Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi

Höfundur: Haukur Sigurðsson

Um 30-45 þúsund Íslendingar þjást af langvarandi svefnleysi. Meðferð við svefnleysi á Íslandi er undantekningalítið svefnlyfjagjöf og hefur svefnlyfjanotkun Íslendinga aukist um liðlega 100% síðustu 15 árin. Á meðan þessi gríðarlega aukning á svefnlyfjanotkun er staðreynd er vitað að svefnlyf skila takmörkuðum árangri gegn langvarandi svefnleysi. Niðurstöður rannsókna á árangri hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi hafa ítrekað sýnt að meðferðin er árangursríkari og öruggari en svefnlyf. Ólíkt hugrænni atferlismeðferð valda svefnlyf lítilli bætingu á svefni til lengri tíma og oft fylgja svefnlyfjatöku óþægilegar aukaverkanir. Þar að auki er langtíma notkun svefnlyfja að öllum líkindum gagnslaus og getur verið hættuleg. Á Íslandi eru aðeins örfáir sálfræðingar menntaðir í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi. Mikil þörf er á að fleiri sálfræðingar á Íslandi hljóti þjálfun í þessari árangursríku meðferð og einnig þarf að lyfta grettistaki við að fræða almenning og heilbrigðisstarfsfólk um meðferðina.

Svefnleysi

Svefnleysi er ein algengasta ástæða þess að fólk leitar til læknis. Þetta algenga heilsufarslega vandamál einkennist af a.m.k. einu af eftirfarandi: 1) Erfiðleikar með að sofna, 2) Rofinn svefn og erfiðleikar með að sofna aftur, 3) Vakna of snemma að morgni eða 4) óendurnærandi svefn. Svefnleysi er ekki aðeins næturvandamál því svefnleysi hefur gjarnan afgerandi neikvæð áhrif á daglegt líf. Svefnleysi hefur neikvæð áhrif á einbeitingu, lunderni, starfsorku o.s.frv. Meira en þriðjungur fullorðinna þjáist af svefnleysi einhverntíma á lífsleiðinni. Á hverjum tíma þjást 10-15% af fólki af langvarandi svefnleysi, eða um 30-45 þúsund Íslendingar.

Svefnleysi sem stendur eitt og sér án þess að virðast vera afleiðing annarra heilsuvandamála er gjarnan aðgreint frá svefnleysi sem virðist tengjast öðrum heilsuvandamálum. Dæmi um önnur heilsufarsvandamál sem auka líkur á svefnleysi eru þunglyndi, kviði og ýmsir sjúkdómar. Með auknum aldri aukast einnig líkurnar á svefnvandamálum

Hugræn atferlismeðferð árangursríkari og öruggari en svefnlyf

Rannsóknir síðasta einn til tvo áratugina hefur skilað gríðarlegum framförum í meðferð við svefnleysi og er óhætt að segja að um tímamót sé að ræða varðandi meðferð við þessu algenga heilsuvandamáli.

Niðurstöður rannsókna á árangri hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi hafa margítrekað sýnt að meðferðin er árangursríkasta meðferðin við langvarandi svefnleysi. Sem dæmi sýndu niðurstöður þriggja stórra rannsókna sem hafa birst í Journal of the American Medical Association og Archives of Internal Medicine að hugræn atferlismeðferð var árangursríkari en svefnlyf. Að meðaltali bætir hugræn atferlismeðferð svefn hjá um 80% af þeim sem ganga í gegnum slíka meðferð og um helmingur þeirra sem nota svefnlyf nær að hætta að taka lyfin. Festar rannsóknir á árangri hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi hafa tekið fyrir svefnleysi sem virðist ekki vera afleiðing annarra heilsuvandamála eins og þunglyndis, kvíða og ýmissa sjúkdóma. Undanfarið hafa þó verið að birtast rannsóknarniðurstöður sem benda til þess að meðferðin beri einnig góðan árangur fyrir þá sem þjást af svefnleysi sem virðist í samhengi við önnur heilsuvandamál.

Mikill kostur hugrænnar atferlismeðferðar við svefnleysi er að sá meðferðin hefur engar aukaverkanir og fólk lærir aðferðir sem nýtast til að viðhalda betri svefni til framtíðar. Meðferðin tekur að öllu jöfnu skamman tíma, eða 5 til 8 vikur.

Ólíkt hugrænni atferlismeðferð valda svefnlyf lítilli eða miðlungs bætingu á svefni og oft fylgja svefnlyfjatöku óþægilegar aukaverkanir, sérstaklega hjá fólki sem er 60 ára eða eldra. Meðal aukaverkana eru minnisleysi, róandi áhrif að degi til og lyfjafíkn. Auk þess er vert að taka skýrt fram að langtímanotkun á svefnlyfjum er að öllum líkindum gagnslaus og getur verið hættuleg. Niðurstöður rannsókna benda til að aukinnar dánartíðni þegar um reglulega langtímanotkun svefnlyfja er að ræða.

Bestu meðferðinni lítið beitt á Íslandi

Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi hefur öðlast viðtæka viðurkenningu hjá vísindamönnum á þessu sviði um allan heim sem áhrifarík meðferð við svefnleysi. Þessu til stuðnings má t.d. benda á að National Institude of Health og American Academy of Sleep Medicine í Bandaríkjunum hafa gefið út leiðbeiningar þess efnis að hugræn atferlismeðferð eigi að vera sú meðferð sem fyrst er reynd þegar um svefnleysi er að ræða.

Þrátt fyrir þessa þróun á heimsvísu og skýlausa afstöðu vísindamanna á þessu sviði hefur heilbrigðiskerfi Íslendinga ekki tileinkað sér þessa meðferð nema í mjög litlu mæli. Þvert á móti höldum við áfram að beita meðferð við svefnleysi sem allt bendir til að sé gagnslaus til lengri tíma og jafnvel hættuleg. Frá árinu 1991 til ársins 2007 jókst svefnlyfjanotkun Íslendinga um liðlega 100% og er ekkert lát á aukningunni síðustu árin.

Vöntun á þjálfuðum sálfræðingum og fræðslu um meðferðina

Aðeins örfáir sálfræðingar á Íslandi hafa að baki menntun og þjálfun í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi. Samkvæmt bestu vitundar höfundar eru aðeins 2-3 sálfræðingar á landinu með þessa menntun og þjálfun, að höfundi meðtöldum, og aðeins ein sálfræðistofa sem býður upp á slíka meðferð (Heilsustöðin sálfræði- og ráðgjafaþjónusta). Það er því aðkallandi að fleiri sálfræðingar mennti sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi svo hægt verði að beina þeim sem þjást af þessu algenga heilsuvandamáli kerfisbundið í þetta mikilvæga úrræði.

Auk þess að stórauka framboð af þessari þjónustu á Íslandi er nauðsynlegt að gera átak í því að fræða bæði almenning og heilbrigðisstarfsfólk um meðferðina og árangur hennar.

Auglýsingar

Comments are closed.