Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Úrvinnsla eineltismála í skólum

Höfundur: Kolbrún Baldursdóttir

Líkt og foreldrum ber að tryggja öryggi barna sinna inni á heimilinu, ber skólanum að tryggja öryggi þeirra á skólatíma. Ég tel að fleiri skólar en færri sinni þessari skyldu með sóma. Með reglulegu millibili berast þó tíðindi af því að barn hafi orðið fyrir alvarlegu einelti án þess að skólinn hafi getað stöðvað og unnið úr málinu með þeim hætti að viðunandi teljist fyrir þolanda.

Ekki þarf að fjölyrða um að einelti sem viðgengst um langan tíma er víst til að skilja eftir sálarrústir, jafnvel eyðileggingu til lífstíðar.

Telja má fullvíst að flestir skólar landsins fylgja eineltisáætlun eða hafa tiltæka viðbragðsáætlun komi mál af þessu tagi upp. Grunsemdir eru þó um að skólar séu afar misbúnir og jafnvel mishæfir til að takast á við erfið og þrálát eineltismál. Ástæður þessa má vafalaust rekja til ýmissa þátta í innviðum þeirra s.s. stjórnunarhátta, stefnu/stefnuleysis eða þeirri sérstöku menningu sem hver og einn skóli býr yfir.

Sumir skólar hafa lagt mikla vinnu í að útfæra eineltisáætlanir sínar og slípa þær til í hvert sinn sem ný reynsla lærist við vinnslu mála. Aðrir skólar kunna að veifa  þaulrannsökuðum og vel útfærðum eineltisáætlunum en eru ekki endilega að vinna samkvæmt þeim þegar á hólminn er komið.  Í raun má segja að engin heildstæð mynd sé af því hvaða skólar séu framarlega í faglegri vinnslu þessara mála og hvernig vinnuferli er háttað frá því að mál kemur upp og þar til það hefur verið leitt til lykta.

Viðbragðsferlið
Ef skóli vill vera skipulagður í úrvinnslu eineltismála er fyrsta skrefið að hafa haldbært þar til gert eyðublað sem hægt er að fylla út vilji einstaklingur (kennari, barn/foreldri) tilkynna um einelti.  Eyðublaðið er kynnt foreldrum í upphafi skólaárs og það látið liggja þar sem auðvelt er að nálgast það. Á eyðublaðið eru eftirfarandi atriði skráð: hver sé tilkynnandi, tengsl hans við þolanda, hver sé meintur gerandi ef það liggur ljóst fyrir, hverjir aðrir viti um málið, hvar eineltið hafi átt sér stað, hversu lengi það hefur staðið yfir og í hverju það sé fólgið.  Mikilvægt er að sá sem skrásetur upplýsingarnar fái þær staðfestar af þolanda og foreldrum hans séu skrásetjarar aðrir en þeir. Eyðublaðinu er því næst komið til skólayfirvalda, umsjónarkennara eða námsráðgjafa. 

Tilkynning um einelti á þar til gerðu eyðublaði markar upphaf vinnuferlis sem þverfaglegum hópi skólans er oftast falið að vinna eftir. Telja má eðlilegt að í hópnum séu bæði námsráðgjafi og skólasálfræðingur auk deildarstjóra og eða aðila úr hópi skólastjórnenda. Fyrsta verk teymisins er að afla nægjanlegra upplýsinga svo hægt sé að stöðva eineltið reynist það vera. Kanna þarf síðan málið með ítarlegum hætti. Slík könnun felur fyrst og fremst í sér viðræður við alla aðila sem að málinu koma, kennara barnanna og jafnvel annað starfsfólk skólans.  Forráðamenn þess barn (barna) sem nefnt eru í tilkynningunni eru upplýstir um innihald hennar, rætt er við þá um efni hennar og leyfi þeirra fengið til að ræða við barnið.  Foreldrar eru velkomnir að vera viðstaddir þegar rætt er við barn þeirra, óski þeir þess. Þegar aflað hefur verið upplýsinga og málið þar með skýrst enn frekar eru aðilar upplýstir um niðurstöðurnar og hvernig heildarmyndin lítur út.  Þegar hér er komið í ferlinu liggur oftast fyrir hvers eðlis málið er, hvort hægt sé að nálgast lausn með einföldum hætti eða hvort málið sé af alvarlegri toga og þarfnist þar af leiðandi áframhaldandi vinnslu.

