Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Aðgengi barna og unglinga að sálfræðilegri meðferð – Haustfundur SÍ 2011

Höfundur: Helgi Héðinsson

Á síðastliðinn föstudag var haldinn árlegur Haustfundur Sálfræðingafélags Íslands og var þetta sá fimmti í röðinni og jafn mörgum árum. Fundurinn var vel sóttur of félagsmönnum og öðrum áhugasömum og voru u.þ.b. 80 manns á fundinum sem að þessu sinni var haldinn í Háskólanum í Reykjavík.

Yfirskrift fundarins var Aðgengi barna og unglinga að sálfræðilegri meðferð, með áherslu á aðgengi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Flutt voru þrjú erindi og að þeim loknum voru pallborðsumræður.

Fyrstur á mælendaskrá var

Hákon Sigurðsson sálfræðingur og deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Breiðholts og lýsti hann aðgengi og hlutverki þjónustumiðstöðvarinnar. Þar er meðal annars boðið upp á námskeiðin Klókir krakkar fyrir 8-12 ára börn með kvíða og foreldra þeirra og Mér líður eins og ég hugsa fyrir unglinga á aldrinum 13-15 ára sem eru með þunglyndi og/eða kvíða. Þjónustumiðstöðin stendur einnig fyrir árlegri skimun fyrir þunglyndi og kvíða í 9.bekk í öllum grunnskólum í Breiðholti.

Hákon ræddi um að á næstunni verði aukin áhersla lögð á að efla foreldrafærni og vitnaði í nýlega samþykkta starfsáætlun Velferðarráðs Reykjavíkur fyrir árið 2012. Meðal annars með því að bjóða upp á árangursmetin námsskeið fyrir börn og unglinga með tilfinningavanda, og PMT námsskeið til að efla foreldrafærni. Framtíðarsýn Hákons er að efla nærþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og bæta aðgengi að þjónustunni. Vildi hann að aukin áhersla yrði lögð á að aðeins flóknustu og erfiðustu málin færu inn í „þriðju línu“ þjónustuna, t.d. sem BUGL sinnir, en svo það sé mögulegt þarf að efla nærþjónustuna.

Ingibjörg Sveinsdóttir sálfræðingur á Heilsugæslunni Firði í Hafnarfirði var næst með erindi. Ingibjörg ræddi um að heilsugæslan sem „framlínuþjónusta“ væri yfirleitt fyrsti viðkomustaður fólks í leit að hjálp, og að um þriðjungur fólks sem kemur á heilsugæsluna myndi lýsa tilfinningavanda. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu á þessu stigi þjónustunnar en eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu (HH) fer ört vaxandi. Sálfræðiþjónusta hefur aukist á undanförnum árum og í dag eru sálfræðingar að þjónusta níu heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu en mun meira þarft til svo hægt sé að anna vaxandi eftirspurn eftir þjónustu. Samkvæmt formlegum og óformlegum athugunum hefur árangur af sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar verið góður og taldi Ingibjörg að góður árangur væri fljótur að spyrjast út og ýtti undir eftirspurn frá fólki með tilfinningavanda.

Ingibjörg endaði erindið á að segja frá tillögum starfshóps um heildarstefnu sálfélagslegrar þjónustu á HH þar sem áhersla var lögð á meiri sálfræðiþjónustu. Formleg aðgerðaráætlun hefur hins vegar ekki verið samþykkt ennþá.

Pallborðið

Hrefna Haraldsdóttir foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli flutti þriðja og síðasta erindið. Byrjaði hún á að fjalla um starfsemi Sjónarhóls-ráðgjafastöðvar sem hefur það hlutverk að mæta brýnni þörf fyrir stuðning við börn með sérþarfir og foreldra þeirra. Hrefna ræddi um erfiða stöðu margra barna og tók dæmi um börn með hegðunarraskanir. Segir hún skort á úrræðum fyrir þennan hóp barna og þau úrræði sem fyrir eru nái því miður ekki til allra. Samkvæmt Hrefnu er sömu sögu að segja varðandi börn með annarskonar sérþarfir.

Hrefna lagði til í erindi sínu að nýta mætti betur þau úrræði sem reynast vel og kallaði eftir meiri samnýtingu úrræða og samvinnu milli stofnana. Framtíðarsýn Hrefnu er að aukin verði sálfræðiþjónusta í skólum og í heilsugæslu og nefndi hún ýmislegt sem hún vill sjá betur gert en raunin er í dag.

Að þessu loknu tóku við pallborðsumræður og voru fjölmargar spurningar úr sal. Í pallborðinu voru fyrirlesararnir þrír auk Ágústu Arnardóttur sálfræðingi frá BUGL og Guðrúnu Oddsdóttur sjálfstætt starfandi sálfræðingi.

Meðal þess sem rætt var um í pallborðsumræðunum var að einfalda þurfi kerfið svo stofnanir geti unnið betur saman, en öðru vísi sé ekki hægt að gera sálfræðiþjónustuna skilvirkari og aðgengilegri fyrir fólk. Fram kom að greinileg þörf er á aukinni sálfræðiþjónustu þar sem langir biðlistar virðast vera á flestum starfsstöðvum, en það verður til þess að börn og unglingar eru að bíða alltof lengi eftir að fá þá þjónustu sem þau þurfa. Það er því mjög mikilvægt að sá tími sem beðið er eftir viðeigandi þjónustu verði mun styttri en hann er í dag.

Allir sem tóku til máls virtust vera sammála um að taka eigi meira á vandamálum í skólum með því að efla sálfræðiþjónustu innan skólanna, í staðinn fyrir að vandamálin endi annars staðar í kerfinu. Að lokum má nefna að flestir voru sammála um að mikilvægur liður í að auka aðgengi barna og unglinga að sálfræðiþjónustu er að sálfræðingar fái samning um niðurgreiðslu þjónustugjalda hjá Sjúkratryggingum Íslands, en það hefur verið baráttumál í mörg ár.

Haustfundurinn heppnaðist mjög vel og myndaðist gagnleg og fagleg umræða um þennan mikilvæga málaflokk. Í lok fundar bauð Sálfræðingafélagið upp á léttar veitingar og hélt umræðan áfram þar á meðan fólk gæddi sér á afbragðsgóðu sushi.

Auglýsingar

2 responses to “Aðgengi barna og unglinga að sálfræðilegri meðferð – Haustfundur SÍ 2011

 1. Regína 21.11.2011 kl. 09:24

  Heyr heyr.

 2. Jón Sigurður Karlsson 27.11.2011 kl. 17:35

  Þökk fyrir góða frásögn af fundinum, vil gera eina vinsamlega athugasemd:

  „að sálfræðingar fái samning um niðurgreiðslu þjónustugjalda hjá Sjúkratryggingum Íslands, en það hefur verið baráttumál í mörg ár.“

  Staldrið aðeins við: Það hefur verið samningur í gildi í 4 ár. Við Kolbrún Baldursdóttir erum þau einu sem eru með virkan samning. Stofnanirnar hafa ekki verið neitt sérstaklega virkar í að nota samninginn til þess að stytta biðlista. Ég hef talið samninginn skref í rétta átt hingað til og enga ástæðu til að þegja hann í hel. Ég ætla mér að vera áfram í SÍ en geri eðlilegar kröfur um að það vinni líka að hagsmunum sjálfstætt starfandi.
  Jón Sigurður Karlsson