Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

41. EABCT 2011-ráðstefnan í Reykjavík 31. ágúst-3. september

Höfundur: Eiríkur Örn Arnarson

Snemma árs 2006 var ákveðið að bjóðast til að halda 41. Evrópuráðstefnu EABCT hér á landi árið 2011. Félag um hugræna atferlismeðferð (FHAM) hafði löngum verið hvatt til að halda ráðstefnuna, en vitað að það væri mikið verk og kostnaðarsamt. Það var því ekki fyrr en stjórn FHAM taldi félagið vera orðið nægilega burðugt að slegið var til. Þá var Auður Gunnarsdóttir formaður félagsins og Inga Hrefna Jónsdóttir í stjórn og mig minnir Ragna Ólafsdóttir og Björn Harðarsson.

Við höfðum samband við Ráðstefnuskrifstofu Íslands, sem var staðsett í Gimli við Lækjagötu, og fengum góða aðstoð. Hjá skrifstofunni fengum við kynningarefni og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgastjóri ritaði bréf máli okkar til stuðnings. Farið var með tilboðið á s.k. “half-annual Meeting” EABCT, sem nú kallast 1GM (aðalfundur) EABCT, í París snemma árs 2006. Á fundinum kom í ljós að Ítalir og Írar höfðu einnig áhuga á að halda ráðstefnu EABCT árið 2011.

Það var mikið í húfi og Ráðstefnuskrifstofa Íslands benti okkur á þrjár ráðstefnuskrifstofur, sem gætu veitt aðstoð. Eftir að hafa fundað með þeim ákváðum við að semja við Congress Reykjavík. Við Auður fórum vel undirbúin og klyfjuð fjárhagsáætlun, gögnum og kynningarefni á 36. ráðstefnu EABCT í París um haustið. Á fundinum buðust Ítalir til færa sig til og halda ráðstefnuna í Mílan árið 2010 og Írar drógu tilboð sitt til baka. Við hlutum hnossið og urðum kampakát, en áttuðum okkur ekki, sem betur fer, á því hvað við vorum búin að steypa okkur út í.

Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar var fljótlega sett á laggir og Auður skipuð forseti, Inga Hrefna varaforseti, ég formaður vísindanefndar og með mér Jakob Smári og Ragnar Pétur Ólafsson.

Auður vann ötullega að undirbúningi ráðstefnunnar eins og öðru, sem hún tók að sér. Það var í mörg horn að líta og taka þurfti margar ákvarðanir. Við ákváðum að bregða út af vananum og halda ráðstefnuna í lok ágúst, en þá eru margir í sumarfríi á meginlandinu, til að gefa erlendum þátttakendum kost á að ferðast á góðum árstíma og kynnast landi og þjóð.

Þegar ljóst var að byggja ætti HÖRPU ákváðum við strax að panta hana og halda ráðstefnuna þar því við vorum sannfærð um að hún yrði fjölsótt og töldum líklegt að 1400 manns myndu taka þátt. Upphaflega var áætlað að HARPA yrði opnuð árið 2009 og datt engum í hug að við yrðum fyrsta alþjóðlega ráðstefnan, sem haldi yrði í HÖRPU eftir að hún var vígð 20. ágúst s.l. Til vara hafði Congress Reykjavík bókað Hilton og Grand hótel vegna efa um að það yrðu svo margir þátttakendur. Jafnvel í mars s.l. var ráðstefnuskrifstofan efins, og ég held jafnvel að við höfum þótt full djörf framan af, en sem betur fer studdi Congress Reykjavíkur okkur af ráði og dáð.

Okkur var snemma ljóst að það væri mikill áhugi fyrir ráðstefnunni og margar fyrirspurnir bárust, sem við einsettum okkur að svara án tafar.

