Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Umboðsmaður barna ætti reglulega að vísitera skóla landsins

Höfundur: Kolbrún Baldursdóttir

Hlutverk umboðsmanns barna er víðtækt og því gerð góð skil á heimasíðu hans sem er að öllu leyti til fyrirmyndar. Í embætti umboðsmanns barna hefur ávallt verið ráðinn lögfræðingur. Embættið hefur verið að þróast og vafalaust tekið hvað mestum breytingum þegar skipti hafa orðið á umboðsmanni. Nýir siðir og venjur koma með nýjum embættismönnum enda þótt lagaramminn hafi e.t.v. haldist nokkuð óbreyttur frá upphafi. Lagaumhverfið sem lýtur að börnum er grundvallaratriði sérhvers samfélags sem vill gæta þess að hagsmunir þeirra séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þess vegna er það forgangsatriði að fylgst sé gaumgæfilega með að þjóðréttarsamningar sem snerta réttindi og velferð barna og Ísland er aðili að séu virtir og að íslensk lög og reglugerðir sem lúta að börnum og velferð þeirra séu aðlöguð jafnóðum og aðstæður eða samfélagsumhverfið gera um það kröfur. En það eru önnur verkefni sem ekki er síður mikilvægt að Embætti umboðsmanns barna sinni af alúð. Hér er átt við að umboðsmaður barna geri sér sérstaklega far um að vera í beinum tengslum við börnin í samfélaginu. Leiðin að börnunum er aðeins ein og hún er sú að umboðsmaðurinn byggi sér brú yfir til þeirra með því að heimsækja leikskóla og skóla landsins. Tilgangur heimsókna er í raun tvíþættur: að umboðsmaðurinn kynni sig og embættið og að hann kynnist raunheimi barnanna. Að sækja börnin heim í skóla þeirra er ein áhrifaríkasta leiðin ef umboðsmaðurinn hefur áhuga á að skynja, upplifa og kynnast samfélagi barna og unglinga. Það er trú mín að börnin sjálf munu hafa bæði gagn og gaman af slíkri heimsókn. Á Íslandi hefur lengst af verið borin ákveðin virðing fyrir mikilvægum embættum og ef heimsóknar er að vænta frá embættismönnum finna börnin til sín og hlakka til. Þetta hefur margsinnis sýnt sig þegar t.d. forseti Íslands vísiterar eða borgarstjóri. Umboðsmaður barna hefur með þessum hætti gullið tækifæri til að ræða við börnin um fjölmarga hluti sem lúta að þeim og umhverfi þeirra t.d. um jákvæð samskipti og hversu áríðandi það er þau beri virðingu fyrir hvert öðru. Góð vísa sem þessi er aldrei of oft kveðin. Ávinninginn af slíkum heimsóknum umboðsmanns barna er e.t.v. ekki hægt að mæla með beinum hætti. En gera má ráð fyrir að því fleiri aðilar frá ólíkum stofnunum samfélagsins sem bætast í hóp þeirra sem miðla nauðsynlegum skilaboðum til barna auki líkur þess að þau meðtaki boðskapinn. Ég vil í þessum pistli hvetja umboðsmann barna að gera sér far um að komast í beina tengingu við börnin í landinu, hlusta með eigin eyrum á hvað þau hafa að segja og á sama tíma ræða sérstaklega við þau um mikilvægi þess að koma vel fram hvert við annað hvort heldur þau séu í skólanum, í hverfinu þar sem þau búa eða á Veraldarvefnum.

Auglýsingar

Comments are closed.