Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hlutverk sálfræðinga í endurhæfingu

Höfundur: Inga Hrefna Jónsdóttir

Endurhæfing

Endurhæfing miðar að því að auka færni, sjálfsbjargargetu og lífsgæði einstaklinga sem hafa skerta getu vegna slysa, veikinda eða álags. Byggt er á heildrænni sýn á heilbrigði og markmiðið er að einstaklingurinn nái aftur eins góðri andlegri, vitrænni, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er og geti viðhaldið henni (sjá nánar: www.reykjalundur.is). Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Um 150 sjúklingar eru í endurhæfingu á hverjum tíma, flestir dvelja í 4-6 vikur í senn, oftast á dagdeild. Aðgangur er að gistingu fyrir þá sem það þurfa. Oft er göngudeildarþjónusta nýtt, bæði fyrir innskrift og eftir útskrift. Sólarhringsdeild er fyrir þá sem þurfa að hafa aðgang að hjúkrun og aðhlynningu allan sólarhringinn. Lögð er áhersla á að sníða endurhæfinguna að þörfum mismunandi sjúklingahópa og á viðeigandi þjónustustigi. Endurhæfingin fer ýmist fram í hópum eða einstaklingsbundin.

Starfsemin á Reykjalundi

Starfsemin á Reykjalundi er margþætt og byggir á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem þverfagleg teymisvinna skipar stóran sess. Þær starfsstéttir sem starfa í teymunum á Reykjalundi eru félagsráðgjafar, heilsuþjálfar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar, læknar, næringarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar og aðrir starfshópar. Endurhæfing á Reykjalundi skiptist í níu meginsvið; svið atvinnulegrar endurhæfingar, geðsvið, gigtarsvið, hjartasvið, hæfingarsvið, lungnasvið, næringar- og offitusvið, taugasvið og verkjasvið. Starfsfólkið myndar teymi innan hvers endurhæfingarsviðs og má í þeim finna fulltrúa flestra faghópa sem starfa á Reykjalundi. Forsenda góðs árangurs er að skjólstæðingurinn og eftir atvikum hans nánustu séu virkir þátttakendur í öllu endurhæfingarferlinu. Í upphafi endurhæfingar fer fram nákvæmt mat og gerð er endurhæfingaráætlun sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Allir sjúklingar fá sérsniðna stundaskrá sem er yfirleitt þétt skipuð frá 8:15 -16:00 alla virka daga vikunnar. Mikil áhersla er lögð á hreyfingu og fræðslu til sjúklinga og það undirstrikað að heilbrigðir lífshættir stuðla að góðri heilsu. Dæmi um sjúklingafræðslu er geðheilsuskólinn, lungnaskólinn, verkjaskólinn, reyklaust líf og næringarfræðsla. Dæmi um almenna hreyfidagskrá er leikfimi, útigöngur, vatnsleikfimi, sund, boltatímar og spaðatímar. Einnig eru sérhæfðari hópar í sjúkraþjálfun s.s. jafnvægishópur, færnihópur og sérhæfður hópur fyrir sjúklinga með Parkinson. Dæmi um hópa í iðjuþjálfun eru handverkshópur sem nýtist m.a. til að skoða áhugamál og líkamsbeitingu við iðju, neysluhæfingarhópur, orkusparandi iðja, karlahópur, sjálfseflingarhópur, fælniþjálfun og slökun og streitustjórnunarnámskeið. Einnig fá sjúklingar eftir þörfum einstaklingsviðtöl hjá öllum faghópum, sálfræðimeðferð, einstaklingsmiðaða sjúkraþjálfun og einstaklingsmiðaða iðjuþjálfun ásamt fleiru. Boðið er upp á hugræna atferlismeðferð bæði einstaklings- og hópmeðferð, m.a. við þunglyndi, kvíða, langvinnum verkjum og offituvandamálum. Einnig hefur verið boðið upp á innsæismeðferð, bæði hóp- og einstaklingsmeðferð, en skerðing á innsæi er oft fylgifiskur vitrænnar skerðingar t.d. í kjölfar heilaskaða.

Endurhæfingarsálfræði

Endurhæfingarsálfræði (Rehabilitation Psychology) er skilgreind sem sér fræðasvið innan sálfræðinnar og er sér deild (nr. 22) í ameríska sálfræðingafélaginu (APA) þar sem áherslan er á “rannsóknir og nýtingu sálfræðilegrar þekkingar og færni í þágu einstaklinga með fatlanir og langvinn heilsuvandamál með það að markmiði að hámarka heilsu og velferð, sjálfstæði og val, færni og þátttöku í þjóðfélaginu allt lífið” (sjá nánar: www.div22.org/about_rehab.php).

Hlutverk sálfræðinga á Reykjalundi

Fyrsti sálfræðingurinn var fastráðinn að Reykjalundi árið 2000 en í dag starfa 8 sálfræðingar í 5,7 stöðugildum, þar af eru 2 stöðugildi tímabundin. Hlutverk sálfræðinga í endurhæfingunni á Reykjalundi snýr einkum að sálfræðilegu mati, sálfræðimeðferð, ráðgjöf og fræðslu. Sálfræðilegt mat felur meðal annars í sér mat á andlegri líðan, persónuleika, vitsmunaþroska, námserfiðleikum, ADHD, taugasálfræðilegum þáttum eða vitrænni getu með tilliti til styrkleika og veikleika. Einnig taka sálfræðingar þátt í teymisfundum, markmiðsfundum, fjölskyldufundum, fræðslu til vinnustaða eða skóla, sinna forviðtölum og eftirfylgd og koma að þróunarvinnu og rannsóknum. Sérfræðingur í taugasálfræði sér um taugasálfræðilegt mat. Sérfræðingar í klínískri sálfræði veita handleiðslu til annarra sálfræðinga og HAM-meðferðaraðila. Ástæður komu til sálfræðings geta verið mjög mismunandi, til dæmis tilfinningaleg vandamál svo sem þunglyndi, kvíði eða reiði, áföll eða erfiðleikar í samskiptum. Yfirleitt er um fjölkvilla að ræða og oft erfið félagsleg staða. Einbeitingarerfiðleikar, námserfiðleikar, minnistruflanir eða önnur vitræn skerðing eru einnig oft ástæður þess að beðið er um mat sálfræðings og endurhæfingu. Andleg vanlíðan sem oft er fylgifiskur langvinnra veikinda og slysa getur haft hamlandi áhrif á framgang endurhæfingar. Hjá sumum skjólstæðingum er andleg vanlíðan svo sem kvíði og þunglyndi aðalástæða þess að þeir þurfa á endurhæfingu að halda. Hjá öðrum eru sálræn einkenni afleiðingar langvinnra verkja, offituvandamála eða þeirrar aðstöðu sem þeir búa við. Hlutverk sálfræðinga í endurhæfingu er mjög mikilvægt í því ferli að styðja einstaklinginn til sjálfsbjargar og betri lífsgæða.

Auglýsingar

Comments are closed.