Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Siðræn sjónskerðing og siðblinda

Höfundur: Jón Sigurður Karlsson

Eftir hrunið hafa verið miklar umræður um orsakir þess og aðdraganda, stundum er leit að sökudólgum aðalatriðið, en það sést líka viðleitni til að greina atburðarásina að til þess að læra af reynslunni. Ber þar hæst skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í 9 bindum. Þar af er 8. bindið helgað siðferðilegri greiningu, með sálfræðilegri greiningu í viðauka. Það á líklega við hið fornkveðna að sekur er sá einn er tapar, en sá sem hefur rangt við og græðir á heimsmælikvarða getur verið hetja og vildarvinur forseta, þangað til það kemst upp um hann. Umræða um siðferði í viðskiptum kemur yfirleitt upp að gefnu tilefni, við hrun og önnur áföll í efnahagslífinu. Það er auðveldara að greina eftir á frekar en fyrirfram, þar af leiðir eru margir sem verða klókir eftir á. Siðblinda í viðskiptum var umræðuefni á málþingi um viðskiptasiðferði sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík. Nanna Briem geðlæknir fjallaði um efnið einkum út frá DSM-IV og hugmyndum sálfræðingsins Robert D. Hare (Babiak & Hare 2006) og studdist m.a. við Psychopathy Checklist eftir Hare, (Nanna Briem 2010). Hér verður einkum fjallað um mannlegan breyskleika og umgengni við tækifæri og freistingar eins og málið snýr út frá sálfræðilegu og viðskiptalegu sjónarmiði. Umræða um hrunið er leiðigjörn til lengdar og mál til komið að draga lærdóm af því og horfa fram á veginn.

Persónuleikaraskanir og siðblinda skv. DSM-IV-TR greiningarhandbókinni

Andfélagsleg persónuleikaröskun (Antisocial Personality Disorder, 301.7) virðist tengjast lágri félags- og efnhagslegri stöðu og er talin algengari meðal borgarbúa. Menn hafa lýst áhyggjum af því að greiningin geti stundum verið ranglega notuð við aðstæður þar sem hegðun sem virðist andfélagsleg er hluti af því að komast af í slíku umhverfi. Það er þess vegna talið gagnlegt fyrir greiningaraðila að meta félags- og efnahagslegt samhengi. Hér er í raun verið að gera fyrirvara um að siðblinda eða “siðblindulík” hegðun geti verið eins konar aðferð í lífsbaráttunni. (DSM-IV, TR, s. 703-704).  Siðblindueinkenni er einnig að finna í sjálfhverfri persónuleikaröskun (Narcissistic Personality Disorder, 301.81), þar er ekki fyrirvari um félags- eða efnahagslega stöðu. Ætli þeim sjálfhverfu takist að fara penna með siðblinduna? Andfélagslega röskunin er talin byrja við fimmtán ára aldur, en sú sjálfhverfa snemma á fullorðinsárum. (DSM-IV, TR, s. 717). Er siðblinda afstæð? Svarið er já að einhverju leyti því allt sem telst frávik tekur mið af samfélagslegum gildum, m.a. annars út frá því hvort “frávikið” auðveldi eða torveldi lífsbaráttuna fyrir einstakling og samfélag. (Larsen 1975)

Psychpathy Check List (PCL)

PCL hefur einnig verið notaður í greiningu á siðblindu, en hefur ekki haft sama sess og DSM-IV. Listinn skiptist í fjóra þætti: Tilfinningalíf (skortur á eftirsjá, sektarkennd og samhyggð), samskipti (yfirborðslegir persónutöfrar, stómennskuhugmyndir, lygar, lymskuleg stjórnsemi), lífstíll (spennufíkn, hvatvísi, ábyrgðarleysi), andfélagsleg hegðun (léleg sjálfsstjórn, hegðunarvandamál, afbrot), (sjá Babiak & Hare 2006).

