Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Tala konur meira en menn?

Höfundur: Regína Ólafsdóttir

Það er gömul saga og ný að samskiptahættir karla og kvenna séu ólíkir og að þessi mismunur valdi erfiðleikum í samskiptum kynjanna. Þetta viðhorf virðist fastheldið og hefur verið efni í ýmsar sjálfhjálparbækur og leikrit.  Ein þekktasta sjálfshjálparbókin um efnið nefnist “Men are from Mars, Women are from Venus” eftir John Gray sem kom út árið 1992. Í bókinni fjallar Gray um það hvernig bæta megi samskipti kynjanna með því að þau auki þekkingu á samskiptaháttum þeirra. Gamanleikurinn Hellisbúinn, sem byggist á bók Gray, var fyrst sýndur á Íslandi fyrir um 10 árum og þá sáu tugir þúsunda Íslendinga leikritið en þrátt fyrir það virðist enn vera áhugi fyrir efninu og hófust nýlega sýningar á leikritinu í Íslensku óperunni. Í Hellisbúanum er meðal annars gert grín að vandanum sem fylgir því að konur tali meira en karlmenn og sagt að konur noti 7000 orð á dag en karlar einungis 2000. Þetta veldur því til dæmis að þegar konan vill “ræða málin” í lok vinnudags, þá er karlmaðurinn búinn með kvótann. Þessi staðhæfing hefur verið sérstaklega þrautseig þegar kemur að meintum kynjamun. En burtséð frá skemmtanagildinu í Hellisbúanum sem er víst heilmikið, hvað segja rannsóknir um þessar staðhæfingu?

Í júlí 2009 birtist áhugaverð yfirlitsgrein um kynjamun í The Psychologist (Cameron, 2009). Í greininni er því haldið fram að lítil sem engin rök séu fyrir meintum kynjamun og þeim vandamálum sem hann veldur. Þar er farið yfir ýmsar staðhæfingar um kynjamun og rök fyrir þeim skoðuð. Þar kemur fram að árið 2006 hafi taugageðlæknirinn Louann Brizendine sagt í bók sinni “The Female Brain” að konur tali meira en menn og nefndi hún tölurnar 20.000 orð á dag hjá konum en 7000 hjá körlum. Mikið var vitnað í þessar niðurstöður í fjölmiðlum og þess má geta að bókin var á metsölulista í New York Times og hefur verið þýdd á 24 tungumál. En þegar Mark Libermann (2006) skoðaði málið komst hann að því að Brizendine hafði engar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Hún hafði tekið tölurnar úr sjálfshjálparbók. Einnig komst hann að því að svo virtist sem enginn hefði rannsakað það hvort konur tali raunverulega meira en karlar. Mehl et al. (2007) athuguðu orðanotkun með því að láta 380 þátttakandur bera upptökutæki sem hljóðritaði í 12,5 mínútur reglulega yfir nokkra daga. Þeir reiknuðu svo út meðaltalsorðanoktun hvers þátttakanda á dag og kom í ljós að hún var 16.000 orð á dag, jafnmörg orð hjá báðum kynjum!

Fyrir áhugasama:

Brizendine, L. (2006). The Female Brain. New York, Morgan Road.

Cameron, D. (2009) A language in common. The Psychologist, 22(7), 578-580.

Cameron, D. (2007) The Myth of Mars and Venus: Do men and women really speak different languages? Oxford University Press.

Liberman, M (2006, 24, september). Sex on the Brain, Boston Globe.

Mehl, M.R. Valzire, S. Ramirez-Esparza, N. Et al. (2007, 6 júlí). Are women really more talkative than men? Science, bls. 82.

Ps. Greinin er 455 orð, sem þýðir að ég á eftir að nota 15.545 orð til viðbótar í dag. Sem sagt nóg til að ræða málin.

Auglýsingar

3 responses to “Tala konur meira en menn?

 1. Fjóla Dögg Helgadóttir 21.9.2009 kl. 23:55

  Vel gert Regína mýtugómari! Já einmitt merkilegt hvað fjölmiðlar hafa bara áhuga á „krassandi“ niðurstöðum þótt enginn sé fótur fyrir!!

 2. Halla Ólafsdóttir 23.9.2009 kl. 09:08

  Mig er búið gruna þetta lengi :)

 3. Sigga Lóa 23.9.2009 kl. 10:16

  flott grein hjá þér Regína,
  hneyksli að þessi fræðikona, Louann Brizendine, hafi ekki haft rannsóknir til að vitna í heldur tekið þetta bull upp úr sjálfshjálparbók!!!

  Ég vona að gellan hafi tapað ferlinum á þessu.