Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Þrjár bylgjur atferlismeðferðar?

Höfundur: Orri Smárason

Ég las nýverið bók um meðferðarform sem kallast Acceptence and Commitment Therapy, eða ACT (forvígismenn stefnunar vilja að skammstöfunin sé borin fram “akt” en ekki “a-sé-té”). Ég hafði verið forvitinn um þessa meðferð í smátíma og ákvað að kynna mér málið nánar. Þessi tegund meðferðar er byggð á, er mér sagt, kenningu sem ætlað er að útskýra hugsun og tungumál frá sjónarhóli róttækrar atferlishyggju. Sú kenning heitir Relational Frame Theory og skemmst frá því að segja að ég botna ekkert í henni. En meðferðarformið er auðskilið, skýrt og praktískt þó svo að kenningarlegi grundvöllurinn sé við fyrstu sýn óttalegt torf. ACT byggir að mestu leyti á gjörhygli eða mindfulness og eins og við vitum flest er í sjálfu sér ekkert mjög erfitt að skilja það. Þeir vilja hinsvegar meina, ACT mennirnir, að þeir hafi komist að því að gjörhygli sé sniðug og gagnleg útfrá sinni kenningu, þ.e. Relational Frame Theory. Ef það er raunin þá finnst mér svolítið flott að hin vestræna vísindalega atferlishyggja hafi komist að sömu niðurstöðu og fornir austurlenskir spekingar, þó með ólíkum leiðum sé. Mér fannst ACTið svo athyglisvert að ég keypti mér tvær bækur í viðbót og sótti fullt af greinum á netið.

Þeir tala mikið um það í ACT að þeir séu þriðja bylgjan í atferlismeðferð. Þeir vilja meina að hefðbundin atferlismeðferð sé fyrsta bylgjan, hugræn atferlismeðferð (HAM) sé önnur bylgjan og að þeir (og aðrar gjörhyglimeðferðir) séu þriðja bylgjan. Þeir vilja semsagt vera nýir og ferskir. Þeir vilja vera næsta skref framávið. Til að leggja áherslu á þetta gera þeir meira að segja gera töluvert af því að stilla sér upp sem nokkurs konar andstæðingi HAM, sem í þeirra huga er orðin gamla hefðbundna nálgunin. Þá kemst ég ekki hjá því að fara í varnarstellingar. Þær rannsóknir sem liggja fyrir á ACT eru vissulega lofandi og athyglisverðar. Reyndar eru rannsóknir á meðferðum sem byggja á gjörhygli almennt að benda til að þar sé komin öflug viðbót í verkfærakistuna. En ACT á ansi langt í land með það að stilla sér upp sem meðferðarformi sem tekur við af HAM. Þess fyrir utan hafa Hoffman og Asmundsson skrifað um þetta lærða grein sem birtist árið 2007 í Clinical Psychology Review og heitir “Acceptence and mindfulness based therapy: New wave or old hat”. Þeir félagar komast að þeirri niðurstöðu að ACT og HAM séu algjörlega samrýmanlegar nálganir og vilja alls ekki meina að hér sé ný bylgja á ferðinni (þeir sem hafa unnið með gjörhygli í HAM eru örugglega ekki hissa á þessari niðurstöðu). En þeir vilja jafnframt meina að ACT gæti bætt einhverju við HAM og gert góða meðferð betri. Þar finnst mér við vera komin á spennandi stað og athyglisverðar rannsóknaspurningar blasa við. ACT og gjörhygli er kannski ekki að riðja öðrum meðferðarnálgunum úr vegi en þau eru mjög líklega sterk viðbót við það sem við höfum núna. Það er sennilega betra heldur en glæný bylgja.

Þeir sem vilja kynna sér ACT og rannsóknir á því er bent á síðuna http://www.contextualpsychology.org/. Ef einhver skilur Relational Frame Theory má sá hinn sami, að því gefnu að hann sé mjög þolinmóður, hringja í mig og útskýra. Einnig myndi það gleðja mig ef einhver hefur flotta íslenska þýðingu á Acceptence and Commitment Therapy.

Auglýsingar

2 responses to “Þrjár bylgjur atferlismeðferðar?

 1. Fjóla Dögg Helgadóttir 27.9.2009 kl. 02:16

  Takk fyrir góða grein Orri.

  Nýjungar eru nauðsynlegar fyrir framfarir en við verðum einmitt að passa okkur að búa ekki til „trúarbrögð“ innan ramma sálfræðinnar. Við eigum að halda áfram að styrkja stöðu klínískrar sálfræði sem alvöru vísindagrein með því að gera fleiri RANNSÓKNIR til að skilja betur orsakir og þar að leiðandi búa til betri meðferðir. Þetta eru ákaflega spennandi tímar en við eigum langt í land.

  Mæli með þessu yfirliti fyrir áhugasama:

  Rachman, S. (2009). Psychological Treatment of Anxiety: The Evolution of Behaviour Therapy and Cognitive Behaviour Therapy. The Annual Review of Clinical Psychology, 5, 91-119.

 2. Margrét Bárðardóttir 14.10.2009 kl. 14:17

  Gaman að heyra að sumir eru að stúdera ACT. Enn betra að fleiri en ég skilja ekki kenninguna. Get líka huggað þig með því að færustu HAM kennarar við Oxford Cognitive Therapy Center áttu líka erfitt með þetta. En margar góðar pælingar samt og Steven Hayes frábær fyrirlesari.