Næsta útgáfa af greiningarhandbókinni, DSM-V, er væntanleg árið 2013, en drög liggja fyrir og umræður og álitsgerðir eru á lokastigi.  Þar er lagt til að röskunin verði kölluð Antisocial/Psychopathic Type. Í drögum að kaflnum um persónuleikaraskanir er ekki minnst á að siðblinda geti verið afstæð, en það er bætt við: “They also have the capacity for superficial charm and ingratiation when it suits their purposes.  They profess and demonstrate minimal investment in conventional moral principles and they tend to disavow responsibility for their actions and to blame others for their own failures and shortcomings.” (www.dsm-v.org). Það er umræða í gangi um að bæta við fleiri atriðum sem eru í PCL í væntanlegt DSM-V. Það er aukin áhersla á persónutöfra og frjálslega umgengni við reglur. Í fyrri útgáfu var meiri áhersla á ofbeldi, en í nýju útgáfunni verða fleiri atriði sem snúa að viðskiptalífinu og hvítflibbaglæpum. Það er ljóst að veltan í efnahagsbrotum er mun meiri en í “gamaldags” auðgunarbrotum og þess vegna er meiri nauðsyn að taka á vandanum sem þau efnahagsbrotin taka og efla forvarnir gegn þeim.

Slaknar á siðgæðiskröfum?

Hér getum við staldrað við, er hugsanlegt að það slakni á siðgæðiskröfum sem við gerum til sjálfra okkar þegar við erum aðþrengd og viljum bjarga eigin skinni? Eru siðareglur hugsanlega afstæðar? Nei, ekki allar, það eru ákveðin grunngildi sem eru ófrávíkjanleg, en nauðsyn brýtur lög í örfáum undantekningartilfellum. Það hefur lengi verið þekkt að eiginmenn færi eignir, t.d. íbúð eða hús á nafn konunnar í því skyni að tryggja fjölskyldunni samastað ef fyrirtæki þeirra skyldu fara í gjaldþrot. Annars vegar er þetta gert í göfugum tilgangi gagnvart fjölskyldunni, en hins vegar geta þessir eignaflutningar þýtt meira tap fyrir lánadrottna og fjölskyldur þeirra. Lagabreytingar hafa verið gerðar til þess að torvelda slíkan eignaflutning, m.a. með því að lengja tímann sem má líða frá meintu undanskoti til gjaldþrots.

Líklega er stærsta spurningin í meintum efnahagsbrotum hvort brot sé af ásetningi eða ekki. Margt í viðskiptum hefur í för með sér áhættu, varkárni og áhættusækni geta átt við allt eftir aðstæðum. Þegar við völdum öðrum efnahagslegu stórtjóni þarf ekki endilega að vera um skipulagðan illvilja að ræða. Málið getur snúist um mat á áhættu sem virtist rétt þegar ákvörðun var tekin, en reyndist kolrangt þegar forsendur breyttust með (ó)fyrirsjáanlegum hætti. Það getur verið að við höfum verið í góðri trú, en við réðum ekki við atburðarás sem fór af stað. Dómskerfið virðist almennt eiga erfitt með að sanna illan ásetning eða vítavert gáleysi í áhættumati. Það er líka algengt að sakborningar muni ekki eftir færslum milli reikninga og landa, stundum bera þeir fyrir sig vankunnáttu í tungumáli sem þeir hafa þó getað beitt til að græða og tapa stórfé. Við hin þekkjum líka að minnið getur stjórnast af tilfinningum okkar, við munum líklega best það sem við viljum muna. Það getur verið erfitt að sanna hvað við munum og hvað ekki. Það er þekkt hugtak í lagamáli “mátti vita” í merkingunni hlaut að vita, en jafnvel það er ekki hafið yfir allan vafa.

