Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

ENGIN RANNSÓKN ER EINSKIS VIRÐI…..

Höfundur: Jón Björnsson

Ég lærði sálfræði við Háskólann í Freiburg í Þýskalandi 1968-1974. Eftir tveggja til þriggja ára nám var venjulega tekið fyrrihlutapróf (Vordiplom), tveim til þrem árum síðar luku flestir lokaprófi, sem hét Hauptdiplom og svaraði til kandidatsprófs frá Hafnarháskóla. Á síðari hlutanum þurftu nemendur að skrifa nokkuð veigamikla ritgerð. Algengt var að vinna við hana tæki eitt til tvö ár og efnisvalið leiddi því til nokkurrar sérhæfingar.

Einhverra hluta vegna hafði ég bitið í mig áhuga á málefnum aldraðra; nokkuð almennan og ekki bara bundinn öldrunarsálarfræði. (Orðið öldrunarsálarfræði var raunar ekki komið til skjalanna um þetta leyti – og eftir því sem ég best veit var fyrst farið að tala um „öldrun“ haustið 1971 við Háskóla Íslands.) Öldrunarfræði var þá tiltölulega nýleg þverfagleg fræðigrein a.m.k. í Þýskalandi. Aðeins einn háskóli þar lagði sæmilega rækt við hana og sá var í Bonn en ekki Freiburg. Engu að síður fékk ég samþykkt að lokaritgerðin mín fjallaði um rannsókn í öldrunarfræði, sem ég hugðist gera á Íslandi. Einn prófessoranna í þróunarsálfræði var talhlýðin og opinhuga kona. Hún féllst af góðgirni sinni á að vera leiðbeinandi minn, gegn því að ég truflaði sig ekki mikið, því henni fannst aldrað fólk fullkomlega óinteressant og engan veginn viðkomandi sínu fagi. Á þessum árum var nefnilega almennt litið svo á í þróunar- og þroskasálfræði, að fólk yfir tvítugu kæmi henni ekkert við, enda  þróaðist fólk yfir þeim aldri sennilega ekki neitt og alla vega ekki á neinn algildan og vísindalega tagltækan hátt.

Með þessa samþykkt upp á vasann ákvað ég að skrifa tímamótaritgerð og einstakt verk í sögu öldrunarfræða á Íslandi. Það síðarnefnda var nú nokkuð sjálfgefið. Umræða um málefni, hvað þá sálarlíf, aldraðra á Íslandi var engin. (Sú umræða hófst eins og mörg önnur þörf umræða í Samvinnunni í ritstjórnartíð Sigurðar A. Magnússonar, í þessu tilfelli 2. hefti árið 1974.) Rannsóknir á hópi og högum aldraðra höfðu ekki verið gerðar á Íslandi, utan tvær skoðanakannanir sem vörðuðu þjónustu, önnur í Hafnarfirði og hin á Akranesi.

Þá hafði nokkrum árum fyrr, árið 1968, birst nafntoguð og brautryðjandi samanburðarrannsókn í öldrunarfræðum, þar sem fjölmargir þættir (svo sem fjölskyldugerð, aðtvinnuþáttaka, félagsleg þátttaka, samneyti kynslóðanna, einangrun, heilsufar, sjálfsmynd, líkamleg hæfni, færni, viðhorf og sjálfsbjargargeta) voru kannaðir með samræmdum hætti í Bandaríkjunum, Danmörku og á Englandi. Fræðimenn, þá framúrskarandi og valinkunnir en nú bæði dauðir og gleymdir, rituðu um hana bók sem um nokkurra ára bil var afar heit í hinum þrönga heimi öldrunarfræða:  Shanas, E. & Townsend, P. og Friis, H.: Old People in Three Industrial Societies. Litlu síðar var sama rannsókn framkvæmd að hluta í Póllandi og í Ísrael. Mér fannst bæði viðeigandi og hæfilegt að gera þessa könnun á Íslandi og varð mér út um rannsóknargögnin í Danmörku og hófst handa í ársbyrjun 1970. Sumarið 1971 voru síðan tekin viðtöl við 192 einstaklinga 65 ára og eldri, annars vegar var um 106 einstaklinga úrtak í Reykjavík að ræða, hins vegar 86 íbúa Dalvíkur á þessum aldri, af alls 96 sem þar bjuggu. Ég hafði ekki efni á úrtaki á landsvísu. Hugsanlega rifjast það upp fyrir nokkrum miðaldra sálfræðingum sem þá voru að læra við HÍ. að þeir hjálpuðu mér með viðtölin í Reykjavík af göfuglyndi sínu eintómu. Viðmælendurnir eru hinsvegar allir komnir í duftker eða undir grænbrúna torfu. Spurningarnar voru samskonar og í erlendu rannsóknunum, 140 talsins og sumar í mörgum liðum. Vísindi kalla á fórnir og það var engin smáyfirvikt sem ég mátti borga um haustið þegar ég fór utan með spurningalistana.

