Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Tvær súlur

Höfundur: Hörður Þorgilsson

Fyrir allmörgum árum var á vegum Sálfræðingafélags Ísland útbúið súlurit um aldursdreifingu félagsmanna. Súluritið var mjög einfalt og myndin sem það birti var afar skýr. Stærsta súlan, og gott ef ekki meirihluti sálfræðinga, voru sálfræðingar öðru hvoru megin við fimmtugt. Ég var innan þessarar súlu.  Ég þekkti alla, flestir höfðu tekið sálfræðina (B.A.) eftir að hún byrjaði í Háskóla Íslands  en síðan komið heim jafnt og þétt úr námi erlendis. Þegar ég sat í stjórn félagsins á svipuðum tíma var hægt að fylgjast með hverjir voru að sækja um löggildingu og fá einhverja tilfinningu fyrir hvaða fólk þetta var, frá hvað landi og háskóla og hvernig það gæti auðgað félagið okkar.

Síðan þetta var eru liðin mörg ár. Þótt ég hafi ekki séð nýtt súlurit þykist ég vita að það sé mikið breytt. Núna eru væntanlega komnar tvær háar súlur. Hina nýju súlu myndar  hin nýja cand-psych kynslóð  frá Háskóla Íslands og er væntanlega sitt hvoru megin við þrítugt. Ég sé nöfn þeirra birtast á heimasíðu félagsins, sé andlit þeirra  á ráðstefnum og fundum en veit að öðru leyti engin deili á þessu ágæta fólki.  Ekki verð ég var við annað en þessi hópur sé að standa sig vel. Hann kemur vel vopnaður  frá sálfræðideildinni, er öruggur með sig, kann sína aðferðafræði, hefur lært sína atferlisgreiningu/mótun og heldur á tækjum og tólum  hugrænnar atferlismeðferðar og ber sig að eins og hann sé fær í flestan sjó. Þá hef ég líka verið svo heppinn að hafa fengið einstaklinga úr þessum hópi í e.k. tímabundið fóstur eða verið fenginn til þess að blessa skrif þeirra í formi lokaverkefna.

Ég get ekki annað en hrósað þessum ungu sálfræðingum. Verkefnin eru jafnan unnin af mikilli fagmennsku. Þau fjalla oft á tíðum um bæði áhugaverðar og aðkallandi spurningar. Þá endurspegla þau líka góða yfirsýn yfir kenningar og rannsóknir á viðkomandi sviði og ekki er annað að sjá en aðferðafræðin og tölfræðileg úrvinnsla liggi ljós fyrir. Það sem gleður mig ekki síst er að jafnan eru þessi lokaverkefni ágætlega skrifuð, fáar ambögur eða villur, stíllinn lipur og látlaus og viðeigandi fyrir skrif af þessum toga.

Á nýjum vettvangi, sem starfandi sálfræðingar, er ekki að merkja annað en sjálfstraustið sé í góðu lagi. Auk góðrar getu frá náttúrunnar hendi hefur tveggja ára framhaldsdvöl í herbúðum sálfræðideildarinnar ekki spillt fyrir. Þá kunna þeir að njóta þess að kenninga- og rannsóknarheimur klínísku sálfræðinnar hefur slegið í frekar samhljóma takti undanfarinn áratug. Hluti hópsins hefur látið að sér kveða á mjög afgerandi hátt undi hatti húmbukks (humbukk.is). Þar er skorin upp herör gegn allri þeirri vitleysu sem veður uppi í meðferðargeiranum og af nógu er að taka.

Þegar ég les lokaverkefni þessara ungu sálfræðinga eða heyri í þeim á vettvangi starfsins  hef ég ekki komist hjá því að hugsa til þess hvað ég og mín kynslóð var að baksa á sínum tíma og hvaða heimur blasti við. Einhvern veginn finnst mér, og kannski á þetta bara við mig, að efinn hafi verið stærri, akurinn óplægðari, tæknihyggjan minni og snertiflötur sálfræðinnar við samfélagið annar. Að auki komum við sitt úr hverri áttinni með ólíkar gráður, áherslur og hæfni. Það hefur kostað töluverða vinnu og tíma að staðsetja stéttina og koma í gagnið framfaramálum eins og reglugerð um sérfræðileyfi. Sjónarmið hafa verið ólík og hagsmunir ekki alltaf þeir sömu. Tíminn hefur hins vegar unnið með okkur, margir hafa öðlast sérfræðileyfi og við teljum okkar búa yfir umtalsverðri reynslu.

Ég hef stundum velt fyrir mér snertifleti þessara tveggja kynslóða. Ég dáist að krafti, færni, gagnrýni og sjálfsöryggi yngri hópsins. Mér finnst þó stundum að hann fari full geyst. Ekki er að sjá mikið hik í því að opna stofur og auglýsa sig sem sérfræðinga í lausn fjölþættra vandamála og ekki endilega í takt við það regluverk sem við höfum komið okkur upp. Þá veit ég ekki hvort það er tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að áherslur og nálgun verði of einsleitar.
Á stundum hefur þetta svipmót yngri kynslóðar sálfræðinga fengið mig til þess að spyrja hvort það sem við hin lærðum hafi ekki staðist tímans tönn. Ég held reyndar að svo sé ekki. Ég er þvert á móti mjög sáttur við og stoltur af mörgu því sem við eldri hópurinn höfum komið áleiðis og afrekað t.d í formi þjónustu, ímyndar eða skrifa. Við hin eldri megum þó ekki gleyma okkur og telja okkur fullnuma, að reynsla vegi þyngra en margt annað og staðna fyrir vikið.

Ekki veit ég hvað fræðingar úr öðrum fögum segja um æskilega samsetningu stétta og heppilegan jarðveg fyrir frjótt fræðastarf. Mér sýnist þó af því sem hér er týnt til að við höfum flest af því sem til þarf. Ég held að þessar tvær súlur skapi þann fjölbreytileika og styrk sem gefur tilefni til bjartsýni fyrir hönd stéttar og fags.

Auglýsingar

Comments are closed.