Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Okkar auður – Hugræn atferlismeðferð

Höfundur: Inga Hrefna Jónsdóttir

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er sálfræðimeðferð sem hvílir á traustum grunni rannsókna. Eins og kemur fram á heimasíðu Félags um hugræna atferlismeðferð (FHAM) www.ham.is þá er áhersla lögð á að leysa núverandi vanda með markvissum vinnubrögðum. Hugræn atferlismeðferð nær til margvíslegra vandamála og sjálfstyrkingar. Markmiðin geta beinst að ýmsum þáttum s.s. TILFINNINGUM t.d. að draga úr kvíða, reiði eða þunglyndi; HUGSUNARHÆTTI t.d. að læra betri leiðir til að leysa vanda eða losa sig við niðurdrepandi hugsanir sem leiða til vanlíðanar; VENJUM t.d. að breyta matar- eða áfengisvenjum eða verða félagslega virkari; SAMSKIPTUM t.d. að draga úr samskiptavanda fólks; LÍKAMLEGUM eða læknisfræðilegum vandamálum t.d. að takast á við bak- eða höfuðverk eða hjálpa fólki til að fara að læknisráðum.

Langvarandi veikindi s.s. hjarta- og lungnasjúkdómar, taugasjúkdómar, sykursýki og krabbamein valda oft andlegri vanlíðan og hefur HAM nálgun verið gagnleg fyrir fólk í þeim sporum. Langvarandi atvinnuleysi getur einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir geðheilsu fólks og er hægt að nýta margt úr HAM til að hjálpa fólki að halda virkni, vera lausnamiðað og forðast niðurrífandi hugsanir. Hugræn atferlismeðferð getur bæði verið sniðin að ákveðnum geðröskunum s.s. fælni eða þunglyndi og þá eru mismunandi áherslur í meðferðinni eftir því t.d. hvort verið er að glíma við félagsfælni eða langvinnt þunglyndi. HAM er líka notuð til uppbyggingar og sjálfseflingar fyrir einstaklinginn eða til að vinna með samskiptavanda í fjölskyldu eða á vinnustað. Atferlismeðferð er einnig mikið notuð í uppeldisnámskeiðum og atferlismótun vegna erfiðrar hegðunar er ríkjandi í sálfræðilegum inngripum hjá börnum með þroskaraskanir hvers konar. HAM hefur gefist vel við athyglisbresti og ofvirkni (ADHD) bæði hjá börnum og fullorðnum.

HAM á Íslandi

Félag um hugræna atferlismeðferð var stofnað 1987 með það að markmiði að auka aðgengi að íslensku efni um HAM, styrkja tengsl milli áhugamanna og efla til funda og námskeiða. Félagið hefur dafnað vel og samanstendur í dag af 248 félagsmönnum úr mörgum faghópum þó sálfræðingar séu ennþá lang fjölmennastir.

Eins og fram kemur í grein á heimasíðu félagsins www.ham.is eftir Frank M. Dattilio og Eirík Örn Arnarsson sem nefnist: Útbreiðsla og mikilvægi hugrænnar atferlismeðferðar á sviði sálrænnar meðferðar þá hefur náðst góður árangur með HAM sem er orðið viðurkennt og vel rannsakað meðferðarform en í greininni stendur m.a.: „Stjórnvöld og heilbrigðistryggingakerfið gera kröfu um inngrip sem eru hnitmiðuð, skilvirk, byggð á lausnum og vísindalega sannreynd. Þegar fólk í nútímaþjóðfélagi hefur meðferð og leggur til þess tíma, peninga og tilfinningalega orku, þá vill það vita hvort ásættanlegar líkur séu á bata innan ásættanlegra tímamarka. Síðan fyrstu tilraunir voru gerðar með sálfræðilegar meðferðir þá hefur HAM sýnt það betur en nokkur önnur meðferðarúrræði að hún getur brugðist við og tekið á sumum af erfiðustu kröfum samfélagsins á vísindalega sannreyndan hátt. Hún hefur verið árangursrík við að draga úr einkennum og minnka bakslagstíðni ýmissa geðraskana, á tiltölulega skömmum tíma, með eða án lyfjagjafar (Beck, 2005).“ Í greininni kemur einnig fram að FHAM hefur staðið fyrir námskeiðum og fyrirlestrum með þekktum erlendum fræðimönnum hér á landi s.s.  David Clark, Paul Salkovskis, Gunnar Götestam, Lars Göran-Öst, Ed Craighead, Linda Craighead, Arthur Freeman, Tom Ollendick, Philip Kendall, Ann Hackman og Gillian Butler.  Árið 1992 hélt FHAM norrænt þing um hugræna atferlismeðferð með 150 þátttakendum. Innlendir sérfræðingar í HAM hafa einnig í auknu mæli verið með vinnustofur, fræðslufyrirlestra og námskeið á vegum félagsins.

