Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Sálfræðiþjónusta LSH

Höfundur: Svanhvít Björgvinsdóttir

Í grein sem þegar hefur birst í þessu vefriti, greinir Eiríkur Örn Arnarson, sálfræðingur, frá fyrstu árum sálfræðiþjónustu á spítölunum, utan geðsviðs. Þessu greinarkorni er ætlað að fylgja henni eftir og lýsa því hvernig þjónustan er í dag.

Sálfræðiþjónusta LSH var formlega stofnuð 1. janúar 2002.  Hlutverk hennar er að sinna sálfræðiþjónustu við sjúklinga og aðstandendur á vefrænum deildum spítalanna, þ.e. öllum deildum spítalans nema  Geðsviði. Frá upphafi hefur Sálfræðiþjónusta LSH tekið þátt í Stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans, sem er þjónusta við starfsmenn spítalans, bæði einstaklinga og deildir/svið.

Stjórnskipulega séð er Sálfræðiþjónusta LSH staðsett á Endurhæfingarsviði spítalans, ásamt fleiri stéttum s.s. félagsráðgjöfum, talmeinafræðingum, prestum, sjúkra- og iðjuþjálfurum.  Nú þegar þetta er skrifað, hefur verið ákveðið að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að allir sálfræðingar munu framvegis tilheyra Geðsviði spítalans. Það er því ekki ljóst hverju þetta muni breyta eða hvort nokkrar breytingar munu eiga sér stað.

Tólf sálfræðingar starfa á Sálfræðiþjónustunni og hefur umfang hennar vaxið mikið frá árinu 2002. Fyrir stofnun Sálfræðiþjónustunnar höfðu verið starfandi nokkrir sálfræðingar á vefrænum deildum. Þeir störfuðu m.a. á öldrunardeildum, lyflækningadeildum og við endurhæfingu. Við stofnun þjónustunnar fluttust þeir yfir á Endurhæfingarsvið spítalans, eins og fram kemur í grein Eiríks Arnar.

Sálfræðingarnir starfa á föstum sviðum/deildum á spítalanum. Staðsetningin fer mikið eftir þörfum en einnig áhuga sálfræðinganna og sérhæfingu þeirra. Það er mismunandi mikil hefð á deildum hve mikið er sóst eftir þjónustu sálfræðinga. Sum svið t.d. Lyflæknissvið II hefur sett þessa þjónustu í forgang hjá sér og  þar af leiðandi er mikil vinna þar með krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra. Sálfræðiþjónusta er sjálfsagður þáttur í meðferð fólks með alvarlega sjúkdóma og aðstandendur þess. Glíman við sjúkdóma veldur oft miklu álagi og getur gjörbreytt aðstæðum fólks. Viðbrögð við sjúkdómum geta verið margvísleg og óþægileg og því brýnt að fræða sjúklinga og aðstandendur um þau og benda á hvernig hægt er að taka á þessum viðbrögðum.

Á mörgum deildum spítalans eru sjúklingar fræddir um það hvaða þjónusta er í boði, t.d. sálfræði- og félagsráðgjafaþjónusta. Sumir nýta sér viðtal snemma í veikindaferlinu, sumir seinna eða eftir meðferð.

Dæmi um þá þætti sem sálfræðingar sinna eru eftirfarandi:

  • Mat á líðan og tilfinningalegri stöðu
  • Vinna með áföll sem geta komið upp í veikindaferlinu
  •  Aðstoð við ýmsar afleiðingar veikinda
  • Vinna með viðhorf sem auðvelda aðlögun að breyttum aðstæðum
  • Kennsla í slökun og streitustjórnun
  • Meðferð við kvíða og depurð
  • Aðstoð við að skoða og breyta hegðunarmynstri
  • Aðstoð vegna samskiptaerfiðleika
  • Stuðningur við aðstandendur

Á Sálfræðiþjónustu LSH eru starfandi 4 taugasálfræðingar sem sinna sérhæfðum greiningum og endurhæfingu. Þessir sálfræðingar eru sérmenntaðir í því hvernig heilinn starfar og hvernig heilaskaði af völdum áverka eða sjúkdóma hefur áhrif á hugsanir, tilfinningar og persónuleika. Ýmis stöðluð próf eru notuð til að skoða t.d. minni, athygli, einbeitingu, mál og rökhugsun. Taugasálfræðileg endurhæfing er sniðin að þörfum hvers og eins á hverjum tíma. Í endurhæfingunni er alltaf  lögð mikil áhersla á þátttöku aðstandenda.

Þátttaka sálfræðinga, bæði klínískra og taugasálfræðinga, í þverfagleum teymum, þykir eftirsóknarverð.

Eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu hefur farið vaxandi en því miður hefur ekki verið hægt að veita eins mikla þjónustu eins og áhugi er fyrir. Það er greinilegt að fordómar í garð sálfræðinga eru á undanhaldi, amk. hjá heilbrigðisstarfsfólki, sjúklingum og aðstandendum.

Það er óskandi að þessi þjónusta fái að þróast og dafna, við þessar nýju aðstæður á spítalanum.

Auglýsingar

Comments are closed.