Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Ég samhryggist þér

Höfundur: Kolbrún Baldursdóttir

Að vera viðstaddur jarðarför, erfisdrykkju og hitta syrgjendur í eigin persónu skapar mörgum kvíða. Ástæðan er m.a. sú að fólk veit ekki alltaf hvað það á að segja og óttast jafnvel að missa eitthvað klaufalegt út úr sér. Íslensk tunga er að mínu mati óþjál þegar kemur að því að velja orð og setningar undir þessum viðkvæmu kringumstæðum.

Við segjum helst „Ég samhryggist þér eða ég votta þér samúð mína.“
Þessar setningar virka stirðbusalegar í munni og fyrir suma jafnvel yfirborðskenndar. Unglingum finnst þetta oft einstaklega erfitt enda hafa þau ekki öðlast langa þjálfun í samskiptum á sorgarstundum.  Þeim finnst þessar setningar oft passa sér illa og upplifa sig klaufaleg þegar kemur að því að heilsa þeim sem syrgir.

Ef fyrir dyrum er jarðarför finna krakkar þess vegna oft fyrir kvíða. Fyrir ungling að faðma syrgjandann, e.t.v. vin eða skólafélaga er ekkert endilega lausn við þessar aðstæður. Þetta er ekkert skrýtið enda krakkar ekki vanir að faðma hvert annað, sérstaklega ef þau eru af sitthvoru kyninu.

Það er mín skoðun að enskumælandi heimurinn sé betur settur hvað þetta varðar. Þeir segja einfaldlega I´m (so) sorry með tilheyrandi raddblæ og svipbrigðum. Þetta segir allt sem segja þarf á erfiðum stundum og er jafnframt þjált í munni ef svo má að orði komast.

Dæmi sem lýsir þessu mjög vel er að einn félagi minn mismælti sig þannig að hann sagði óvart við syrgjandann „til hamingju“ þegar hann ætlaði að segja  „ég samhryggist þér.“ Hann var lengi miður sín á eftir, fannst hann hafa verið einstaklega klaufalegur og að aðstandendur hins látna myndu aldrei gleyma þessu.

Að votta samúð sína á Netinu 
Vegna þess hversu íslensk tunga er í raun snauð að þessu leytinu til velja margir að tjá samkennd sína á bloggsíðu syrgjandans eða á Facebókarsíðu viðkomandi. Að tjá sig um viðkvæmt og sársaukafullt málefni með skriflegum hætti er mikið auðveldara en að standa auglitis til auglitis við þann sem á um sárt að binda. Sá sem sendir kveðjuna hefur fulla stjórn á hvernig hann leggur kveðjuna upp og þarf ekki að óttast að segja eitthvað sem honum finnst ekki hafa verið nákvæmlega það sem hann vildi sagt hafa. Með því að votta samúð á Netinu þarf hann hvorki að óttast að mismæla sig eða  finnast hann vera klaufalegur.  Skrifin getur hann yfirfarið, endurskoðað og breytt áður en hann sendir þau.  Það sem auðveldar enn frekar er að þú ert einn af fjölmörgum sem sendir samúðarkveðjur með þessum hætti. Sjá má tugi ef ekki hundruð kveðja frá kunnugum sem ókunnugum á Facebókar- eða bloggsíðum þeirra sem misst hafa ástvin.  Ekki er betur séð en samfélagið hafi aðlagast samskiptum af þessu tagi og flestum finnist þetta nú orðið bæði viðeigandi og sjálfsagt.

Auglýsingar

3 responses to “Ég samhryggist þér

 1. Fjóla Dögg Helgadóttir 4.11.2010 kl. 22:15

  Heil og sæl Kolbrún, góður punktur. Það er ákaflega merkileg stúdía hvernig samfélagið hefur umturnast við tilkomu veraldavefsins. Ég var 9 ára þegar Tim Berners-Lee birti sína hógæru grein ‘proposal’ http://info.cern.ch/Proposal.html og hvern hefði grunað hvers lags þjóðfélagsbyltingu þetta ætti eftir að valda!!!

  Annars af klaufalegri orðanotkun. Eftir að ég fattaði að ég væri ekki trúuð fyrir nokkrum árum, þá fer ég alltaf öll í kerfi þegar fólk hnerrar þar sem ég hef ekki hugmynd hvað ég á að segja. Þar sem þögn er dónaleg, og að biðja til guðs óviðeigandi, þá vantar mig bæði hugmyndir fyrir bæði ensku og íslensku.

  Óska ég hér með eftir „socially acceptable“ leið til að koma mér úr þessum vandræðalegu atvikum í lífi mínu. Einhver?

 2. Sjöfn Ágústsdóttir 7.11.2010 kl. 21:09

  Sæl Fjóla,
  Mér finnst frekar ósmekklegt að segja „Guð hjálpi þér“ þegar einhver hnerrar – því það á rætur að rekja til þess þegar fólk var að smitast af Svarta dauða til forna.
  Hvernig hljómar bara „Ég vona að þú sért ekki að kvefast/veikjast?“ Svo má náttúrlega segja ef þetta gerist í manns eigin húsum: „Ertu nokkuð með rykofnæmi? Það er líklega tímabært að taka upp afþurrkunarklútinn“ ;) (gerðist á stofunni minni nýlega)
  Kveðja, Sjöfn

 3. Fjóla Dögg Helgadóttir 9.11.2010 kl. 13:36

  Sæl Sjöfn,

  Kærar þakkir fyrir ábendingarnar. Og já í leiðinni takk fyrir síðast í Osló!
  Já, einmitt góður punktur að vera ekki að draga minningu svarta dauða upp í sífellu. Mun prófa að koma mér úr þessum aðstæðum með þessum ákaflega hjálplegu ábendingum. Ég mun láta þig vita næst þegar ég hitti þig hvernig þessi tilraun mín fer. Held það sé mjög líklegur orsakavaldur að fólk í kringum mig sé að þjást af rykofnæmi, þar sem það er gæti vel verið að ég sé með ólæknandi ofurhátt þol fyrir ryki í kringum mig (efni í aðra tilraun).

  Kærar kveðjur frá Sydney
  Viola Dew (það sem google translator kallar mig)