Nám í hugrænni atferlismeðferð

FHAM hefur fjórum sinnum staðið fyrir 2ja ára sérnámi í HAM frá árinu 1998 og frá árinu 2006  hefur námið verið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) og Oxford Cognitive Therapy Centre (OCTC).

Úr tveggja ára sérnámi fyrir sálfræðinga og geðlækna hafa útskrifast 79 HAM sérfræðingar. Auk þess hefur félagið útskrifað 12 handleiðara með viðbótarmenntun í HAM handleiðslu.

Frá 2006 hefur tvisvar sinnum verið boðið upp á eins árs þverfaglegt hagnýtt grunnnám í HAM sem er ætlað ýmsum háskólamenntuðum fagstéttum sem nýtt geta aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar í sínu starfi, s.s. læknum, hjúkrunarfræðingum, iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, félagsráðgjöfum, kennurum, þroskaþjálfum og náms- og starfsráðgjöfum. Um 50 einstaklingar hafa útskrifast úr því námi. Þar að auki hafa 15 kennarar og náms- og starfsráðgjafar útskrifast úr eins árs HAM námi sérsniðnu fyrir þann hóp og 10. febrúar s.l., á afmælisdegi Auðar Róbertu Gunnarsdóttur, fyrrverandi formanns félagsins, útskrifuðust 16 félagsráðgjafar og náms- og starfsráðgjafar úr sérsniðnu eins árs HAM námi sem þróað var í samstarfi við Vinnumálastofnun. Samtals hafa því 81 útskrifast úr eins árs þverfaglegu HAM námi á vegum FHAM í samstarfi við Oxford Cognitive Therapy Centre, Endurmenntun HÍ, Menntasvið HÍ og Vinnumálastofnun.

Auður R. Gunnarsdóttir sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði var formaður FHAM til margra ára og var í hópi þeirra frumkvöðla sem ýttu HAM-náminu úr höfn hér á landi. Hún lést í fyrra úr krabbameini aðeins 53 ára gömul. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að starfa með henni í rúman áratug að sameiginlegum hugðarefnum innan sálfræðinnar. Við vorum í fyrsta árganginum sem fór í gegnum framhaldsnám í hugrænni atferlismeðferð hér á landi. Námið sem hefur þróast og dafnað síðan hefur skartað HAM sérfræðingum á heimsmælikvarða og átti Auður mjög stóran þátt í að koma á þeim tengslum. Auður var mjög frjó og skapandi í hugsun, sá endalausa möguleika og náði að virkja fólk með sér. Hún var mikill eldhugi og kom hlutum í verk sem aðrir létu sig aðeins dreyma um. HAM Evrópuráðstefnan í Reykjavík 2011 er aðeins eitt dæmi um það. Þrátt fyrir alvarleg veikindi hélt hún ótrauð áfram og sinnti kennslu og umsjón með náminu ásamt öðrum hlutverkum á vegum félagsins þar til yfir lauk. Það er mikill missir að Auði og störf hennar í þágu hugrænnar atferlismeðferðar eru ómetanleg.

