Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Um mótívasjónspsykólógí

Höfundur: Ásgeir Sigurgestsson

 

Það rann upp fyrir mér á dögunum að nú í janúar 2009 voru liðin fjörutíu ár síðan ég hóf nám í sálfræði við Psykologisk institutt, Samfunnsvitenskapelig fakultet, Oslo Universitet. Hvorki meira né minna en nokkrir áratugir og þetta líka stórvirðulega heiti menntastofnunarinnar. Þá hafði ég verið í “fílunni” á haustmisserinu 1968 við þann sama skóla, býsna gagnlegu ágripi af heimspeki, rökfræði og sálfræði sem ég sé ekki eftir og hygg að hafi verið til óþurftar að leggja niður síðar sem fornám við Háskóla Íslands. Þetta fyrsta skref í akademískri hugsun er öllum hollt. Og ég gat aukin heldur flaggað fyrstu háskólagráðunni: Cand. phil.!

 

Það var náttúrlega allt orðið vitlaust; vorið í París 1968 varð að hausti í Osló líkt og víðar; glórulaust andóf og iðandi kröfugöngur og einn daginn “okkúperuðum” við hiklaust skrifstofu rektors. Sálfræðinemar fremstir í flokki. Ég á einhvers staðar mynd af mér úr norska Stúdentablaðinu vígreifan, fúlskeggjaðan og kátan með kröfuspjald: Makten til studentene! Í framhaldinu varð hárið æ síðara, skeggið náði smám saman niður á bringu og allur sá hárvöxtur var í nánu samræmi við viðlíka vaxandi pólitíska vitund. Mussur og molskinnsbuksur höfðu tekið við af hvítum skyrtum og svörtum lakkrísbindum menntaskólaáranna undir staka jakkanum, með viðkomu í rúllukragapeysum veturinn 1967-68 sem þóttu gefa meint en ekki bein skilaboð; peysan mín gaf Ásdísi systur tilefni til að segja við mig um jólin: “Þú ert að verða eitthvað svo vinstrisinnaður í klæðaburði.”

 

Toppurinn var svo litríkur og illa þefjandi afgahn-pels þegar leið á árið 1969 en fæstir náðu því takmarki; framboð var minna en eftirspurn og staðan þannig að ekki var gefið að eiga fyrir tvíbökum undir mánaðarlok, hvað þá smjöri. Síldarmiðin höfðu tæmst og gengið fallið um 100%.

 

Í upphafi sálfræðinámsins fengum við svolitla innsýn í það sem á norsku heitir motivasjonspsykologi – eigum við að kalla þann kima fagsins sálfræði áhugahvatanna? Námsefnið var æði líffræðilegt og átti ekki upp á pallborðið hjá róttækum sextíuogátta-garpi sem hafði þegar höndlað allan sannleikann um að gjörvallt mannlegt atferli ætti sér félagssálfræðilegar rætur, gott ef ekki pólitískar, og sló hiklaust og glaðbeittur um sig í kaffipásum við kollegana á daginn og stelpurnar í helgarpartíum með tilvitnunum í Marx og Ronald Laing.

 

Þessi upprifjun dregur nú, svo löngu síðar, athyglina að áhugahvötunum –  mótívasjónunum. Ég hef raunar lengi velt því fyrir mér hvað í ósköpunum varð til þess að ég lagði land undir fót og hélt til Oslóar að nema sálfræði; ég sem hafði frá tólf ára aldri verið staðráðinn í að verða arkitekt eftir að ég varð hugfanginn af húsi Gísla Halldórssonar arkitekts á horninu á Dunhaga og Tómasarhaga sem ég gekk fram hjá á leið í Melaskólann og síðar Hagaskólann á hverjum degi í mörg ár. Það hafði verið útnefnt fallegasta hús á Íslandi og er enn jafn fallegt. Mér var meira að segja boðin skólavist í tveimur arkitektaskólum í Bretlandi þegar ég fór að huga alvarlega að þessu í sjötta bekk í MR. Og var fyrir löngu farinn að hanna bæði kirkjur og húsgögn með sirkli og reglustiku fram á nótt.

 

Lengi vel hélt ég fram pottþéttri skýringu á ákvörðuninni um sinnaskiptin, þ.e. að velja sálfræðinámið – eftir að ég tók hana. Inntak hennar var að síðasta árið í MR, 1966-1967, tók ég virkan þátt félagsskap ungs fólks sem nefndist Tenglar við hlið leiðtogans, Sveins Rúnars Haukssonar, og góðra félaga sem ég virti mikils, meðal annarra Ludvigs Guðmundssonar og Helga heitins Kristbjarnarsonar. Allir urðu þeir síðar læknar (séra Árilíus Níelsson sagði einu sinni við okkur að við ættum frekar að heita Englar og þeir sem muna röddina hans vita hvernig hann sagði það). Tilgangurinn var að tengjast sjúklingum á Kleppsspítalanum, heimsækja þá og spjalla, halda þeim skemmtanir og dansiböll og rjúfa félagslega einangrun, auka lífsgæðin eins og það er kallað nú. Mér þykir ekki ólíklegt að dr. Tómas Helgason yfirlæknir og sá ljúfi og virti kollega, Gylfi heitinn Ásmundsson, þá eini sálfræðingur Kleppsspítala og síðar dýrmætur lærifaðir minn, hafi í fyrstu borið í brjósti nokkrar efasemdir um þetta framtak okkar. En þeir tóku þann pól í hæðina að treysta okkur og styðja. Það var mikilsvert og virðingarvert.