Það segir nokkuð um umfang ráðstefnunnar og áhuga á HAM að vísindanefnd bárust 777 útdrættir til birtingar frá 30 þjóðlöndum og voru 57 þeirra frá Íslendingum. Á meðan ráðstefnu stóð voru 15 viðburðir í gangi samtímis. Við lögðum alla HÖRPU undir okkur og dugði ekki til og þurfti að leigja sjö sali í nágrenninu, tvo í Iðuhúsinu, þrjá í Centrum Reykjavík, einn á Hótel 1919 og matsal Iðnós. Það voru haldnar 11 vinnustofur fyrir ráðstefnuna og 21 stuttar vinnustofur á meðan ráðstefna stóð. Á ráðstefnunni voru haldnir 15 aðalfyrirlestrar, 142 málstofur og 200 veggspjöld sýnd. Efninu var raðað í 34 þemu, sem spönnuðu frá „Compassion Focused Therapy“ að áföllum með áherslu á forvarnir.

Þátttakan var ótrúleg og komu tæplega 1100 manns gagngert hingað til lands til þess að sitja ráðstefnuna frá 43 löndum auk 250 Íslendinga. Þetta var því með stærri ráðstefnum, sem Evrópusamtökin hafa staðið fyrir. Margir hinna erlendu gesta ferðuðust um landið í allt að hálfan mánuð fyrir ráðstefnuna og sumir eftir að henni lauk. Veðrið lék við þátttakendur að undanteknum fimmtudegi, þegar leifar af fellibylnum Katrínu barst til lands, en hann kom í veg fyrir að nokkrir fyrirlesarar og gestir kæmust á ráðstefnuna.

Vísindanefnd hóf snemma undirbúning og fundaði stíft til að ákveða hverjum skildi bjóða. Við settum okkur eftirfarandi markmið:

 •   að hafa hliðsjón af forvörnum, sem var þema ráðstefnunnar,
 •   að sem flestir fyrirlesarar væru aðrir en á fyrri ráðstefnum EABCT,
 •   að flestir fyrirlesara kæmu frá Evrópu, einkum Norðurlöndum,
 •   að jafnvægis yrði gætt milli kynja.

Jakob sat á sama tíma í vísindanefnd sálfræðiráðstefnu í Helsinki og nýttist okkur reynsla hans vel. Þegar við vorum ásátt um aðalfyrirlesara buðum við þeim og fengum skjót svör og tóku allir erindinu vel.

Vegferðin gekk ekki áfallalaust. Það var skarð fyrir skildi og mikill harmur að missa Auði úr röðum okkar og Jakob skömmu síðar.

Mér er ofarlega í minni 1GM fundurinn, sem við Auður sóttum í Mílanó í mars á liðnu ári ásamt Jóni Sveinssyni, eiginmanni hennar. Við flugum um Kaupmannahöfn og var Auður bundin við hjólastól. Hún lét það ekki aftra sér og var virk á fundinum og áttum við saman ánægjulega daga. Auður talaði fyrir því að efla handleiðsluþáttinn í HAM þjálfun. Það var fyrir hennar atbeina að EABCT setti á stofn sérstaka nefnd til að sinna þeim málum og var Auður fyrsti formaður nefndarinnar, en Helen McDonald sat einnig í nefndinni.  Helen þekkja mörg okkar, og er hún nýkjörin ritari og gjaldkeri EABCT.

Auður vann hug og hjörtu þeirra, sem umgengust hana, og kom miklu til leiðar. Hið sama má segja um Jakob Smára. Hann var virtur víða um heim fyrir störf sín og rannsóknir. Okkur bárust fjöldi samúðarbréfa, þegar það spurðist út að þau væru fallin frá.

Ákveðið var að ég skyldi fylla skarð Auðar, Ingunn Hansdóttir yrði formaður  vísindanefndar og Urður Njarðvík tæki sæti í vísindanefnd.  Sóley Dröfn Davíðsdóttir tók við af Auði sem formaður FHAM og sæti hennar í undirbúningsnefnd, Jón Sigurður Karlsson kom inn í undirbúning sem fjármálastjóri.  Enda þótt ráðstefnan væri á vegum félagsins var ákveðið að hafa fjárhag ráðstefnunnar aðskilinn fjárhagi FHAM. Helena Jónsdóttir sá um kynningarmál og Álfheiður Steinþórsdóttir var einnig til halds og trausts í undirbúningsnefnd. Til að byrja með var fundað einu sinni í mánuði í fundarsal SÁÁ og síðar  í fundarsal kvennadeildar LSH, en þegar nær dró funduðum við vikulega og oftar, ef þörf krafði.

