Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Maður er manns gaman

Höfundur: Gylfi Jón Gylfason

Stundum fannst mér eins og ég hlyti að vera eini Íslendingurinn sem ekki var búinn að koma sér upp fésbókarsíðu. Ég heyrði í sífellu að þetta væri ósköp skemmtilegt – í raun og veru nauðsynlegt. Maður væri einhvern veginn eins og hálfur maður ef maður ætti  ekki  svona fésbók.  Ég þráaðist nú samt við að gera þetta þrátt fyrir ertni vinnufélaga og vina. Fannst einfaldlega skrítin tilhugsun að setja inn myndir og frásagnir af mér  og fjölskyldunni sem fólk út í bæ gæti skoðað og haft skoðun á. Ég lét nú samt til leiðast að lokum. Og viti menn: Þetta var einhvern veginn allt öðru vísi en ég hafði ímyndað mér. Á örskömmum tíma snjóaði yfir mig fólki sem vildi vera vinur minn. Hugsa sér.  Ef ég man rétt hef ég ekki verið spurður að því hvort ég vilji vera vinur einhvers síðan ég var í leikskóla þannig að þetta fannst mér merkileg lífsreynsla. Margir þeirra sem vildu vera vinir mínir voru ættingjar mínir sem ég hef ekki talað við í mörg ár og suma aldrei. Ég er líka kominn í samband við gömul bekkjarsystkini mín úr barnaskóla og hef meira að segja talað við þau líka. Svo eru það líka vinir og kunningjar sem maður hefur kynnst í  gegnum árin en einhvern veginn misst samband við. Margir þessara vina birtust á fésinu mér til mikillar ánægju. Ég er nú samt reynslulítill í þessu því Þetta er náttúrulega flókið líka. Til dæmis man ég að það var það dauðans alvara í leikskólanum ef einhver spurði: Viltu vera vinur minn og fékk svarið: Nei! Ekki hef ég legið andvaka yfir því að svara þeim sem ég þekki ekkert og segja þeim að ég ætli ekki að vera vinur þeirra en mér fannst þetta erfitt samt alveg eins og á leikskólanum. Ekki vildi ég móðga neinn. Ég held  samt að sumir sem spurðu hvort þeir vildu vera vinir mínir hafi ekki haft á því neinn sérstakan áhuga. Til dæmis eru stjórnmálamenn sem ég hef aldrei talað við eða hitt í hópi þeirra sem segjast vilja vera vinir mínir. Fyrir utan erfiðleikana að finna út úr því hver er vinur manns og hver ekki finnst mér Fésbókin frábær. Ekki bara er ég kominn í samband við frændfólk, vini og kunningja, ég veit meira að segja hvað þeir eru að gera líka. Sumir gera skattaskýrsluna sína á hárréttum tíma, aðrir draga hana fram á síðustu stundu. Enn aðrir eru alltaf í ræktinni að elda eða eru helteknir af áhugamálum sínum. Á fésbókinni tekur maður þátt í þessu öllu þótt úr ákveðinni fjarlægð sé. Núna undanfarnar vikur hef ég til dæmis talið niður með tveimur félögum sem eru að fara erlendis. Báða hlakkar mikið til, annar er að fara til að spila golf hinn til að veiða. Einn var að losna við spangirnar sínar og öll sáum við hvað tennurnar hans eru orðnar þráðbeinar og flottar. Ég fylgist líka með gleðinni þegar Arsenal vinnur og dáist að pólitískri sannfæringu þeirra sem eru upp að öxlum í pólitík og landsfundavinnu. Svo er það líka óléttan sem er að bresta á með barnsburði á allra næstu dögum og við fylgjumst öll með.  Það besta af öllu er að á fésinu virðast allir vera jákvæðir og glaðir. Meira að segja þegar fólk er pirrað þá greinir það frá því á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Þetta er svona pínulítið eins og í söngvamyndunum frá fimmta og sjötta áratugnum: Maður veit að þetta fer allt saman vel. Þetta reddast. Um daginn gerðist það svo: Ég áttaði mig á því að það besta sem hefur komið fyrir mig í kreppunni er fésið. Alltaf þegar brestur á hjá mér með áhyggjum af börnunum mínum, vinum og ættingjum hvernig þetta fari nú allt, hvað framtíðin beri í skauti sér, gleymi ég kreppunni að minnsta kosti um sinn með því að taka þátt í áhyggjuleysinu á fésinu.  Svo er þetta líka ókeypis eða því sem næst, því ég held að eiginlega öll heimili á landinu séu nettengd hvort eð er.  Lesandi góður. Það sem er að gera mér gott gæti alveg virkað vel fyrir þig líka. Næst þegar hellist yfir þig kreppusvartsýnin skaltu skella þér inn á fésbókina og njóta þess áhyggjuleysis sem þar ríkir. Kannski ertu kjarkmeiri en ég. Þú getur gefið einlægu stjórnmálamönnunum tækifæri og sagt já ef þeir vilja vera vinir þínir. Maður er manns gaman.  Gylfi Jón Gylfason yfirsálfræðingur á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Auglýsingar

2 responses to “Maður er manns gaman

  1. Hafrún 12.4.2009 kl. 22:22

    Þetta var hressandi lesning. Takk fyrir mig

  2. Guðrún 20.4.2009 kl. 17:58

    Gaman að lesa er jáhvætt.