Þetta var fyrir tíma tölvunnar. Ég færði upplýsingarnar úr listunum á margra fermetra spjöld; auðkenndi, taldi, merkti, reiknaði og reiknaði aftur. Úrvinnslan kallaði á reiknivél. Til að bæta úr því fór ég í kauphús og skoðaði nýlundu, sem þá var að berast frá Ameríku; litla kassa frá Texas Instruments með ljósstöfum í aflöngum glugga og talnaborði. Þetta var fyrsta lófatölvan sem ég sá. Ég íhugaði alvarlega að kaupa eina, en verandi íhaldssamur efahyggjumaður taldi ég að það væri of áhættusamt; þetta væri bara einhver bóla og myndi hverfa af markaðnum eftir tvo þrjá mánuði. Ég keypti mér í staðinn notaða handsnúna FACIT-margföldunarvél úti í veðlánabúð, þar sem ég var hagvanur. Með henni reiknaði ég fylgnistuðla, hlutföll og hundraðshluta.

Síðsumars 1973 lauk ég ritgerðinni; Alte Menschen in Island. Eine sozialgerontologische Untersuchung über die ältere Generation in Island. Þetta var verk upp á 224 síður, fjölfaldað með svonefndum sprittfjölritara af húsverðinum í Peterhof, þar sem sálfræðideildin var til húsa. Þetta var lykilverk, brautruðning, upphaf. Töflurnar sýndu stórmerkilegan samanburð milli Dalvíkur og Reykjavíkur, milli Íslands og landanna þriggja. Sumar þeirra voru ákaflega æsandi, aðrar þannig að mann beinlínis svimaði. Ég var sérlega stoltur af kafla, þar sem ég las ýmsar einstæðar upplýsingar um aldraða út úr manntalinu frá 1703; einu elsta tæmandi manntali heimsins. Fyrir utan þá aðdáunarblöndnu athygli sem ég vissi að verkið í heild hlyti að fá á Íslandi, virtist rýmilegt að reikna með einhverjum alþjóðlegum frama út þann kafla. Svo fór ég heim með fáein eintök af ritgerðinni og dreifði þeim á þær stofnanir sem ég taldi líklegast að biðu málþola eftir öldrunarfræðilegum samanburðarupplýsingum.

Enn þann dag í dag, þrjátíu og sjö árum síðar, veit ég ekki með vissu til þess að nokkur einasta manneskja hafi lesið þessa ritgerð, ef frá er talin Ute vinkona mín, sem yfirfór þýskuna. Það var fyrir greiðasemi en ekki af því hún hefði áhuga á eða smekk fyrir því hvernig aldraðir Dalvíkingar væru eins eða öðruvísi en jafnaldrar þeirra í Reykjavík og Bretlandi. Ég er nærri viss um að þróunarssálfræðiprófessorinn minn, blessuð veri minning hennar, komst aldrei nema aftur í ritgerðina miðja. Hún gaf mér samt bestu einkunn, sumpart út af sektarkennd en sumpart út á þessa bersýnilegu ofvirkni mína við töflugerð og útreikninga. Þá ágætu konu á Tryggingastofnun sem ein Íslendinga fullyrti að hún hefði lesið ritgerðina, hef ég alla tíð haft sterklega grunaða um að segja mér þetta bara af kurteisi. Fólk sem kannski hefði viljað lesa ritgerðina gat ekki lesið þýsku, fólk sem kunni þýsku las eitthvað skemmtilegra. Eintakið á Landsbókasafninu hreyfðist aldrei, hin eintökin lokuðust ofan í skúffu. Það vitnaði enginn í ritgerðina nema ég sjálfur og eftir nokkur ár hafði ég snúið mér að öðru og þá hætti ég því líka.

