Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Um hugmyndafræði

Höfundur: Baldvin Steindórsson

Það er svo sannarlega áhugavert fyrir okkur sálfræðinga að reyna að greina og lesa í öll þau sálfræðilegu fyrirbæri sem birtast í uppgangi og gjaldþroti þeirrar hugmyndafræði sem ráðið hefur ferðinni í hinum vestræna heimi undanfarin ár.  Ég á auðvitað við hina óheftu markaðshyggju eða nýfrjálshyggju. 

Við höfum fylgst með hvernig fjöldi mætra einstaklinga erlendra og innlendra hafa varað við og fært rök fyrir hvert stefndi.  Af handahófi má nefna Ragnar Önundarson sem á síðustu árum hafði skrifað fyrir hrun, rétt um þrjátíu greinar í Morgunblaðið og rakið með nánast óhuggulegri nákvæmni hvert við værum að stefna.  Einnig er ánægjulegt að minnast dægurhetjunnar Vilhjálms Bjarnasonar sem nú hefur fengið uppreisn æru, eftir að hafa verið í hlutverki barnsins í ævintýrinu um “Nýu fötin keisarans”. Undanfarin ár hefur hann verið flestum leiður, úthrópaður kjáni og hrellir hluthafafunda, nú er hann hinn vitri.

Við sjáum allt róf sálfræðilegra varnarhátta og fleiri sálfélagsleg fyrirbæri þegar við skoðum það sem gerst hefur.  Afneitunin og hrokinn eru sennilega mest áberandi.  Á bak við hroka og sjálfumgleði finnum við yfirleitt minnimáttarkennd og firringu.  Afneitun, trúgirni og skortur á gagnrýnni hugsun fara oftast saman.  Allt hefur þetta gerst í gegnum hópsefjun hinnar ráðandi hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.  Ég minnist þess þegar fulltrúar óheftrar markaðshyggju voru að færa rök fyrir frjálsri sölu áfengis í matvöruverslunum og fengu ákveðin rök sem mæltu gegn því frá Landlæknisembættinu, fagfélögum heilbrigðisstétta og erlendum sérfræðingum, svarið við slíkum ábendingum var “það skiptir ekki máli þetta er bara eins og hver önnur vara og “prinsippið” er að markaðurinn á að ráða”.

Einar Már Jónsson er doktor í miðaldafræðum og hefur kennt við Sorbonne háskóla í yfir þrjátíu ár, hann gaf út áhugaverða bók 2007, “Bréf til Maríu”.  Bókin er margþætt og oft bráðskemmtileg en fyrst og fremst er hún frumleg tilraun til að varpa ljósi á hvernig hugmyndafræði (nýfrjálshyggjan) smátt og smátt varð allsráðandi í hinum vestræna heimi án þess að við beinlínis tækjum eftir því að það væri að gerast.
 Það er áhugavert fyrir okkur öll sem einstaklinga að skoða hvernig okkar aðlögun/úrvinnsla hefur verið í atburðarrás síðustu ára.  Hversu vakandi hef ég verið gagnvart þeim ábendingum sem komið hafa fram, hef ég farið í virka úrvinnslustöðu eða afneitun og sofandahátt.  Hér getum við flest lært eithvað á því að líta í eigin barm.

Ég held að það geti einnig verið áhugavert fyrir okkur sem sálfræðinga að skoða hver sé ráðandi hugmyndafræði í sálfræði og sálfræðilegri meðferð á Íslandi.  Hvernig hún sé tilkomin, hve opin umburðarlynd og leitandi hún sé, eða hvort hún mögulega sé stundum of lokuð og of takmarkandi. 

Mér hefur virst og verið það umhugsunarvert hvernig sálfræðileg meðferð virðist meir og meir vera fyrst og fremst skilgreind  sem hugræn atferlismeðferð (HAM).   Nú finnst eflaust mörgum það eðlilegt því HAM er árangursrík og sannreynd nálgun, félag um HAM verið til í rúm 20 ár og verið gríðarlega öflugt í að stuðla að sí- og endurmenntun, þar hefur verið unnið frábært starf.  Ég vil taka það fram að það er mín skoðun að hver einasti sálfræðingur sem starfar að meðferð og vill telja sig vel menntaðan og vel þjálfaðan á að geta beitt HAM þegar hentar.  Ég ætla að flest séum  við sammála um að góð sálfræðileg meðferð er hugræn, atferlismiðuð og markviss/lausnarmiðuð (strategisk). 

En það er svo miklu meir sem góð sálfræðileg meðferð getur byggt á og dýrmætt að þekkja sem víðast til og hafa fengið þjálfun í samræmi við það.  Á síðustu 20 árum hef ég sótt nokkrar stórar ráðstefnur (2000  –  4000 manns) sem Milton Ericson stofnunin stendur fyrir, m.a. ráðstefnur undir heitinu “The Evolution of Psychotherapy”, þá er safnað saman sem flestum af þeim sem leiðandi hafa verið og enn eru lifandi og ernir og flóran er mikil.  Þarna hef ég hlustað á menn sem ég sjálfur las um í sögu sálfræðinnar þegar ég var í námi.  Þar hefur Viktor Frankl verið og fjallað um sínar áherslur varðandi tilgang lífsins,  Alexander Lowen sem var lærisveinn W. Reichs unnið með “líkamsbrynjuna”,  Josep Wolpe rúmlega áttræðan (það var 1995) að kenna EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing), aldnir Gestaltmeistarar með sínar áherslur á að ljúka óloknum atburðum og svo mætti lengi telja.

