Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hvað á mindfulness að heita?

Höfundur: Sigrún Daníelsdóttir

Mig langar að kynna nýja tillögu að þýðingu á orðinu „mindfulness“. Ýmsar þýðingar hafa litið dagsins ljós eftir að meðferð sem byggist á þessum grunni festi hér rætur. Meðal þeirra eru orðin „árvekni“ og „gjörhygli“ en þó virðist sem ekki ríki allskostar sátt um þessar þýðingar. Mörgum finnst þær ekki ná almennilega utan um það ferli að taka eftir og þjálfa með sér þessa forvitnu, mjúku, hlutlausu vitund um það sem á sér stað og einkennir „mindfulness“. Ég hef sjálf átt dálítið erfitt með að tileinka mér þessar þýðingar, þótt mér hafi hingað til ekki dottið í hug neinar betri, því mér hefur fundist þessi orð setja mig í allt aðrar stellingar en mig langar að vera í þegar ég iðka „mindfulness“. Manneskja sem er árvökul er fyrir mér einhver sem er dálítið á tánum. Hún er ekki bara vakandi og fylgist með heldur er hún líka að passa upp á að allt sé örugglega með felldu. Hún er ekki jafn afslöppuð gagnvart því sem á sér stað og „mindfulness“ fræðin kenna og hún er ekki eins mikið „með“ því sem gerist og maður reynir að vera þegar maður er „mindful“.

Árvekni er líka íslenska þýðingin á orðinu „vigilance“ sem hefur allt aðra merkingu en „mindfulness“. Það vísar einmitt til þess að sýna aðgát og vera á varðbergi. Þegar talað er um „hypervigilance“ eða ofurárvekni er til dæmis ekki átt við mikla leikni í því að vera „mindful“ heldur ástand sem er hluti af vítahring áfallastreitu. Manneskja sem er ofurárvökul er stöðugt kvíðin og finnur hvergi ró sem getur leitt til örmögnunar. Mér þykir í besta falli undarlegt að nota orðið árvekni yfir „mindfulness“ þegar ofur-árvekni vísar til eins af greiningarskilmerkjum áfallastreituröskunar.

Orðið gjörhygli er ágætis tilraun til þýðingar en ég hef ekki getað sæst á það af svipaðri ástæðu. Fyrir mér vísar það í einhverja ofurathygli, túrbó ástand, risastórt auga sem tekur eftir öllu sem gerist, en það er einmitt ekki þessi mjúka en vakandi athygli sem fylgir „mindfulness“. Gjörhygli minnir mig alltaf á hið illa og sívökula auga Saurons úr Hringadróttinssögu – ekki alveg sú ímynd sem maður vill taka með sér í „mindfulness“ æfingar.

Þýðingin sem ég vil leggja til flaug mér í hug þegar ég sat á vinnustofu um „mindfulness“ á ráðstefnu í vor. Ég var að hripa niður setningu um að gera eitthvað „mindlessly“ – annars hugar – þegar þeim skilningi laust niður í huga mér að það að vera „mindful“ væri auðvitað að vera „heilshugar“. Þarna fann ég að – að minnsta kosti fyrir mitt leyti – var komið orð sem náði fyllilega yfir það sem ég var að gera þegar ég var að iðka „mindfulness“. Ég var að æfa mig í því að vera „heilshugar“, að vera algjörlega til staðar í því sem ég var að gera, hlutlaus, forvitin, tilbúin að taka við og taka eftir hverju sem var án þess að bregðast við því.

Þetta orð er notað í íslensku um eitthvað sem maður meinar, segir eða gerir af öllu hjarta: Maður styður eitthvað heilshugar eða tekur undir eitthvað heilshugar. Merkingin er bæði jákvæð og falleg. Orðið er auk þess afar hentugt þegar verið er að skýra þessa hugmyndafræði þar sem auðvelt er að draga upp muninn á því að vera „heilshugar“ og „annars hugar“ og ræða um athafnir sem hægt er að gera ýmist heilshugar eða annars hugar: Anda heilshugar, ganga heilshugar, borða heilshugar, tannbursta sig heilshugar, o.s.frv. Þá er einnig skemmtilegt hversu bókstafleg þýðingin er: „mind-ful“ og „heils-hugar“. Bæði orðin vísa annars vegar í hugann og hins vegar eitthvað sem er heilt og órofið.

Þó er einn galli á þessari þýðingu og hann er sá að „heilshugar“ er ekki nafnorð. Það þarf þó ekki endilega að vera galli og er ég þess fullviss að áralöng þjálfun heilshugar iðkenda í því að sætta sig við hlutina eins og þeir eru muni leiða þá yfir þann hjalla. Við erum oft að leitast við að nafnyrða orð sem verða ekki gerð að slíkum nema með einhverskonar afbökun og þá er betra að leyfa orðunum bara að vera í sínu eðlislæga formi. Það er ekki til nein þægileg nafnorðsmynd af því að vera heilshugar en það er allt í lagi. Það er samt hægt að tala um heilshugar hugleiðslu, heilshugar æfingar, heilshugar námskeið og heilshugar meðferð.

