Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Greinin sem engin nennir að lesa? Neytendavernd í heilbrigðisþjónustu – löggilding starfsleyfa og réttur neytenda

Höfundur: Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir

Það eru ákveðin málefni sem höfða til fárra og þykja almennt frekar leiðinleg. Sennilega teljast starfsleyfi og löggildingar til þeirra málefna – engu að síður eru þau mikilvæg og ég hvet þig til að lesa þennan greinarstúf til enda, fyrst þú hefur hafið lesturinn!

Í fjölmiðlum er oft umfjöllun um eða kynning á ýmsum úrræðum sem ætlað er að bæta geðheilbrigði eða færni fólks á ákveðnum sviðum. Slík úrræði geta að sjálfsögðu verið allt frá því að vera mjög gagnleg, gagnslaus eða í versta falli beinlínis skaðleg.

Í slíkri umfjöllun er yfirleitt fyrst og fremst einblínt á innihald úrræðanna en minna á bakgrunn þeirra sem úrræðin veita. Það er mjög miður þar sem bakgrunnur fólks kann að skipta sköpum í tengslum við þá þjónustu sem um ræðir. Löggilding heilbrigðisstarfsstétta er oft fyrst og fremst talin þjóna hagsmunum fagstéttanna sjálfra og tryggir þeim vissulega ákveðin rétt. Hitt er hins vegar ekki síður mikilvægt að löggilding setur stéttunum skýrar kröfur og skorður í starfi sínu, sem einmitt miða að því að tryggja rétt þeirra sem þjónustu þeirra nota. Löggilding starfsleyfa ber það með sér að um viðkomandi stétt gilda ákveðin lög, líkt og lög nr. 40 frá 1976 um sálfræðinga. Í lögum um heilbrigðisstéttir er meðal annars tilgreint hvaða lágmarkskröfur varðandi menntun og starfsreynslu viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður þarf að uppfylla til að geta starfað sem slíkur. Samhliða tryggja lögin skjólstæðingum leiðir til umkvartana vegna þjónustu viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna og tilgreina hvaða aðili hefur eftirlitshlutverk gagnvart þeim. Í gildandi lögum um sálfræðinga, svo og aðrar heilbrigðisstéttir er hvort tveggja á hendi Landlæknisembættisins. Þessu til viðbótar hafa flestar ef ekki allar heilbrigðisstéttir samþykkt eigin siðareglur sem ætlað er að styðja og leiðbeina fagfólkinu í starfi sínu. Einungis þeir sem hafa fengið leyfi Landlæknis til að kalla sig sálfræðinga, samkvæmt lögum nr. 40/1976, mega starfa sem sálfræðingar og eins og má sjá af ofangreindu er réttur neytendans ágætlega tryggður hvað varðar þjónustu þeirra.

Löggiltum heilbrigðisstéttum eru í gildandi lögum settar mjög þröngar skorður varðandi auglýsingar á starfsemi sinni, þar sem þeim er í raun einungis heimilt að auglýsa opnun starfsstofa sinna og flutning þeirra. Af því leiðir að almenningur á mun greiðari aðgang að upplýsingum um þjónustu þeirra sem ekki hafa löggilt starfsleyfi.

Ég hvet þig til að kynna þér bakgrunn þeirra sem þú hyggst nýta þér þjónustu hjá. Ef í ljós kemur að starfsfólk hefur ekki löggilt starfsleyfi má reikna með að réttur þinn sem neytenda sé mjög fyrir borð borinn.

Auglýsingar

2 responses to “Greinin sem engin nennir að lesa? Neytendavernd í heilbrigðisþjónustu – löggilding starfsleyfa og réttur neytenda

  1. Fjóla Dögg Helgadóttir 24.2.2010 kl. 21:53

    Góður titill Halla! Gabbaði mig til að lesa áfram þennan hnitmiðaða pistil! Um að gera að koma þessu mikilvæga skilaboði áfram! Bestu kveðjur Fjóla

  2. Elín Hjaltadóttirr 23.3.2010 kl. 16:55

    Mér fannst þetta góð og nauðsynleg grein og hún var mjög hjálpsöm fyrir ættingja minn sem vildi vita hvort sálfræðingur nokkur sem var með ættingja hennar í meðferð hefði starfsleyfi, sem svo ekki var. Takk