Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Uppeldi og uppeldisfræðsla – áhrifaríkt forvarnarstarf

Höfundur: Gyða Haraldsdóttir

Foreldrar og uppeldi
Að vera foreldri er eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni fullorðinsáranna. Foreldrahlutverkið hefst strax við fæðingu barnsins og felur í sér, auk umönnunar og verndar, að hjálpa börnum að tileinka sér hegðun og færni sem líkleg er til að koma þeim til góða í framtíðinni. Markmið uppeldis er jafnframt að koma í veg fyrir óæskilega hegðun og þróun alvarlegri erfiðleika og að barnið verði heilbrigt, vel aðlagað og hamingjusamt. Uppeldisfærni er hins vegar ekki meðfædd og eðlilega tekur tíma og fyrirhöfn að tileinka sér nauðsynlega þekkingu og kunnáttu.

Langflestir foreldrar hefja feril sinn sem uppalendur lítt undirbúnir fyrir það sem framundan er. Sumir geta fengið ráð og stuðning frá eigin foreldrum, öðrum ættingjum eða vinum. Einnig bjóðast alls konar ráðleggingar og upplýsingar í hinum ýmsu fjölmiðlum, bæði prent- og ljósvakamiðlum auk vefsíðna og spjallrása á netinu. Þetta efni er þó ákaflega misjafnt að gæðum svo vægt sé til orða tekið. Jafnvel vel meintar ráðleggingar frá nánustu vinum og fjölskyldu eru misgóðar, þær geta stangast á innbyrðis, verið úreltar og/eða á skjön við bestu gagnreyndu þekkingu á hverjum tíma. Því er ekki hægt að ætlast til að í samfélaginu sé sjálfkrafa nægilegt framboð á fræðslu, ráðum og upplýsingum fyrir foreldra, enda má segja að slíkt efni sé í besta falli ósamræmt og í versta falli skaðlegt. Niðurstaðan verður því oft sú að ungir foreldrar prófa sig áfram á fremur handahófskenndan hátt og verða á ýmis mistök sem mörg mætti auðveldlega fyrirbyggja.

Uppeldisfræðsla
Ýmsar stofnanir félags-, mennta- og heilbrigðiskerfisins hafa það hlutverk að fylgjast með aðbúnaði og þroska barna. Eitt af öflugustu verkfærunum til að hlúa að heilsu og velferð barna er að efla uppeldisfærni foreldra. Allmargar fagstéttir hafa menntun, þekkingu og reynslu sem nýtist til að fræða foreldra um uppeldi og hafa sálfræðingar þar ekki síst mikilvægu hlutverki að gegna. Til að uppeldisfræðsla skili sem bestum árangri þarf hún að hefjast snemma á ævi barnsins svo strax megi bregðast við ef erfiðleikar koma upp og fyrirbyggja frekari þróun þeirra. Almenn heilsugæsla, sérstaklega ung- og smábarnavernd, er þarna í lykilaðstöðu þar sem hún hefur þétt og regluleg tengsl við langflesta foreldra ungbarna frá fæðingu. Skilningur hefur aukist á að þessi þáttur heilsugæslu sé ekki síður mikilvægur en eftirlit og fræðsla um heilsufar og þroska, enda á hugtakið heilsa ekki bara við um líkamlegt heilbrigði, heldur einnig félagslega og geðræna vellíðan.

Þetta viðhorf hefur styrkst undanfarin ár og endurspeglast m.a. í því að sálfræðingar eru komnir til starfa á allnokkrum heilsugæslustöðvum. Nýleg heilsustefna heilbrigðisráðuneytisins inniheldur áherslu á forvarnir og markmið sem sérstaklega beinast að heilsueflingu barna og ungmenna, ekki síst geðheilsu. Auka á færni fagfólks á fyrstu stigum heilbrigðisþjónustu til að styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu og flétta uppeldisfræðslu inn í almenna heilsuvernd barna. Til að þetta megi ganga eftir er brýnt að heilsugæslustöðvar hafi á að skipa þverfaglegum starfshópi, þ.á.m. sálfræðingum.

Töluvert er síðan byrjað var að auka markvissa uppeldisfræðslu innan heilsugæslunnar með útgáfu á fjölbreyttu, samræmdu fræðsluefni byggðu á viðurkenndum, reynsluprófuðum aðferðum. Hvatinn var m.a. að foreldrar leituðu æ oftar ráða hjá hjúkrunarfræðingum um heppilegar uppeldisaðferðir og viðbrögð við hegðunarerfiðleikum. Könnun meðal foreldra sýndi sömuleiðis að þeir töldu uppeldisfræðslu skorta og að heilsugæslunni bæri að sinna slíkri fræðslu.
Hluti fræðsluefnisins er námskeiðið Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar og handbókin Uppeldisbókin – Að byggja upp færni til framtíðar. Áhersla er á að fyrirbyggja erfiðleika og laða fram æskilega hegðun með skipulagi, markmiðsetningu, framtíðarsýn, föstum venjum, beinni kennslu, góðu fordæmi og jákvæðum aðferðum.

