Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Baráttan um brauðið

Höfundur: Jón Sigurður Karlsson

Milli starfa eða milli vonar og ótta? Margar rannsóknir hafa verið gerðar til þess að kanna áhrif atvinnuleysis á líðan og geðheilsu. Rannsóknir af þessu tagi þekkjast allt aftur til kreppunnar 1930-1940. Margar rannsóknir sýna aukna tíðni þunglyndiseinkenna, allt að fjórfalda meðal atvinnulausra borið saman við fólk í vinnu. Það er ekki þar með sagt að þunglyndiseinkenni jafngildi marktæku klinisku þunglyndi. Atvinnumissir setur oft af stað atburðarás sem eykur líkur á vanlíðan svipað og við ástvinamissi og ástarsorg. Sum af einkennunum eru svipuð í og í sorgarferli. Munurinn er sá að besta meðalið við atvinnuleysi er ný vinna við hæfi, en horfnir ástvinir koma ekki aftur. Margir þættir hafa áhrif á líðan í atvinnuleysi þar á meðal hvort þetta ástand er eins og sameiginlegt skipbrot margra í viðmiðunarhópi manns eða hvort þetta kemur fyrir fáa. Í seinna tilfellinu er meiri hætta á við vanlíðan og tilfinningu að vera utanveltu í samfélaginu.

Reynsla margra sýnir að það geta skipst á tímabil með bjartsýni og svartsýni í atvinnuleitinni. Starfaauglýsingar geta vakið bjartsýni og margir sækja um, sumir bíða milli vonar og ótta sem getur breytst í vonleysi og depurð eftir því sem lengra líður, en fyllast aftur bjartsýni þegar þeim er boðið í starfsviðtal. Ef viðtalið leiðir ekki til starfs getur svartsýnin aukist aftur, tilfinningarnar fara upp og niður eins og í rússibana. Sveiflur í væntingum og líðan eru hluti af baráttunni. Líklega er það versta við atvinnuleitina þegar atvinnurekendur svara ekki umsóknum og umsækjandinn heldur að það sé eitthvað að sér. Ef við lítum á hina hliðina getur vel verið að atvinnurekandinn viti ekki hvort hann er að koma eða fara, er ekki viss um að geta haldið áfram rekstri, getur jafnvel verið örvæntingarfyllri en umsækjandinn.

Vinna við hæfi?
Þegar leitin að vinnu við hæfi, í samræmi við menntun og fyrri störf, dregst á langinn er hætt við að einhverjir gefist upp. Eftir því sem tíminn líður frá atvinnumissi er meiri hætta á þunglyndiseinkennum. Með tímanum laga menn sig að ástandinu, reyna að lifa af atvinnuleysisbótum og sparifé, gera jafnvel minni kröfur um lífsgæði. Þegar atvinnuleysi verður langvinnt reynir á úthaldið, þá gildir máltækið “með seiglunni hefst það”. Að einhverju leyti fara menn að setja markið lægra í atvinnuleitinni hvað varðar laun og eðli starfs en því er m.a. lýst í amerískum kennslubókum í hagfræði.

Þróun á vinnumarkaði hér á landi a.m.k. fram að hruni hefur frekar verið í þá átt að atvinnurekendur greiða fyrir færni frekar en próf. Hugsanlega eru gerðar meiri kröfur um próf núna en ekki víst að það sé vilji til að borga meira fyrir próf. Vilja atvinnurekendur ráða “topp-fólk” á lágmarkslaunum? Svarið er líklega já frekar en nei. Prófin tryggja ekki endilega starf, en að án prófs eru möguleikarnir enn minni. Prófskírteinin geta þannig orðið nauðsynleg skilyrði fyrir vinnu en ekki nægjanleg.

Vinna við hæfi getur verið afstæð. Í flestum tilvikum vill fólk vinna við það sem það hefur lært. Fæstir vilja taka niður fyrir sig, félagslega eða í launum. Í kreppum getur verið að fleiri hálaunastörf tapist en láglaunastörf, sem þýðir að margir hámenntaðir fá ekki vinnu við hæfi. Hvað er þá til ráða? Í einhverjum tilvikum geta menn snúið sér að nýsköpun og sprotafyrirtækjum, búið til sinn eigin atvinnurekstur. Í öðrum tilvikum þurfa menn að bíta í það súra epli að fá ekki vinnu við hæfi, en geta fengið vinnu sem krefst minni menntunar. Þriðji möguleikinn er að bæta við sig enn meiri menntun.

Erlendar rannsóknir á líðan “hálaunamanna” sem fara í láglaunastörf eftir atvinnuleysi gefa til kynna um það bil helmingslíkur á sæmilegri líðan. Láglaunastarf er líklega skárra en ekkert a.m.k. ef við erum bjartsýn. Að hvaða leyti þetta getur átt við hér á landi er erfitt að fullyrða. Það er varla góð tilfinning að vinna störf sem okkur finnst ekki hæfa menntun og reynslu, sérstaklega ef við skömmumst okkar fyrir það. Við getum líka staldrað við og skorað skömmina á hólm og sagt að það sé merki um aðlögunarhæfni að stunda hvers konar vinnu sem býðst, jafnvel þótt hún sé ekki hátt í virðingarstiganum.