Enron málið í BNA er lærdómsríkt að því leyti sem bókhald og endurskoðun var markvisst beitt til blekkinga. Endurskoðunarfyrirtækið, Arthur Andersen, sem var eitt af þeim stærstu í heiminum er ekki lengur til. Enron málið gerði orðstír þess að engu og því var ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri. Hér á landi hefur “virt” endurskoðunarfyrirtæki verið dæmt til að greiða fyrirtæki milljónatugi í skaðabætur vegna fjárdráttar sem endurskoðandi tók ekki eftir.  “Fín” nöfn kunna að vekja traust en geta samt verið ótraust.

Aðþrengdir útrásarvíkingar?

Í fréttum ríkissjónvarpsins var nýlega (des. 2010) sagt frá því að Landsbankinn hafi fengið sérstök verðlaun fyrir ársreikninga 2007. Á myndinni sást Björgvin G Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra afhenda Sigurjóni Árnasyni þáverandi bankastjóra verðlaunagrip. Við það rifjaðist upp fyrir mér að Hafskip fékk verðlaun fyrir ársreikninga 1985. Hvað er sameiginlegt þessum tveimur atburðum? Í báðum er Björgólfur Guðmundsson áhrifavaldur, í fyrra skiptið, 1986, annar af forstjórum Hafskips, í síðara skiptið formaður bankaráðs og “kjölfestufjárfestir”. Í bæði skiptin voru ársreikningar áritaðir af virtum endurskoðendum. Það er auðvelt að vera klókur eftir á, en voru ekki komnar einhverjar vísbendingar í árslok 2007 og ársbyrjun 2008, einhver óveðursský úti við sjóndeildarhringinn? Ef marka má skýringar endurskoðenda Landsbankans 2008 þá fengu þeir ekki að sjá allt og voru ekki aðgangsharðir ef tekið var dræmt í gagnabeiðnir, en töldu sig fara að reglum að öðru leyti.

Það hefur lengi verið kunnugt að skynjun okkar stýrist af ýmsum innri og ytri þáttum, stundum sjáum við það sem við viljum sjá, stundum það sem við hræðumst, stundum það sem okkur er sagt að sjá og einstaka sinnum sjáum við það sem okkur er ekki ætlað að sjá, líklega vegna þrjósku. Við getum verið á háum launum við að uppfylla þarfir viðskiptavina og hjálpa þeim til að sjá það sem þeir vilja sjá og viðhalda þægilegri sjálfsblekkingu þeirra.

Breyttar leikreglur

Það er hugsanlegt að margir Íslendingar hafi verið lengi að átta sig á gjörbreyttum leikreglum í viðskiptalífinu eftir að við gengum í EES. Fyrir þann tíma var meginreglan: Það sem ekki er leyft er bannað. Eftir breytingu var meginreglan: Það sem ekki er bannað er leyft. Þótt “byltingin” láti lítið yfir sér á prenti eða skjá, sömu orð en önnur röð, er þarna grundvallarmunur. Það felast miklu fleiri tækifæri í öllu hinu sem ekki er bannað, nú er hægt að nota hugmyndaflugið en það sem er bannað beinum orðum er aðeins brot af möguleikunum. Breytingin felst líka í færri höftum, þegar við erum að ryðja nýjar brautir þá er ekki víst að við séum að hugsa um siðrænar takmarkanir. Með bókstafstúlkun laga er þetta spurning um að komast eins langt og lögin leyfa, það er mikilvægt að reyna á lögin. Flest er löglegt í viðskiptum en það siðlega verður afgangsstærð.

Siðvæðing og endurreisn /Um siðfræðilegt uppeldi og aðhald

Eftir efnahagslegt og siðferðilegt hrun er algengt að umræða fari í gang um orsök og afleiðingar. Það er meðal annars í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Í 8. Hefti skýrslunnar er tekið á siðfræðilegum og sálfræðilegum þáttum. Það er talað um fjötraða skynsemi og hóphugsun, sem Irving L. Janis fjallaði um í bókinni Victims of Groupthink 1977. Það er líka eðlilegt að velta fyrir sér hvað sé til ráða, hvernig lærum við af mistökunum og byggjum upp “nýtt” Ísland?

