Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Er Maístjarnan lag ársins?

Höfundur: Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir

Það eru erfiðir tímar og atvinnuþref, enginn fer varhluta af því. Stöðugur niðurskurður á vinnumarkaði hefur valdið launalækkun hjá mörgum og kaupmáttarrýrnun og minnkandi ráðstöfunartekjur fara sjálfsagt ekki framhjá neinum. Ríkisstjórnin leggur á það áherslu, bæði í orði og á borði, að standa vörð um hag þeirra tekjulægstu og ekki að ástæðulausu, þeim fjölgar stöðugt sem þurfa að leita á náðir hjálparstofnana til að hafa í sig og á. Það er auðvitað ekki hægt annað en að taka undir með ríkisstjórninni hvað þetta varðar, auðvitað verður að huga sérstaklega að hag þessa hóps. Staðan er grafalvarleg og sama gildir um vaxandi atvinnuleysi og fleira mætti telja. Samúð mín er alger með þessum málstað.

Samhliða þessu vex uggur í brjósti mér og hann er heldur ekki án ástæðu. Starfandi fyrir Sálfræðingafélagið, innan vébanda BHM, verður ekki hjá því komist að sjá hvernig hagur háskólamanna, dæmigerðs millitekjuhóps, verður sífellt rýrari, án þess að nokkur fái rönd við reist eða hreyfi miklum mótbárum.

Ég hef áhyggjur af því sem mér hefur þótt einkenna umræðuna undanfarið, að svo lengi sem fólk hefur vinnu og er ekki við hungurmörk sé ekki ástæða til að kvarta. Staða þeirra sem verst eru staddir batnar ekki við það að kjör annarra nálgist þeirra kjör. Staðreyndin er sú að munurinn á til dæmis kjörum ófaglærðra við umönnunarstörf og háskólamenntaðra minnkar stöðugt. Sálfræðingar eru ekki í allra neðstu rimum launastigans en ekki langt frá því. Síðustu kjarasamningar hafa allir miðað að því að þjappa kerfinu enn meira saman, þannig að munurinn minnkar stöðugt. Kannski styttist í að ríkistaxtinn verði gefinn út, vonandi svo rúmur að allir skrimti! Auðvitað má grínast með þetta en þetta er hins vegar alvarlegt mál.

Málflutningur þar sem reynt er að standa vörð um hag millitekjuhópa, hefur ekki mikla samúð í dag. Sá málflutningur verður hins vegar að mínu mati að heyrast og hann verður að slíta frá umræðu um skert lífskjör allra verst settu hópanna í landinu. Það vofir yfir að Ísland verði láglaunasvæði sem engan veginn er samkeppnishæft við löndin í kringum okkur (og kannski er sú staða uppi á teningnum nú þegar). Landið verður hins vegar að vera samkeppnishæft ef uppbygging nýs Íslands á að takast, láglaunasvæði verða seint eftirsóknarverð til búsetu!

Ríkisstjórnin vill leggja grunn að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og betra samfélagi, samfélagi sem mun skipa sér í fremstu röð í verðmætasköpun, velmegun, velferð og sönnum lífgæðum.

Ef það á að takast er ljóst að fólkið verður að vera til staðar, vel menntað fólk sem er tilbúið til að axla ábyrgð og leggjast á árar. Sálfræðingar eru, líkt og margir háskólamenn, með langa menntun sem gerir þeim kleift að axla mikla ábyrgð í erfiðum málum þar sem reynir mjög á fagmennsku og sjálfstæði í starfi. Sú staðreynd endurspeglast ekki í grunnlaunaröðun og enn síður í heildarlaunum sálfræðinga hjá hinu opinbera, þar sem enn virðist ríkja það viðhorf að sumar stéttir séu á samkeppnismarkaði og þurfi því að fá svo og svo há laun en aðrir, sem sinna lögbundinni þjónustu ríkis og sveitarfélaga séu það alls ekki og megi því sætta sig við svo og svo mikið lægri laun. Hvaðan kom þetta viðhorf og hver ákvað að ábyrgð á peningum og steypu væri svo miklu meira virði en ábyrgð á lífi og líðan lifandi fólks? Hver treystir sér til þess að segja með vissu að helsta verðmætasköpunin og mesta ábyrgðin liggi í sýsli með peninga og lagatexta? Getur verið að á nýju Íslandi þurfi, í takt við ný gildi, að breyta verðmætamati og endurskoða þessi viðhorf sem hafa ríkt óralengi?

Við verðum að meta menntun til launa – við verðum líka að meta fagmennsku, ábyrgð og frumkvæði í starfi. Við eigum ekki að skammast okkar fyrir að fara fram á sanngjörn laun fyrir sérhæfða vinnu, ekki heldur þó aðrir hafi það slæmt. Það vandamál verður að leysa á öðrum vígstöðvum en í launasetningu sérfræðinga hjá hinu opinbera. Ég get ómögulega sætt mig við eilífa kjarajöfnun niður á við, það er hvorki eðlilegt að upphæðir félagslegra bóta eða lægstu launa ófaglærðra stjórni launastigi í landinu.

Við þurfum að vinna að viðhorfsbreytingu – þora að horfast í augu við breytingar á skipulagi og kerfum en jafnframt þora að fara fram á umbun við hæfi. Það eru verðmæti falin í þjónustu við fólk!

Auglýsingar

Comments are closed.