Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Dáleiðslan og ég

Höfundur: Hörður Þorgilsson

Einn af þeim kúrsum sem ég tók í framhaldsnámi mínu í Bandaríkjunum var um dáleiðslu. Prófessorinn sem kenndi kúrsinn hafði  m.a. verið í læri hjá einum frægasta dáleiðara þess tíma Milton Erickson. Fyrir mér voru þetta „alls ókunn fræði“ og um Erickson hafði ég aldrei heyrt talað. Hluti af kúrsinum var n.k. sýnikennsla sem var mikil upplifun. Samnemandi minn sem var frá Kansas var sett í trans m.a. með því að raula „Somewhere over the rainbow“ og öðrum nemanda og miklum efasemdarmanni var komið þannig fyrir að hann gat ekki hreyft sig úr stað. Forvitni mín var vakin.

Þegar ég kom heim var ég orðinn betur upplýstur um Milton Erickson og hans nálgun og snilligáfu. Þá var ég svo heppinn að á Kleppi þar sem ég byrjaði að vinna varð Jakob Jónasson geðlæknir  samstarfsmaður minn. Hann hafði tileinkað sér hefðbundna dáleiðslu og hafði mikla reynslu og hæfileika á þessu sviði. Þá bættist í hópinn Salbjörg Bjarnadóttir deildarstjóri, hugmyndaríkur og næmur klíniker. Við þrjú mynduðum lítill hóp þar sem við gerðum alls kyns athuganir, æfingar og tilraunir hvert á öðru. Jakob var með sýnikennslu fyrir læknanema  og byrjaði með námskeiðin sín um dáleiðslu sem margir sóttu og hafa nýtt sér við vinnu sína. Við Salbjörg sýndum sálfræðinemum fjölþætt fyrirbæri dáleiðslunnar og ég fékk fyrrnefndan prófessor, Donald Mosher,  til þess að koma til Íslands og vera með námskeið um dáleiðslu í anda Milton Erickson. Á einu námskeiðinu var ég dáleiddur af Donald og konunni hans, Susan Bond, með s.k. „double induction“  þar sem hún var með innleiðslu í vinstra eyrað en hann í það hægra. Þetta var mögnuð reynsla sem ég held að hafi haft töluverð áhrif á líf mitt. Um svipað leyti fórum við nokkur á ráðstefnu  í Bandaríkjunum um þessar nýju áherslur í dáleiðslu. Væntanlega er sá hópur orðinn nokkuð stór núna sem síðan hefur sótt ráðstefnur af svipuðum toga. Þetta voru skemmtilegir tímar.

Um samband mitt við dáleiðsluna verður að segja  það sama og um mörg sambönd. Það skiptast á skin og skúrir og hrifning sem var dofnaði. Oft á tíðum átti ég erfitt með að höndla þá dulúð sem fyrirbærið var sveipað og þær óraunhæfu væntingar sem skjólstæðingar höfðu til þess sem gera mætti.  Ég fór því að draga úr notkun þessar tækni, nota önnur orð s.s. slökun, sjónmyndir og sefjanir og eins og svo oft þegar reynslan er orðin nokkur, að nota blandaða nálgun. Þegar HAM bylgjan reið yfir með öllu sína ágæta námi ákvað ég að ég hlyti að kunna eitthvað og skyldi láta reyna á hvort það myndi ekki duga mér áfram. Þótt vel hafi gengið hef ég engu að síður fundið fyrir þeirri tilfinningu að vera ekki innvígður eða ganga ekki  í sama takti og flestir kollegar mínir. Ég hef hins vegar frá fyrstu tíð verið félagi í Dáleiðslufélagi Íslands þó ég hafi ekki verið duglegur að sækja þar fundi. Þegar ég var svo beðinn að taka við formennsku  í  dáleiðslufélaginu  s.l. haust hentaði það mér vel og ég fann að gamli neistinn var ekki alveg kulnaður.

Í D.Í. eru milli 60 og 70 félagar. Skilyrði fyrir inngöngu í félagið er háskólamenntun á vettvangi heilbrigðisfræða og vinna í meðferðargeiranum. Þjálfun sína í dáleiðslu hafa félagsmenn fengið með ýmsu móti, sumir hafa sótt kerfisbundna þjálfun  erlendis en aðrir sankað að sér reynslu og þjálfun úr ýmsum áttum. Flestir félagsmanna nota dáleiðslu að einhverju marki í störfum sínum. Félagið hefur staðið fyrir fræðslufundum fyrir félagsmenn sína þar sem algengast hefur verið að menn deili reynslu sinni og þekkingu.

Að mínu mati þarf  félagið að vinna að tveimur mikilvægum málum. Annað snýr að menntun og þjálfun þeirra sem vilja nýta sér dáleiðslu sem tækni í meðferð og hitt er að staðsetja dáleiðsluna innan hefðbundins ramma vísindalegrar nálgunar og skilnings.  Við erum að skoða með hvað hætti við getum komið á námi í dáleiðslu og horfum til þess hvernig félag um hugræna atferlismeðferð hefur farið að. Það er til eftirbreytni. Þá erum við að undirbúa það að fá hingað til lands vel þekktan kennismið í dáleiðslu. Sá var reyndar líka prófessor við sálfræðideildina mína vestur í Bandaríkjunum og heitir Irving Kirsh. Svo heppilega vill til að þessi sami einstaklingur hefur vakið mikla athygli fyrir rannsóknir sínar og gagnrýni á þunglyndislyf og munum við reyna að nýta þá frægð líka. Meira um það seinna. Fleiri verkefni eru í farvatninu og ég er bjartsýnn á að samband mitt við dáleiðsluna eigi eftir að blómstra og að dáleiðslan eigi eftir að höfða til fleiri sálfræðinga.

Auglýsingar

2 responses to “Dáleiðslan og ég

  1. Elín Elísabet Halldórsdóttir 7.4.2010 kl. 11:04

    Áhugaverður pistill og mun ég fylgjast með framavindunni.

    Það er komin tími á að sálfræðingar veiti vitundarstigum manneskjunnar meiri athygli en verið hefur.

    Kveðja Elín Elísabet

  2. Hafrún 9.4.2010 kl. 14:41

    Hver er árangur dáleiðslu í meðferð? Ég hef farið í gegnum aragrúa af greinum en ekki enn rekist á metaanalysu þar sem visbending er um markverðan árangur af dáleiðslu í meðferð tilfinningaraskana. Geri ráð fyrir að þið í félaginu hafið einhverja hugmynd og kannski aðalega solid rannsóknarniðurstöður um hvernig dáleiðsla hefur reynst. Væri gaman að fá smá overview um það.