Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Enn um að byrgja brunninn …

Höfundur: Gyða Haraldsdóttir 

Nýlegar varð á vegi mínum ný skýrsla bandarískrar nefndar um forvarnir gegn geð- og hegðunarerfiðleikum ungmenna. Hér fylgir örstutt ágrip en upplýsingar um skýrsluna í heild má nálgast á netinu.  

Ýmis vandi, svo sem kvíði, þunglyndi, hegðunarerfiðleikar og misnotkun vímuefna, háir fjölda ungmenna. Rannsóknir sýna að slíkir erfiðleikar eru mikil ógnun við heilsu og að nálægt eitt af hverjum fimm ungmennum glíma við eina eða fleiri hegðunar- eða geðröskun á hverjum tíma. Meðal fullorðinna með vanda hefur um helmingur slíkra erfiðleika þegar verið greindur við 14 ára aldur og þrír fjórðu fyrir 24. aldursárið.

Margir geð- og hegðunarerfiðleikar hafa langvarandi áhrif og taka mikinn sálfélagslegan og efnahagslegan toll, ekki einungis fyrir börnin heldur líka fyrir fjölskyldur þeirra, skóla og samfélag. Geð- og hegðunarerfiðleikar skerða samskiptahæfni barna og ungmenna, árangur í þeirra skóla og þátttöku í atvinnulífinu. Í Bandaríkjunum er fjárhagslegur kostnaður, vegna meðferðarþjónustu og glataðrar framleiðni, metinn til tæplega 250 milljarða dollara árlega.

Það er framkvæmanlegt að sporna gegn því að hegðunar- og geðrænir erfiðleikar nái að þróast. Áhættuþættir eru vel þekktir, fyrirbyggandi aðgerðir eru tiltækar og fyrstu einkennin birtast oftast nokkrum árum áður en vandinn hefur fest sig í sessi. Ríkjandi nálgun hefur þó verið sú að hefja ekki aðgerðir fyrr en röskun hefur verið staðfest og er þegar farin að valda umtalsverðum vanda. Alltof oft eru vannýttir þeir kostir að nota gagnreyndar aðferðir til að takamarka áhrif neikvæðra áhættuþátta og koma í veg fyrir þróun vandkvæða til að skapa grunn fyrir heilbrigðari þroska hjá öllum börnum.

Gagnreyndar aðferðir

Fyrirbyggjandi aðgerðir áður en röskun er til komin gefa besta tækifærið til að vernda börn og ungt fólk þegar til lengri tíma er litið. Slíkar aðgerðir eru t.d. markviss skimun, frumgreining og snemmtæk íhlutun sem flétta má inn í almenna heilsuvernd barna, félags- og skólaþjónustu. Fjöldinn allur af aðferðum sem beinast að börnum og ungmennum í tilteknum áhættuhópum og miða að því að styrkja tilfinningaþroska með fjölskyldu-, skóla- og samfélagsmiðuðum úrræðum hafa reynst árangursríkar við að draga úr og fyrirbyggja geð- og hegðunarerfiðleika. Notkun þekktra gagnreyndra íhlutunaraðferða gæti sparað gríðarlega fjármuni með því að fyrirbyggja eða draga úr röskunum sem annars þörfnuðust dýrra meðferðarúrræða.

Rannsóknir á forvörnum gegn röskunum á hegðunar- og geðsviði, fíkniefnaneyslu og álíka vanda meðal ungs fólks benda til þess að farsælast sé að hafa á að skipa fjölþættum úrræðum til að efla sálfræðilega og tilfinningalega velferð ungmenna. Sérstaklega hefur verið sýnt fram á gildi þess:

