Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Það gerir þetta engin annar en við sjálf

Höfundur: Hafrún Kristjánsdóttir

Eftir glæsilegan árangur „strákanna okkar“ á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 fannst mér rétt, þá 12 ára, að fara að stunda boltakast.  Ég var nú ekki búin að vera lengi í handboltanum þegar ég áttaði mig á því, aðallega með því að hlusta á aðra í kringum mig, að ég var komin í karlasport.  Hermt var að strákarnir fengju betri æfingatíma, flottari búninga, það kæmu fleiri að horfa á þá og almennt væri bara mikið meira gert fyrir stráka.  Viðkvæðið var að stelpur væru einhvers konar fórnarlömb. Það átti ekki bara við um mitt félag, Val, heldur öll félög þar sem bolti var notaður til íþróttaiðkunnar. Vissulega hafði þetta áhrif á okkur unglingana sem vorum að leggja heilmikið á okkur til þess ná sem bestum árangri í þeirri íþrótt sem við elskuðum.   Einhverra hluta vegna ómaði þessi spurning alls staðar í kringum okkur:  “Af hverju er ekki meira gert fyir stelpunar, þær sem eru svo æðislegar”.  Alltaf var litið í átt til formans félagsins og stjórnar.  Þar var fólkið sem átti að gera eitthvað – fólkið sem réði. Ekkert gerðist, fólkið okkar fórnaði höndum og við rifum kjaft þegar færi gafst.

Þegar við vorum orðnar aðeins eldri og reyndari áttuðum við okkur á því að það er enginn annar sem ber ábyrgð á okkar framgöngu innan félagsins og innan handboltahreyfingarinnar.  Við berum ábyrgð á þessu sjálfar.  Við komumst nefnilega að því að það skipti engu máli hvað við töluðum mikið um hið meinta órétti, hvað við fussuðum mikið og hversu mikið við fórnuðum höndum, ekkert gerðist.  Við tókum ákvörðun.  Við ákvaðum að hætta að fórna höndum og tala okkur bláar.  Við ákváðum að æfa meira, spila skemmtilegri handbolta og hvetja þá sem tengdust okkur og okkar kvennaliði á einn eða annan hátt til að bjóða sig fram til stjórnunarstarfa í félaginu.  Við tókum málin í okkar eigin hendur, hættum að tuða eftir æfingar, lögðum meira á okkur og ákváðum að bera alla ábyrgð á okkar eigin framgöngu. Hvað gerðist? Jú fólkið fór að koma, sjónvarpið sýndi leiki okkar í meiri mæli en áður,  almenningur heima í stofu skipti síður um rás þegar við vorum að spila og öll umgjörð í kringum okkur batnaði til mikilla muna.

Kvennalandsliðið í fótbolta fór nákvæmlega sömu leið, en á kraftmeiri hátt.  Það er ekki tilviljun að þær hafa náð þeim árangi sem þær hafa náð.  Þær tóku ábyrgð á sinni eigin velgengi í víðum skilningi. Þær hættu að horfa á hvað það væru nú alltaf margir sem mættu á karlaleikina og hversu flotta sokka og boli þeir fengu gefins.  Þær ákváðu að æfa meira og betur.  Þær ákváðu að hætta að horfa á aðra og það sem meira er, þær ákváðu sjálfar að vekja athygli á sér;  þær skrifuðu greinar í blöðin, þær mættu ávallt í þau viðtöl sem óskað var eftir og fóru nýjar leiðir við að auglýsa leiki sína.   Hvað gerðist?  Árangurinn varð frábær, þær bættu áhorfendametið svo um munaði og aðstöðumunurinn milli þeirra og karlanna minnkaði til mikilla muna.  Þær urðu „stelpurnar okkar“.

Mér líður á köflum svolítið eins og ég sé komin aftur í gamla klefann í handboltanum. Í klefanum núna eru sálfræðingar. Í  gamla klefanum var mikið af flottum stelpum sem voru að gera frábæra hluti. Það sama má segja um kollega mína sálfræðingana.  Stéttin er full af hæfileikaríku fólki sem er að gera fullt af flottum hlutum.  Flest erum við sennilega sammála um að sálfræðilegum sjónarmiðum mætti vera gert hærra undir höfði, sálfræðingar ættu oftar að vera kallaðir til í hinar ýmsu nefndir, oftar ætti að leita ráða hjá þeim, það ætti að kalla þá í Kastljós oftar o.s.fr.  Flest fórnum við höndum og skiljum ekkert í því af hverju hinir háu herrar í heilbrigðisráðneytinu sjá það ekki í hendi sér hversu mikið framfaraskref það yrði fyrir land og þjóð að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga á stofum.  Og um þetta tölum við, við tölum og tölum.

Ef við sálfræðingar viljum í raun og veru að sálfræðilegum sjónarmiðum verði gert hærra undir höfði þá þurfum við að fara að fordæmi kvennalandsliðsins í fótbolta.  Hætta að horfa á aðra, tala og tala og bíða eftir að hlutirnir gerist.  Við þurfum öll að taka ábyrgð á framgangi stéttarinnar.  Ef við viljum að eitthvað gerist þá getum við ekki horft á hvort annað eða á aðra utan séttarinnar. Við þurfum sjálf að framkvæma.  Við þurfum að leggja meira á okkur, við þurfum að auglýsa okkur og við þurfum að sýna fram á svo að ekki verður um villst hversu mikilvæg sálfræðileg sjónarmið eru fyrir okkar þjóðfélag.  Það gerir enginn annar hlutina fyrir okkur.

Í þessu samhengi er mér hugsað til tveggja nýlegra dæma þar sem tveir kollegar okkar létu verkin tala.  Haukur Sigurðsson kynnti sér áhrif kreppunar í Finnlandi á geðheilsu þarlendra.  Hann skrifaði afskaplega skýra og góða greinargerð í kjölfarið.  Greinagerð hans vakti mikla athygli, ekki bara hjá almenningi heldur þeim sem taka ákvarðanir í geðheilbrigðismálum.

Regína Ólafsdóttir fékk þá snildarhugmynd að opna vettvang fyrir sálfræðinga og aðra sem hafa sálfræðimenntun til að koma sjónarmiðum – sálfræðilegum sjónarmiðum á framfæri.  Hún fórnaði ekki höndum og talaði sig bláa á kaffistofum.  Hún tók frumkvæði og framkvæmdi.

Stéttin og félagið okkar er hvorki annað né meira en þeir einstaklingar sem þeim tilheyra.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar og leggja okkar af mörkum, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir það þjóðfélag sem við búum í.  Við höfum nefnilega svo mikið fram að færa.  Það er ekki nóg að við sálfræðingar séum sannfærðir um það.

Auglýsingar

Comments are closed.