Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hvað er lögreglusálfræði?

Höfundur: Ólafur Örn Bragason

Í Sálfræðiritinu 2009 birtist grein þeirra Jóns Friðriks Sigurðssonar og Gísla Hannesar Guðjónssonar um sögu og þróun réttarsálfræðinnar hér á landi. Er þar m.a. rætt um störf sálfræðinga hjá lögreglunni. Þeir félagar gera ágæta grein fyrir þróun starfa sálfræðinga fyrir lögregluna hér á landi en þessi störf hafa verið ærin erlendis. Mikil þróun í undirgreinum sálfræðinnar hefur leitt til þess mörg fagfélög og tímarit hafa sprottið fram. Lögreglusálfræði er ein þeirra greina sem hefur vaxið og telst nú vera sérstök fræðigrein þó hún teljist til undirgreina réttarsálfræðinnar. En hvað er lögreglusálfræði?

Samkvæmt Miller (2006) er lögreglusálfræði skilgreind á víðan hátt sem hagnýting atferlisvísinda og geðheilbrigðisvísinda í þágu lögreglumanna, fjölskyldna þeirra, lögregluembætta og samfélagsins. Vestanhafs starfa lögreglusálfræðingar annaðhvort sem starfsmenn lögregluembættis eða sem sjálfstæðir ráðgjafar. Verkefni þeirra eru mjög mismunandi en almennt má skipta þeim í þrjá flokka:

  1. Klínísk þjónusta, þar sem megin verkefnin eru streitustjórnun við alvarleg atvik í starfi, stuðningur við lögreglumenn eftir skotárás, einstaklings- og fjölskyldumeðferð, ráðgjöf vegna áfengis- og vímuefnavanda og svo loks fræðsla um streitustjórnun fyrir einstaklinga og deildir.
  2. Aðstoð við beinar aðgerðir lögreglu, s.s. aðstoð við samningaviðræður vegna gíslatöku, ráðgjöf við yfirheyrslur, greining á hegðun afbrotamanna (profiling), mat á lögreglumönnum við leyniaðgerðir (under cover) og mat á og aðstoð við þolendur afbrota.
  3. Stjórnsýslu og stefnumótunarvinna, en þar falla undir innra eftirlit og mat á hæfni til starfa, skipulagningu grenndarlöggæslu og samskipti lögreglu við borgara, sérfræðivitnisburður og að lokum stjórnendaþjálfun.

Vissulega eru störf sálfræðinga fyrir lögreglu mjög fjölbreytt milli mismunandi landa en fjölbreyttust eru störfin í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og Ástralíu. Þau tímamót urðu 13. ágúst 2008 að lögreglusálfræði varð formleg deild hjá Bandaríska sálfræðingafélaginu (APA), þrátt fyrir að sálfræðingar hafi veitt löggæslustofnunum í Bandaríkjunum og starfsmönnum þeirra þjónustu í nær 100 ár. Fulltrúar í fulltrúadeild APA samþykktu samhljóða tillögu nefndar um sérgreinar og hæfni í sálfræði (CRSPPP) að stofna sérstakra deild (section) um lögreglusálfræði. Ákvörðun CRSPP var tekin eftir ítarlega skýrslu frá tveimur fagfélögum; sálfræðideild International Association of Chiefs of Police og Society for Police & Criminal Psychology (SPCP).

Í nýlegri greiningu Snook og félaga (2009) gerðu þeir grein fyrir skoðun sinni á fimm ritrýndum tímaritum á sviði réttarsálfræði þar sem mátti sjá að áhugi á lögreglusálfræði hefur aukist mikið, en tímabilið sem var til skoðunar náði frá 1974 til 2004. Flestar rannsóknir sem birtar voru snúa að framkvæmd lögreglustarfa (n=321) sem tengjast framburði sjónarvotta (27%) og sakbendingum (16%). Hlutfallslega færri rannsóknir voru á sviði yfirheyrslutækni (13%), greininga á hegðun afbrotamanna (profiling; 10%) og blekkinga (7%). Fáar rannsóknir voru um spillingu, lygamæla og Miranda réttindin um réttarstöðu (<3%). Því má með sanni segja að lögreglusálfræði sé orðin viðurkennd sem undirgrein réttarsálfræðinnar bæði hjá stærsta fagfélaginu og í akademískum skilningi (í ritrýndum tímaritum í hið minnsta).

Fagfélög lögreglusálfræðinga

  • Society for Police and Criminal Psychology
  • International Association of Chiefs of Police (IACP)
    –        Police psychological Services Section IACP

Fagfélög réttarsálfræðinga

  • European Association of Psychology and Law (EAPL)
  • Nordic Network for research in Psychology and Law (NNPL)

Heimildir:

Aumiller, G.S. og Corey, D. (2007). Defining the Field of Police Psychology: Core Domains & Proficiences. Journal of Police and Criminal Psychology, 22, 65-76.

Jón Friðrik Sigurðsson og Gísli Hannes Guðjónsson. (2009). Réttarsálfræði á Íslandi. Sálfræðiritið: Tímarit Sálfræðingafélags Íslands, 14, 7-23.

Miller, L. (2006). Practical Police Psychology: Stress Management and Crisis Intervention for Law Enforcement. Charles C. Thomas: Illinois, USA.

Snook, B., Doan, B., Cullen, R.M., Kavanagh, J.M. og Eastwood, J. (2009). Publication and Research Trends in Police Psychology: A Review of Five Forensic Psychology Journals. Journal of Police and Criminal Psychology, 24, 45-50.

Auglýsingar

Comments are closed.