Undirhópar voru stofnaðir til að sinna ýmsum málum og átti stjórn FHAM drjúga aðkomu. þau Berglind Guðmundsdóttir, Eggert Birgisson, Elsa Bára Traustadóttir, Erla Sigríður Grétarsdóttir, Guðrún Oddsdóttir, Sigurbjörg J. Ludvigsdóttir, Unnur Jakobsdóttir Smári o.fl. Fræðslunefnd FHAM átti einnig ríkan þátt í hve vel tókst til, en í henni sitja, Oddi Erlingsson, Margrét Arnljótsdóttir og Margrét Bárðardóttir.

Í mars s.l. var haldinn 1GM (aðalfundur) EABCT í Reykjavík og sóttu hann fulltrúar frá aðildarfélögunum. Á þeim tíma var HARPA í byggingu og fengu 10 fulltrúar að heimsækja byggingarsvæðið og leyndi sér ekki vantrú á svip margra þeirra að það myndi takast að ljúka framkvæmdum í tæka tíð, en við fullvissuðum þá um að svo yrði.

Í aðdraganda ráðstefnunnar var sett upp heimasíða www.EABCT2011.org, sem ráðstefnuskrifstofan aðstoðaði okkur við að halda úti. Ákveðið hefur verið að halda henni opinni, en þar má nálgast upplýsingar um ráðstefnuna, s.s. dagskrá og útdrætti. Þrjú fréttabréf voru gefin út með upplýsingum um ráðstefnuna, land og þjóð og birtust á heimasíðunni og Ragnar Pétur Ólafsson ritstýrði, en Urður Njarðvík hélt utan um síðu á Facebook. Kristín Bogadóttir, ljósmyndari tók myndir á ráðstefnunni, sem má skoða á eftirfarandi hlekk http://www.blurb.com/bookstore/detail/2589581.

Fjölmargir kollegar lögðu hönd á plóg við undirbúning og að kynna ráðstefnuna. Það er erfitt að nefna nöfn, en ég vil þakka Magneu B. Jónsdóttur, sem útbjó leiðarlýsingu ætlaða þátttakendum, sem áhuga höfðu á að ferðast um landið fyrir eða eftir ráðstefnuna, Ragnheiði Hlynsdóttur í Toronto, Kanada, Þresti Björgvinssyni í Boston, Andra Björnssyni við háskólann í Brown í Bandaríkjunum og Ásgeiri Helgasyni í Stokkhólmi. Ekki má heldur gleyma 50 háskólanemunum, sem lögðu okkur lið svo eftir var tekið.

Það reið ekki við einteyming við undirbúning ráðstefnunnar. Nægir að nefna Hrunið, óvissu um byggingu Hörpu og tvö eldgos, í Gígjökli og Eyjafjallajökli, sem höfðu áhrif á flugumferð um allan heim í tæplega hálfan mánuð. Það var ekki á vísan að róa og okkur reyndist erfitt að fá fjárhagslegan stuðning. Við óttuðumst að enginn þyrði að koma til Íslands, bjartsýni okkar hefði verið full mikil og stórtap yrði á ráðstefnunni. Allt var undir því komið að þátttaka yrði góð, en langur og góður undirbúningur skilaði sér vel að lokum.

Við létum hvergi bilbug á okkur finna og vorum full bjartsýni, þegar okkur bárust fyrirspurnir og vorum innt eftir því hvort óhætt væri að koma til landsins og vegir færir. Aðalskrifstofa EABCT í Hollandi og  aðildarfélög samtakanna studdi okkur vel með því að auglýsa rástefnuna og miðla upplýsingum um eldgos o.þ.h. Þeir sem áður höfðu haldið ráðstefnur miðluðu upplýsingum og af reynslu sinni, en EABCT-ráðstefnan í Helsinki 2008 var höfð til fyrirmyndar. Einnig veitti Velferðarráðuneytið stuðning, sem við þökkum fyrir.

