Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Komum út úr skápnum!

Höfundur: Fjóla Dögg Helgadóttir

Einn minn mesti ótti er að verða gömul og sitja í eftirsjá yfir því sem ég gerði ekki. Helsta ástæða þess að við látum ekki á hlutina reyna er ótrúleg hræðsla okkar við höfnun. Þó svo við stefnum og skjótum upp í skýinn og okkur tekst það ekki, þá getum við allavega litið til baka í ruggustólnum og hugsað með okkur, ég reyndi mitt besta, þó það!!! En ef við látum höfnunarhræðsluna yfirtaka okkur, getum við eytt allri ævinni í að spekúlera í því hvað hefði getað gerst í fortíðinni og missum þar með af núinu.

Þessi sóun á núinu er einmitt það sem hann Tom nokkur Borkovec eða Mr Worry talar svo mikið um. Hann bendir fólki einfaldlega á það að VAKNA og hætta að sóa tímanum í núinu, það varir nefninlega ekki endalaust. Þetta veit hann líklega sjálfur þar sem hann er lagstur í helgan stein og mætir á ráðstefnu til að deila með ungum sálfræðingum þeirri feiknarmiklu visku sem hann býr yfir. Hann er atferlissinni, sem notar á svo snjallann hátt þau lögmál til að fást við tilfinningar og geðvandamál. Hann segir að honum sé alveg sama hvað það heitir sem hann notar svo lengi sem til eru gögn úr rannsóknum sem sýna fram á gildi þess sem hann er að gera með skjólstæðingum.

Þar sem ég deili þessu áhugamáli með honum, að vilja skilja hegðun okkar mannana með vísindalegum hætti, þá fannst mér agalega gaman að lesa vísindablaðið Cosmos þennan mánuðinn sem birti Sexual Chemistry 101. Til dæmis mæla þeir með því að menn reyni við píur á réttum tíma í mánuði, þar sem vísindaleg gögn sýna fram á að á þeim tíma mánuði sem stúlkur eru frjóar eru þær mun tilkippilegri en ella (Gangestad et al., 2002). Mæli með þessari lesningu fyrir einhleypinga, alveg hreint nóg af partítrixum hvernig má bæta möguleika sína í stefnumótasenunni. Höfundar þessara rannsókna velta allir fyrir sér niðurstöðum þessara rannsókna í þróunarlegu samhengi.

Ég er búin eyða miklum tíma undanfarið í að pæla í þróunarkenningunni og samhengi hennar við kvíða, þá sérstaklega félagskvíða þar sem ég sit nú við skrif dag og nótt í vorinu hér í Sydney. Einhvers staðar afturábak í þróunarkeðjunni hafa þeir sem þjáðust af félagskvíða valist úr og náð að fjölga sér. Ein tillagan er sú að þeir hafi passað svo vel við alla sjálfselsku einstaklingana sem fannst svo þægilegt að hafa þetta feimna og brosandi fólk í kringum sig sem alltaf var sammála þeim (Gilbert, 2001). En í nútímasamfélagi er alveg ljóst að félagskvíði er úrelt fyrirbæri sem hefur agalega slæmar afleiðingar fyrir bæði einkalíf og atvinnulíf (Antony, 2009). Það sem verra er að félagskvíði minnkar ekkert með árunum, þess í stað viðhelst hann af fullum krafti hjá mannskepnunni ef ekki er sótt meðferð og ein af ástæðunum eru svokallaðar safety behaviours sem Salkovskis, Clark, Wells og co hafa talað svo mikið um. Við köllum þetta víst á íslensku öryggishegðun.

Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir að þegar ég er að tala um öryggishegðun þá á ég bæði við hegðun og hugsun. Öryggishegðun er það sem við gerum til þess að koma í veg fyrir höfnun og niðurlægingu í félagslegu samhengi.

Til dæmis, öryggishegðun sem ég gæti tekið upp á núna, væri að lesa yfir þessa grein yfir svona 25 sinnum til að gæta þess að ég væri að skrifa vandaða íslensku. Segjum sem svo að ég myndi fá hrós fyrir skrif mín, þá myndi ég hugsa með mér, þetta hrós kemur bara vegna þess hve oft ég las yfir greinina. Ef ég held áfram að lesa yfir allt sem ég skrifa svona mikið þá í fyrsta lagi mun ég eyða fullt fullt og alltof mikið af núi í óþarfa þreytandi yfirlestur. Þar að auki mun ég ekki læra að flestu fólki er alveg sama þó ekki sé um eitthvað svakalega vandað málfar að ræða á svona vefriti. Þannig viðheld ég kvíða mínum yfir því að einhver líti niður á mig fyrir að skrifa ekki nóga góða íslensku og er því ólíklegri til að láta í mér heyra hérna á sálfræðiritinu! Fyrir utan það að öryggishegðun eykur oft á tíðum líkurnar á því að um raunverulega höfnun sé að ræða, t.d. ef ég myndi fara að skrifa agalega háfleygt, gætu menn hugsað með sér, voðalega er hún eitthvað stíf.

Já svo maður fari nú út í atferlislögmálin aftur, þá er það út af því að fólk býr til svona litlar rútínur að kvíði viðhelst alveg fram að ruggustólstímanum. Lífið er of stutt til að eyða því í kvíða eða þunglyndi. Pæliði í happadrættinu sem við unnum þegar við fæddumst, það var algjör hending að okkar frumur náðu fyrstar í mark og frjóvguðust, pæliði í öllum þeim hinum sem voru í keppninni og töpuðu, þau fengu ekki einu sinni tækifæri á því að fá að lifa. Njótum okkar og komum út úr skápnum og hættum öryggishegðunum….

Gerum því tilraunir sem prófa þessar litlu reglur og rútínur okkar, sleppum öryggishegðun og athugum hvort afleiðingarnar séu jafn slæmar og við höldum!!!

Fyrir áhugasama hér er nýleg heimild um málið:

Lovibond, P. F., Mitchell, C. J., Minarda, E., Bradya, A. & Menzies, R. G. (2009). Safety behaviours preserve threat beliefs: Protection from extinction of human fear conditioning by an avoidance response. Behaviour Research and Therapy, 47, 716-720.

Auglýsingar

Comments are closed.