Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Líkamsmynd

Höfundur: Elsa Bára Traustadóttir

Ég er afskaplega veik fyrir bloggi Sigrúnar Daníelsdóttur sem veltir upp áleitnum spurningum og álitamálum um líkamsmynd. 
Það væri hræsni að segja að áhugi minn á efnistökum og viðhorfi hennar væri eingöngu faglegur –þeir sem hafa séð mér bregða fyrir og hafa einhvern vott af tískumeðvitund eru fljótir að glöggva sig á því að það var ekki bara út af óljósu öri á efri vör (árekstur í Land Rover og engin öryggisbelti í miðjusætinu frammí) sem gerði það að verkum að ég fór ekki í fyrirsætubransann. Með öðrum orðum hef ég mun mýkri línur en fellur að staðalmyndinni um kvenlega fegurð (mér hefur verið sagt að hún hafi verið ákveðin af hommum í tískuheiminum en sel það ekki dýrara en ég keypti það) auk þess sem ég er rétt rúmlega einn og hálfur á hæð og því munu tískulöggurnar aldrei renna hýru auga til mín
-jafnvel þó að ég heflaði allar ójöfnur af stoðgrindinni. 
Það breytir því þó ekki að ég hef (hugsanlega vegna viðvarandi ranghugmynda) alltaf álitið sjálfa mig tilheyra þeim hópi sem við köllum fallegar konur (þið vitið hvað ég á við: þessar sem samkvæmt rannsóknum vegnar betur í lífinu og eru að jafnaði aðlaðandi í augum karla). Rökræðunnar vegna læt ég sem viðvarandi ranghugmynd um þetta sé ekki skýringin á þessu sjálfsmati og ef ég væri beitt verulegum þrýstingi hefði ég jafnvel nokkur rök fyrir hinu gagnstæða.

Ég tel þetta jákvæða viðhorf gagnvart eigin útliti meðal annars eiga sér rætur í því umhverfi sem ég ólst upp í og hvaða skilaboð ég fékk úr umhverfi mínu um líkama kvenna. Ég óttast jafnframt og mun færa rök fyrir því í þessum pistli að þær stúlkur sem eru á barns- og unglingsaldri fái ekki sömu tækifæri og ég fékk til þess að öðlast heilbrigða sýn á mannslíkamann.  
Ég var alin upp á áttunda og níunda áratugnum þegar kvennabaráttan var mun meira áberandi í samfélaginu og það voru konur af ýmsum gerðum í kring um mig. Það voru skvísur og pjattrófur eins og mamma sem rökuðu sig undir höndunum (ein vinkona hennar hafði lært það í Ameríku held ég) og voru með rautt naglalakk á tánöglunum og svo voru líka hippar eins og Edda Björgvins sem gengu í mussum og reyktu pípu.
Ég fór í Vesturbæjarlaugina og Sundlaugina í Laugardal og sá allavega konur á öllum aldri í búningsklefunum og sturtu og sóla sig berar að ofan á sólbekkjunum við laugina eða á pöllunum í stúkunni. Í heita læknum í Nauthólsvík voru líka konur af ýmsum stærðum og gerðum sem fóru í lækinn eða lágu í sólbaði rétt hjá. Jú þegar ég rifja það upp voru líka berbrjósta konur í Hljómskálagarðinum á góðviðrisdögum.  Í útiklefunum í sundlaugunum voru stundum naktar konur í sólbaði. Á þeim árum voru konur hvorki með húðflúr né tilbúin göt (nema í eyrunum og þau voru jafnvel heimagerð með heitri stoppunál) en þær höfðu allar hár á píkunni (ótrúlegt að ímynda sér ekki satt?!) –óháð því hvort að þær voru skvísur  sem hlustuðu á kanann eða hippar sem reyktu pípu.
Í Melaskólanum fórum við stelpurnar úr tveimur bekkjum saman í leikfimi og allar í sturtu á eftir þar sem röggsöm eldri kona með afskaplega mjúkar línur stóð í Hagkaupsslopp og sá til þess að allir færu eftir settum baðreglum. Píkuhár þar voru í þá daga talin merki um kynþroska en ekki skort á persónulegri umhirðu. Konur sem sóttu leikfimitíma fóru líka í sturtu eftir tímana –annað var óhugsandi og þótti viðbjóðslegur sóðaskapur.

