Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hvað er ofsakvíði?

Höfundur: Helena Jónsdóttir, Cand. Psych. nemi í sálfræði og starfsmaður á Kvíðameðferðarstöðinni

Við þekkjum það  öll að geta orðið felmtri slegin eða jafnvel frávita af hræðslu þegar við teljum okkur í verulegri hættu stödd. Við slíkar aðstæður er hræðsla eðlileg og tengist sýnilegri ástæðu. Þegar við skynjum hættu, raunverulega eða ímyndaða, bregst líkami okkar ósjálfrátt við. Boð um hættu berast heilanum sem ræsir svokallað ótta-flótta viðbragð. Hraðar og ósjálfráðar breytingar verða um leið á líkamsstarfsemi. Hjartað slær örar, öndun verður hraðari, vöðvar spennast og við svitnum um leið og það hægist á meltingu og framleiðslu á munnvatni. Um leið sér líkaminn til þess að athygli okkar beinist að mögulegri ógn og sjón okkar skerpist. Líkaminn býr sig undir að verjast ógninni með því að flýja af hólmi eða berjast.  Hræðsluviðbrögð eru eðlileg og hluti af eðlisávísun manna og annarra dýra. Í raun hafa hræðsluviðbrögð stuðlað að afkomu mannsins og eru mjög hjálpleg í tilteknum aðstæðum.
Það sem skilur ofsakvíðakast frá venjulegri hræðslu er að tilfinningin hellist skyndilega yfir fólk, kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti án sýnilegrar ástæðu og nær hámarki innan 10 mínútna. Þar sem þær breytingar sem fram koma á líkamsstarfsemi eru snarpar og sterkar geta þær valdið ofsafengnum ótta. Algengt er að fólk telji sig vera að deyja, fá hjartaáfall, kafna eða missa vitið. Fjórðungur þeirra sem fær ofsakvíðakast í fyrsta skipti endar á þvi að hringja á sjúkrabíl og er fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Greining ofsakvíða og afleiðingar

Talið er að um 35% fólks fái stakt ofsakvíðakast einhvern tíma á ævinni en á bilinu 2%-6% þróa með sér ofsakvíðaröskun, einnig kallað feltmtursröskun. Ofsakvíðaröskun er greind þegar fólk fær ítrekuð og óvænt ofsakvíðaköst og hefur í mánuð eða lengur óttast mjög að fá fleiri köst, óttast afleiðingarnar sem köstin kunni að hafa og vandinn er farinn að há fólki verulega.

Oft hræðist fólk aðstæður eða staði þar sem kvíðakast hefur orðið og forðast þær í lengstu lög. Þá er talað um að víðáttufælni hafi þróast en slík fælni getur sett miklar og margvíslegar hömlur á líf fólks. Margir halda sig á „öruggu svæði“ sem kann að vera bundið við heimilið eða nánasta umhverfi. Sumir þora ekki út úr húsi án fylgdar.

Einnig er algengt að þeir sem þjást af ofsakvíða telji sig vera lífshættulega veika. Fólk leitar jafnvel ítrekað að skýringum án árangurs. Sem er miður því ofsakvíða er fremur einfalt að greina og meðhöndla fyrir þann sem hefur þekkingu á vandanum.

Óttinn við  óttann

Í ofsakvíða á sér stað samspil kvíðaeinkenna og rangtúlkunar á þeim. Kvíðaeinkenni, eins og hjartsláttur, eru túlkuð til marks um að eitthvað alvarlegt sé að gerast (t.d. hjartaáfall) sem síðan eykur enn á óttann og þar með kvíðaeinkennin, sem í kjölfarið eru túlkuð á enn verri veg (t.d. að um alvarlegt hjartaáfall sé að ræða sem leitt gæti til dauða).