Auglýsingar

11 responses to “Hvað á mindfulness að heita?

 1. Regína 26.10.2011 kl. 22:23

  Skemmtilegar vangaveltur:)

 2. Elsa Bára 27.10.2011 kl. 23:07

  Þetta er ágætis tillaga.
  Ég kann betur við Árvekni en Gjörhygli af þeim tveimur en þetta er líka fín tillaga og mætti alveg skoða nánar.
  Hvaða orð sem verður fyrir valinu er kominn tími til að hafa einhverja vitræna umræðu um nafnavalið og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þegar fagfólk hefur metnað og virðingu fyrir viðfangsefnum sínum og skjólstæðingum, er í besta falli kjánalegt að við séum hvert fyrir sig að nota ,,það sem okkur finnst smartast“. Það rýrir trúverðugleika fagmennskunnar að hver og einn sé með sín hugtök og út á við getum við átt á hættu að vera álitinn sundurleitur hópur sérvitringa -sem við erum að sjálfsögðu ekki.
  Mér finnst tímabært að við höldum umræðufund um málið með akademískum rökræðum og tökum svo ákvörðun að lokum með einum eða öðrum hætti (mætti vera kosning).
  Það mætti vera panell með meðmælendum hverrar nafngiftar fyrir sig (með hættu á að vera dálítið morfís…) og jafnframt mætti bjóða fræðimanni í íslensku að vera með umsögn um tillögurnar (mér finnst það í rauninni nauðsynlegt). Að því loknu getum við valið hvaða þýðingu við sem fagstétt ætlum að notast við (hvort sem það er „okkar“ nafn eða annað sem verður fyrir valinu).

 3. Bryndís 31.10.2011 kl. 08:59

  Ég get fyllilega tekið undir vangaveltur greinarhöfundar og finnst „heilshugar“ lýsa „mindfulness“ mjög vel, sammála líka Elsu Báru um mikilvægi þess að við sem starfstétt notum (og séum sammála um) sömu hugtök á íslensku, mjög góð hugmynd að halda málþing um málið, fá íslenskufræðing líka í lið með okkur og taka endanlega ákvörðun.

 4. Guðrún B. 1.11.2011 kl. 14:08

  Skemmtileg pæling. Heilshugar finnst mér verulega í áttina (mun nær mindfulnesshugmyndinni en árvekni/gjörhygli sem eru samt góðar tilraunir), samt vantar einhverja ró/sátt að mínu mati. T.d. „Ég stend heilshugar með þér“, eða “hún gerði þetta af heilum hug“ felur í sér einhverskonar virka afstöðu sem fellur heldur ekki alveg að hugtakinu. Heitið á nýútkomnu bókinni, listaverkið þeirra Morthensbræðra o.fl., er Hugarró, sem í bili hugnast mér einna best sem þýðing. Áskil mér rétt til að skipta um skoðun við frekari umræðu!

 5. Anna Sigurbjörg Sigurðardóttir 6.11.2011 kl. 17:49

  Sæl

  Þetta er skemmtileg umræða og langar mig að útfæra hana aðeins því mér finnst vera kominn tími til að við komum okkur upp Íðorðanefnd í félaginu þar sem tekist er á við nýyrðasmíð og hugtakaþýðingar á markvissan hátt á faglegum grundvelli.
  Þó mér finnist pælingarnar um „mindfulness“ góðar og „heilshugar“ skemmtileg tillaga, þá vil ég benda á að „mind“ í mindful vísar ekki bara til hugar heldur einnig til eftirtektar (to mind something er að taka eftir e-u, veita einhverju athygli eða jafnvel að e-ð skipti máli). Orðið Árvekni nær þessum þætti betur, þó ég sé sammála Sigrúnu um gallana sem fylgja því orði.
  S.s. ég legg til að við komum okkur upp íðorðanefnd!

 6. Herdís 7.11.2011 kl. 13:16

  Heilshugar er óvitlaus þýðing. Segja má að það sé nokkuð lógískt að þýða þetta svona en sá hængur er á að þetta orð hefur þegar öðlast merkingu á okkar tungumáli, er gildishlaðið myndi ég segja, og merkir talsvert annað (ef ég skil rétt). Er upptekið ef svo má að orði komast. Að segja eitthvað af heilum hug, heilshugar, merkir fyrir mér að segja eitthvað af einlægni og heiðarleika en ekki beinlínis að veita viðfangsefninu óskipta athygli. Sá sem segir eitthvað af heilum hug talar af heilindum. Er heill í afstöðu sinni.

  Auðvitað er hægt að gefa einu og sama orðinu tvær mismunandi merkingar en það er ekki endilega af hinu góða að auka flækjustig mála að óþörfu eða leggja þá aukavinnu á hjálparþurfi einstaklinga að þurfa að kynna sér hvað orðin, sem þeir nota í daglegu tali, þýða á sálfræðimáli þegar þeir þurfa á sálfræðihjálp að halda. Af praktískum ástæðum hlýtur þýðingin heilshugar því ekki meðmæli af minni hálfu. Þetta var engu að síður óvitlaus tillaga.