Í fagráði námsins í dag eru frá FHAM:  Álfheiður Steinþórsdóttir sérfræðingur í klínískri sálfræði, hjá Sálfræðistöðinni. Eiríkur Örn Arnarson doktor og sérfræðingur í klínískri sálfræði og prófessor við læknadeild heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Sálfræðiþjónustu LSH, geðsviði. Ingunn Hansdóttir doktor í klíniskri sálfræði og lektor í klínískri sálfræði við Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Inga Hrefna Jónsdóttir sérfræðingur í klínískri sálfræði, forstöðusálfræðingur á Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS og yfirsálfræðingur geðsviðs Reykjalundar. Urður Njarðvík doktor og sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og lektor við Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Erla Sigríður Grétarsdóttir doktor í klínískri sálfræði, sálfræðingur á eigin stofu og Sálfræðiþjónustu LSH, geðsviði, er í stjórn FHAM. Í fagráðinu eru einnig frá EHÍ: Erna Guðrún Agnarsdóttir námsstjóri, Endurmenntun Háskóla Íslands og Guðrún Alda Elísdóttir verkefnastjóri, Endurmenntun Háskóla Íslands. Frá Oxford er David Westbrook forstöðumaður OCTC tengiliður við námið.

Brottfall úr náminu hefur alltaf verið eitthvað en yfirleitt er það vegna persónulegra ástæðna eða tímaskorts þar sem erfitt getur reynst að bæta náminu við önnur krefjandi verkefni eða ábyrgðarstöður. Fagráðið hefur stöðugt leitast við að endurbæta námið með hliðsjón af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á hverjum tíma, nýrri þekkingu og nýjungum innan HAM. Auk þess hefur verið unnið að því að tengja námið við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands með formlegum hætti og lofa viðræðurnar góðu.

Ummæli frá nemendum

Úr útskriftarræðu nemanda sem útskrifaðist  úr tveggja ára náminu 2010:

„Á hinu litla Íslandi getur það ekki talist sjálfsagt að komast í nám þar sem kennarar eru vel þekktir og jafnvel heimsþekktir á vettvangi hugrænnar atferlismeðferðar. Að fá tækifæri í svo litlum hópi sem þessum að vera á námskeiðum hjá þessu færa fólki hefur aukið fagmennsku bæði í greiningu vandamála svo og í meðferð og ef segja má þá finnst mér ég oft á tíðum hafa fengið viskuna beint í æð.  Það er óhætt að segja að öryggi mitt í að beita hugrænni atferlismeðferð hafi aukist á þessum tíma og tel ég það vera náminu að þakka, erlendum og íslenskum kennurum á vinnustofum en ekki síður tryggri handleiðslu íslenskra sálfræðinga sem er ómetanleg.“

„En námið er ekki eingöngu að skila sér í faglegri vinnubrögðum heldur hefur áhugi einnig verið kveiktur hjá mörgum að meiri fræðimennsku og að láta til sín taka í fræðasamfélaginu. Ég hef orðið meðvitaðri og jafnvel áhugasamari um að setja áhugaverðar meðferðir upp með því markmiði að hægt væri að nota í fræðigrein.

„Það er erfitt að taka út og nefna einstaka vinnustofur en mér fannst vinnustofur með þeim kennurum sem eru höfundar af bókunum og/eða hugmyndasmiðir að þeim kenningum sem við höfum verið að lesa hafa haft mikil áhrif á mig svo sem Westbrook vinnustofurnar, vinnustofur Melanie Fennell og Frank Datillio. Einnig má nefna marga frábæra klínikera svo sem Martinu Mueller, Lorie Richel og Craighead hjónin.“

„Áður en ég lýk þessu vil ég fá að minnast Auðar en hún var tengiliður okkar við námið alveg þar til hún lést. Hún var hvetjandi og drífandi og okkur öllum góð fyrirmynd. Baráttuhugurinn og lífsgleðin skein ávallt af henni og er mikill missir af henni.“

„Ég vil fá að þakka fyrir mig og okkur nemendur sem útskrifumst hér í dag. Það er frábært að hafa fengið tækifæri til að sækja nám í hugrænni atferlismeðferð hér á Íslandi sem er í þessum gæðaflokki.“

