Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Þriðja Sálfræðiþingið 2011

Höfundur: Pétur Tyrfingsson

Dagana 7.-8. apríl verður þriðja íslenska Sálfræðiþingið haldið í Reykjavík. Að þessu sinni verður sjálf ráðstefnan haldin á Hótel Nordica í glæsilegum húsakynnum eins og sæmir alvöru samkomum. Við erum á réttri leið að byggja upp sjálfsvirðingu sálfræðinga.

Sálfræðingum er smám saman að takast að byggja upp samfélag sitt. Fjögur haust í röð höfum við komið saman á Haustfundi Sálfræðingafélagsins. Þriðja vorið í röð komum við saman til þings. Sálfræðiritið er fast í sessi sem árbók til fimm ára ef mig misminnir ekki. Stjórn með aðstoð nokkurra félaga vinna að því að opna myndarlega vefsíðu. Við þurfum að huga að næstu skrefum. En þau ætla ég ekki að ræða hér heldur komandi þing og Sálfræðingafélags Íslands og Sálfræðideildar Háskóla Íslands.

Nú er þingið tveggja daga. Hugmyndin að baki tveggja daga þingi er sú að auk hefðbundinnar ráðstefnu þá opnum við möguleika fyrir dag þar sem hægt er að bjóða uppá fræðslufyrirlestra, námskeið, kennslu, málstofur eða hvaðeina sem fólki dettur í hug og styðja má með faglegum rökum að hafi gildi. Það er svo margt sem þarf að segja og ræða!

Ég hvet því alla sálfræðinga – sérstaklega hópa samstarfsmanna – að bjóða uppá stærri eða minni dagskrá fyrri dag þingsins. Þetta geta verið „opin hús“ á vinnustöðvum sálfræðinga, málstofur um einhver málefni eða álitamál, fræðslufyrirlestrar og jafnvel örnámskeið.
Því miður höfum við ekki efni á að tryggja húsnæði undir þennan fyrri dag nema það litla pláss í tíma og rúmi sem húsakynni okkar í Borgartúninu leyfa. Því verður fólk að útvega húsnæði sjálft – t.d. að nýta aðstöðu á vinnustað sínum.

Óneitanlega væri það ánægjulegt ef okkur tækist að safna nógu mikilli dagskrá fyrri dag þingsins til þess að færa heim sönnur um að sálfræðingar á Íslandi standa undir tveggja daga þinghaldi. Þeir afla þekkingar, miðla þekkingu og hafa mikið að segja!

Þá er það ráðstefnudagurinn mikli 8. apríl. Málið er einfalt. Öll innlegg sem greina frá rannsóknum koma til greina svo fremi sem þau hafa ekki áður verið kynnt á opnum fundum eða ráðstefnum á Íslandi. Þetta þýðir þá að þó við höfum eða ætlum að kynna eitthvað í útlöndum þá á það erindi. Einnig merkir þetta að tillegg sem aðeins hefur verið kynnt lokuðum hópi samstarfsmanna eða sérstökum hópi sálfræðinga eða annarra á líka erindi.

Þetta hefur ekki vafist fyrir fólki eftir því sem ég best veit. Hinu tek ég eftir að sálfræðingar setja fyrir sig og þeir telja sjálfum sér oft trú um að það sem þeir hafa fram að færa eigi annað hvort ekki erindi eða allir viti af því – vegna þess að það heyrir undir hagnýtu deild ráðstefnunnar. Þetta er villukenning sem ég vill – fyrirgefiði orðbragðið – aflífa í eitt skipti fyrir öll.

Sálfræðingar á Íslandi eru upp til hópa starfandi fólk sem hefur verið treyst fyrir því að hagnýta og skila sálfræðilegri þekkingu til að bæta mannlífið og vinna gegn böli hvers konar. Þessir fótgönguliðar velferðarinnar hafa náð býsna langt þegar litið er til þess hvað stéttin er í rauninni ung. Hinir raunverulegu „gamlingjar“ sem teljast frumherjar stéttarinnar í landnámi hennar á Íslandi eiga ekki enn rétt á ellilífeyri. Sálfræðingar gleyma þessu oft. Þeir sem ruddu skóg og brutu land eru spriklandi sprækir á meðal okkar og láta engan deiga síga!

Engu að síður eigum við langt í land. Stofnanir eru engan veginn fullmannaðar þar sem sálfræðingar eru þegar við störf. Aðrar stofnanir hafa ekki sálfræðinga á sínum snærum. Og við erum tvístruð að því leyti að við skynjum sjálf okkur enn sem komið er í daglegu lífi fyrst og fremst sem þátttakendur í hópi vinnufélaga og kannski líka í klíku skólafélaganna. Þessu þurfum við að vinna gegn og treysta vitund okkar um að við erum og ætlum okkur að verða myndug heilbrigðisstétt til jafns við þær sem hefðbundnar eru.

Einmitt þess vegna þurfum við að kynna hvert fyrir öðru störf okkar og hvernig við reynum að byggja upp og sækja fram til að bæta sálfræðiþjónustu í landinu.

Á öllum samkomum sem ég hef sótt á vegum sálfræðinga hef ég einmitt tekið eftir því hvað þeim þykir áhugavert hvað kollegarnir eru að gera og gleðjast mjög yfir að vita að við erum öll hér og þar að leggja eitthvað gott til okkar samfélags sem við megum vera stolt yfir.

Ég segi þetta því ég held að margir sálfræðingar haldi að aðrir hafi ekki áhuga á því sem þeir eru að gera eða telji að allir viti sossum hvað þeir eru að bauka. En það er alls ekki þannig! Og jafnvel þó það væri þannig – þá þurfum við að fá „árskýrsluna“ um hvernig gengur og hvort allt sé ekki á réttri braut!

Hitumst heil á Sálfræðiþinginu 2011!

Auglýsingar

Comments are closed.