Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Ofbeldi á heimilum fólks: Sálfræðilegt vandamál – sálfræðilegar úrlausnir

Höfundur: Andrés Ragnarsson

Inngangur

Hér eru nokkrar hugleiðingar um ofbeldi inni á heimilum fólks og þau áhrif sem slík vá getur haft á þá sem því beita, þeim sem fyrir því verða með beinum eða óbeinum hætti.

Tíðni

Heimilisofbeldi er útbreyddur og alvarlegur samfélagsvandi.  Í skýrslu dómsmálaráðuneytisins frá 1996 kom fram að liðlega 1100 konur höfðu orðið fyrir ofbeldi af hendi fyrrverandi eða núverandi maka eða sambýlismanns (lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi).  Heilstu rannsóknir frá hinum Norðurlöndunum segja að þessar tölur séu síst ofmetnar.  WHO gerði athugun á umfangi heimilisofbeldis í 35 löndum þar sem fram kom að milli ¼ og ½ allra kvenna höfðu orðið fyrir ofbeldi frá hendi fyrrverandi eða núverandi maka / sambýlismanni. Þessi athugun náði ekki til Íslands.  Alþjóðlegar rannsóknir benda á að börn eru til staðar í 80 – 95%  tilvika  (Geffner et al 2003).  Þessi upptalning segir okkur að hér er um alvarlegan samfélagsvanda að etja sem hefur áhrif á og mótar líf fjölda fólks.

Ofbeldi á sér nokkrar birtingarmyndir og er hægt að tala um líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, hlutaofbeldi og dulið ofbeldi þar sem óbeinum ógnunum er beitt. En ofbeldi má segja að sé hver sú gjörð sem beinist að annarri manneskju og sem skaðar, meiðir, særir eða fær viðkomandi til að gera eitthvað gegn eigin vilja eða hætta að gera eitthvað gegn eigin vilja.  (Isdal 2000).

Karlar Til Ábyrgðar

Karlar Til Ábyrgðar (KTÁ) er meðferðartilboð fyrir karla sem beita heimilisofbeldi á Íslandi.  Þetta verkefni er í nánu sambandi við ATV (alternativ til vold) í Noregi, en ATV er með aðalstöðvar í Oslo og rekur samhliða 15 stöðvar annars staðar í Noregi auk stöðva í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.  Sálfræðingarnir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson sjá um meðferðina hér á landi en verkefnið heyrir undir Jafnréttisstofu fyrir hönd ráðuneytis félags og tryggingamála.  Um er að ræða einstaklings- og hópmeðferð fyrir gerendur og stuðningsviðtöl fyrir maka.  Samvinna er hafin við Barnaverndarstofu um að þeir sinni meðferð fyrir börn sem hafa upplifað ofbeldi á heimili sínu.  Auk þess er náin samvinna við Kvennaathvarfið um ráðgjöf fyrir konur og við lögreglu um tílvísanir og úrvinnslu mála.  Meðferð fyrir gerendur / þolendur ofbeldis er afar sérhæfð og því mikill akkur af því að hafa góð fagleg tengsl við Noreg en þangað hafa sálfræðingarnir sótt þjálfun og handleiðslu.  Þá stendur til boða að KTÁ verði formlegur aðili að ATV.

KTÁ varð til árið 1998 og starfaði þá í liðlega 4 ár.  Verkefnið lognaðist út af vegna þess að engin ákvörðun var tekin um áframhald.  Hlé var á starfinu fram til ársins 2005 að það var endurvakið og starfar nú á föstum fjárlögum með sérstökum samningi við sálfræðingana sem verktaka.

Enn sem komið er einskorðast KTÁ að mestu við suðvesturhorn landsins en vonir standa til að hægt verði að  þjálfa meðferðaraðila annars staðar á landinu.  Þá er afar mikilvægt að hægt verði að halda áfram að þróa samfellda og alhliða meðferð fyrir þessa aðila, en afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum nær til þoldanda, geranda og vitna (oftast barna).  Hér er fer enginn óáreittur frá borði og hægt er að greina alvarlegar afleiðingar  til skemmri og lengri tíma hjá öllum aðilum.