 

Ég veit raunar ekkert um hvaða áhrif þetta brölt okkar hafði en við trúðum því að við værum að ryðja nýjar brautir og hefðum erindi sem erfiði. Það var okkur nóg, gild og glöð sannfæring. Sagan segir okkur reyndar, eftir á að hyggja, að hugljómun þessara ungu manna og kvenna, Tengla, – að rjúfa félagslega einangrun fólks á geðsjúkrahúsi – hafi sennilega verið eiginlegt frumkvöðlastarf og fyrsta skrefið af mörgum í þá veruna. Skref sem er jafnvel fyrst nú á allra síðustu árum að bera ríkulegan ávöxt með starfi Hugarafls, Klúbbsins Geysis, Geðhjálpar og fleiri aðila. Nú reyndar fyrir tilstilli “sjúklinganna” sjálfra og eldhuga meðal fagfólks og aðstandenda. Og nú verðum við vitni að átaki stjórnvalda – Straumhvarfaverkefninu 2006-2010 – sem miðar að því að rjúfa enn frekar félagslega einangrun fólks með langvarandi geðraskanir. Það er verið að bjóða fjölda fólks sjálfstæða búsetu utan geðdeilda með stuðningi. Vonandi verður hann nægur og til góðs.

 

Ég get ekki stillt mig um að rifja það upp að fyrir eitt skemmtikvöld Tengla haustið 1967 renndi ég á gamla Chevrolettinum mínum niður í Þjóðleikhús til að ná í Árna Tryggvason sem hafði góðfúslega fallist á að fara með gamanmál. Það varð ljóst síðar hverjum hjarta hans sló þegar Ingólfur Margeirsson hafði af alkunnu listfengi skráð lífsspjall hans, meðal annars um heimsóknir “svarta hundsins”, margendurteknu þunglyndi og kvíða. Því er óhætt að segja frá því núna að Árni sagði mér frjálslega frá því í Chevrolettinum á leiðinni inn að Kleppi hvernig hann kúgaðist og seldi stundum upp við bakdyr Þjóðleikhússins fyrir leiksýningar fyrir kvíðasakir. Það var mér dýrmæt og ógleymanleg trúnaðarstund. Sjálfur Árni Tryggvason, sannkölluð þjóðhetja, var að segja mér, óhörnuðum skólapiltinum, frá þessu!

 

Ég veit ekki hvernig Árna leið að ætla í fyrsta sinn að skemmta sjúklingum á Kleppsspítala en ég þóttist skynja að hann væri býsna óviss um hvort gamanmál hans myndu “gera sig” í þeim hópi. Þekkti ekki til. Því er skemmst frá að segja að hann sló í gegn; allir þekktu Árna, hann þurfti ekki annað en að koma inn á sviðið, skima kíminn í kringum sig, þá lá salurinn í hlátri. Hvað þá þegar hann fór að segja sögur og gamanið byrjaði fyrir alvöru. Þetta var “uppistand” sem nú heitir, einn maður með gamanmál á sviði. Það gekk svo langt að nokkrir gesta – með eða án geðraskana – tóku slík bakföll af hlátri að stólarnir ultu aftur fyrir sig og áheyrendur lentu með hnakkann í gólfinu. Ekki urðu þó teljandi slys á fólki. 

 

En það var þetta með áhugahvatana, mótívasjónirnar, sem áttu að vera uppistaðan í þessum pistli. Það fór ugglaust ekki hjá því að áhuginn og aukin vitund um félagsleg málefni, aðstæður fólks með geðraskanir og áhrif frá meðvituðum skólabræðrum höfðu sín áhrif; að láta gott af sér leiða fyrir þá sem “minna máttu sín” eins og það hét á þeim árum. Var það ekki fáfengilegt að ætla að teikna hús fyrir fólk sem þurfti ekki annað en nýtt hús? Aðrir gætu gert það. Um það var ég sannfærður í upphafi sálfræðinámsins en það var um það bil á þriðja ári, 1971, að ég fór að efast að ráði og áttaði mig á því að arkitektar gátu vissulega verið jafn félagslega meðvitaðir og sálfræðingar, sannarlega haft pólitíska vitund og haft sín áhrif sem slíkir. Og undir lok námsins var ég í fullkominni óvissu um hvað olli námsvalinu og þar með hvers vegna ég væri um það bil að verða sálfræðingur, sem ég var að vísu prýðilega sáttur við. Þá var ég horfinn til náms við sálfræðideild Árósaháskóla líkt og flestir landa mínna sem hófu námið í Osló. Voru það áhrifin frá Tengla-starfinu, vaxandi félagslegri og pólitískri meðvitund kynslóðar minnar með auknum þroska og breyttum tíðaranda? Allir voru í leit að sjálfum sér og öðrum, allt var til endurskoðunar og kom til álita, ekkert var sjálfgefið. Tíðin líktist helst þeirra tíma símstöðvum á landsbyggðinni sem voru ekki orðnar sjálfvirkar og fínlegar dömur með heyrnartól gáfu samband með því að stinga pinnum í kassa með merkt göt eftir því við hvern átti að tengja. En nú var búið að kippa öllum pinnunum úr sambandi og það voru engar merkingar á götunum. Hvað var til ráða? Hvað átti ungur maður að gera? Er ekki trúverðugt og rökrétt að hann færi að læra sálfræði?

