Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Barn á rétt á að líða vel í skólanum sínum

Höfundur: Kolbrún Baldursdóttir

Hér er sett fram hugmynd um hvernig hægt er að virkja utanaðkomandi fagteymi til að leysa eineltismál sem skóli ræður ekki við að leysa.

Alveg eins og foreldrum ber að tryggja öryggi barna sinna á heimili, ber skólanum að tryggja öryggi þeirra á skólatíma. Fleiri skólar en færri, tel ég, að sinni þessari skyldu með sóma. Með reglulegu millibili berast þó tíðindi af því að barn hafi orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi, andlegu og eða líkamlegu, af hálfu skólafélaga sinna. Langvarandi einelti er víst til að skilja eftir sig rjúkandi sálarrústir, jafnvel eyðileggingu til lífstíðar.

Það er tímabært að horfa af fullri alvöru á þá staðreynd að enda þótt flestir skólar fylgi eineltisáætlun, sumum hverjum þaulrannsökuðum og vel útfærðum, þá ráða ekki allir skólar við að leysa úr þyngstu eineltismálunum sem upp koma. Ástæðan fyrir því að skólar eru svo misútbúnir eða mishæfir til að takast á við þennan vágest má vafalaust rekja til ýmissa þátta í innviðum þeirra s.s. stjórnunarhátta, stefnu/stefnuleysis eða þeirri sérstöku menningu sem hver og einn skóli býr yfir.

Fyrir liggur að eineltismál koma reglulega upp í skólum landsins. Sé ekki gripið inn í strax með faglegum hætti ná sum þeirra að skjóta rótum og festa sig í sessi. Því lengur sem einelti fær að viðgangast því erfiðara getur reynst að stöðva það. Það er ekki fyrr en búið er að stöðva ofbeldið sem hægt er að byrja að vinna úr afleiðingunum. Því fyrr sem tekst að stöðva eineltið því meiri líkur eru á að hægt sé að hjálpa þolandanum að ná aftur fyrri sjálfsstyrk og öryggi.

Mikið hefur verið rætt um þessi mál undanfarin misseri sérstaklega þegar opinberast fyrir almenningi slæmt tilvik um langvinnt einelti sem ekki hefur tekist að stöðva og vinna úr. Þá er algengt að upphefjist kröftug umræða um að nú þurfi að gera eitthvað enn róttækara í baráttunni gegn einelti. Forráðamenn þolanda, fagfólk og fullorðnir þolendur eineltis rísa upp og krefjast úrræða sem virka. Þing eru jafnvel haldin, farið er á fundi ráðamanna; ráðherra, sviðsstjóra, deildarstjóra og annarra sem hafa með þennan málaflokk að gera hverju sinni í sveitarfélagi og í ráðuneytum. Greinar eru skrifaðar, bloggheimar loga og viðtöl tekin við þolendur, forráðamenn og jafnvel stjórnvöld.

Þegar mál af þessum toga komast í fréttirnar eru dæmi um að birt séu viðtöl við aðstandendur sem hafa lýst því hvernig skólinn sem um ræðir hafi brugðist á meðan skólayfirvöld þessa sama skóla fullyrða að unnið hafi verið í málinu með viðhlítandi hætti. Sem sagt, orð gegn orði. Það er einmitt þegar fréttir á borð við þessar berast sem upp kemur sú spurning hvort ekki skorti viðbótarúrræði sem hægt er að grípa til þegar málið er komið í rembihnút.

Vissulega hefur heilmikið þokast áfram til betri vegar undanfarin ár. Æ fleiri skólar hafa aukið áherslur sínar á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir. Vitað er að í mörgum skólum er rætt við börnin um jákvæð samskipti og að þeim beri að koma vel fram hvert við annað. Einnig hefur þeim skólum fjölgað sem hafa eineltisáætlanir. Margir skólar endurskoða auk þess áætlanir sínar reglulega og endurbæta það ferli sem eineltismál fara í, komi þau upp.

Sérsveitarhugmyndin í baráttunni gegn einelti
Með einföldum hætti er hægt að búa til úrræði í formi sérstaks fagteymis. Teymi sem þetta verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málum enda sérhvert mál sérstakt og útheimtir þar af leiðandi mismunandi útfærslur. Teymið er fyrst og fremst hugsað sem úrræði í þeim eineltismálum sem einhverjum skóla hefur ekki borið gæfu til að leysa málið hvort heldur að mati forráðamanna þolanda og/eða skólans sjálfs. Það er brýnt að nefna hér að með hugmyndinni um sérstakt fagteymi er ekki hugsunin að taka ábyrgðina af skólastjórnendum eða ógna sjálfstæði þeirra á nokkurn hátt.

