og þeirri þjónustu sem er í boði fyrir krabbameinssjúklinga myndi aukast og að fræðslan sem þátttakendur fengju á námskeiðinu myndi minnka þunglyndi þeirra.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þekking þátttakenda jókst og þunglyndi þeirra minnkaði með þátttöku í námskeiðinu. Konur voru ekki þunglyndari en karlar og enginn munur var á þunglyndi krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra. Þeir sem töldu sig verða fyrir fordómum voru þunglyndari en þeir sem ekki töldu sig verða fyrir fordómum í samfélaginu. Almenn ánægja var meðal þátttakenda með námskeiðið og flestir töldu fræðsluna gagnast sér mjög mikið. Vegna góðs árangur námsskeiðsins við að bæta andlega líðan og lífsgæði þátttakenda ætti svona námskeið að vera hluti af endurhæfingu krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra.

 

Tengsl áfalla í æsku við sjálfsskaða og húðkroppunaráráttu: Miðlunaráhrif tilfinninganæmis og sjálfsálits

BS ritgerð
Júní 2009

Höfundar: Gabríela Bryndís Ernudóttir og Lára Ólafsdóttir

Leiðbeinendur: Jakob Smári og Ívar Snorrason

Sjálfsskaði er viljandi og beinn skaði eða breyting á líkama sem er nógu alvarlegur til að valda skemmd á líkamsvef (til dæmis að skera sig) án þess þó að markmiðið sé sjálfsvíg. Húðkroppunarárátta einkennist af þörf eða löngun til að kroppa í húðina eða óhóflegu kroppi á húðina sem veldur markverðri vanlíðan eða truflun á starfshæfni. Tilfinninganæmi (emotion reactivity) segir til um að hve miklu leyti manneskja upplifir tilfinningaviðbrögð við mörgum mismunandi gerðum áreita, hversu sterk upplifunin er og hversu lengi sú upplifun varir. Niðurstöður rannsókna benda til þess að áföll í æsku auki líkur á sjálfsskaða og húðkroppunaráráttu, en óljóst er hvers vegna það er. Tilgátan var sú að áföll í æsku spáðu fyrir um sjálfsskaða og húðkroppunaráráttu, og að sjálfsálit og tilfinninganæmi miðluðu sambandinu að einhverju leyti. Spurningalistar voru lagðir fyrir 554 nemendur í framhaldsskóla, 18 ára og eldri. Spurningalistarnir voru Childhood Trauma Questionnaire – short form, Skin Picking Scale, Deliberate Self-Harm Inventory – short form,  Rosenberg Self Esteem Questionnaire, Emotion Reactivity Scale og Hospital Anxiety and Depression Scale. Tilgátur voru studdar að hluta til. Áföll í æsku spáðu fyrir um sjálfsskaða þegar stjórnað var fyrir kyn, kvíða og þunglyndi. Tilfinninganæmi og sjálfsálit skýrðu tengslin þar á milli. Áföll í æsku spáðu ekki fyrir um húðkroppunaráráttu.

 

 

Vinsamlegast sendið útdrætti á vefrit@sal.is

Auglýsingar

One response to “Lokaverkefni sálfræðinema

  1. Pingback: Háþrýstingur og heilahreysti - Heilahreysti.isHeilahreysti.is

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s