Ágústa Ingibjörg Arnardóttir, sálfræðingur á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss og á eigin sálfræðistofu

 

Frá nemanda sem útskrifaðist  úr eins árs náminu 2007:

„Á Reykjalundi  hefur verið stunduð hugræn atferlismeðferð (HAM) í 14 ár og hefur sú meðferð skilað góðum árangri. Árið 2006-2007 sótti ég Diplomanám í Endurmenntun Háskóla Íslands og var það nám vel  skipulagt og mikil tilhlökkun að fara á alla fyrirlestrana íslenska sem erlenda, sem voru algjört eyrnakonfekt. Núna í haust fer annað nám af stað og einnig sé ég að það eru þó nokkrir fyrirlesarar sem við fengum í náminu eru á Evrópuráðstefnu HAM (EABCT), sem haldin verður í Hörpunni dagana 31. ágúst til 3. september 2011. Dæmi um fyrirlesara sem við fengum í náminu sem ég fór í voru m.a. Melanie Fennell, sem fjallaði um Cognitive Therapy for Low Self-esteem, Paul Gilbert  með An Introduction to Compassion Focused Therapy og fleiri. Ég mæli eindregið með HAM náminu sem nýtist mér mjög vel í vinnu minni við hjúkrun á geðsviði og hefur nýst mér vel á öðrum sviðum á Reykjalundi.  Ég er búin að skrá mig á nokkra fyrirlestra á ráðstefnunni í haust sem mér fannst áhugaverðir og er af nógu að taka.“

Vera Siemsen, hjúkrunarfræðingur á geðsviði Reykjalundar

Nám í hugrænni atferlismeðferð fer aftur af stað í haust (2011) í samstarfi við EHÍ og OCTC. Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur verður umsjónarmaður námsins. Upplýsingar um námsbrautirnar má finna á vefslóð EHÍ www.ehi.is og FHAM www.ham.is.

Evrópsk ráðstefna á Íslandi 2011

Evrópuráðstefna um hugræna atferlismeðferð er haldin í Reykjavík í lok ágúst þar sem fjöldi þekktra sérfræðinga heldur erindi og vinnustofur. Félag um hugræna atferlismeðferð hefur staðið að undirbúningi í nokkur ár.

Auður R. Gunnarsdóttir var formaður félagsins þegar Ísland var samþykkt sem ráðstefnuland og var forseti ráðstefnunnar og driffjöðurin í undirbúningsnefndinni þar til hún lést í maí á síðasta ári. Jakob Smári var einn af lykilmönnum í vísindanefnd ráðstefnunnar allt þar til hann lést í júlí á síðsta ári. Auður og Jakob Smári voru bæði í fagráði HAM námsins frá upphafi og í undirbúningsnefnd EABCT ráðstefnunnar. Við fráfall þeirra kom stórt skarð í starfsemi á vegum Félags um hugræna atferlismeðferð og misstum við þar frumkvöðla og mjög kæra félaga. Minning þeirra er heiðruð sérstaklega á ráðstefnunni.

Í skipulags- og vísindanefnd ráðstefnunnar eru Eiríkur Örn Arnarson, Inga Hrefna Jónsdóttir, Sóley Dröfn Davíðsdóttir, Ingunn Hansdóttir, Ragnar P. Ólafsson og Urður Njarðvík. Að fjáröflunar- og kynningarmálum og fl. hafa auk þess komið Helena Jónsdóttir, Álfheiður Steinþórsdóttir, Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir, Guðrún Oddsdóttir, Elsa Bára Traustadóttir, Sjöfn Evertsdóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Erla Grétarsdóttir, Eggert S. Birgisson, Oddi Erlingsson, Margrét Arnljótsdóttir og Margrét Bárðardóttir. Jón S. Karlsson hefur veitt fjármálaráðgjöf. Auk þess hafa fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar komið að undirbúningnum og má þar sérstaklega nefna Philip Tata og Rod Holland sem hafa veitt ómetanlega ráðgjöf varðandi ráðstefnuhald. Sjá nánar á veraldarvefnum: http://www.congress.is/eabct/committees_of_the_congress.aspx

Þema ráðstefnunnar er forvarnir. Vísindaprógrammið er fjölbreytt og áhugavert og fyrirlesarar margir með þeim fremstu í heiminum í dag á sínu sviði. David Clark frá Bretlandi og Torkil Berge frá Noregi fjalla báðir um aukið aðgengi almennings að sálfræðimeðferð.