Könnunarferlið eitt og sér getur leitt til þess að málalyktir verði. Gerandinn kann að sjá það í hendi sér að hann hafi gengið of langt og vilji þess vegna bæta hegðun sína enda hafi það ekki verið meining hans að særa eða meiða með atferli sínu. Í öðrum tilvikum getur könnun leitt í ljós að tilkynningin eigi ekki stoð í veruleikanum eða að í ljós komi að einhvers misskilnings hafi gætt milli barnanna sem um ræðir. Sé eitthvað af ofangreindu raunin er oft hægt að leysa málið fljótt með stuttum viðtölum við aðila.  Á þessu stigi í ferlinu leggur teymið og foreldrar mat á hvort úrlausn liggi fyrir eða hvort talin sé þörf á að vinna málið áfram sem eineltismál.

Hafi eineltisárásir viðgengist í langan tíma eru afleiðingarnar oftast alvarlegar. Í þeim tilvikum er ljóst að halda þarf áfram með viðtöl og fundi með aðilum. Aðalatriðið er að leggja ekki óleyst mál til hliðar enda þótt víst þyki að eineltið sjálft hafi stöðvast.  Mál sem þessi þarfnast stífrar eftirfylgni um nokkurn tíma eftir að það kemst upp á yfirborðið. Marga óleysta hnúta þarf iðulega að hnýta áður en tímabært er að loka málinu. Andleg líðan barnanna hvort heldur þolanda eða geranda er oft í miklu uppnámi í málum sem þessum. Sá sem er þolandi glímir við að endurnýja sjálfsmynd sína og finna viðunandi öryggi í umhverfi sínu. Ekki er ósennilegt að gerandi glími við sektarkennd og hjálpa þarf honum að milda neikvæðar tilfinningar sem e.t.v. voru hvati löngunar hans að særa og meiða annan einstakling. Foreldrar þessara barna þarfnast einnig aðhlynningar. Mörgum er verulega brugðið þegar upp kemst um eineltið og þá ekki hvað síst foreldrum þeirra barna sem sökuð eru um að leggja annað barn í einelti.

Ljóst er að eineltismál koma reglulega upp í skólum landsins. Ef ekki er tekið strax í taumana með faglegum hætti ná sum þeirra að skjóta rótum og festa sig í sessi til langs tíma.  Því lengur sem einelti viðgengst því erfiðara getur reynst að stöðva það endanlega. Það er ekki fyrr en búið er að stöðva ofbeldið sem síðan er hægt að vinna úr afleiðingunum svo vel sé. Því fyrr sem tekst að stöðva eineltið því meiri líkur eru á að hægt sé að hjálpa þolandanum að ná aftur fyrri sjálfsstyrk og öryggi og gerandanum að vinna úr neikvæðri líðan.

Öll börn eiga rétt á því að líða vel í skólanum. Skólinn og foreldrarnir eru ábyrgir fyrir því að svo geti verið. Samvinna og samráð þeirra er nauðsynlegt ef takast á að gera umhverfi barnsins barnvænt og vinsamlegt. Ef gripið er til varnarviðbragða eða afneitunar,  hindrar það nauðsynlega samvinnu og samráð. Dæmi eru um að skólayfirvöld hafni því að eineltistilvik eigi sér stað í skólanum og einnig eru dæmi um að foreldrar meintra gerenda hafni því að börn þeirra geti mögulega átt þátt í slíku athæfi. Með því að neita að skoða málið með opnum huga þótt um erfiðar ásakanir séu að ræða er verið að taka mikla áhættu og tefla þar með andlegri velferð barnanna sem um ræðir í tvísýnu.

Auglýsingar

Comments are closed.