Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Þögn

Höfundur: Jón Björnsson

Þegar ég var að læra sálfræði suður í Þýskalandi fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna var ég skyldaður til að lesa rit sem hét „Zur Problematik des Schweigens in der Therapie“. Þar var bollalagt fram og aftur um skjólstæðinga sem notuðu rándýra meðferðartíma til þess að þegja þunnu hljóði og sálfræðingana sem þurftu að hlusta á þá þegja. Þarna syðra iðkuðu menn á þeim árum svonefnda „djúpsálarfræði“ og töldu það alls ekki alvont, þó skjólstæðingarnir þegðu fyrir fleiri þúsund mörk, jafnvel heilt bílverð, hjá sálfræðingnum, því þá væru þeir á fullu að glíma við kvíða, bælingar og afneitanir lengst niðri í sálinni og sálfræðingurinn gerði réttast í að trufla þá ekki og þegja líka. Vikum, mánuðum jafnvel árum saman átti þá sálfræðingurinn ekki að segja annað en „Guten Tag“ og svo þrem korterum seinna að nú væri tíminn búinn. Á endanum mundi skjólstæðingurinn segja það sem hann þyrfti eða hætta í meðferð, en hvort tveggja væru óræk batamerki. Í ritinu voru verðandi sálfræðingar efldir í að þola þögnina og fá ekki samviskubit yfir aðgerðaleysi sínu, því ágætustu hlutir gætu gerst hávaðalaust. Þar var ekki einu sinni gerður þessi litli fyrirvari sem sá athuguli Björn Sigfússon, fyrrverandi háskólabókavörður, skrifaði inn í formálann að Ljósvetningasögu: „Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert atriði.“

Fróðir menn segja að rík hefð hafi verið fyrir þögn á Íslandi; kannski var það strjálbýlið, kuldinn gerði landsbúum munnherkjur eða þeir höfðu svo slitnar tennur af harðfisknagi að þeir náðu ekki tannhljóðunum almennilega. Þyrftu menn að segja eitthvað var það oft undravert vafningalítið: „Út vil ek.“, „Eigi skal höggva“, „Vér mótmælum allir“, „Var nú tíðindalítið til jóla“. Nú er þessi orðfáa tíð liðin og Íslendingar samkjafta varla nema þeir séu að hlusta á iPod. Ég átti því láni að fagna nýverið að vera einn með sjálfum mér í heilan mánuð að hjóla um óendanlega sænska skóga, sá þrjá milljarða furutrjáa og annað eins af birki, en talaði varla við fólk nema afgreiðslustelpur á sjoppum og farfuglahótelstjóra. Ég heyrði varla neinar fréttir nema það litla sem skjórar og krákur sögðu mér og þó ég jafni þessum fuglum engan veginn til guðs, þá skil ég samt alveg hvað herra Sigurbjörn Einarsson átti við þegar hann sagði í Toyota-blaðinu í júlí árið 2000: „guð þarf hljóð til að geta talað innra með manni“.

Í ljósi þessarar reynslu og minnugur hins sem ég nam forðum daga um „Problematik des Schweigens in der Therapie“ fannst mér það viturleg tilmæli hjá ritstjórum þessa vefrits að pistlahöfundar styttu mál sitt, því nútímasálfræðingar entust yfirleitt til að lesa nema eina síðu í einu (trúlega gekk Gleitman fram af þeim forðum). Ég skrifaði sex síðna langan pistil síðast og hef þennan því ekki lengri, en mælist til þess að sálfræðingar noti tímann sem þeir spara með því í lestri til þess hvorki að tala sjálfir né hlusta á neitt annað en hávaðalausa þögnina.

Auglýsingar

Comments are closed.