Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Amma mín og líkamsmyndin

Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir, MS nemi í sálfræði

Um nokkuð skeið hef ég lesið pistla hér á vefritinu bæði mér til skemmtunar og fróðleiks og hugsað með mér, jiii hvað ég hlakka til að vera orðin nógu stór, nógu klár eða nógu eitthvað annað til að geta skrifa sjálf pistla fyrir vefritið. Fyrir stuttu las ég pistil Elsu Báru Traustadóttur um líkamsmynd og endurvakti það aftur áhuga minn á að skrifa minn eigin pistil, þar sem MS verkefnið mitt í sálfræði fjallar einmitt um líkamsmynd og leiðir til að bæta líkamsmynd. Enn og aftur fannst mér ég þó ekki vera orðin nógu …….eitthvað til að geta skrifað  í vefritið. Ég las pistil Fjólu Daggar Helgadóttur um að koma út úr skápnum og ákvað að láta slag standa. Þrátt fyrir að mér fyndist ég ekki alveg vera orðin nógu klár eða nógu fullorðin eða nógu góð í íslensku málfari ákvað ég að setja nokkrar línur á blað um líkamsmynd og hve upptekin við erum af útliti okkar og neikvæð áhrif þess.

Amma mín er hin yndislegasta kona og þykir okkur barnabörnunum mjög vænt um hana. Hún býr ekki í Reykjavík og því samskiptin okkar á milli lítil. Þegar við hittumst er hún dugleg að tjá sig og situr ekki á skoðunum sínum. Þegar ég var unglingur hafði amma mjög miklar áhyggjur af því að ég yrði þybbinn unglingur og var iðin við að fylgjast með því sem ég setti ofan í mig og var fljót að láta mig vita þegar henni fannst mjúku svæðin á líkama mínum vera orðin einum of mjúk. Það gefur að skilja að þetta hefur auðvitað mótað mig að einhverju leyti og hef ég ekki alltaf verið með góða líkamsmynd. Ég hef lengi verið ein af þeim sem heldur að lífið yrði alltaf aðeins betra ef ég myndi nú bara losna við þessi 5 aukakíló. Sem virðst koma og fara að vild.

Í hvert skipti sem amma kemur í bæinn gistir hún hjá foreldurum mínum og bíðum við öll ansi spennt yfir því að fá hana í heimsókn. Ef mikið álag hafði verið og ég jafnvel þyngst eitthvað þá var það mér hjartans mál að finna mér eitthvað að gera utan heimilisins þegar hún kom í heimsókn svo ég þyrfti ekki að hlusta á athugasemdir hennar um holdafar mitt eða öllu verra, finna hana grandskoða mig frá toppi til táar og spyrja: jæja Elva mín, hvernig gengur svo í skólanum? Þ.e. forðast umræðu um breikkandi holdarfar mitt.  En sjaldan hefur mér liðið eins vel og þegar ég fékk slæma lugnabólgu og lá lengi í rúminu fárveik. Viku eftir bata minn kom amma í heimsókn og beið ég spennt eftir góðum athugasemdum enda ég búin að grennast um ansi mörg kíló í þessum veikindum mínum. Uppskar ég mikið hrós eftir veikindi mín og “jákvæð” áhrif þess á holdafar mitt.

Eftir að ég þroskaðist og fór að eignast mína eigin fjölskyldu og fann að sonur minn hafði nú ekki miklar áhyggjur yfir því hvort móðir sín sé með 5 aukakíló eða ekki fór ég að átta mig á, að í uppvexti mínum hafði ég fengið ansi röng skilaboð um líkama minn. Útlitslegir þættir líkama míns fóru að skipta mig minna máli en almennt heilbrigði. Ég get hlaupið, hoppað, leikið mér með syni mínum og gert allt sem mig langar til, þrátt fyrir þau 5 aukakíló sem verulega trufluðu ömmu mína. Þegar ég hóf MS nám í sálfræði fór ég að hafa mikinn áhuga líkamsmynd og áttaði mig á því hvað ég hef sóað miklum tíma, mikilli orku og eyðilagt góðar stundir einungis vegna slæmrar líkamsmyndar. Slæm líkamsmynd mín er þó ekki tilkomin vegna þeirra 5 aukakílóa (sem mér þykir nú afskaplega vænt um í dag) heldur vegna þeirra miklu áherslu sem lögð var á að vera grannur í minni fjölskyldu og vegna þess mikla vægis sem útlit fékk í allri umræðu.

