Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Fyrirgefning og yfirbót

Höfundur: Jón Björnsson

Undanfarið hefur verið meiri eftirspurn eftir fyrirgefningarbeiðnum, iðrun og yfirbót hérlendis en lengi áður. Almenningi sem tapaði fé og sjálfsvirðingu finnst hann eiga þetta inni hjá meintum fjárglæframönnum, til viðbótar öðrum refsingum sem ætti að dæma þá til.

Endranær erum við sjaldnast að sífra um að brotamenn iðrist og sættum okkur við hugtök réttarkerfisins:
 afbrot> rannsókn> málaferli> dómur>refsing/(betrun?),
en þessi hugtök eru mestanpart útvortis, þau lýsa ákveðnum verkferlum í samfélaginu og eru utanvið svonefnt sálarlíf.

Iðrunarhugtakið sprettur upp úr allt öðru kerfi:
synd> sektarkennd/iðrun> játning> yfirbót> fyrirgefning> sáluhjálp,
en þessi hugtök eru tvímælalaust innanvert í sálinni. Það er farið að skefla yfir þau hjá nútímafólki, en kaþólskir guðfræðingar höfðu lagt mikla vinnu í að skilgreina þau á miðöldum, og það getur verið bæði gagn af því og gaman eins og á stendur að rifja þau upp.

Þeir sem höfðu brotið af sér og drýgt synd áttu að gegnumganga þrjú stig. Það fyrsta var iðrunin og hún átti að vera einlæg, undanbragðalaus og kvalafull. Þetta stig var kallað contritio á latínu sem þýðir sundurkramning, eða jafnvel contritio cordis sem er sundurkramning hjartans. Svo afskapleg vanlíðan átti að fylgja réttri iðrun að það líktist því að einhver væri beinlínis að traðka ofan á hjartanu í manni.

Annað stigið var játningin, confessio. Hún átti sér stað andspænis skriftaföður sem starfaði í umboði Guðs almáttugs. Það dugði ekkert að játa syndir í einrúmi, heldur ekki þó menn þættust vera á eintali við Guð. Játningin þurfti að fara fram á réttum stað og frammi fyrir réttum aðila.  Syndir gátu svo sem bitnað á öllu mögulegu fólki, en það skipti ekki endilega öllu.  Í grundvallaratriðum var þolandi syndarinnar alltaf Guð almáttugur og svo auðvitað syndarinn sjálfur. Þarna dugði ekkert hálfkák, það hefði ekki tjóað að tauta í sjónvarpsviðtali, að manni þætti miður ef athafnir manns hefðu hugsanlega valdið einhvern  tjóni en þá væri þó aðallega við aðra að sakast. Til að gefa hugmynd um játningu sem bragð er að, má vísa í Vísnakver Guðbrands frá Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands árið 2000 og þar á blaðsíðu 325.

Ég aumur maður játa á mig
að jafnan á illt mig vandi,
hef ég því, Guð himneskur, þig
helst styggt með synda grandi.
Huggun því öll er horfin mér.
hjartað af angri dauðsjúkt ber,
nær hugsa um hvörninn eg fer,
hræðsla mitt brjóst sker
mörg því mín synd og mikil er.

Þriðja stigið var svo yfirbótin, satisfactio. Ef skriftafaðirinn sannfærðist um að iðrunin væri heil og játningin tæmandi þá hafði hann umboð brotaþolans, þ.e. Guðs, til þess að leysa syndarann frá sekt sinni og fyrirgefa honum ( te absolvo sagði hann þá), gegn því að hann bætti fyrir misgjörð sína með tilteknum yfirbótaverkum. Það gat til að mynda verið að fara svo og svo oft með Faðir vorið ef um einhvern tittlingaskít var að ræða. . Stórsyndarar þurftu að sjálfsögðu að leggja meira á sig. Hólabiskup setti Þórði Roðbjartssyni þær skriftir að hafa strangar föstur í sjö ár, tala þann tíma ekkert við annað fólk að nauðsynjalausu og fara pílagrímsferð til allra höfuðkirkja í Hólastifti innan tólf mánuða. En Þórður hafði líka barnað nunnu úr Reynistaðaklaustri sem var ákaflega óheppileg synd, svo hann gat ekki búist við að sleppa billega. Strangt til tekið tók fyrirgefningin ekki gildi fyrr en yfirbótarverkunum var lokið. Þess vegna hefði Þórður lent í útskúfun til eilífðar, ef hann hefði fallið frá áður en þau sjö ár voru liðin sem hann þurfti til að ljúka yfirbótinni. En hann var heppinn, lauk öllum skriftum og fékk fulla fyrirgefningu Guðs og manna og meira að segja  prestakall að nýju.

Því fylgdi mikil gleði að fá satisfactio, yfirbót og aflausn. Syndarinn hafði verið í miklum háska en nú var hann afstaðinn. Á sömu lund féllu þeir í skerandi angist sem var synjað um fyrirgefninguna. Þetta gat verið af því iðrunin var ekki nægilega sundurkremjandi eða játningin ekki nógu rækileg. Til staðfestingar því dugir að minna á  hve Mick Jagger var sárkvalinn þegar hann forðum daga söng “I can´t get no satisfaction”.

Að mörgu leyti var þetta ekkert svo galið fyrirkomulag og enn hefur enginn beinlínis sannað t.d. með sæmilega trúverðugri þáttagreiningu, að það hafi virkað miklu verr en til dæmis Litla-Hraun. En auðvitað fékk þetta ekki að vera í friði frekar en annað. Einn daginn datt einhverjum peningamanni í hug að það væri bara hægt að kaupa sér fyrirgefninguna, jafnvel fyrirfram, spara sér iðrun, sektarkennd, sundurkramningu hjartans, ítarlega og heilshugar játningu að ekki sé talað um alla yfirbót, föstur, ölmusugjafir, suðurgöngur og meinlæti. Þessi hugmynd var auðvitað að sumu leyti tær snilld, nema hvað aldrei hefur komið á daginn hvort þeir sem á sínum tíma keyptu aflátsbréf sitja núna í efra eða neðra.

Auglýsingar

Comments are closed.