Hvernig hefur almennt tekist til með að kenna börnum rétta siði? Snowman, McGown & Biehler (2009) vitna í rannsóknir Hartshorne & May á sunnudagaskólabörnum og skátum  um 1930. Niðurstöður rannsóknanna komu á óvart á sínum tíma. Þar var mikið lagt upp úr því að kenna guðsótta og góða siði, en árangurinn virtist minni en stefnt var að. Fræðsla er góð byrjun en dugar ekki alltaf ein og sér. Það hefur reynst vel að hafa hugfast að „practice what you preach“ er grundvallaratriði, það þarf að bæði að læra og sýna í verki. Það er sitt hvað að læra siðaboðskapinn og að fara eftir honum. Börnin í rannsóknunum sýndu ekki marktækt betri hegðun en jafnaldrar sem ekki sóttu sunnudagaskóla eða voru ekki skátar.

Snowman og félagar benda á að kennsla í siðfræði sem eins konar átaksverkefni sé ekki líkleg til árangurs til lengdar. Það sé vænlegra að samþætta siðaboðskapinn í sem flestum greinum . Siðfræðin þarf helst að vera hluti af karakter okkar. Það er ástæða til að ætla að hjá þroskuðu fólki gildi það sama, við þurfum að þekkja reglurnar, vita um viðurlögin ef við brjótum þær. Við lærum af fyrirmyndum, en vonandi er meira af siðareglunum hluti af karakternum þannig að okkur sé treystandi hvort sem það sést til okkar eða ekki. Aðstæður, tækifæri og freistingar eru lykilorðin. Hvort ræðst hegðun okkar meira af aðstæðum eða innræti? Líklega er svarið eitthvað á þá leið að við teljum okkar eigin hegðun ákvarðast meira af aðstæðum og við teljum að hegðun annarra ráðist meira af innrætinu.

Þetta sama gildir væntanlega í viðskiptalífinu, það þýðir ekki að gera átak í stuttan tíma eftir hvert hneyksli.  Vönduð vinnubrögð, löghlýðni og samviskusemi er þrotlaus barátta og eilífðarverkefni. Við erum í samkeppni bæði innanlands og á heimsvísu. „Frjálsir“ íslenskir starfsmenn á launum sem taka mið af heildarkjarasamningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda eru í samkeppni við starfsmenn láglaunalanda þar sem verkalýðshreyfingin hefur verið drepin í eiginlegum eða óeiginlegum skilningi. Heiðarlegum íslenskum atvinnurekendum líkar ekki að vera í samkeppni við atvinnurekendur sem borga „svart“ eða hafa fengið milljarða afskrifaða. Samt er þetta síðastnefnda mjög algengt á Íslandi í dag, margir fallnir atvinnurekendur hafa verið endurreistir en það á eftir að koma í ljós hvort það verður landi og þjóð til heilla. Hin ósýnlega hönd markaðarins hefur ekki náð að hreinsa til og skilja aðeins eftir þá heiðarlegu og duglegu. Hin hliðin á málinu er að kapitalismi okkar er mannlegur, við tökum mikið tillit til fólksins sem vinnur hjá „óheppnum“ atvinnurekendum.

Behavioral Research in Accounting

Behavioral Research  in Accounting er tímarit sem fjallar eins og nafnið bendir til um rannsóknir á atferli og reikningsskilafræðum. Meðal efnis er eins konar yfirlitsgrein eftir Michael D. Shields hjá Michigan State University. Hann skrifar greinina „What a Long, Interesting Trip it´s Been“ through the Behavioral Accounting Literature: A Personal Perspective. (Shields, 2009). Önnur áhugaverð grein nefnist „Revitalizing Accounting Ethics Research in the Neo-Kohlbergian Framework (Bailey, Scott & Thoma, 2010).