Upplýsingar um ráðstefnuna má finna á www.congress.is/eabct.

Aðgengi almennings að sálfræðimeðferð

Á Íslandi er aðgengi almennings að sálfræðimeðferð fremur takmarkað þar sem heilbrigðisyfirvöld hafa ekki ennþá séð sér fært að niðurgreiða meðferð hjá sálfræðingum. Þjónusta geðlækna er aftur á móti niðurgreidd, hvort sem um er að ræða lyfjameðferð eða samtalsmeðferð. Sálfræðingar starfa á ýmsum stofnunum s.s. LSH, FSA, Reykjalundi, Vogi, á nokkrum heilsugæslustöðvum, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þjónustumiðstöðvum sveitafélaga. Einnig starfa sálfræðingar við eigin sálfræðistofur og hefur almenningur beinan aðgang að sálfræðiþjónustu bæði hjá sérfræðingum og öðrum sjálfstætt starfandi sálfræðingum en greiðir þjónustuna fullu verði og takmarkar það mjög aðgang þeirra efnaminni. Stéttarfélög, VIRK og félagsþjónusta sveitarfélaganna taka stundum þátt í kostnaði við sálfræðiþjónustu að einhverju marki.

Aukið aðgengi að sálfræðimeðferð

Stjórnmálamenn erlendis eru farnir að átta sig á því að það er þjóðhagslega hagkvæmt að auka aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð og tóku Bretar við sér eftir skýrslu hagfræðingsins Lord Richard Layard sem hann samdi ásamt sálfræðingnum David Clark og fleirum. Þar kom meðal annars fram að aðeins lítill hluti þeirra sem þjást af þunglyndi og kvíða fá viðeigandi meðferð.

Þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld þar í landi (NICE) mæli með gagnreyndri sálfræðimeðferð eins og hugrænni atferlismeðferð (HAM) var staðan sú að ekki voru nógu margir meðferðaraðilar innan heilbrigðiskerfisins til að mæta þessum þörfum. Niðurstaða þeirra var sú að það myndi vel svara kostnaði að auka aðgengi fólks að sálfræðimeðferð. Kostnaður við að þjálfa upp fleiri meðferðaraðila myndi skila sér á tveimur til fimm árum, því minni kostnaður færi í örorkubætur og auknar tekjur kæmu líka til með sköttum fólks sem annars yrði óvinnufært.

Þeir lögðu því til að þjálfaðir yrðu upp í Englandi 8.000 meðferðaraðilar til viðbótar á næstu sex árum en það samsvarar um 50 meðferðaraðilum hérlendis á sex árum eða rúmlega átta meðferðaraðilum á ári. Nánari lýsingu er að finna á vefsíðu verkefnisins http://www.iapt.nhs.uk/about-iapt/.

Norðmenn eru meðal þeirra sem eru nú að feta í fótspor Breta og hafa veitt fjármagni í að þjálfa upp fleiri HAM meðferðaraðila. Torkil Berge formaður norska HAM félagsins kom hingað til lands í fyrrasumar og var með opinn fyrirlestur þar sem hann kynnti þær leiðir sem Norðmenn hafa valið að fara.

Staðan á Íslandi

Félag um hugræna atferlismeðferð (FHAM) hefur verið leiðandi afl í formlegri kennslu, þjálfun og handleiðslu HAM. Á síðastliðnum tíu árum hafa samtals um 160 manns útskrifast úr HAM-námi hérlendis á vegum félagsins eða 16 á ári að meðaltali. Íslendingar eru því framarlega í því að mennta og þjálfa upp meðferðaraðila í HAM sem er forsenda þess að hægt sé að auka aðgengi á Íslandi að gagnreyndum sálfræðimeðferðum

Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss hafa verið í fararbroddi hér á landi í rannsóknum á árangri hugrænnar atferlismeðferðar og fleiri þáttum sem tengjast HAM.