Ráðstefnan þótti takast vel. Á miðvikudegi voru haldnar fjölsóttar vinnustofur. Síðdegis var ráðstefnan sett í þéttsetinni Eldborg. Við buðum 200 manns við opnunina auk þinggesta. Fyrst ávarpaði undirritaður gesti og bauð velkomna, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Forseti Íslands og verndari ráðstefnunnar flutti því næst ávarp og setti hana. Gissur Páll Gissurarson, tenór söng síðan við undirleik Caput hópsins. David Clark flutti opnunarfyrirlestur, sem hann nefndi „Developing and disseminating effective psychological treatments:  science, practical and economic“ og að lokum söng Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, messó sópran við undirleik Hrannar Þráinsdóttur. Að setningarathöfn lokinni var þátttakendum boðið til móttöku í Hörpuhorni.

Á fimmtudegi hófst vísindadagskrá ráðstefnunnar og styttri vinnustofur voru haldnar. Í hádeginu var haldinn fulltrúafundur aðildarfélaga EABCT í Iðnó. Síðdegis var móttaka í Listasafni Reykjavíkur í boði borgarstjórnar þar sem Guitar Islandico spilaði. Elsa Hrafnhildur Yeoman, forseti borgarstjórnar ávarpaði gesti og Sóley Dröfn Davíðsdóttir þakkaði fyrir okkar hönd.

Á föstudegi hélt dagskrá áfram með svipuðum hætti og í hádegi var haldinn aðalfundur EABCT haldinn í Iðnó og mættu fulltrúar 34 aðildarfélaga. Eftir aðalfyrirlestur síðdegis bauð Forseti Íslands til móttöku á Bessastöðum. Því næst var hátíðarkvöldverður í Perlu og Inga Hrefna Jónsdóttir var veislustjóri. Það var mikil ásókn í miða að  kvöldverðinum og seldust þeir upp. Diddú og Bergþór Pálsson sungu og Milljónamæringarnir spiluðu undir dansi eftir mat.

Síðdegis á laugardegi lauk vísindadagskrá, en í hádeginu var haldinn fyrsti fundur Norrænnar nefndar um handleiðslu í HAM. Ráðstefnunni var slitið með athöfn síðdegis í Silfurbergi. Tom Olledick flutti lokafyrirlestur, sem bar heitið „Psychopharmacological and Psychosocial Interventions for Youth: First, Do No Harm.“ Veitt voru verðlaun fyrir besta veggspjaldið, sem eru frítt þátttökugjald að 42. ráðstefnu EABCT 2012, sem haldin verður í Genf í Sviss. Gregoris Simon, formaður dómnefndar, kynnti rök nefndarinnar og Ingunn Hansdóttir veitti Hildi Sigurðardóttur verðlaun. Inga Hrefna Jónsdóttir fékk viðurkenningu EABCT fyrir framlag sitt til HAM á Íslandi. Ráðstefnuskrifstofunni voru þökkuð störf og nemar, sem veitt höfðu mikla aðstoð voru kallaðir upp á svið og þeim þakkað. Rod Holland, forseti EABCT flutti ávarp og þakkaði FHAM fyrir að standa fyrir glæsilegri ráðstefnu. Undirritaður ávarpaði gesti, þakkað þátttakendum komuna og afhenti Luicio Bizzini, ábyrgð á ráðstefnunni í Genf 2012 og síðan var athöfn slitið.  Að henni lokinni var gestum boðið upp á drykki og kransakökur á Eyri.  Eftir móttöku spilaði jasstríó Björns Thoroddsen á Munnhörpunni.