Litli bróðir minn býr enn í foreldrahúsum og hefur hann grennst undanfarna mánuði. Hann hafði ávallt sjálfur haft hin yndislegu 5 aukakíló og fékk oft að heyra það frá ömmu okkar. Fyrir jólin beið hann spenntur eftir því að amma kæmi í bæinn þar sem hann loksins hafði eitthvað jákvætt og áhugavert að sýna henni, hann væri loksins orðinn grannur. Sjálf hafði ég nú bætt aðeins á mig frá síðustu jólum, enda bjuggum við þá litla fjölskyldan í Danmörku þegar hrunið skall á og danska krónan rauk upp í 25 kr og því lítið hægt að borða þar úti. Þegar amma kom fyrir þessi jól var hún fljót að nefna hve vel litli bróðir minn liti út og ræddi um það við alla sem á vegi hennar urðu. Litli bróðir varð auðvita mjög sáttur við þetta. Í miðri umræðu ömmu minnar um þetta við mig bætti ég því við að mér fyndist nú litli bróðir bara ávallt vera flottastur auk þess hafði hann nú staðið sig svo vel í prófunum. Hissa varð hún amma þá, enginn hafði nefnt það við hana. En því miður gafst bara varla tími til þess þar sem allur tíminn fór í umræðu um holdafar okkar barnabarnanna þegar hún kom í bæinn.

Til allra lukku, hafði ég nú ekkert grennst og jafnvel bætt á mig hinum eftirsóknarverðum 5 “aukakílóum” og leit amma mig upp og niður og sagði svo: jæja Elva mín, hvernig gengur í skólanum? Vel sagði ég, enda hæst ánægð með einkunnir og gott gengi og þakkað mínum 5 “aukakílóum” fyrir það að geta sagt ömmu minni frá frábæru gengi mínu í sálræðináminu.

Þótt annað megi virðast á þessum pistli mínum, þá spái ég mjög lítið í mitt holdafar nú á dögum, er bara sátt við minn líkama og þykir vænt um hann, enda gerir hann mig kleift að hreyfa mig, skoppa og hoppa með syni mínum. Útlit líkama míns í dag gefur mér greinilega einnig tækifæri til að ræða um áhugaverðari mál við ömmu mína en aukakíló og holdafar, svo sem gengi í skóla og vinnu.

Ég geri mér vel grein fyrir því að ekki allir eiga ömmu eins og ég. En þessa sögu má yfirfæra yfir á margar aðstæður, til að mynda fer stundum mikill tími í svona tal í saumaklúbbum kvenna. Núna þegar jólahátíðin gengur í garð, er ég fljót að skipta um umræðuefni eða ná mér í heitt súkkulaði og smákökur þegar fjölskyldumeðlimir fara að ræða um mikilvægi þess að hlaupa af sér allt “jólaspikið”. Málið er að lífið verður bara svo miklu skemmtilegra þegar maður er sáttur við líkama sinn og leyfir honum að fá heitt súkkulaði og smákökur án samviskubits. Samviskubit, endalaust umtal um holdafar og slæm líkamsmynd hafa hingað til ekki reynst mér vel. Góður matur sem borðaður er ánægjunnar vegna og án alls samviskubits og hreyfing sem stunduð er ánægjunnar vegna og án hugsana um kalóríur inn og kalóríru út gerir lífið enn skemtmilegra enda trúi ég því að  líkama mínum líði mun betur þegar mér þykir vænt um hann og kem vel fram við hann.

Gleðilega hátíð öll sömul og njótið ykkar í botn.

Auglýsingar

3 responses to “Amma mín og líkamsmyndin

  1. Elsa Bára Traustadóttir 8.1.2010 kl. 16:20

    Takk fyrir skemmtilega grein Elva Björk og mikið var gott hjá þér að láta bara vaða á þetta! Gangi þér vel með framhaldið.

  2. Elva Björk 9.1.2010 kl. 16:39

    Takk kærlega fyrir athugasemdir ykkar.. !!