Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Amma og afi eru á bak við tjöldin

Höfundur: Valgerður Magnúsdóttir

Amma og afi eru fólk á bak við tjöldin. Þau brúa bilið frá fæðingarorlofi og fram að leikskóla. Þau sjá um börnin svo foreldrar geti unnið langan vinnudag. Börnin eru vísast hjá ömmu og afa þegar foreldrar skreppa út í heim vegna vinnu eða til að hvíla sig frá vinnu. Eftir skóladag fara börnin á öruggan stað til ömmu og afa sem keyra þau í tómstundir og sækja aftur. Á sumrin kemur til kasta ömmu og afa þegar sumarleyfum foreldra sleppir og engin sumarnámskeið eru í boði. Amma og afi er fólkið sem er tilbúið að hlaupa undir bagga með nútímafjölskyldunni. Fyrir þetta uppskera þau svo ást og hamingju, og á síðasta æviskeiðinu eru barnabörnin þeim gjarnan dyggasti stuðningurinn, einnig á bak við tjöldin. Samvistir kynslóðanna auðga líf ótalmargra, en ekki er vitað hversu margra. Þetta gerist nefnilega í kyrrþey. Enginn veit hve margir Íslendingar eru ömmur og afar, á hvaða aldri þau eru helst og hver er meðalfjöldi barnabarna. Ekki heldur í hvaða mæli amma og afi sinna hlutverkum sínum eða hve mörg þeirra hitta aldrei barnabörnin. Hagstofan á engar hagtölur um þetta þótt tölvunotkun og sykurneysla sé mæld nákvæmlega.

Auglýsingar

One response to “Amma og afi eru á bak við tjöldin

 1. Elsa Bára Traustadóttir 25.9.2009 kl. 10:50

  Þetta er falleg grein og það væri yndislegt að svona væri þetta í raun og veru.
  Ömmur og afar ungra barna nú á dögum eru mörg hver(miðað við að fólk eignist börn sín á milli tvítugs og þrítugs) fólk á fimmtugs- og sextugsaldri.
  Á Íslandi er meirihluti fólks á þessum aldri í fullri vinnu eða hlutastarfi. Þar að auki er þetta fólk hraustara en fólk á þessum aldri fyrir fimmtíu árum eða meira -þökk sé minni fátækt og betri heilsugæslu.
  Vegna þess hversu hraust og iðjusöm nútíma ömmur og afar eru á okkar tímum, hafa þau meiri fjárráð og gera mun meiri kröfur um lífsgæði en foreldrar þeirra gerðu. Ömmur og afar ungra barna eru því gjarnan með áhugamál sem krefjast tíma eins og til dæmis golf, hestamennsku eða ferðalög. Það er því ekki víst að þau hafi mikinn tíma aflögu til að gæta barnabarna og reyndar frekar fá í þessum hópi sem hafa tök á því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  Fyrr á tímum voru fleiri í þessum hópi sem voru meira heima við og gátu og vildu gæta barnabarnanna án efa mörgum til til góðs.
  Líf okkar, samfélagið og fjölskyldur eru að mörgu leyti breytt frá fyrri tímum þegar þessi idealíska lýsing átti við og það eru bæði kostir og gallar við það.
  Það má færa rök fyrir því að ömmur og afar séu orðin uppteknari af sjálfum sér en fyrr á tímum og þetta sé mikill missir fyrir barnabörn þeirra.
  Á hinn bóginn má einnig færa rök fyrir því að ömmur og afar hafi tækifæri til meiri lífsgæða en áður og að það sé betra fyrir börn að vera hjá fólki sem er menntað til að sinna börnum.
  Það gleymist nefninlega stundum í þessari glansmynd að ekki allar ömmur og afar hafa áhuga eða burði til að sinna ömmu- og afahlutverki á farsælan hátt og slíkt gæti jafnvel skaðað börnin.
  Hins vegar tek ég heils hugar undir það að þau börn sem eiga ömmu og/eða afa sem hafa áhuga og getu til að sinna umönnunarhlutverki gagnvart barnabarninu sínu njóta virkilega góðs af því.
  Ég veit ekki hversu algengt það er í raun og veru en það er alls ekki sjálfgefið að amma og afi brúi bilið.