Á meðan ráðstefnu stóð voru haldnar veggspjaldasýningar á Norðurbrú, en Í Flóa voru fimm erlendir bókaútgefendur með sölubása og buðu bækur með góðum afslætti. FHAM var þar með kynningarbás og réð Eggert Birgisson ríkjum og kynningarbásar voru fyrir 42. ráðstefnu EABCT 2012 í Genf, Sviss (www.eabct2012.org) og 7. WCBCT heimsráðstefnuna 2013 í Lima, Perú (www.wcbct2013.pe) .  Haldin var myndlistarsýning með verkum frá Moravcsik stofnuninni í Búdapest í Ungverjalandi og Pétur Gautur listmálari bauð ráðstefnugestum í heimsókn á vinnustofu sína á Njálsgötu á fimmtudeginum, sem mæltist vel fyrir

Mat þátttakenda á efnisvali, skiplagi, tímastjórnun, viðurgjörningi, félagslífi á meðan henni stóð og umgjörð í HÖRPU er mjög jákvætt. Það hafa mörg bréf borist frá ánægðum þátttakendum. Það er til þess tekið að Forseti Íslands hafi verið verndari ráðstefnunnar, að hann setti ráðstefnuna og hve vel honum fórust orð.

Yfirskrift ráðstefnunnar voru forvarnir, hvernig bregðast megi við í tæka tíð. Ráðstefnuna sóttu margir þekktir fyrirlesarar, sem fengur var að. Mig langar til að minnast á einn þeirra, David Clark, prófessor við háskólann í Oxford, sem þekktastur er fyrir kenningar sínar um kvíða. Hann fjallaði í erindi sínu um bætt aðgengi að sálfræðilegri meðferð. Bresk stjórnvöld tóku djarfa ákvörðun um að bæta slíkt aðgengi í kjölfar skýrslu Clarks og Layards lávarðar, sem er þekktur breskur hagfræðingur, þar sem þeir sýndu fram á að með því að bæta aðgengi fólks að HAM mætti í senn bæta líðan einstaklinga og spara þjóðfélaginu miklar fjárhæðir. Bretar hafa sannfærst um að þjálfun þerapista og bætt aðgengi að HAM skili sér margfalt í bættri heilsu fjölda fólks og dragi úr fjarveru frá vinnu. Á ráðstefnunni var haldin fjölsótt málstofa um bætt þetta málefni, sem Torkil Berge frá Noregi stóð fyrir, þar kom m.a. fram að Norðmenn eru að feta í fótspor Breta, en við eigum margt ógert.

Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem FHAM hefur staðið fyrir ráðstefnu, því við héldum fimmtu Norrænu ráðstefnuna um HAM 23.-25. apríl 1992 og var þema hennar heilsusálfræði og sóttu hana á annað hundrað manns.

Hópurinn, sem kom að undirbúningi 41. Ráðstefnu EABCT 2011 í Reykjavík var samstæður og ánægjulegt hve allir voru reiðbúnir að leggja hönd á plóg og fúsir að leggja á sig ómælda vinnu.  Það var mikið átak fyrir FHAM að undirbúa ráðstefnuna og við getum glaðst yfir árangrinum.

Ég óska okkur og félaginu allra heilla á komandi árum og er þeirrar skoðunar að ráðstefnan hafi fest HAM í sessi hér á landi og að hennar verði lengi minnst.

Eiríkur Örn Arnarson,

forseti 41. ráðstefnu EABCT 2011

Auglýsingar

One response to “41. EABCT 2011-ráðstefnan í Reykjavík 31. ágúst-3. september

 1. Hildur Sigurðardóttir 31.1.2012 kl. 21:08

  Gaman að lesa þennan góða pistil og frábærlega staðið að öllu varðandi utanumhald ráðstefnunnar. Þætti samt vænt um að fá leiðréttingu á nafn mitt sem kemur fram vegna umfjöllunar um verðlaun fyrir besta veggapjaldið og sagt að verlaunahafinn hafi verið Herdís Sigurðardóttir. Hið rétta er Hildur Sigurðardóttir.
  Kærar þakkir.
  Hildur

%d bloggurum líkar þetta: