Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Morgunverðarfundur siðanefndar 11. nóvember 2009

Höfundur: María K. Jónsdóttir

Miðvikudaginn 11. nóvember 2009 mættu rúmlega 30 sálfræðingar á morgunverðarfund siðanefndar SÍ. Að loknu framsöguerindi Ásdísar Eyþórsdóttur voru almennar umræður með þátttöku meðlima siðanefndar. Það er bersýnilega auðvelt er að koma af stað umræðum um siðamál meðal sálfræðinga og ber að fagna því. Það er nefnilega nauðsynlegt að viðhalda lifandi umræðu um siðareglur og siðavanda. Siðareglur eiga ekki bara að vera orð á blaði heldur eitthvað sem við hugleiðum og ræðum okkar í milli.

Siðanefnd SÍ hefur á fundum sínum nokkrum sinnum rætt þá hugmynd að birta úrskurði nefndarinnar á heimasíðu SÍ. Blaðamenn og lögmenn birta úrskurði sinna siðanefnda svo þetta væri ekki nýnæmi. Þessari hugmynd var kynnt og var afar vel tekið af þeim sálfræðingum sem sátu fundinn og enginn lýsti sig andsnúinn henni. Auðvitað yrðu úrskurðirnir nafnlausir og án efa þyrfti að breyta ýmsum öðrum efnisatriðum, s.s. vinnustöðum og slíku svo þeir sálfræðingar sem í hlut eiga þekkist ekki. Fundarmönnum þótti sem birting úrskurða myndi gera starfsemi siðanefndar sýnilegri auk þess sem allir gætu haft gagn af því að skoða erindi til nefndarinnar, eðli málanna og úrskurði. Þannig geta úrskurðir verið fleirum til gagns en þeim sálfræðingi sem fyrir kvörtuninni verður. Siðanefnd mun taka þetta mál til frekari vinnslu og stefnir að því að birta úrskurðina á næsta starfsári. Engin mál eru í vinnslu núna svo sennilega verður byrjað á því að birta eldri úrskurði.

Annað mál sem bar á góma eru auglýsingar og sú staðreynd að nýútskrifaðir sálfræðingar virðast stundum færast mikið í fang og auglýsa af fullmikilli kappsemi. Þetta er nokkuð sem siðanefnd þyrfti sennilega að sýna meira frumkvæði í að taka á og þá hugsanlega í samvinnu við stjórn SÍ. Það er nefnilega auðvelt að færa rök fyrir því að nýútskrifaður sálfræðingur sem auglýsir mjög víðtæka færni í klínísku starfi, sem einungis fæst með mikilli reynslu og/eða sérnámi, brjóti siðareglur. Samkvæmt vinnureglum siðanefndar er nefndinni heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði. Siðanefnd hefur í gegnum tíðina lítið, ef nokkuð, nýtt sér þessa heimild en glannalegar auglýsingar sálfræðingar eru dæmi um mál sem auðvelt ætti að vera fyrir siðanefnd að reyna að bæta úr án þess að formlegt erindi berist nefndinni. Á hinn bóginn þarf að stíga varlega til jarðar. Siðanefnd má ekki fara offari því afar mikilvægt er að fullt traust ríki milli félagsmanna SÍ og siðanefndar. Um leið verður siðanefnd þó að starfa með þeim hætt að hún njóti fulls trausts í samfélaginu.

Að lokum var imprað á samfélagslegri ábyrgð sálfræðinga og því afhverju íslenskir sálfræðingar legðu fremur lítið af mörkum í opinberri umræðu, ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum. Rætt var hvernig kreppan gæti hugsanlega komið niður á fagmennsku okkar og þar með orðið til þess að erfiðara gæti verið að framfylgja siðareglum. Þetta er mikilvægt íhugunarefni og við svona aðstæður mun reyna á siðferðisvitund félagsmanna því við þurfum að standa fast í lappirnar og neita að slá af kröfum sem við gerum til fagmennsku okkar.

Framkvæmdastjóri SÍ tilkynnti á fundinum að loksins stæði til að endurprenta siðareglurnar í litlu kveri. Áður en það er gerlegt verður hinsvegar að endurskoða þýðinguna að einhverju leyti og sú vinna er í gangi. Reglur allra norrænu félaganna eru upphaflega þýddar úr ensku og íslenska útgáfan víkur aðeins frá þeim norrænu sem fylgja enska textanum mjög strangt eftir. Við stefnum að því að íslenski textinn geri það eins og hægt er líka.

Þetta var í annað skiptið sem núverandi siðanefnd heldur morgunverðarfund og ætlunin er að halda þessu áfram. Sálfræðingar eru hvattir til að mæta á næsta fund sem haldinn verður einhverntíma með vorinu.

Auglýsingar

2 responses to “Morgunverðarfundur siðanefndar 11. nóvember 2009

  1. Trotski 5.1.2010 kl. 21:23

    Ég hnaut um þetta hér og kom mér reyndar ekki á óvart eftir viðskipti mín við SÍ: „Auðvitað yrðu úrskurðirnir nafnlausir og án efa þyrfti að breyta ýmsum öðrum efnisatriðum, s.s. vinnustöðum og slíku svo þeir sálfræðingar sem í hlut eiga þekkist ekki.“
    Hvergi minnst á að taka þurfi tillit til viðskiptavina sálfræðinga…

  2. María K. Jónsdóttir 6.1.2010 kl. 09:44

    Svar til Trotski: Vitaskuld á það sama við um viðskiptavini sálfræðinga, enda er það í samræmi við siðareglur að gæta trúnaðar við þá og aðra sem eiga hlut að máli. Orðalagið hér að ofan kemur til af því að á fundinum sem verið er að segja frá voru bara sálfræðingar og tillagan var kynnt á þennan hátt fyrir þeim.