HAM er í dag meðal annars veitt á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, sumum heilsugæslustöðvum, Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS, Kvíðameðferðarstöðinni og hjá öðrum sálfræðingum og geðlæknum á stofu. Meðferðin hefur verið þróuð og aðlöguð að íslenskum aðstæðum og viðkomandi skjólstæðingahópum á þessum stöðum og leitast hefur verið við að gera vísindalegar rannsóknir á árangrinum.

Sjálfshjálpar- og meðferðarhandbækur á íslensku hafa verið gefnar út eftir að hafa verið þýddar eða þróaðar hérlendis og reyndar í meðferð og eru upplýsingar um sumar þeirra á heimasíðu FHAM www.ham.is. Mörg lokaverkefni í HAM náminu hafa snúist um að þýða eða útbúa aðgengilegt HAM efni á íslensku og má til dæmis nefna þýðingu bókarinnar Bætt hugsun – Betri líðan: Handbók í hugrænni atferlismeðferð fyrir börn og unglinga sem notið hefur mikilla vinsælda. Einnig hafa nokkur uppeldisnámskeið byggð á HAM fest sig í sessi hér á landi s.s. SOS! Hjálp fyrir foreldra, Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar, PMT – foreldrafærni og fl. Þrjár bækur hafa verið þýddar úr bókaröðinni Hvað get ég gert…bækur fyrir börn sem byggir á hugrænni og lausnamiðaðri meðferð http://www.hvadgeteggert.is/index.html.

Sálfræðingar geðsviðs LSH hafa þróað meðferðarform og samið meðferðarhandbækur sem nýttar eru í HAM meðferð á LSH og á heilsugæslustöðvum undir þeirra umsjón. Sérfræðingar í klínískri sálfræði hafa skrifað bækur sem nýtast fólki sem er að glíma við margvíslegan sálfræðilegan vanda og byggja margar þeirra á hugrænni atferlismeðferð að einhverju leyti s.s. Stattu með þér, Leggðu rækt við sjálfan þig, Leggðu rækt við ástina, Barnasálfræðin, Sálfræði einkalífsins og Í blóma lífsins. Kvíðameðferðarstöðin er með aðgengilegt fræðsluefni á sinni heimasíðu www.kms.is  og selur bókina Öryggi í samskiptum: Meðferðarhandbók við félagsfælni svo eitthvað sé nefnt. Geðsvið Reykjalundar gaf út endurskoðaða útgáfu af HAM HANDBÓK UM HUGRÆNA ATFERLISMEÐFERÐ í lok síðasta árs. Bókin er hugsuð sem sjálfhjálparbók ekki síður en meðferðarhandbók og var vefsíða bókarinnar www.ham.reykjalundur.is opnuð á veraldarvefnum 7. apríl s.l. í tengslum við Sálfræðiþingið.

Töluverð umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um efni sem tengjast hugrænni atferlismeðferð.

Anna Valdimarsdóttir, sálfræðingur og nýr umsjónarmaður HAM námsins var í viðtali í Fréttatímanum http://www.frettatiminn.is/tolublod/29_april_2011

Sálfræðingarnir Inga Hrefna Jónsdóttir og Sóley Dröfn Davíðsdóttir formaður FHAM fengu birta grein í Fréttablaðinu í maí http://www.visir.is/article/2011705269877

Brynjar Emilsson, sálfræðingur á LSH kom með innlegg í Fréttablaðinu um árangur HAM við ADHD. http://epaper.visir.is/media/201106080000/pdf_online/1_10.pdf

Einnig hefur verið fjallað um HAM við svefnleysi bæði Kvíðameðferðastöðin http://epaper.visir.is/media/201104260000/pdf_online/2_2.pdf  og Heilsustöðin http://epaper.visir.is/media/201105070000/pdf_online/1_32.pdf

Valgerður Baldursdóttir geðlæknir og Inga Hrefna Jónsdóttir sálfræðingur fengu birta grein í Fréttablaðinu um HAM-bók Reykjalundar í maí s.l. http://www.visir.is/article/2011705129941  og bókin fékk kynningu hjá finnur.is 14. apríl s.l.  http://mbl.is/bladid-pdf/2011-04​-14/F2011-04-14.pdf og 5. maí voru Valgerður og Inga Hrefna í Morgunútvarpi Rásar 2.

