Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Streitan og glíman við ellina

Höfundur: Ása Guðmundsdóttir

Því er haldið fram að eldra fólk standi enn í útjaðri heilsuvísindanna. Öldrunarsálfræði er frekar nýleg fræðigrein, lengi vel var litið svo á að sálfræðimeðferð hentaði ekki gömlu fólki, því hún borgaði sig ekki.

Síðasta æviskeiðið einkennist af vaxandi heilsufarslegri skerðingu, krónískum líkamlegum sjúkdómum, hreyfihömlun, missi mikilvægra einstaklinga í umhverfinu, hjálpar- og umönnunarþörf. Það eru þó ekki eingöngu hlutlægt mælanlegar breytingar á líkams- og hugarstarfsemi og aðstæðum sem einkenna ellina. Aðrir þættir sem skipta máli eru m.a. þau viðhorf til ellinnar sem samfélagið miðlar, það sem einstaklingurinn sjálfur hugsar um það að eldast, túlkun hans á eigin aðstæðum út frá þessum þáttum og væntingar hans um framtíðina. Þær væntingar til ellinnar sem ríkja í samfélaginu virka sem staðalmyndir, sem hver einstaklingur þarf að takast á við í auknum mæli með auknum aldri. Neikvæðar staðalmyndir um ellina eru enn útbreiddar, þótt jákvæðari viðhorf  séu heldur á uppleið. Margt ungt fólk forðast að hugsa um sjálft sig eldast, þar sem það óttast fyrst og fremst neikvæðar breytingar. Eldra fólk hins vegar kemur yngra fólki til að brosa með því að segja “maður er eins ungur og manni líður og mér finnst ég tiltölulega ung”. Þarfir einstaklinga og viðfangsefni eru ótrúlega ólík á þessu æviskeiði. Á meðan sumir berjast við að aðlagast heilsubresti, makamissi og ýmsum róttækum breytingum á flestum sviðum lífsins eru aðrir að vinna í að bæta tíma sinn í langhlaupi.

Reynsla og rannsóknir sýna að mikil þörf er fyrir sálfræðilega aðstoð við aldraða. Í dag flokkast ýmis þau vandamál sem aldraðir eru að glíma við undir streitutengd vandamál. Þar má nefna áföll og erfiðleika tengda aðlögun að ellinni. Á efri árum getur úrvinnsla áfalla eða erfiðra upplifana (traumatískra) orðið mikilvæg, hvort sem atburðirnir eru nýskeðir eða liggja lengra aftur. Einnig verður það ekki umflúið að takast á við dauðann á einhvern hátt.

Fyrstu rannsóknir á áhrifum áfalla á gamalt fólk bentu til að áföll hefðu minni áhrif hjá öldruðum en hjá yngri fullorðnum og hjá miðaldra fólki. Ástæður þess að menn héldu að gamalt fólk væru síður viðkvæmt fyrir áföllum voru meðal annars að gamalt fólk talar sjaldnar um áföll í samtölum, kvartar minna um erfiðleika og á sjaldnar aðgang að sálfræðimeðferð. Nýrri rannsóknir á áföllum af mannavöldum benda hins vegar til að ef um er að ræða slíkar tegundir áfalla fari einkenni vaxandi frá miðjum aldri.

Frekar lítið er vitað um hvað einkennir áfallastreitu aldraðra sérstaklega, en þó er talið að helstu einkenni séu ágengar minningar, forðun gagnvart aðstæðum og tilfinningum, tilfinningadoði og lífeðlisleg oförvun. Almennt er talað um að einkenni kvíða hjá öldruðum séu fyrst og fremst í formi lífeðlislegrar ofvirkni, eins og ofsakvíða, líkamlegrar spennu, eirðarleysis og svefntruflana. Oft er um að ræða blöndu af kvíða og þunglyndi.

Hjá eldra fólki er gjarnan greint á milli krónískrar áfallastreitu, sem orsakast af fyrri áföllum og síðkominnar áfallastreitu sem kemur (aftur) fram í ellinni og byggir á fyrri áföllum. Krónísk áfallastreita sem rakin er til fyrri áfalla getur orsakast af öllum þekktum tegundum áfalla, af mannavöldum eða vegna slysa.