En ég mundi alltaf eftir henni, og  það var raunar út af henni sem ég samdi seinna þekkingarfræðilegt lögmál eða kennisetningu; lögmálið um hagnýtingu rannsókna, en það er önnur tveggja vísindalegra kennisetninga sem ég hef samið og kannski munu halda nafni mínu á lofti, úr því ritgerðin um Alte Menschen in Island gerði það ekki. Lögmálið um hagnýtingu rannsókna er svohljóðandi:

ENGIN RANNSÓKN ER EINSKIS VIRÐI

FYRR EN EKKERT HEFUR VERIÐ GERT VIÐ HANA.

Lögmál þetta er samtímis raunsætt og huggandi, því vel má lesa út úr því að seint sé öll von úti um að löngu gleymdar ritgerðir verði grafnar upp úr skrifborðsskúffum og landsbókasafnshillum og eitthvað við þær gert.

Nú er ekki mörg misseri í að ég verði sjálfur kominn á sama aldur og þeir yngstu  sem rætt var við í könnuninni forðum. Ritgerðin er í millitíðinni orðin allmiklu eldri en ég var þá sjálfur. Ég horfist í augu við þá staðreynd að héðan af mun hún ekki valda þeim straumhvörfum í fræðilegum skilningi á stöðu aldraðra á Íslandi né hinni róttæku og framsæknu umbyltingu á þjónustu við og löggjöf um aldraða hérlendis, sem ég bjóst við haustið 1973. Það hefur hins vegar runnið upp fyrir mér á síðustu árum að töflurnar hafa að geyma stórmerkilegan sögulegan fróðleik um hagi aldraðra í sjávarþorpi fyrir norðan og í Reykjavík fyrir hálfum mannsaldri. Og sögulegur fróðleikur er eins og rauðvín og ostur, hann batnar bara við það að eldast.

Það fæddist með mér hugmynd sem nú er orðin að fjallgrimmri ákvörðun. Úr því enginn vildi lesa ritgerðina mína meðan hún var glóðvolg öldrunarfræði ætla ég troða henni upp á fólk sem sagnfræði. Í sagnfræði verða tölur betri eftir því sem þær eru eldri og úreltari. Ég hef einsett mér að þýða geðveikustu kaflana úr ritgerðinni og koma sexíustu töflunum á framfæri. Þessu ætla ég að vera búinn að áður en ég verð sextíu og fimm ára. Nú veit ég að þekkingarfræðilega á að vísu að vera hægt að afsanna almenn lögmál með aðleiðslu en aldrei sanna þau, en engu að síður lít ég svo á að þetta muni auka trúverðugleika lögmálsins um hagnýtingu rannsókna mjög svo  það geti í framtíðinni eflt vonarhug í brjóstum annarra höfunda ólesinna fræðiritgerða.

Heimildir:

Jón Björnsson: Alte Menschen in Island. Eine sozialgerontologische Untersuchung über die ältere Generation in Island. Freiburg in Br. 1973

Jóhannes Ingibjartsson: Akranes. Könnun á högum aldraðra. Verkfræði- og teiknistofan sf. Akranesi, maí 1971

(Jóhann Þorsteinsson): Könnun á högum Hafnfirðinga 68 ár og eldri 1969. Hafnarfirði, sept 1969

Samvinnan 2. 1974: Kjör aldraðra

Shanas, E. & Townsend, P. og Friis, H.: Old People in Three Industrial Societies. Atherton Press, N.Y. 1968

Auglýsingar

Comments are closed.