Kjarninn hjá Shields er að upp úr 1970 var upphaf rannsókna í anda hugrænnar sálfræði á reikningsskilum, “behavioral decision theory, lens model, policy capturing, heuristics and biases”. Pitt University og Carnegie Mellon University tóku þátt í hugrænu byltingunni í sálfræðinni og það voru margir hugrænir sálfræðingar eins og t.d. Herber Simon (fyrsti sálfræðingurinn sem fékk Nóbelsverðlaun í Hagfræði). Næstu 12 ár var Shields þátttakandi í “experimental cognitive research” í reikningshalds- og endurskoðunarfræðum.

Á  8. áratugnum varð stefnubreyting í behavioral accounting vegna þess að rannsóknir sem byggðust meira á hagfræði ýttu hugrænum rannsóknum til hliðar. Ef fjármálamarkaðir eru skilvirkir þá eigi sálfræðilegar rannsóknir á hegðun einstaklinga ekki við. Þetta var meiri háttar áfall fyrir „Behavioral Accounting“. Þetta afvegaleiddi rannsóknir á þessu sviði í næstum því tvo áratugi, að áliti Shields. Helstu háskólar hættu að sinna slíkum rannsóknum, það voru aðallega einhverjir „afdalamenn“ sem héldu áfram í „Behavioral Accounting“.

Hver hefur þróunin verið undanfarna áratugi? Djarfir menn mótuðu viðskiptalífið og hugmyndafræðingar reikningshaldsins fylgdu þeim eftir, t.d. með mikilvægri breytingu á reikningsskilaaðferðum sem fólst í því að það varð leyfilegt að færa hlutabréfaeign á markaðsvirði. Þetta síðasta varð tilefni til mikilla viðskipta föllnu bankanna með bréf í sjálfum sér og bestu vinum. Það varð mögulegt að blása upp efnahagsreikninginn og “auka” virði hlutabréfa t.d. með sýndarviðskiptum.

Hagfræði og sálfræði

Hagfræðilegar rannsóknir ganga yfirleitt út frá því að fólk stjórnaðist fyrst og fremst af skynseminni og að breytni manna á markaðnum í heild sé í jafnvægi. Ef þessar forsendur eru réttar þá er telja margir hagfræðingar að það sé lítil þörf á rannsóknum á atferli einstaklinga.  Smám saman varð ljóst að það vantaði þætti inn í líkanið til þess að það gengi upp, það vantaði hugrænu þættina.  Milli 1980 og 1990 kom fram fræðigreinin behavioral economics og rannsóknir á fjötraðri skynsemi og margs konar ófullkomleika markaða. Það er reyndar mín skoðun að hagfræði og sálfræði eigi margt sameiginlegt, báðar fjalla um vonir, væntingar, hugsun og hegðun. Hagfræðin notar meira fjárhagslega mælikvarða en sálfræðin notar mikið aðra mælikvarða á hegðun og líðan, hagfræðin er meira í krónum en sálfræðin í annars konar verðmætum. Kannski er hagfræðin meira á heildsölustiginu en sálfræði á smásölustiginu.

Það er ástæða til að staldra við hina ósýnilegu hönd markaðarins, hugmyndina um að markaðir leiðrétti sig sjálfir. Samkeppnin leiðir til þess að þeir óskilvirku og óheiðarlegu verði undir og úr leik? Menn hafa líka tekið eftir því að fulkominn markaður er ekki til, það er alltaf einhver ófullkomleiki.  Margs konar dyggðir og lestir skipta máli, eða mannlegur breyskleiki og jákvæðir eiginleikar skipta máli. Fyrst markaðurinn leiðréttir sig ekki sjálfur þá þarf skýrar leikreglur og eftirlit. Það þarf eftirlit, bæði innra og ytra. Utan að komandi og óháðir endurskoðendur eiga að tryggja að ársreikningar fyrirtækja séu réttir, gefi glögga mynd o.s.frv. Í eðlilegri samkeppni gilda sömu reglur um alla, sams konar bókhald og endurskoðun, sem aftur leiðir til þess að skattbyrði fyrirtækjanna verður sambærileg. Hvers konar markaðsmisnotkun og óheiðarleg undirboð varða sektum. Allt kallar það á nákvæm vinnubrögð og heiðarleg. Þeir sem sjá um innri og ytri endurskoðun eru þar með eins konar samviska eða yfirsjálf. Það getur verið spurning um það hversu óháðir þeir eru þegar fyrirtækin sem þeir endurskoða ráða þá til verksins og borga, sérstaklega ef það er samið til eins árs í einu.  Rannsóknir á áhrifum reikningsskila sem stjórntækis geta verið gagnlegar til að finna hvaða möguleikar eru á sem mestri skilvirkni og sem mestum heiðarleika. Margar greinar í Behavioral Research in Accounting fjalla einmitt um slík málefni.