Þekking, t.d. frá Þýskalandi byggir á ævireynslu núlifandi Þjóðverja sem hafa upplifað stríð, hrakninga, brottrekstur, ofsóknir og kynþáttabundnar ofsóknir þeirra sem lifðu af útrýmingarbúðir nasista.Rannsóknir hafa sýnt að allt að 5% aldraðra Þjóðverja þjáðust af áfallastreitu sem orsakaðist af slíkum atburðum tengdum seinni heimsstyrjöldinni.

Síðkomin áfallastreita er það nefnt þegar sjúklingar hafa verið einkennalausir í ár eða áratugi eftir áföll en síðan sækja á íþyngjandi minningar á gamals aldri. Þýsk rannsókn sýndi að hjá þýskum gyðingum fjölgar minningum frá hræðilegum atburðum eftir sjötugt. Hugsanleg orsök þess að áfallastreita kemur fram í ellinni getur verið sú að fólk er laust frá mikilvægum félagslegum hlutverkum sínum og skyldum. Eldra fólk hefur þá meiri tíma til að dvelja við minningar sínar. Ein rannsókn (Kruse og Smitt 1999) sýndi að minningum um eldri áföll fjölgaði mjög eftir að maki dó, en eitt erfiðasta viðfangsefnið og jafnframt algengasti álagsþátturinn sem gamalt fólk þarf að takast á við er missir náins ástvinar og sorgin sem fylgir í kjölfarið. Gera má ráð fyrir að um helmingur einstaklinga yfir sextugu hafi misst maka. Það þýðir oft missi margra ára tilfinningahlaðins sambands, óháð því hversu fullnægjandi eða átakamikið sambandið hefur verið.

Þegar fólk losnar ekki við sorgina eftir missi kemur oft fram það sem kallað er flókin sorg. Litið er á flókna sorg sem form streituviðbragðsheilkennis, sem í stórum dráttum gengur eins fyrir sig og áfallastreita. Oft var haldið að þunglyndi væri skýringin, en rannsóknir hafa sýnt að það er ekki endilega raunin, heldur sækja á íþyngjandi minningar og valda því að fólk dregur sig í hlé í stað þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Flestir ná þó með árunum að verða þokkalega sáttir við lífið á ný. Engu að síður er mikilvægt að vera vakandi fyrir álaginu og streitunni sem fylgt getur slíkum missi.

Gjarnan er talað um aðlögunarferli ellinnar, sem einkennist af því að fólk stillir sig inn á nýjan raunveruleika og ný verkefni. Þá er einstaklingurinn að reyna að breyta atburðum sem innihalda slæmar fréttir  eins og missi, ógnun eða áföll yfir í raunveruleika þar sem hann getur lifað við þokkalega vellíðan. Eitt flóknasta verkefnið sem krefst slíkar aðlögunar er það að flytja á öldrunarstofnun. Notað hefur verið streitulíkan Lazarus til að skilgreina hvað almennt gerist við þann veigamikla atburð í lífinu að fara á öldrunarstofnun. Þá er flutningur á öldrunarstofnun skilgreindur sem streituvaldur, sem krítískur eða áhættusamur lífsviðburður sem veldur álagi. Gert er ráð fyrir að álagið sé mun meira fyrir eldra fólk, sem oft er undir margföldu álagi fyrir vegna veikinda og/eða missis, sem venjulegar aðferðir streitustjórnunar duga oft ekki til að takast á við.

Í starfi jafnt sem í umgengni við þá sem heyja glímuna við ellina getur því verið gagnlegt að líta á algeng viðfangsefni þess æviskeiðs: langvinna sjúkdóma, sorg eftir ástvinamissi, nálægð eigin dauða og flutning á öldrunarstofnun sem streituvalda til að geta veitt stuðning og meðferð við hæfi. Aldraðir virðist nota þau úrræði sem þeir hafa til að höndla aðlögun að elli með þeim breytingum sem fylgja.Við vitum að hægt er að hafa áhrif á streituferlið til að draga úr alvarlegum afleiðingum, þannig að ljóst að er nýta má þá þekkingu og þær aðferðir sem notaðar eru í meðferð í dag.

Auglýsingar

One response to “Streitan og glíman við ellina

  1. Álfheiður Steinþórsdóttir 18.4.2009 kl. 17:42

    takk Ása
    áhugavert að lesa umfjöllun um þennan aldurshóp sem svo sjaldan er fjallað um af okkur sálfræðingum.