Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Er kreppan að reyna að stela frá þér lífsgleðinni?

Höfundur: Gylfi Jón Gylfason

Fyrir mörgum árum síðan kynntist ég móður sem átti  fatlað barn. Barnið var mikið fatlað. Svo langt er um liðið síðan við þekktumst, að margt af því sem þykja sjálfsögð mannréttindi í dag, var það hreint ekki þá ef þú varst fatlaður. Þegar barnið óx og dafnaði urðu þarfir þess eðlilega meiri. Móðir barnsins hafði  væntingar um að hið opinbera kæmi vandræðalaust til móts við þarfir barnsins í samræmi við þroska, til dæmis með viðeigandi skóla og frístundatilboði og seinna meir framhaldsskóla sem gerði barninu kleift að stunda nám. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér og þessi ágæta móðir lærði fljótlega að það þurfti að takast á við kerfið til að tryggja barninu þjónustu og það gerði hún svo vel að eftir var tekið. Eftir því sem ég kynntist konunni betur óx virðing mín fyrir henni. Ég bar virðingu fyrir því hvað hún var óþreytandi að berjast fyrir barnið sitt og var vakandi fyrir þörfum þess. Hún var einstæð og það var ekki mikið til af peningum á heimilinu, en einhvern veginn náði hún nú samt alltaf endum saman. Það sem mér þótti hins vegar mest um vert var að hún tók eiginlega öllu með jafnaðargeði, leit á allt sem verkefni til að leysa en ekki vandamál og í öllum þessum erfiðleikum var hún hamingjusöm og glöð og smitaði út frá sér lífsgleði hvar sem hún fór. Eftir að hún hafði komið til mín á stofu nokkrum sinnum sagði ég henni hvað mér þætti mikið til hennar koma og hvernig henni hefði tekist að búa sér og barni sínu hamingjuríkt líf. Hún horfði á mig hugsi stundarkorn og sagði svo: Veistu það Gylfi Jón, það fá allir sitt. Það er bara spurning um hvenær.

Ég hugsa oft til hennar og hef ætíð síðan nýtt mér orð hennar þegar ég hef tekist á við sorg og erfiðleika í eigin lífi, eða er að hitta fólk í starfi mínu sem stendur á erfiðum krossgötum. Ég hef alltaf skilið orð hennar svo að öll munum við þurfa að takast á við erfiðleika eftir því sem lífinu fleygir fram. Það er eðlilegt. Lífshamingjan er þá fólgin í því að takast á við það sem á dynur hverju sinni eins vel og maður getur og halda virðingu sinni og lífsgleði á meðan. Ég held að lífspeki þessarar ágætu móður sé sérstaklega viðeigandi á krepputímum þegar auðvelt er að gleyma sér í neikvæðni og svartagallsrausi og mála allt svörtum litum. Auðvitað er ástandið alvarlegt og auðvitað þarf að gera upp mál fyrir dómstólum þar sem grunur leikur á að illa hafi verið farið með almannafé og að spilling hafi hreiðrað um sig. Við skulum hins vegar setja okkur að halda lífsgleðinni á meðan, ekki missa okkur í sjálfsvorkunn og tryggja það að kreppan nái ekki taki á huga okkar líka. Mér sýnist líka að mörgum sé að takast það ágætlega. Ég hef til dæmis hitt unglinga sem hafa sagt mér að auðvitað hafi fjölskyldan minna milli handanna núna en áður, en að samverustundirnar með foreldrunum séu orðnar fleiri og að fjölskyldan sé orðin betri í að njóta þess að vera saman.

Auglýsingar

Comments are closed.