Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Nám í fjölskyldumeðferð

Höfundur: Baldvin Steindórsson

Þegar byrjað var að rannsaka samskipti í fjölskyldum og vinna með fjölskyldur í kringum 1950 áttuðu menn sig á því að vandamál og einkenni einstaklinga voru oft “eðlileg” viðbrögð við ýmsum þáttum í fjölskyldukerfi þeirra. Menn töldu sig geta skilið vandamál og einkenni hjá einstaklingum sem eðlilega aðlögun eða viðbrögð við óheilbrigðum samskiptum. Á þessum árum töldu menn sig jafnvel geta skilið geðklofa sem upprunninn í fjölskyldusamskiptum. Þrátt fyrir að menn hafi ekki haft rétt fyrir sér að því leyti, þá búum við enn að þeirri rannsóknarvinnu varðandi samskiptamynstur í fjölskyldum sem þá var unnin. Þar má m.a. minnast Gregory Bateson og þeirra rannsóknarhópa sem unnu með honum og undir áhrifum frá þeirra vinnu á sjötta áratug síðustu aldar.

Á þeim tíma sem liðinn er frá þessum bernskuárum fjölskyldumeðferðar höfum við lært margt. M.a. að þó að “orsök” vandamáls sé ekki endilega í fjölskyldukerfinu, þá sé þar oftar en ekki margþætt uppspretta bjargráða og stuðnings. Auk þess sem vandamál einstaklings getur haft margvísleg bein og óbein áhrif á það umhverfi sem hann lifir í og þannig orðið tilurð frekari erfiðleika. Kerfishugmyndafræðin sem öll fjölskyldumeðferð byggir grundvöll sinn á, segir einfaldlega að allt gerist í samhengi og að með það gagnvirka orsakasamhengi getum við oft unnið til gagns. Hin mismunandi fjölskyldumeðferðarform hafa síðan eins og þekkt er mismunandi áherslur, nálganir og aðferðir.

Fjöldi rannsókna staðfestir gagnsemi kerfismiðaðrar meðferðarvinnu varðandi fjölda sál/geðrænna, sál/félagslegra og heilsutengdra vandamála. (Þessu til staðfestingar finnum við auðveldlega heimildir á “netinu”) Þar gildir það sama og með aðra meðferð að fagfólk hafi góðan þekkingarfræðilegan grunn og hafi fengið góða þjálfun.

Hér á Íslandi hefur víða verið og er verið að vinna vel í slíku samhengi. Ýmis ný fjölskyldumiðuð meðferðarúrræði hafa bæst í þá flóru sem fyrir er. Sérstaklega var áhugavert að heyra af Fjölkerfameðferðar- verkefninu (MST) sem Halldór Hauksson gerði svo vel grein fyrir hér á vefritinu í maí sl.. Einnig má nefna “Fjölskyldubrúna” verkefni sem er verið að þróa á LSH og eflaust eru ýmis fleiri nýleg áhugaverð verkefni í gangi.

Það hefur hins vegar skort menntunar- og þjálfunarúrræði fyrir fagfólk. Það þarf mikla sérþekkingu og þjálfun til að geta unnið með kerfiseiningar á markvissan hátt og það er mikill munur á ráðgjöf og fræðslu og síðan markvissri meðferðarvinnu.

Þegar við lítum yfir sögu menntunar og þjálfunar á þessu sviði hér á landi má draga ýmislegt fram. FFF Félag fagfólks um fjölskyldumeðferð hefur lengi starfað og staðið fyrir fræðslu. Margir einstaklingar hafa sótt sér sérfræðimenntun erlendis og síðan leiðbeint og kennt öðrum. Árið 1982 stóðum við þrír sálfræðingar fyrir því að fá hingað til lands norskan sálfræðing, Hakon Öen sem þá rak fjölskyldumeðferðarstöð í Þýskalandi. Hakon leiddi hér tveggja ára fjölskyldumeðferðarnám þrisvar sinnum og kallaði til marga frábæra kennara erlendis frá. Upp úr 1990 stóðu Sigrún Júlíusdóttir og Nanna Sigurðardóttir tvisvar sinnum fyrir tveggja ára heildstæðu námi og fengu til liðs við sig Kristínu Gústafsdóttir og Karl Gústaf Splitz sem reka fjölskyldumeðferðarstöð í Svíþjóð sem kennara. Þetta hefur skilað mikilli þekkingu og þjálfun inn í meðferðargeirann. Að mér vitandi hefur hins vegar í langan tíma ekki verið um stærri náms- og þjálfunartilboð í fjölskyldumeðferð að ræða þar til nú.

Nú hefur það gerst sem er full ástæða til að gleðjast yfir að í haust hófst tveggja ára nám í fjölskyldumeðferð á meistarastigi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Tuttugu og fimm nemendur eru í þessu námi þar af nokkrir sálfræðingar. Af þessum tuttugu og fimm eru tuttugu og fjórar konur og einn karl!!!!!

Auglýsingar

Comments are closed.