Þegar talað er um að vinna í máli er ekki einungis átt við að eineltið stöðvist heldur einnig er reynt að skoða þann jarðveg sem það átti upptök sín í, persónur og leikendur og loks að binda þannig um hnútana að málið virðist ekki einungis fullunnið á yfirborðinu heldur hafi jafnframt orðið viðhorfa,- og atferlisbreyting hjá þeim sem hlut áttu að máli. Í þessu felst að skoða þarf aðdraganda og birtingamynd þess, ræða við gerendur og þolanda, forráðamenn beggja og fylgja málinu eftir þar til fyrir liggur að þolandanum sé ekki lengur hætta búinn í skólaumhverfinu. Sé teymið kallað út að beiðni forráðamanna þolanda mun það setja sig í samband við viðkomandi skóla, óska eftir samvinnu við skólastjórnendur og fagaðila hans um að leysa málið í sameiningu.

Ávinningur fyrir skólastjórnendur að geta leitað til teymisins
Gera má því skóna að einhverjum skólastjórnendum þætti ávinningur í að leita til utanaðkomandi fagteymis. Í sumum tilvikum gæti það jafnvel nægt að teymið veitti viðkomandi skólastjórnendum leiðbeiningar og ráðgjöf um hvernig hugsanlega megi bregðast við ástandinu og hvaða skref væri líkleg til að skila árangri.

Eðli málsins samkvæmt er það fyrirsjáanlegt að hugmynd um sérstakt utanaðkomandi fagteymi getur ekki orðið að veruleika nema með milligöngu stjórnvalda. Til að teymið geti borið sig að með skilvirkum hætti er nauðsynlegt að það hafi greiðan aðgang að skólanum og þeim sem tengjast málinu með einum eða öðrum hætti. Teymið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á samvinnu við skólastjórnendur og starfsfólk skólans. Samvinna fagteymis og viðkomandi skóla skiptir öllu máli ef takast á að uppræta einelti með árangursríkum hætti.

Börn eru börn til 18 ára aldurs
Sú hugmynd sem hér hefur verið reifuð getur allt eins nýst í framhaldsskólum eins og grunnskólum. Allt þar til 18 ára aldri er náð ber forráðamönnum og samfélagi að sameinast um að tryggja einstaklingum öruggt umhverfi þar sem einstaklingurinn getur notið sín. Hugmyndin um sérstakt fagteymi hefur einnig verið mátuð við veruleika fullorðinna. Eins og alkunna er koma upp tilvik um einelti á vinnustöðum þ.m.t kynferðislegt áreiti. Hvernig tekið er á málum af þessum toga á vinnustöðum veltur í öllum tilvikum á vilja og ákvörðun stjórnanda/atvinnurekanda. Sé stjórnandi eða atvinnurekandinn sjálfur gerandi í máli sýna dæmin að fátt bíði þolandans annað en að yfirgefa vinnustaðinn. Vissulega gefst honum kostur á að sækja mál sitt fyrir dómstólum. Allir sem eitthvað þekkja til þessara mála vita að sú leið er ekki bara kostnaðarsöm heldur afar tyrfin.

Samantekt
Lykilatriði til að hægt sé að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd er að stjórnvöld standi að baki fagteymisins. Auk sveitarfélaga er um að ræða heilbrigðisráðuneytið enda staðfest að langvinnt einelti er afar líklegt til að leiða til alvarlegs heilbrigðisvandamáls. Menntamálaráðuneytið er yfirstofnun allra skóla landsins og þar sem einelti er samfélagslegt vandamál, er ekki hægt að líta fram hjá félagsmálaráðuneytinu í baráttunni gegn einelti. Til að fagteymi sem þetta takist að afla sér trausts meðal fólks er mikilvægt að það sé leitt af þaulreyndum fagaðila, sálfræðingi sem hefur langa og gæfuríka reynslu af því að vinna í málum af þessum toga. Aðrar fagstéttir sem búa yfir þekkingu og reynslu í þessum málum eru t.a.m. námsráðgjafar, félagsráðgjafar, kennaramenntað fólk og lög- og prestlærðir einstaklingar. Komi fagteymið að eineltismáli hvort heldur forráðamenn eða skóli kalli það til er meginmarkmið þess að leita leiða til lausna á einstaklingsgrundvelli, hverjar svo sem lausnir þess kunna að verða. Teymið vinnur með hagsmuni þolandans að leiðarljósi og mikilvægt er að hann og forráðamenn hans viti og finni í reynd að málið hafi verið unnið til þrautar með faglegum hætti.

Auglýsingar

Comments are closed.