Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Aðstoð við börn og ungmenni með geðrænan vanda á Austurlandi – ABG verkefnið

Höfundur: Orri Smárason

Í lok næsta mánaðar verður um eitt ár liðið frá því að farið var af stað með tilraunaverkefni á Austurlandi sem kallað hefur verið ABG – verkefnið, eða Aðstoð við börn og ungmenni með geðrænan vanda á Austurlandi. Verkefnið er styrkt af Heilbrigðisráðuneytinu og er til þriggja ára, en skal endurskoðað innan 18 mánaða. Ég hef verið verkefnisstjóri ABG frá upphafi þess.

Verkefnið er þannig tilkomið að þær stofnanir á Austurlandi sem sinna börnum og ungmennum ákváðu að gera sín á milli samstarfssamning með það að markmiði að auka, bæta og samþætta þjónustu fyrir börn og ungmenni sem glíma við hegðunar- og tilfinningavanda. Þessar stofnanir eru Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Félagsþjónstur Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, Skólaskrifstofa Austurlands, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra, Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Upphaflega stóð bara til að auka samstarfið en þegar ráðuneytið kom inn í myndina og lagði til aukið fjármagn var ákveðið að HSA skildi nýta styrkinn til að ráða sálfræðing sem yrði verkefnisstjóri. Ég kom til starfa hér fyrir austan 28. apríl, 2008.

Mikilvægasta prófið er bílprófið
Verkefnið nær yfir allt starfssvæði HSA sem er frá Bakkafirði í norðri að Djúpavogi í suðri. Þetta er um 15.000 ferkílómetra svæði sem telur um 13.500 íbúa. Strax var ákveðið að reyna að fremsta megni að veita fólki þjónustu í þeirra heimbyggð. Það þýðir að ég eyði miklum tíma í bíl, á flakki milli þorpa. Pabbi minn segir að mikilvægasta próf sálfræðings í minni stöðu sé bílprófið. Það er nokkuð til í því.

Í upphafi verkefnis var ákveðið að allar stofnanirnar sem koma að verkefninu geti vísað málum til verkefnisstjóra og óskað eftir sálfræðimeðferð fyrir barn eða ungling. Þetta hefur leitt í ljós að þörf fyrir slíka þjónustu er mikil. Yfir 100 einstaklingum hefur verið vísað til sálfræðimeðferðar sem er töluvert meira en verkefnisstjóri hefur getað sinnt. Langur biðlisti hefur því myndast og er nú svo komið að sumir hafa þurft að bíða í allt að 4 mánuði eftir fyrsta viðtali. Flestar tilvísanir hafa borist frá heilsugæslum, en einnig hefur Félagsþjónustan og menntaskólarnir á svæðinu mikið sótt í þjónustuna.

Forvarnir, hópúrræði og samstarf
Verkefnið felur þó í sér annað og fleira en að sálfræðingur keyri um héruð, berandi út fagnaðarerindi hugrænnar atferlismeðferðar til einstaka barns eða unglings. Snemma í ferlinu var tekin sú ákvörðun að reyna að koma á laggirnar hér eystra sem flestum hópúrræðum sem bæðu höfðu meðferðar- og forvarnargildi. Þetta hefur gengið vel þökk sé góðu samstarfi við aðrar stofnanir. ABG verkefnið hefur notið góðs að því að Geðsvið LSH vinnur að tilraunaverkefni sem felur það í sér að halda HAM-námskeið á vissum stöðum á landsbyggðinni og meta árangur af þeim. Í gegnum það verkefni höfum við haldið HAM – námskeið fyrir unglinga í báðum menntaskólunum á svæðinu og ég hef núna leyfi þeirra hjá Landspítalanum til að halda slík námskeið sjálfur, þannig að þau verða haldin reglulega í framtíðinni fyrir unglingana hér á svæðinu. Næsta vetur er stefnt að því að koma í gagnið sambærilegum námskeiðum fyrir elstu bekki grunnskóla.