Þegar fólk hefur einu sinni fengið ofsakvíðakast fer það oft að fylgjast náið með breytingum á starfsemi líkamans. Við það að hlusta eftir slíkum breytingum, sem eilíflega og eðlilega eiga sér stað i líkamanum, fer fólk að taka betur eftir þeim og túlka á versta veg, sem getur hrint af stað kvíðakasti.

Til að afstýra því að það gerist, sem fólk óttast í kvíðaköstum, grípur fólk til öryggisráðstafana. Algengt er að fólk forðist þá staði sem kvíðaköst hafi komið á eða geri eitthvað til þess að draga úr kvíða eða þola við, eins og að setjast niður, ná stjórn á öndun eða taka inn kvíðastillandi lyf. Þessi viðbrögð draga úr kvíða til skamms tíma en viðhalda því miður gjarnan þeirri hugmynd að raunveruleg hætta sé á ferð. Þau koma í raun í veg fyrir að fólk komist að því hvort að það sem það hræðist mest í kvíðakasti (t.d. að það líði yfir það) rætist.

Leiðbeiningar um meðferð

Fyrir þann sem þjáist af ofsakvíða er mikilvægt að vita að rétt meðferð getur skilað umtalsverðum árangri. Raunar er það svo að ofsakvíði er sú kvíðaröskun sem hvað einfaldast er að meðhöndla, sérstaklega ef gripið er nógu snemma inn í. Stofnun á vegum bresku heilbrigðisþjónustunnar (NICE, National Institute for Clinical Excellence; www.nice.org.uk) hefur sett fram klínískar leiðbeiningar um hvernig haga skuli meðferð við ýmsum kvillum. Leiðbeiningar þessar eru byggðar á ítarlegum rannsóknum á árangri af ólíkum tegundum meðferðar.

Lyfjameðferð  með svokölluðum SSRI lyfjum getur dregið úr alvarleika og tíðni kvíðakasta  en það geta liðið nokkrar vikur þar til þau fara að virka ásamt því sem lyfjum geta fylgt aukaverkanir. Þeir sem greinast með ofsakvíða fá oft svokölluð benzodiazepines lyf en rannsóknir hafa sýnt að langtímaárangur af notkun slíkra lyfja er ekki góður og raunar er ekki mælt með slíkum lyfjum við meðhöndlun ofsakvíða.

Í klínískum leiðbeiningum NICE er mælt með því að hugræn atferlismeðferð sé notuð sem fyrsta íhlutun við ofsakvíða, áður en lyfjameðferð er reynd. Hugræn atferlismeðferð hefur hlotið mikla athygli á undanförnum árum og hefur sýnt hvað bestan árangur við meðhöndlun kvíðaraskana ýmiskonar. Samkvæmt hugrænu líkani af ofsakvíða, á hugarfar fólks, athygli og öryggisráðstafanir þátt í að viðhalda vandanum.

Hugræn atferlismeðferð við ofsakvíða

Hugræn atferlismeðferð  við ofsakvíða er tvíþætt. Annars vegar er leitast við að breyta því hugarfari sem stuðlar að og viðheldur einkennum ofsakvíða. Hins vegar er leitast við að breyta þeirri hegðun sem viðheldur ofsakvíðaköstum, gjarnan með því að reyna að rjúfa þá vítahringi sem viðhalda vandanum. Meðferð getur farið fram í einstaklingsviðtölum eða í hópum og mælt er með því að fólk verji á bilinu einni til þremur klukkustundum á viku með meðferðaraðila auk þess sem á milli tíma eru settar fyrir ýmsar æfingar.

Kvíðameðferðarstöðin stendur reglulega fyrir námskeiðum við ofsakvíða. Um er að  ræða 6 vikna námskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Næsta námskeið hefst í byrjun febrúar. Einnig er boðið upp á einstaklingsviðtöl til meðhöndlunar á ofsakvíða. Til þess að nálgast frekari upplýsingar eða skrá sig má hafa samband við Kvíðameðferðarstöðina í síma 534-0110/822-0043 eða með tölvupósti á kms@kms.is.

Auglýsingar

Comments are closed.