  • Að styrkja fjölskyldur með því að kenna foreldrum árangursríkar uppeldisaðferðir og leiðir til bættra samskipta. Einnig að taka á sérstökum vandamálum ef þau eru fyrir hendi hjá foreldrum s.s. neyslu fíkniefna, ofbeldi, upplausn, geðrænum erfiðleikum eða fátækt.
  • Að styrkja unga einstaklinga með því að byggja upp færni og þol og bæta hugræna færni og hegðun.
  • Að draga úr tíðni tiltekinna raskana, s.s. kvíða og þunglyndis, með því að skima einstaklinga í áhættuhópum og bjóða hugræna þjálfun og aðra fyrirbyggjandi íhlutun.
  • Að efla geðheilsu í skólum með því að styðja börn sem mæta alvarlegu álagi, gera skólaumhverfið hvetjandi fyrir jákvæða hegðun, styrkja sjálfsvitund, félagsleg tengsl og færni nemenda til ákvarðanatöku og vinna gegn ofbeldi, ögrandi hegðun og neyslu.
  • Að nýta heilsugæslu og félags- eða fjölskylduþjónustu sveitarfélaga til að styðja við félagslega viðurkennda hegðun, kenna bjargráð og hafa áhrif á lífshætti sem tengjast hegðun og líðan, s.s. svefn, mataræði, virkni, hreyfingu, útiveru og sjónvarpsáhorf.

Lykillinn að flestum þessara úrræða er að bera kennsl á líffræðilega, sálfræðilega og félagslega áhættuþætti sem auka líkurnar á að börn þrói hegðunar- eða geðræna erfiðleika. Sumir áhættuþáttanna liggja hjá einstaklingnum eða í fjölskyldu hans og eru t.d. geðrænir erfiðleikar foreldra, neysla eða truflun í fjölskyldutengslum. Þeir geta líka falist í slakri félagsstöðu, fátækt eða ofbeldisfullu umhverfi. Sjaldnast eru áhættuþættirnir stakir og flestir tengjast fleiri en einni röskun. Meðferðir eru oft hannaðar til að fást við eina gerð vandamála, hins vegar eru sterkar vísbendingar um að vel hönnuð meðferðarúrræði geti haft langvarandi bætandi áhrif á margs konar vanda. Gildi þessara leiða felst í því að þær styðja börn, fjölskyldur og skóla í að byggja upp styrkleika sem nýtast þeim til frambúðar og stuðla að áframhaldandi velferð. Áhersla á forvarnir hefur þannig margþættan ávinning sem nær út fyrir eina tiltekna röskun.

Þýðing fyrir stefnumótun stjórnvalda

Ráðamenn jafnt á ráðuneytis-, sveitastjórnar- og stofnanaplani bera ábyrgð á stefnumótun geðheilsuverndar og forvarna gegn geð-, hegðunar- og tilfinningaröskunum. Margar stofnanir og aðrir aðilar sinna þjónustu, vernd og stuðningi við börn og ungmenni, t.d. heilbrigðis-, skóla- og réttarkerfið, auk hagsmuna- og félagasamtaka. En úrræði þessara aðila eru oft dreifð, lítt samhæfð og innihalda ekki nægilega mikið af fyrirbyggjandi aðgerðum. Niðurstaðan er því gjarnan handahófskennt samsafn leiða sem virka ekki sem heildrænt kerfi og mistekst að þjóna þörfum margra ungmenna og foreldra þeirra.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld marki heildræna stefnu sem setur forvarnir fyrir börn og fjölskyldur í algeran forgang í heilbrigðiskerfinu þannig að slíkar forvarnir séu innbyggðar i þau úrræði sem samfélagið býður upp á, bæði á landsvísu og staðbundið.

Stjórnvöld þurfa að þróa stefnu þvert á ráðuneyti, sem setur sértæk forvarnamarkmið, beinir hinum ýmsu stofnunum að þessum markmiðum og veitir ríki og staðbundnum aðilum leiðsögn. 

Heimild

Board on Children, Youth and Families (BOYCF) (2009). Preventing Mental, Emotional, and Behavioral Disorders Among Young People: Progress and Possibilities. Academies Press
The National Academies Press

Auglýsingar

Comments are closed.