Niðurstaða

Niðurstaðan er svipuð víðast hvar í hinum vestræna heimi, það er ekki til neinn fullkominn markaður, ekki nein farsæl ósýnileg hönd sem ræður ferðinni.  Það er heldur ekki til neinn fullkominn maður eða fullkomin þjóð. Við blasir  mannlegur breyskleiki frekar en ýtrasta hagsýni og skynsemi. Það koma uppsveiflur og niðursveiflur í flest eða öll hagkerfi. Margs konar bólur rísa og springa.

Siðræn gildi og samfélagsleg ábyrgð er mismunandi mikið í tísku. Flestar kennslubækur í stjórnunarfræðunum minnast á samfélagslega ábyrgð, það vantar ekki góðan ásetning. Hins vegar var það enn meira í tísku að komast hjá því að greiða skatta, mikill tími endurskoðenda og skattalögmanna virðist hafa farið í skattvik (það á ekki að vera s á undan vik), en þar hafa men líklega hugsað meira um það löglega en siðlega. Oft er vísað til harðrar samkeppni, “góðverk” þykja betri auglýsing en háar skattgreiðslur.

Það geta verið tímabil þar sem hætt er við að siðræn skynjun fari úr skorðum vegna sérstakra aðstæðna og tækifæra á gráum svæðum, hver er munurinn á tækifæri og freistingu? Líklega þrífast siðblindir best á gráum svæðum, djarfir menn eru fundvísir á tækifæri. Öll höfum við mótast af lífsbaráttunni og við lærum af reynslunni, bæði af fortíð og nútíð. Vonandi er skilvirkast að hafa heiðarleikann  innbyggðan í hvern og einn, því eins og danska máltækið segir:  „Heiðarleikinn endist lengst“.

Babiak, P. & Hare R. D. (2006). Snakes in suits, when psychopaths go to work. N.Y.,Collins.

Bailey, C. D., Scott, I. & Thoma, S. J. (2010). Revitalizing Accounting Ethics Research in the Neo-Kohlbergian Framework: Putting the DIT into Perspective. Behavioral Research in Accounting, 23, 1-26.

DSM-IV-TR, APA (1999).

DSM-V drög, www.dsm5.org

Larsen, A. (1975) Psykopatibegrebet, Kbh. Munksgaard.

Nanna Briem (2010). Siðblinda. Læknablaðið, 96, 395.

Rannsóknarnefnd Alþingis (2010) Skýrsla, 8. bindi.

Shields, M. D. (2009) „ What a Long Interesting Trip it´s Been“ through the Behavioral Accounting Literature: A Personal Perspective. Behavioral Research in Accounting, 21, 113-116.

Snowman, J., McGown & Biehler, R. (2009) Psychology Applied to Teaching, 12. útg. N.Y., Houghton Mifflin.

2 responses to “Siðræn sjónskerðing og siðblinda

  1. Eiríkur Örn Arnarson 4.1.2011 kl. 12:56

    Ég þakka fyrir áhugaverða og vandaða umfjöllun Jóns.

  2. Jón Sigurður Karlsson 4.1.2011 kl. 18:43

    Ein leiðrétting:

    http://www.dsm5.org (ekki http://www.dsm-v.org)