Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

EABCT ráðstefna á Íslandi 2011

Höfundur: Regína Ólafsdóttir

Dagana 31. ágúst til 3. september fór fram 41. ráðstefna EABCT (The European Association for Behavioural and Cognitive Therapies) í nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Undirbúningur ráðstefnunnar hafði staðið yfir í fimm ár enda að mörgu að huga þegar um er að ræða ráðstefnu af þessari stærðargráðu. Þrettán aðalfyrirlesarar fluttu erindi, 142 málstofur fóru fram og 200 veggspjöld voru til sýnis. Auk þess voru í boði 32 vinnustofur fyrir ráðstefnu og á meðan á henni stóð. Ráðstefnan var hin glæsilegasta í alla staði og voru gestir um 1300 talsins frá 43 löndum.

Á lokadegi ráðstefnunnar var rætt við nokkra ráðstefnugesti og spurt um hvað þeim fannst standa upp úr.

Þetta var fyrsta EABCT ráðstefna Örnólfs Thorlacius. Örnólfur sótti vinnustofu hjá Philip C. Kendall um meðferð við kvíða barna. Jafnframt sótti hann vinnustofu hjá Paul Salkovskis um hugræna atferlismeðferð við heilsukvíða. Hann sagði þessar tvær vinnustofur standa upp úr þar sem þær voru afar hagnýtar. Hvað málstofur varðar þótti honum sístar þær sem fjölluðu um niðurstöður RCT rannsókna en áhugaverðastar þær sem tengdust starfi hans. Þeir fyrirlestrar sem vöktu mesta athygli voru í fyrsta lagi á málstofu 53 um rannsókn Finnanna Lappalainen  og Holma,  Applying Clinical Case-Formulation Models for Understanding Violent Acts in Relationsships. Þar var fjallað um klínísk mál og skilgreiningar á vandamálum. Í örðu lagi fyrirlestur Lorie Ritschel á málstofu 30 um atferlisvirkjun unglinga sem glíma við þunglyndi.

Hin finnska Virpi Ylijukuri hafði sótt vinnustofuna „Imagery Rescripting“ hjá Arnoud Arntz um morguninn. Virpi sagði vinnustofu Arntz hiklaust standa upp úr á ráðstefnunni þar sem Arntz fjallaði um aðferðir sem hún nýtir mikið sjálf auk þess að hann kynnti rannsóknarniðurstöður sem sýndu fram á gagnsemi aðferðanna. Aðspurð um hvort eitthvað hefði komið á óvart nefndi hún hve frábært land Ísland væri en þetta var hennar fyrsta heimsókn til landsins.

Oddi Erlingsson nefndi einnig vinnustofu Arntz þegar hann var spurður um hvað hefði vakið mestan áhuga. Hann sagði áhugavert hvernig hægt væri að endurmeta vanda með þeim hætti sem Arntz kynnti. Hann sagði að það kæmi á óvart á ráðstefnunni í heild sinni að reynsluboltar í sálfræði til dæmis David M. Clark, Paul Salkovskis og Lars Göran-Öst væru enn að segja nokkurn veginn það sama og fyrir 20 árum nema hvað að það ætti enn erindi við sálfræðinga því aðferðirnar virka enn.

Elfa Björt Hreinsdóttir var einnig heilluð af vinnustofu Arntz og sagði hann hafa kynnt tækni sem getur virkað mjög vel sem meðferðarform og sem aðferð í annarri meðferð sem verið er að beita. Aðspurð um hvað hafi komið á óvart á ráðstefnunni svaraði hún hve flott ráðstefnan væri og vel skipulögð.

Angela Rowe stýrði málstofu 26 um tengslakenninguna og hugræna atferlismeðferð (Integrating Attachment Theory and CBT: On Clarifying the Attachment Conceptualization and Understanding the Impact of Attachment on CBT Outcome). Það kom henni á óvart hve mikið var rætt um reynslu í barnæsku á ráðstefnunni án þess að minnst væri á tengslakenninguna. En eftir að hafa hlustað á Paul Gilbert bjóst hún við að þetta breyttist í þá átt að ljóst væri að þetta tvennt ætti saman. Aðspurð um hvað hefði komið á óvart nefndi hún landslagið á Íslandi og það að hafa fengið tvo sólskinsdaga á meðan á dvölinni stóð.

Abigail Millings starfar hjá fyrirtækinu Ultrasis í London og var með fyrirlestur á málstofu 26 um tengslakenninguna og hugræna atferlismeðferð. Fyrirlestur hennar bar heitið „An Attachment Perspective on Computerised CBT in Primary Care“. Henni fannst fyrirlestur Paul Gilberts áhugverðastur þar sem umfjöllunarefnið tengdist rannsóknaráhuga hennar.

Viðmælendur voru almennt afar ánægðir með ráðstefnuna og óhætt að segja að það sé lúxus fyrir íslenskt áhugafólk um sálfræði að fá tækifæri á að sækja slíka ráðstefnu í eigin landi.

Auglýsingar

2 responses to “EABCT ráðstefna á Íslandi 2011

  1. Fjóla Dögg Helgadóttir 9.9.2011 kl. 07:10

    Virkilega skemmtileg umfjöllun Regína! Vel gert!

  2. Vefrit SÍ 9.9.2011 kl. 14:10

    Takk Fjóla:)