 

Eða eru áhugahvatirnar ef til vill alls ekki svona flóknar? Eru það jafnvel, þegar allt kemur til alls, allt aðrar hvatir sem ráða náms- og starfsvali en félagslegar og málefnalegar – vitsmunalegar? Er skýringanna ef til vill að leita í þeirri sögu sem nú verður sögð?

 

Fagran sumardag 1967 bauð ég stúlkunni minni í bíltúr, einu sinni sem oftar. Bíltúrar voru sívinsælir á þeim árum, enda bílar þá ástarskjól ungs fólks sem bjó í hnýsnum foreldrahúsum, engir barir og tæplega kaffihús nema stútfullt Mokka og Tröð og lítrinn af bensíninu margfalt ódýrari en bjórnum nú, mælt á föstu verðlagi. Og það var nóg af fáförnum vegarslóðum út frá þjóðveginum til yndisstunda.

 

Af einhverjum ástæðum ókum við út fyrir bæinn; sveitirnar heilluðu í svo fallegu veðri með svo fallegri stúlku. Áður en við vissum af vorum við komin upp á Kjalarnes og brátt skartaði Hvalfjörðurinn sínu fegursta í lyngri blíðu. Á gamla Chevrolettinum mínum var þriggja manna sætisbekkur frammí. Ekki veit ég hvort það var fegurð himinsins, stilla hafsins eða eitthvað allt annað sem olli því að til móts við Hvammsvíkina færði stúlkan mín sig enn nær mér – var raunar vön að sitja í miðsætinu en hallaði sér nú upp að mér og ég lagði hægri handlegginn um axlir hennar. Hún notaði Je Revien ilmvatn.

 

Ég hafði ekið bílnum í öðrum gír (af þremur) vegna þess að þetta var hægur og notalegur sunnudagsbíltúr og okkur lá ekkert á. Allt lífið var framundan og spjallið var hlýtt og náið. Vinstri höndin var auðvitað á stýrinu enda malarvegurinn um Hvalfjörðinn enn krókóttari en nú og holóttur þar að auki. Þessar kringumstæður urðu til þess að mér varð óhægt um vik að skipta upp í þriðja gír; hægri höndin upptekin við að halda utan um stúlkuna mína og sú vinstri önnum kafin við að feta krókaleiðir Hvalfjarðar. Chevrolettinn eyddi að vísu öllu meira bensíni í öðrum gír, en ég var svo hugfanginn af því hvað stúlkan mín var nálæg mér, jafnt með eiginlegri nærveru sinni, fransk-íslenskum ilmi, hlýju og nánu spjallinu að ég þorði ekki að sleppa takinu um axlir hennar. Það varð til þess að ég náði ekki að færa gírskiptistöngina fyrr en við komum á beina kaflann eftir brekkuna upp frá Hvalstöðinni. Þá gat ég sleppt stýrinu eitt augnablik, stigið á kúplinguna og skipt í þriðja. 

 

Það er síðan að lokum kjarninn í sögunni að innarlega í Hvalfirðinum, ef til vil vill á móts við Botnsskála, sagði stúlkan mín við mig þegar við vorum að spjalla um framtíðina og það var ljóst að hún vildi feta listabrautina:

 

“Annars held ég að sálfræði sé mjög spennandi fag. Ég gæti vel hugsað mér að vera gift sálfræðingi.”

 

Ég hallast æ meir að þeirri tilgátu að þarna í Hvalfirðinum hafi örlög mín ráðist á fögrum degi sumarið 1967.

 

P.S. Til áréttingar þessum hugrenningum hvet ég fólk til að lesa bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin, og raunar allra helst að hlusta á hana í þeim launkímna upplestri Hjalta Rögnvaldssonar sem hæfir einmitt inntakinu.

Auglýsingar

3 responses to “Um mótívasjónspsykólógí

  1. Andrés Ragnarsson 11.5.2009 kl. 15:45

    Þetta er nú alveg frábær saga og trúlega alveg rökræn afleiða…

  2. Margrét Bárðardóttir 14.5.2009 kl. 15:56

    Dásamlegt innlegg í sögu sálfræðinnar!

  3. Halla Þorvaldsdóttir 20.5.2009 kl. 10:56

    Mikið var þetta ljúf saga! Ég brosi, ekki bara í kampinn, heldur allan hringinn… Líf fólks ræðst sannarlega af mikilvægum þáttum!