Þessi nostalgía um naktar og hálfnaktar stúlkur og konur tel ég að sé nauðsynleg til að skýra betur mál mitt hér á eftir svo ég bið lesendur um skilyrðislaust jákvætt viðmót (unconditional positive regard) á meðan lestri stendur. Ég tel þessar uppeldisaðstæður mínar ekki síst hafa gert mér kleift að þykja vænt um líkama minn og þykja hann fallegur þrátt fyrir minni hæð og meiri fallþunga en standardinn segir til um.
Hægt og rólega í gegn um árin og stundum mjög hratt breyttist tískan, hugmyndir um útlit kvenna og margt fleira eins og gengur og gerist.  Sundlaugarnar urðu flottari og fleiri og þegar ég flutti í fyrsta sinn frá Íslandi –þá til Noregs með manninum mínum og litla barninu, saknaði ég einna helst útisundlauganna frá Íslandi.  Þegar ég svo flutti aftur seinna frá Íslandi til Danmerkur upplifði ég sama söknuð og varð vör við það sama hjá löndum mínum í Danmörku. Sundlaugamenning Íslendinga er nokkuð sem við njótum og erum stolt af.
Þegar fjölskyldan heimsótti Ísland í þau ár sem við bjuggum í Danmörku var oft farið í sund og gjarnan við hvert tækifæri. Fljótt fór ég að taka eftir því að ýmsilegt hafði breyst. Húðflúr voru orðin að því er virtist jafn algeng og göt í eyrum á árum áður og götum á líkama kvenna hafði fjölgað með tilheyrandi skrauti hangandi í þeim. Þar fyrir utan virtist sem rakstur á píkuhárum væri orðinn jafn sjálfsagður og permanent í hári á höfði hafði verið á níunda áratugnum –og það ekki bara smá kantskurður heldur designer style á alla mögulega vegu. Annar góður kollegi minn Hafrún Kristjánsdóttir hefur bloggað um rannsóknir sínar á þessu sviði sem baðvörður í sundlaug. Gott og vel.

Ekki dytti mér í huga að gagnrýna það hvernig konur kjósa að skreyta eða hirða um líkama sinn og ef satt skal segja finnst mér margt við þessa húðflúrs- og raksturstísku mjög skemmtilegt. Mér finnst það jafnvel bjóða enn frekar upp á þann möguleika að konur geti verið stoltar af sínum líkama hver með sínum hætti og njóti þess að sýna hann öðrum. En af einhverjum ástæðum virðist ekki svo vera. Á sama tíma og áhugi kvenna eykst á því að skreyta líkama sinn og raka öll hár af nema það mesta af höfðinu, hefur berbrjósta konum í sundlaugunum á góðviðrisdögum fækkað (hef varla orðið vör við að það eigi sér stað) og á líkamsræktarstöðvum eru alls ekki allar konur sem fara í sturtu eftir æfingar.
Mín persónulega skoðun er sú að hér sé aðallega á ferðinni einhver ömurlegur amerískur tepruskapur sem hefur náð að ryðja sér til rúms hér á landi. (Þrátt fyrir gríðarlega klámvæðingu amerísks skemmtanaiðnaðar koma geirvörtur og píkuhár örsjaldan fram á þeim vettvangi en Skandinavískir frændur okkar hafa iðulega hampað hvorutveggja í sínum kvikmyndum og listum). Aukinn amerískur tepruskapur í sjálfu sér þykir mér sorgleg þróun en ekki eins alvarleg og annað sem ég rakst illilega á við flutninga til Íslands frá Danmörku 2007 (já meiriháttar timing eða þannig…).

Börnin mín fóru í grunnskóla sem rekinn hefur verið í borginni í áratugi. Hefðbundin stundaskrá með leikfimi og sundi og því sem tilheyrir íslenskum grunnskóla. Ég varð mjög undrandi þegar þau tjáðu mér það að þau færu ekki í sturtu eftir leikfimi því að það væri valfrjálst og að það færi enginn í sturtu! Þrátt fyrir að þykja það frekar ógeðslegt að fara með svitann á sér aftur í fötin sín og í tíma, var það þó enn ógnvænlegra að vera nýju krakkarnir í bekknum OG vera þau einu sem færu í sturtu eftir leikfimi. Eftir lauslega rannsókn hjá vinum og vandamönnum virðist þetta vera orðið almennt viðmið í skólum á höfuðborgarsvæðinu; börnin mega fara í sturtu ef þau vilja en það er ekki skylda.

Ég þusaði yfir þessu við ágætan félaga minn sem sá ekkert að þessu og fannst þetta reyndar bara hið besta mál því að það færi oft svo mikið einelti fram í búnings- og sturtuklefum skólanna og bað mig jafnframt í Guðs bænum ekki að fara að gera neitt í þessu svo að börnin hans þyrftu ekki að eiga það á hættu að lenda í einelti. Kjánalegar hugmyndir mínar um að það ættu að vera starfsmenn til að fyrirbyggja slíkt urðu að engu við röksemdarfærsluna um að það væru ekki til peningar til þess og þó svo væri yrðu þetta bara einhverjar býtibúrskerlingar sem kynnu ekkert að takast á við þetta. Umræddur félagi minn er hvorki illa gefinn né haldinn almennri kvenfyrirlitningu eða menntasnobbi. Þó var röksemdarfærsla hans álíka skynsamleg og ákvörðun skólastjóra Melaskóla 2007 minnir mig þegar einhver skemmdarvargur skar á dekk reiðhjóla við skólann og lausnin á því var að banna nemendum að hjóla í skólann! Formaðurinn bloggaði um það á sínum tíma og vakti athygli á því hvort það væri í lagi að þeir sem brjóti af sér setji standardinn og þolendurnir breyti hegðun sinni til að verða ekki fyrir broti!  Sú umræða á þó ekki að vera aðalefni þessa pistils heldur baðmenning okkar Íslendinga og þýðing þess að hún breytist fyrir þær kynslóðir sem alast upp við breyttar aðstæður.