Sálfræðingurinn Matt Sanders sem þróað hefur markvissa foreldrafræðslu í Ástralíu segir skilning stjórnvalda víðsvegar um heiminn hafa aukist á forvarnargildi uppeldis gegn fjölmörgum félags- og heilbrigðisvandamálum, þ. á m. andfélagslegri hegðun. Viðamiklar rannsóknir hans hafa sýnt að foreldrafræðsla byggð á gagnreyndum aðferðum atferlis-, félagsnáms- og hugrænna sálfræðikenninga er vænlegust til árangurs til lengri tíma litið. Enn fremur að uppeldisfræðsla og þjálfun foreldra gagnast ekki einungis til að lækka tíðni vandamála hjá börnum, heldur einnig hjá foreldrunum. Jákvæðar afleiðingar skipulagðrar uppeldisfræðslu voru:

 • Minni notkun óheppilegra uppeldisaðferða og aukning jákvæðra aðferða.
 • Bætt reiðistjórnun foreldra.
 • Meiri ánægja foreldra í parasambandinu.
 • Aukið sjálfstraust foreldra gagnvart erfiðri hegðun barna.
 • Minni streita og lækkuð tíðni kvíða og þunglyndis hjá foreldrum.
 • Færri vandamál og lægri tíðni hegðunarvandamála hjá börnum.

Áhrifaþættir
Viðurkennt er að óheppilegar uppeldisaðferðir tengjast erfiðleikum í hegðun og tilfinningalífi barna. Börn sem búa við agaleysi, hörku eða skort á stöðugleika og jákvæðri svörun eru líklegri til að þróa erfiða hegðun en önnur börn. Sé ekki tekið á hegðunarerfiðleikum ungra barna er hætt við að staðan versni. Því fyrr sem gripið er inn í með bættum uppeldisháttum, því betra. Þótt meðfæddir eiginleikar barna, t.d. skapgerð eða þroskafrávik geti átt hlut að máli, eru horfurnar betri þegar vandað er til uppeldisins með viðurkenndum aðferðum. Góð tengsl og jákvæð samskipti milli foreldris og barns er ákveðin vörn gegn þróun hegðunarerfiðleika. Verndandi þættir þegar barnið stendur frammi fyrir nýjum þroskaverkefnum, jafningjaþrýstingi eða hættulegum freistingum eru enn fremur að það sé vant að virða reglur, hafi góða sjálfsmynd, sjálfsöryggi og sjálfsaga.

Að lokum
Góð uppeldisfræðsla felur í sér kennslu viðurkenndra, árangursríkra aðferða ásamt ráðgjöf og stuðningi eftir þörfum. Einnig að leiðbeina um hvaða aðferðir eru gagnslausar eða beinlínis skaðlegar og þarf að varast. Muna þarf að þótt slakar félagslegar aðstæður geti aukið hættu á ýmsum vandamálum barna, þá finnast óheppilegar uppeldisaðferðir hjá foreldrum í öllum stéttum samfélagsins. Meirihluti barna sem á við vandamál að etja, kemur t.d. ekki úr fjölskyldum sem búa við fátækt eða aðra félagslega erfiðleika. Því er nauðsynlegt að beina fyrirbyggjandi uppeldisfræðslu að öllum foreldrum, óháð stétt og stöðu.

Þær sérstöku samfélagsaðstæður sem nú ríkja geta þó ýtt undir þekkta áhættuþætti fyrir þróun tilfinninga- og hegðunarerfiðleika hjá börnum, sem eru t.d.:

 • Erfið samskipti, átök eða upplausn innan fjölskyldu.
 • Streita, þunglyndi, kvíði eða aðrir geðrænir erfiðleikar foreldra.
 • Ónóg jákvæð samskipti og lítil samvera foreldra og barna.
 • Slök félagsleg staða, fátækt, atvinnuleysi, vonleysi og áhyggjur.
 • Óheppilegar uppeldisaðferðir s.s. lítil rútína, ósamkvæmni, undanlátssemi og hörkulegar eða þvingandi uppeldisaðferðir.

Ekki kemur á óvart að rannsóknir víða erlendis hafa sýnt að efnahagskreppa og atvinnuleysi hefur neikvæð áhrif á uppeldisfærni foreldra og þar með framtíðarhorfur barna. Sálfræðingar hafa því mikilvægu hlutverki að gegna við forvarnastarf með fræðslu til foreldra, almennings og stjórnenda um hvaða aðferðir eru vænlegast til árangurs í uppeldi barna og hve brýnt er að sinna þessu hlutverki vel.

Auglýsingar

Comments are closed.