Einnig hefur samstarf við BUGL var mikið og gott. Þar á bæ var ákveðið að nota fjárstyrk frá Atorku Group til að sinna einni heilsugæslustöð á landsbyggðinni sérstaklega. Heilsugæsla Egilsstaða varð fyrir valinu og þegar ABG verkefnið kom til sögunar var ákveðið að það skildi sjá um samstarfið við BUGL, sem jafnframt þýddi Atorkupeningarnir kæmu til með að gagnast öllu Austurlandi. Þessi fjárstyrkur hefur meðal annars verið notaður í að fá sérfræðinga frá BUGLinu til að koma hingað austur og halda fræðsludaga fyrir lækna, starfsfólk heilsugæslu og Félagsþjónustu um hegðunarraskanir og tilfinningaraskanir barna og ungmenna. Í kjölfarið á því voru innleiddir skimunarlistar fyrir algengustu hegðunar- og tilfinningavandamál barna á heilsugæslur á svæðinu og hafa þeir á nokkrum stöðum komist í reglulega notkun.

Einnig höfum við samið við BUGL um að fá sérfræðing í barna- og unglingageðlækningum til okkar á 6 vikna fresta og hefur hann handleitt heilsugæslulækna á svæðinu varðandi lyfjagjöf ásamt því að sinna allnokkrum einstaklingsmálum sjálfur. Slík þjónusta er okkur mjög dýrmæt á þessum tímum niðurskurðar og þrenginga. Sálfræðingar frá BUGL komu líka austur síðasta vor og kenndu nokkra vikna námskeið fyrir foreldra barna með ADHD, fagmenn frá heilsugæslu og félagsþjónustu sátu námskeiðið og lærðu það þannig að nú höfum við það í okkar vopnabúri hér fyrir austan. Nýlega fór einnig af stað kvíðastjórnunarnámskeiðið Klókir krakkar (Cool Kids) sem fer þannig fram að sálfræðingar frá BUGL koma og kenna námskeiðið og verkefnisstjóri ABG ásamt sálfræðingi frá Skólaskrifstofu Austurlands sitja námskeiðið og fá í kjölfarið réttindi til að kenna það. Enn bætist því í vopnabúrið.

Til viðbótar við þetta hefur verið boðið upp á uppeldisnámskeið í stærstu byggðakjörnum svæðisins (Neskaupstað og Egilsstöðum) sem hafa verið ágætlega sótt. Einnig hefur verkefnisstjóri haldið nokkra fyrirlestra fyrir ýmsa hópa um ýmislegt tengt geðheilbrigðismálum barna og ungmenna. Fleiri hópúrræði eru í skoðun og vonast er til að bæta enn við sívaxandi vopnabúrið næsta vetur.

Mikilvægi samstarfs
Geðheilbrigðismál barna og ungmenna eru flókin málaflokkur ekki síst vegna þess að forræðið er á margra höndum. Það er í mínum huga alveg ljóst að hvorki HSA né aðrar stofnanir sem hér eru á svæðinu hefðu getað komið því í verk sem áunnist hefur í ABG verkefninu einar síns liðs. Á landsbyggðinni er viss hætta á því að til verði margar litlar stofnanir sem kannski vinni mest hver í eigin horni. Álagið er á flestum stöðum mikið og þá verða menn mjög fljótir í þann þankagang að þeir eigi bara alveg nóg með sitt. Hugmyndin með ABG er meðal annars að brjótast út úr því, með því að vinna saman getum við unnið að fjölbreyttari verkefnum, aukið áherslu á forvarnir og fjölgað töluvert þeim úrræðum sem við eigum á heimavelli.

Auglýsingar

2 responses to “Aðstoð við börn og ungmenni með geðrænan vanda á Austurlandi – ABG verkefnið

  1. Pétur Tyrfingsson 24.3.2009 kl. 23:12

    Þetta er nú fyrsta „skýrslan“ í drjúgan tíma sem virkilega kætir mig. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er vitnisburður um að faglegri þekkingu og færni er hægt að miðla og breiða út um okkar strjálbýla land án stjarnfræðilegs kostnaðar. Í öðru lagi vegna þess að þrátt fyrir fremur lök kjör þá týna sálfræðingar ekki hugsjón sinni. Í þriðja lagi vegna þess að enn og aftur sýnir það sig að við erum fær um að mennta og þjálfa sálfræðinga hér heima sem hafa fulla burði. Í fjórða lagi vegna þess að sálfræðingar auka hróður stéttar sinnar mest með því að vinna vel þau störf sem þeim er treyst fyrir… það eru bestu rökin sem við höfum fyrir öllum tillögum um aukna og bætta þjónustu, fjárveitingar, umbætur í menntamálum okkar o.s.frv.

    Ég held ég megi segja fyrir hönd allrar stéttarinnar: Hipp, hipp húrrei!

  2. Orri 30.3.2009 kl. 09:06

    Takk, Pétur.