Sveigjanleiki og fjölhæfni
Hvort er betra að vera atvinnulaus eða í starfi sem reynir ekki á þekkingu okkar með laun langt undir væntingum. Hugsanlega eru þetta störf sem við höfum unnið á unglingsárum en ekki litið við síðan? Hvernig mundu atvinnurekendur líta á umsókn frá aðila með háskólapróf og þriggja ára reynslu af umönnunarstörfum? Líklega er það einstaklingsbundið. Annars vegar geta atvinnurekendur talið það jákvætt að fræðingurinn hafi drifið sig í umönnunarstörf eða verkamannavinnu frekar en að sitja aðgerðarlaus. Þetta getur átt við þegar atvinnurekandi hefur auglýst eftir aðila með háskólamenntun. Ef atvinnurekandinn er að sækjast eftir fólki án sérstakrar menntunar er hugsanlegt háskólamenntun “þvælist” fyrir? Atvinnurekendur geta haft “fordóma” eins og aðir, geta t.d. haldið að háskólamenntaðir hafi háar hugmyndir um eigið ágæti og ætlist til að fá laun í samræmi við menntun. Það er líka mögulegt að atvinnurekendur telji að sá háskólamenntaði sætti sig við starf og laun í bili en stökkvi á annað og betra starf við fyrsta tækifæri. Þar af leiðandi getur atvinnurekandinn verið í vafa með að ráða háskólamenntaðan aðila í starf sem ekki krefst menntunar. Sveigjanleiki af beggja hálfu er líklega besta ráðið. Það getur verið að lítil fyrirtæki þurfi starfsmenn sem geta unnið margs konar störf geti unnið jöfnum höndum einföld störf og flókin og þurfi að sjá út nýjar leiðir til að vinna verkin. Út frá þessu sjónarmiði er enginn of hæfur til að vinna og menntunin getur komið að góðu gagni við uppbyggingu fyrirtækisins til framtíðar. Það er styrkleiki að vera fjölhæfur og sveigjanlegur.

Hvaða meðferð virkar?
Eins og áður er getið er ný vinna við hæfi yfirleitt besta meðalið við atvinnuleysi og meðfylgjandi hugarangri, enda þótt hugsanlegt áfall og þrautaganga kunni að skilja eftir sár. Það næstbesta er nám við hæfi, bæði sem leið til betri atvinnutækifæra og sem lifsfylling.

Sálfræðileg meðferð getur verið besta leiðin til þess að draga úr vanlíðan og grípa inn í vítahring kvíða, óvirkni og þunglyndis. Hugræn atferlismeðferð hefur verið notuð í þessu skyni ásamt öðrum aðferðum. Nýleg rannsókn1 á svörun við lyfjameðferð eða hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi leiddi í ljós nokkurn veginn jafngóða útkomu þegar á heildina var litið. Það var greint eftir því hvort mótlæti s.s. atvinnuleysi hefði sett af stað atburðarás sem endaði í þunglyndi. Þar var skýr munur: HAM virkaði mun betur. Lyfjameðferðin virkaði betur þegar mótlæti var ekki til staðar eða ekki eins áberandi í aðdraganda þunglyndisins. Þegar hægt er að rekja orsakasamhengi til atvinnumissis er eðlilegt að taka á þeim hugsanaferlum sem fara af stað sem og hegðunarmynstri. Einstaklingurinn þarf að finna að það sem hann gerir færir hann nær markinu, vinnu eða námi.

Hvaða meðferðarþættir virka mest?
Hvað er mikilvægasti þátturinn í meðferðinni? Miðað við reynslu úr vinnumálakerfinu lítur út fyrir að mesta vandamálið sé oft vítahringur vaxandi óvirkni sem tengist því að daglegar venjur, svefn o.fl. fer úr skorðum. Sá þáttur meðferðarinnar sem snýst um að virkja einstaklinginn, behavioural activation eða „hegðunarvirkjun“ er líklega mikilvægastur ásamt því að taka á úrtöluhugsunum og frestunartilhneigingum. Það þarf líka að virkja styrkleika, seiglu og jákvæðar tilfinningar.

Kerfi og þjóðfélag 
Í vaxandi atvinnuleysi verður meira álag á velferðarkerfið en reynslan frá Finnlandi gefur til kynna að það geti haft slæmar afleiðingar að draga úr velferð við þessar aðstæður. Hér á landi hefur atvinnuleysistryggingakerfið og ráðgjöf við atvinnuleitendur verið efld. Það er því miður ekki hægt að segja það sama um þjónustu sveitarfélaga eða heilbrigðiskerfið. Eigum við að vona að aukin samheldni og breytt viðhorf hjálpi okkur út úr ógöngunum? Lífsýn sem byggir á minni efnishyggju og meiri samheldni getur verið hluti af svarinu.

1) Fournier, J. C., DeRubeis, R. J., Shelton, R. C., Hollon, S. D., Amsterdam, J. D., & Gallop, R. (2009). Prediction of Response to Medication and Cognitive Therapy in the Treatment of Moderate to Severe Depression. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 77. 775-787.

Auglýsingar

One response to “Baráttan um brauðið

  1. Hugrún Jóhannesdóttir 28.1.2010 kl. 16:03

    Fín grein og gagnleg, bæði fyrir þá sem eru án vinnu og einnig þá sem vinna með fólk í þeirri stöðu.