  Ég er langt í frá einhver enskusérfræðingur en ég hef það á tilfinningunni að endingin –ful sé ekki endilega alltaf notuð um eitthvað sem er bókstaflega fullt af einhverju eða óskipt og í heilu lagi heldur kannski frekar þegar eitthvað er ríkt af einhverju. Ensk-íslensk orðabók tjáði mér að þessi ending gæti líka jafngilt endingunni –legur á íslensku. Skoða mætti hvort ekki sé betra að þýða beint úr upprunalega tungumálinu en í gegnum ensku. Er ekki annars verið að leita að íslensku orði yfir “sati”?

  Án þess að vera að tala eitthvað sérstaklega gegn þýðingunum árvekni og gjörhygli langar mig að segja að tilfinning mín fyrir orðinu gjörhygli er hin sama og Sigrúnar. Skilja má orðið á þann veg að gjörhygli gangi út á að veita ÖLLU í umhverfinu athygli. Missa ekki af neinu. Það kostar huglægt erfiði. Ekki er það mikil hugarró. Einnig tek ég undir þetta með að orðið árvekni feli í sér að viðkomandi sé ekki bara eftirtektarsamur heldur líka á varðbergi. Sé í ákveðinni viðbragðsstöðu eða vörn og það var ekki tilgangurinn með “mindfulness” ef ég skil rétt.

  Gott getur verið að gaumgæfa eigin líðan og atburði líðandi stundar eins og “mindfulness” leggur til að fólk geri. Kannski er gaumgæfni orð sem kæmi til greina að nota. Svo hafa menn líka oft grætt á því að vera athugagjarnir. Sting því líka upp á orðinu athugagirni. Eða e.t.v. lýsir orðið æðruleysi ágætlega því sem að er stefnt með “mindfulness”. Kannski gengur að tala um að iðka æðruleysi.

 7. Sigrún 8.11.2011 kl. 18:54

  Þetta eru fínar umræður en ég verð að segja að ég tel orðið „árvekni“ ekki síður vera upptekið, þar sem það vísar í annars konar athygli en þá sem við æfum með „mindfulness“. Og orðið „æðruleysi“ þýðir óttaleysi, sem er heldur ekki það sama.

 8. Ágústa I. 25.11.2011 kl. 21:46

  Góðar pælingar. Ég hef einmitt líka átt í pínu vandræðum með árvekni og gjörhygli þar sem mér finnst þau ekki alveg ná því sem mindfulness gerir. Ég heyrði orðið Núvitund um daginn og mér fannst það virka betur á vissan hátt fyrir mig en bæði árvekni og gjörhygli.

 9. Kolbrún Ýrr 3.12.2011 kl. 14:19

  Frænka mín, Ragnhildur Guðmundsdóttir doktorsnemi var að skrifa um mindfulness og þýddi það sem „hugvitund“ minnir mig… en nú er ég ekki alveg 100% viss en það var eitthvað á þessa leið. Allavega ekki árvekni eða gjörhygli sem mér finnst frekar óþjált.

 10. Margrét Bárðardóttir 2.1.2012 kl. 11:24

  Ég tek heilshugar undir þessar áhugaverðu pælingar og sérstaklega þörfina á að sameinast um eitt hugtak . Ég lagði til hugtakið árvekni hér í upphafi þegar við byrjuðum að stunda þetta sem hluta af sálfræðilegri meðferð. Eins lagði ég til hugtakið gjörhygli, það kom til af því að ég spurði vin minn sem þýtt hefur mikið úr ensku og stakk hann upp á því. Það verður þó að segjast eins og er að ég hef aldrei verið almennilega sátt við hvorugt hugtakið. Ég hef kannað málið í öðrum tungumálum og vandinn er ekki bara hjá okkur. Daninn notar t.d. bara mindfulness, finnur ekki rétta hugtakið. Svíinn talar um medveten narvara (veit ekki hvort þetta er rétt skrifað) og þjóðverjar nota hugtakið Achtsamkeit. Árvekni er bein þýðing á því hugtaki. Njörður P. Njarðvík skrifaði einhvern tímann grein um „hljómburð hugans“ varðandi þýðingar að mig minnir, að hugtakið yrði að hljóma fallega í þýðingunni
  sem hvorki árvekni né þaðan af síður gjörhygli gera. Hugtakið mindfulness hljómar hins vegar fallega. Heilshugar er fín pæling en vantar ekki athygliþáttinn í það hutak? Upprunalega orðið er sati eins og Herdís bendir á sem merkir jú líka að veita athygli og muna.

 11. Guðrún Bjarnadóttir 9.3.2012 kl. 11:56

  Styð tillögu Ágústu I: NÚVITUND. Finnst það ná hugtakinu best og hljómar vel. Gagnrök???