Það er dýrmætt að hafa breiða þjálfun, geta leiðbeint um og kennt árangursrík samskipti, þekkja möguleika dáleiðslu, geta leiðbeint um sjálfsdáleiðslu, sefjanir og hugarþjálfun, þekkja dýpt sálarlífsins, mátt trúar, tilgangs og hugleiðslu, mikilvægi nálægðar,umhyggju og samhyggðar, um leið og við erum hugræn, atferlismiðuð og markviss (strategisk ) en jafnframt leitandi, forvitin og gagnrýnin.

Auglýsingar

5 responses to “Um hugmyndafræði

 1. Andrés Ragnarsson 17.5.2009 kl. 11:50

  Kærar þakkir Baldvin

  Þarna er vel að orði komist og umhugsunarefni fyrir okkur starfandi sálfræðinga. Ég tel að við séum mörg sem höfum deilt þessum sömu áhyggjum um fagið og þröngan sjónarhól á skilgreiningum klíniskrar meðferðar. Ég er þér algerlega sammála um nauðsyn þess að við höfum víðsýna nálgun og og að baki liggi djúpur skilningur á mannlegri hegðan og hugsun.

  Hafðu þökk fyrir góða grein

  Andrés Ragnarsson

 2. Hugo 21.5.2009 kl. 20:07

  Flott hjá þér Baldvin.
  Það er mikilvægt á stundum að taka eitt skref afturábak og horfa á viðgansefnið úr fjarlægð.
  Sé það gert í sálfræði eins og við öll hefðum mátt gera gagnvart nýfrjálshyggjunni (og vinur vor Arnar gerði svo sannarlega)og öðrum „sannleika“ þá sjáum við einmitt það sem þú bendir á, HAM sem „hluta“ af lausninni en ekki einu lausnina.
  Hugo

 3. Pétur Tyrfingsson 28.5.2009 kl. 20:04

  Það er mikill misskilningur að „nýrjálshyggjan“ hafi læðst að okkur og við séum skyndilega að uppgötva hana núna. Viðast hvar kostaði það harðvítuga baráttu að hafa hana í gegn og mega menn muna verkfallsbaráttu kolanámaverkamanna í Bretlandi á sínum tíma. Svo ég minnist bara á það sem er næst okkur. Það er fyrst og fremst alþjóðleg firring og sjálfmiðun Íslendinga að vakna nú upp með andfælum og sjá að í raun hefur þetta verið að gerast út um allan heim í tæp þrjátíu ár. Það tók þó „nýrjálshyggjuna“ ekki nema 8 ár að setja Ísland á hausinn.

  Mér þykir það aftur á móti ómálefnalegt – og jaðra við dylgjur og aðdróttanir um starfsheiður minn að tala um hugræna atferlismeðferð sem „hugmyndafræði“ í sömu andrá og „nýfrjálshyggjuna“…. jafna þessu á einhvern hátt saman…. eða sjá einhverja hliðstæðu hér.

  Með því að tala um „nýrjálshyggju“ og hugræna atferlismeðferð í sömu andrá sem „hugmyndafræði“ er verið að líkja saman hugmyndafræðilegu forræði kapítalistastéttarinnar annars vegar og miklu fylgi fagmanna við tiltekna meðferðarstefnu hins vegar. Ef einhverjum finnst það vel mælt…. ég tala nú ekki um flott – þá hljóta menn að stynja undan oki hins hugmyndafræðilega forræðis hugrænnar atferlismeðferðar í sálfræðingastéttinni. Hvernig væri þá að kvarta undan því í fullri einlægni þannig að það sé hægt að ræða það með einhverjum rökum.

  Málefnaleg umræða og rifrildi um gildi meðferðar á fullt erindi. Ef mönnum ofbýður sókn hugrænnar atferlismeðferðar eiga þeir að benda á hvar hún er ofnotuð eða henni misbeitt eða hvaða annarri gagnlegri meðferð er ekki beitt þar sem hún á erindi. Allt annað er bara snakk.

  Í hvaða umræðu hefur það heyrst að HAM sé „lausnin“ með ákveðnum greini þannig að hægt sé að koma með þá athugasemd að sú meðferð sé bara hluti af lausninni? – Og hvað er átt við „lausnin“ með ákveðnum greini – er eitthvað svoleiðis til? Um hvað er verið að ræða hér?

 4. Baldur Heiðar Sigurðsson 29.5.2009 kl. 17:02

  Ég tek undir með Pétri. Ég hnaut einmitt um þetta að HAM væri hér felld undir hugtakið sem „hugmyndafræði“ í sama skilningi og stjórnmálastefnur eru hugmyndfræði. Sem meðferðarsálfræðingar ber okkur nefnilega að leitast við að starfa eins vísindalega og kostur er (scientist-practitioner módelið) og þá er algjört lykilatriði að hafa kenningarlega fótfestu í þeim aðferðum sem maður notar og skilja afhverju aðferðirnar sem maður notar virkar en ekki bara vita að þær virka. Það er ekkert „hugmyndafræðilegt“ við þetta.

  Vissulega má halda því fram að sú vísindahyggja sem ég mæli hér fyrir sé hugmyndafræði, en komumst við þá hjá því (í sömu andrá og talað er um alræði hugrænnar atferlismeðferðar sem hér er gefið í skyn) að ræða það hvort við eigum að vinna vísindalega eða einhvern veginn öðruvísi? Á hvaða hátt þá?

 5. Jón B 21.6.2009 kl. 18:20

  Merkilegt að félagi Pétur getur ekki einu sinni varið HAM án þess að grípa í dauðadæmda hugmyndafræði Marx og félaga svo sem „firring“ og „sjálfmiðun“.
  Það skyldi þó aldrei vera að verið sé að læða hugmyndafræði kommúnismans inn meðal sálfræðinga á enn lymskulegri hátt en frjálshyggjunni?