Er það allt í lagi að börn hætti að fara í sturtu eftir skólaleikfimi? Hvað læra þau á því? Skiptir það kanski engu máli? Hefur það einhver áhrif á það með hvaða augum þau líta líkama sinn? Ég hef ýmsar hugmyndir en hefði gaman af að því að einhver gerði rannsókn á því.
Eins og áður sagði hef ég séð töluverðar breytingar í búningsklefunum en ég hef jafnframt í starfi orðið vör við mjög neikvæð viðhorf ungra stúlkna gagnvart líkama sínum sem hefur i för með sér mikla spéhræðslu og forðunarhegðun sem er hamlandi í lífi þeirra og námi.
Það er að sjálfsögðu ekkert nýtt að ungar stúlkur séu sumar hverjar spéhræddar eða ósáttar við eitthvað við líkama sinn en ég hef engar tölur yfir það fyrr og nú.
Annað þykir mér þó verra  -í raun grafalvarlegt en vekur upp ýmis siðferðileg álitamál:
Ég þekki nokkur dæmi þess að stúlkur hafi ekki með nokkru móti getað hugsað sér að fara í sturtu eða sund innan um aðrar stúlkur eða konur vegna þess að þær telja líkama sinn eða eitthvað við hann vera svo óeðlilegt (holdarfar, brjóstastærð eða hvaðeina). Þá gildir einu hvort nokkur fótur er fyrir slíku mati eða hvort að viðmiðin séu afbrigðileg og ýkt, tekin af klámsíðum á netinu eða fótósjoppuðu tískublaði. Getur það verið að ein ástæða þess að unglingar noti klám- eða tískuiðnaðinn sem viðmið fyrir hvernig líkami þeirra eigi að vera, sé sú að þau sjá sárasjaldan venjulega líkama fólks án fata? Það er örugglega ekki eina skýringin en mér þykir forvitnilegt að spyrja að þessu og vildi óska að þetta yrði rannsakað frekar. Aftur að þeim spéhræddu:

Skólastjórnendur veita nemendum undanþágu frá þátttöku í íþróttum eða sundi ef þeir telja sig vera að mæta þörfum nemenda sinna með því móti og það getur vel verið að svo geti verið í einhverjum tilfellum t.d. þegar sjúkdómar eða annað koma í veg fyrir að nemandi geti tekið þátt í slíku eða að þátttakan geti verið nemandanum hættuleg af öðrum ástæðum. Góður og skilningsríkur kennari vill að sjálfsögðu ekki láta nemendum sínum líða illa og sér því ekkert að því að veita nemanda undanþágu frá því að gera það sem nemandinn óttast og vill forðast.

Við sálfræðingar (sem finnst hið besta mál að fólk þjáist til að ná árangri) myndum flokka slíkan vanda sem kvíðavanda. Öllum ber okkur saman um að það að forðast vandann viðheldur honum og gerir hann verri og að mikilvægt sé að aðstoða skjólstæðing með slíkan vanda til að takast á við hann.

Kallar það á einhver viðbrögð hjá okkur sálfræðingum þegar við fréttum af „skilningi” skólayfirvalda sem veita börnum undanþágu frá þátttöku í sundi eða leikfimi vegna spéhræðslu, án þess að gerð sé krafa um að vandinn sé meðhöndlaður? Eða er það kanski enginn vandi að hluti hvers árgangs sleppi þessum þætti í skólagöngunni? Siðferðislega má nefninlega líka færa rök fyrir því að það sé óverjandi að neyða börn til að sýna öðrum líkama sinn ef þau vilja það ekki.  Skerðir það lífsgæði barna sem ekki læra að synda, eða sem læra að synda en hætta svo að fara í sund? Hver á að ráða þessu? Barnið, foreldrar, yfirvöld eða fagaðilar? Hvaða viðmið ætti að notast við til að meta vanda af þessu tagi og hversu langt getur fagfólk leyft sér að ganga til að meðhöndla vandann?

Mér þætti vænt um að fá faglega umræðu ykkar kæru kollegar um þetta efni sem mér þykir sjálfri afar áhugavert að skoða fordómalaust frá ólíkum hliðum.

Bestu kveðjur og njótið jólanna –og skellið ykkur í sund!

Auglýsingar

Comments are closed.