Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Áhrif skilnaðar og forsjárdeilu á börn

Höfundur: Kolbrún Baldursdóttir

Það er ekki sjálfgefið að skilnaðir hafi neikvæð áhrif á börn/unglinga. Takist foreldrum að fara í gegnum skilnaðarferlið með friðsömum hætti eru börnin oft fljót að aðlagast breyttum aðstæðum og sætta sig við að foreldrar þeirra búi ekki lengur saman.

Í sumum tilfellum er skilnaðurinn kærkominn börnunum, jafnvel bjargvættur, endir á langvarandi erfiðleikum á heimilinu.

Sama hversu friðsamt skilnaðarferlið er þá munu alltaf verða einhverjar breytingar, neikvæðar og/eða jákvæðar nema hvort tveggja sé. Það sem reikna má með að taki breytingum er að börnin sjá minna af öðru foreldrinu eftir skilnaðinn nema í þeim tilvikum þar sem ákveðið er að umgengni skuli hnífjöfn.

Gera má ráð fyrir að ferlið, aðdragandi og/eða eftirmálar snerti börnin alltaf eitthvað. Sum börn dragast eða eru dregin beint eða óbeint inn í vandamál foreldranna/ástæður ósættis eða sjálft skilnaðarferlið.

Samvera í uppnámi

Skilnaðarferlið krefst þreks og tekur tíma. Af því leiðir að foreldrar gefa sér oft minni tíma til að sinna börnum sínum bæði í aðdraganda skilnaðarins og jafnvel í talsverðan tíma eftir að hann er um garð genginn. Á meðan á þessu ferli stendur er því hætta á að tengsl foreldra og barna komist í uppnám, tjáskipti minnki, samvera verði stopulli og samfella í samskiptum tapist. Verði þetta raunin geta foreldri og börnin átt erfitt með að ná saman aftur. Andrúmsloftið breytist, samskipti verða jafnvel vandræðaleg, stirð og foreldri og barni finnst þau ókunnug hvort öðru.

Börn sem komin eru á legg hafa iðulega náð nægjanlegum þroska til að gera sér grein fyrir að lífið eftir skilnað foreldranna verður aldrei alveg eins og það var og að framundan eru breyttir tímar. Þau skilja e.t.v. ástæður skilnaðarins en samþykkja kannski ekki. Ástæður skilnaðarins eru þó alls ekki  alltaf ljósar fyrir börnunum. Mörg kunna að velta því fyrir sér hvort þau séu ábyrg. Þau hugsa e.t.v.:
Ef ég hefði verið meira heima?
Verið betra barn?
Ef ég hefði getað séð þetta fyrir?
Vera skilningsríkari?
Hjálpa meira heima?
ÞÁ VÆRU ÞAU KANNSKI EKKI AÐ SKILJA!

Þau sem komin eru á unglingsárin og er gert að búa til jafns hjá báðum foreldrum óttast að vinatengsl breytist, jafnvel rofni. Vinirnir skipta hvað mestu máli á þessu aldursskeiði.

Því lengra, átakameira og hatrammara sem skilnaðarferlið er, því meiri líkur er á neikvæðari áhrifum og afleiðingum á börnin.

Neikvæð áhrif vegna erfiðs skilnaðar foreldra geta auðveldlega leitt til neikvæðra afleiðinga eins og:

– Slakar á í námi.

– Sýnir neikvæða hegðun í skóla

– Fer í mótþróa

– Nýtir sér aðstæður til að fá sínu framgengt

Í verstu tilfellunum verða börnin jafnvel bitbein foreldranna. Við þessar aðstæður lenda börnin oft í njósnahlutverkinu. Þeim er gert að flytja skilaboð milli foreldranna sem neita e.t.v. að tala saman. Þau eru látin taka meiri ábyrgð en aldur og þroski leyfir, t.d. gæta yngri systkina meira en góðu hófi gegnir. Í sumum tilfellum finna börnin sig knúin til að taka málin í eigin hendur. Þau reyna að laga ástandið, sætta foreldrana, reyna að taka stjórn í fjölskyldunni, vilja taka meiri ábyrgð og verða helst fullorðinn strax. Hugsanir og viðhorf barna breytast gjarnan við þessar erfiðu aðstæður. Þau endurskoða gildismat sitt og taka jafnvel nýjar og breyttar ákvarðanir með sjálfum sér sumar jafnvel „drastískar“ byggðar á aldrei/alltaf hugsun. Ekki er óalgengt að börnin, alla vega um tíma, missi trúna á gildi samskipta og sambanda, (ákveða með sjálfum sér að ætla aldrei að búa með neinum, aldrei að gifta sig o.s.frv.).

Þegar deilt er um börnin

Ef skilnaðurinn var barninu erfiður má ímynda sér hvað forsjárdeila foreldra gerir því. Stutt forsjárdeila kann að hafa takmörkuð langtíma neikvæð áhrif á meðan langvinn erfið og hatrömm deila getur sett mark á barnið fyrir lífstíð. Í forsjárdeilu fyrir dómstólum hafa orð barna, og þá sérstaklega unglinga, vægi. Það er einmitt í þessum kringumstæðum sem börnum finnst þau komin í sérlega erfiða stöðu. Í forsjárdeilu foreldranna eru þau spurð spurninga sem þau vita stundum ekki hvernig best er að svara. Hjá hvoru foreldrinu viltu búa? Hvar viltu eiga lögheimili? Ferli matsgerðar, viðtöl og tengslapróf er mörgum börnum erfið reynsla. Stálpuð börn upplifa oft mikla togstreitu, hugsanir verða ruglingslegar og þau spyrja sig e.t.v.:

– Hver er vondur?

– Hver er góður?

– Með hvoru foreldri á að halda?

– Verð ég að taka afstöðu?

Börn foreldra sem eru í forsjárdeilu finna sig e.t.v. ítrekað í aðstæðum þar sem þeim er ætlað (óbein krafa foreldris/foreldra) að standa frekar við hlið annars foreldris og jafnvel að fara á bak við (svíkja) hitt foreldrið. Stálpað barn og jafnvel ungt barn veit e.t.v. hvar það vill búa en finnst erfitt að segja það. Það vill hvorugt foreldrið særa. Allar neikvæðar tilfinningar sem kann þá þegar að búa innra með barninu vegna skilnaðarins geta auðveldlega magnast þegar foreldrar eru komnir í forsjárdeilu. Neikvæð hegðun getur auðveldlega orðið enn alvarlegri í samræmi við vaxandi vanlíðan.

– Skrópar í skóla, hættir að sinna námi

– Sýnir öfgafulla/ýkta hegðun

– Tekur áhættur, ,,mér er skítsama” viðhorfið

– Andfélagsleg hegðun

Foreldrar sem hafa ákveðið að skilja, foreldrar sem standa í skilnaði og jafnvel forsjárdeilu ættu undir öllum kringumstæðum að huga fyrst og fremst að líðan barna sinna. Þeim ber að taka hagmuni þeirra fram yfir eigin. Ágætt er að spyrja sig, hvernig myndi mér líða í sporum þeirra við þessar aðstæður? Ef þetta er erfitt fyrir foreldrana, hvernig er þetta þá fyrir börnin?

Auglýsingar

Comments are closed.