Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Vangaveltur um íslenska kreppu

Höfundur: Álfheiður Steinþórsdóttir

Lífsskilyrðin sem hafa þróast á Íslandi eru að mörgu leyti frábrugðin því sem gerist meðal annarra þjóða hins vestræna heims. Við höfum, fyrir utan upphafið með landnám og gullöld bókmenntanna oft verið hnípin þjóð í vanda, upp á aðra komin og með einhliða atvinnulíf. Það er staðreynd þar sem oft hefur reynt á seiglu og jafnvel þrjósku til að vera þjóð meðal þjóða og með metnað til að hafa lýðveldi, hvað þá annað.

Íslendingar hafa í áranna rás fundið fyrir verulegum mun á ríkum og fátækum, vinnumennsku og oft langvarandi fátækt. En fæst okkar sem eru á vinnualdri hafa þó lifað slíka tíma. Ísland hefur verið að þróast frá hefðbundnu bændasamfélagi yfir í nútíma borgarsamfélag síðustu 70 árin. Það er því óhætt að segja að við höfum stokkið yfir marga þætti í þróun annarra landa. Breyttir lifnaðarhættir hafa fengið mun skemmri aðlögunartíma hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Slíkt hlýtur að hafa í för með sér ákveðinn óstöðugleika í samfélaginu. Góð ár og kreppuástand í bland er eitthvað sem allir þekkja. Á námsárunum erlendis var alltaf óvíst hvernig námslánin mundu endast og sum ár var gengisfelling æ ofan í æ. Og alltaf fór efnahagurinn upp á við aftur. Það tekur því tíma að trúa því að nú sé skollin á ofurkreppa og margir ýta frá sér í lengstu lög þeirri staðreynd að efnahagur Íslands sé í rúst. Við vorum svo rík í fyrra og hitteðfyrra. Það reynir á innviði okkar , seiglu og þol þegar álag eykst í með- og mótlæti og stundum má sjá frumstæð öfl að verki í viðbrögðum fólks.

Ef til vill hefur þróunin hér á landi verið örari en aðlögunarhæfni mannsins nemur, hraðinn of mikill, breytingar of örar og skortur á þekkingu til að rækta mannlegar þarfir. Margt rennir stoðum undir að ytri skilyrði hafi ekki verið vel til þess fallin að menn öðluðust innri staðfestu. Til þess þarf sterkar og traustar fyrirmyndir hvort sem það eru foreldrar, leiðtogar eða stjórnmálamenn. Aðeins slíkar fyrirmyndir geta kennt öðrum að að tileinka sér eðlilegt gildismat, innri stjórn og aga. Agaleysi fyrirmynda endurspeglast í viðbrögðum lærisveina. Þeir sem hafa ekki fengið nægjanleg mörk eiga yfirleitt sjálfir erfitt með að setja öðrum mörk. Afleiðingarnar geta orðið tilviljanakennd hegðun, tillitsleysi, ágengni og tilhneiging til að missa stjórn.

Eðlilega eru Íslendingar skorpuþjóð, náttúran er okkur erfið og úfinn sjór, veðráttan gerir okkur oft grikk. Fólkið í landinu er vant frá örófi að taka á því, vinna saman að því að bjarga verðmætum til sjós og lands. Trúa því að bráðum komi betri tíð. Nota tækifærið til uppgripa þegar það gefst. Svo er tækifærið farið, veður skella yfir eða ófært er á sjó. Að vinna í lotum eða vertíðum eftir lögmálum sem náttúran setur okkur. Þessi pressa að sameina krafta áður en það verður um seinan kallar á innri spennu, streitu –skyldi það takast í tíma? En það kallar líka á gleði og umbun erfiðisins þegar það tekst og það getur verið auðvelt að ánetjast slíku spennulífi, verða spennusækinn. Margir, íslendingar og útlendingar telja þessa spennu eða streitu landlæga á Íslandi. Oft heyrist fólk segja að það verði að hafa sverðið yfir sér til að ganga í málið. Sem þjóð erum við líklega alin upp við að hafa vissa aðdáun á þeim sem eru duglegir og atorkusamir en ekki síst þeim sem ögra og þora, gefa sig ekki og slást. Útrásarvíkingarnir svokölluðu nutu þess örugglega þegar best lét.

En við höfum líka komið hér upp þjóðfélagi að norrænni fyrirmynd, þar sem samhjálp er viðurkennd og menntun okkar er á við það besta og lengsta sem gerist. Vegna langskólamenntunar vestan hafs og austan eigum við fólk með þekkingu og reynslu sem getur einmitt nýst okkur nú. Við tilheyrum þeim hópi, sálfræðingarnir. Annað jákvætt er hve lítið þjóðfélagið okkar er. Allir einstaklingar eru sýnilegir og allir skráðir, það sem hægt er að ná til allra, gera alþjóðlegar rannsóknir og koma þekkingu til þegnanna. Þetta er mikilvægt að nýta. Ég sá nýverið heimildamynd um uppbyggingu Loftleiða, ævintýrið þar sem áræðni hugvit og ósérhlífni sameinaðist á einstakan hátt. Um áhrif frumkvæðis og samstöðu og hvað gerist þegar liðsheildin raknar upp.

Hvað með sálfræðinga?
Sálfræðingar er menntaðir í sálarlífi mannsins og þroskaferli hans frá bernsku til fullorðinsára. Þeir hafa aðgang að vísindalegum rannsóknum um hvernig maðurinn hugsar, finnur til og bregst við. Hvað ógnar honum og hvað styrkir hann. Margir eru sérmenntaðir í meðferð af ýmsu tagi og hafa langa starfsreynslu á ýmsum sviðum. Nú, þegar reynir á og atvinnuleysi, erfitt andrúmsloft á vinnustöðum og hvers kyns vandi steðjar að einstaklingum, hjónum og fjölskyldum í heild – þá er spurning hvernig við getum sem best nýtt þekkingu okkar til að verða að liði.

Eigum við að leggja áherslu á að greina ýmsar birtingamyndir þess álags sem fólk býr við í einkalífi og starfi? Eigum við að skrifa í blöð, gera þætti, halda námskeið svo eitthvað sé nefnt? Samfélagið er miklu opnara og jákvæðara í garð sálfræðinga en áður var og er svo sannarlega að breytast frá því sem áður var á krepputímum. Nú má oft sjá og heyra að sálfræðingar séu mikilvægir, þeir eru kallaðir til í krísum á vinnustöðum og til að veita áfallahjálp. Það væri gaman ef við kollegarnir gætum átt hér samræður, stillt saman strengi og notað þekkingu okkar til að gera sem mest gagn.

Auglýsingar

Comments are closed.