Þessi upptalning er alls ekki tæmandi heldur gefur aðeins dæmi um efni og umfjöllun tengda hugrænni atferlismeðferð síðast liðna mánuði.

Sálfræðingafélag Íslands hefur opnað umræðu um aukið aðgengi að gagnreyndri sálfræðimeðferð hér á landi og boðið stjórnmálamönnum og fulltrúum frá velferðarráðuneytinu til þeirrar umræðu. Sálfræðingar eru almennt sammála um mikilvægi málsins en skiptar skoðanir eru um hvaða leiðir eru heppilegastar.

Það er von okkar sálfræðinga að nú á tímum vaxandi sálfélagslegra erfiðleika almennings muni stjórnvöld á Íslandi jafnframt átta sig á að til er vísindalega gagnreynd sálfræðimeðferð sem hagkvæmt er að auka aðgengi almennings að.

Heimildir og lesefni

Heimasíða Félags um hugræna atferlismeðferð www.ham.is

Útbreiðsla og mikilvægi hugrænnar atferlismeðferðar á sviði sálrænnar meðferðar

Frank M. Dattilio og Eiríkur Örn Arnarson

http://www.ham.is/images/stories/tbreisla_og_mikilvgi_HAM.pdf

Heimasíða National Institute for Health and Clinical Excellence  http://www.nice.org.uk/ Klínískar leiðbeiningar fyrir þunglyndi fullorðinna: Clinical guidelines CG90  http://guidance.nice.org.uk/CG90.

Heimasíða Improving Access to Psychological Therapies (IAPT) http://www.iapt.nhs.uk/about-iapt/

Heimasíða Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um SOS uppeldisnámskeið http://www.fel.hi.is/sos_uppeldisnamskeid

Heimasíða Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar um ýmis sérsniðin námskeið sem miða að því að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu s.s. Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar, Námskeið um uppeldi barna með ADHD, Námskeið í PMT foreldrafærni, Snillingarnir  –  námskeið fyrir börn sem greinst hafa með ADHD http://www.heilsugaeslan.is/pages/2134

Bætt hugsun – Betri líðan: Handbók í hugrænni atferlismeðferð fyrir börn og unglinga http://skrudda.is/baekur.aspx?id=117

Hvað get ég gert…bækur fyrir börn http://www.hvadgeteggert.is/index.html

Bók eftir Gunnar Hrafn Birgisson Stattu með þér

https://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-34966/

Bækur Álfheiðar Steinþórsdóttur og Guðfinnu Eydal Barnasálfræðin, Sálfræði einkalífsins og Í blóma lífsins http://www.salfraedistodin.is/baekurOGgr.htm

Bækur Önnu Valdimarsdóttur Leggðu rækt við sjálfan þig og Leggðu rækt við ástina http://www.forlagid.is/?p=4082

Öryggi í samskiptum: Meðferðarhandbók við félagsfælni www.kms.is

HAM: Handbók um hugræna atferlismeðferð www.ham.reykjalundur.is Vísindarannsóknir sálfræðinga geðsviðs LSH sjá bls. 27-29 í Vísindastarf 2010 Landspítali http://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=28990

Vísindarannsóknir í Sálfræðideild Heilbrigðissviðs Háskóla Íslands http://www.hi.is/heilbrigdisvisindasvid_deildir/salfraedideild/rannsoknir/rannsoknir

Ráðstefnurit Sálfræðiritsins, Sálfræðiþing, 2009 http://sal.is/Riti%F0/Radstrit2009.pdf

og 2010 http://sal.is/Riti%F0/Radstefnurit2010.pdf

Auglýsingar

Comments are closed.