Hvers vegna ofbeldi

Engar einfaldar skýringar eru til á ofbeldi.  Margir orsakatengdir þættir hafa verið nefndir til sögunnar.  Tengsl við áfengis / vímuefni, fjárhagslegt og félagslegt öryggisleysi, reynsla af ofbeldi í uppvexti, þekkingarleysi á því að takast á við tilfinningatengdar aðstæður og fleira.  Allt eru þetta áhrifaþættir en benda verður á að engin alhliða skýring er til heldur verður þetta aðeins skýrt með mörgum mismunandi orsakaþáttum.  Við  lítum svo á að ofbeldi sé sálfræðilegur vandi þar sem vanmáttur / vankunnátta í úrvinnslu og viðbrögðum í  tilfinningalegum samböndum sé til staðar.  Því verði að beita sálfræðilegum aðferðum við meðferð þessara vandamála og sálfræðin sé sú fræðigrein sem sé best til þess fallin að vinna með ofbeldi.

Meðferðin

Gerendameðferðin hjá okkur á KTÁ er oftast langtímameðferð (allt að 2 ár).  Allir byrja í einstaklingsviðtölum.  3-4 greiningarviðtöl þar sem við notumst við spurningalista með innbyggðu áhættumati.  Eftir þessi viðtöl bjóðum við mökum þessara manna upp á eitt viðtal þar sem höfuðáhersla er á öryggissjónarmið og úrvinnsluleiðir fyrir konur og börn.  Eftir þetta er tekin ákvörðun um hvort eigi að halda áfram í einstaklingsviðtölum eða færa viðkomandi inn í hópmeðferð.  Mökum er síðan boðið upp á annað viðtal að meðferð lokinni.  Allir koma sjálfviljugir í meðferð.

Meðferðarramminn byggir á 4 þrepum.  Heimilisofbeldi fylgir mikil skömm og því er það oftast vel falið.  Því leggjum við  mikla vinnu í fyrsta þrep sem er að gera ofbeldið sýnilegt án umbúða.  Næsta skref er að festa ábyrgðina á ofbeldinu einungis hjá gerenda út frá þeirri grundvallarforsendu meðferðarinnar að það sé ekkert það til sem réttlætir ofbeldi.  Í næsta skrefi vinnum við með í hvaða samhengi ofbeldið á sér stað og á hvern hátt við getum greint tengslaþætti.  Í fjórða skrefi vinnum við svo með afleiðingar ofbeldisins fyrir gerendann, þolandann, börnin og aðra sem það getur átt við.

Það er því afar mikilvægt að sálfræðingar hvar sem þeir starfa séu meðvitaðir um og hafi þekkingu á einkennum þeirra sem búa við ofbeldi og vita hvert eigi að snúa sér með slík mál.  Sálfræðingar sem vinna með börn verða að vera á varðbergi gagnvart tilfinningalegum einkennum eins og kvíða, vanmætti, reiði, skömm, einangrun ofl. Einnig gagnvart hugrænum einkennum eins og seinkun á þroska, hvatvísi, sétækum námsörðugleikum, einbeitingarskorti ofl. Og einnig gagnvart atferlisþáttum eins og aukinni árásargirni, leitast við að vera heima (til að vernda systkyni, móður) taugaveiklunareinkenni ofl.  Þessi listi er auðvitað bara lítið brot en nálgast má betra ytfirlit á heimasíður ATV, http://www.atv-stiftelsen.no.  Á sama hátt þarf einnig að vera á varðbergi gagnvart einkennum sem konur sýna eins og öryggisleysi, yfirdrifin vernd/einangrun, kvíða, ótta og depurð.

Eftir fyrri “umferð” verkefnisins var gerð árangurskönnun á meðferðinni.  Þó að svörun hafi verið nokkuð rýr, þá er ljóst að árangur var í góðu samræmi við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á sambærilegum meðferðarformum erlendis (Noregi, Danmörku og Kanada).  Könnun leiddi í ljóst að 2 árum eftir meðferð var líkamlegt ofbeldi í öllum tilvikum hætt, andlegt ofbeldi minnkað  og lífsgæði aukin hjá öllum þeim sem svöruðu (bæði gerendum og mökum þeirra).  Heimasíða okkar er nýopnuð og er slóðin þangað http://www.karlartilabyrgdar.is.

Niðurlag

Það er alveg ljóst að aukið atvinnuleysi með samfélagslegu öryggisleysi samhliða uppgjöri við mörg fyrri samfélagsviðhorf og versnandi fjárhagslega afkomu mun hafa mikil áhrif á stóra hópa samfélagsins.  Enginn getur alveg séð fyrir hvert þetta mun leiða fjölskyldur eða einstaklinga þar sem engar fyrirmyndir eru til.  Vitað er að aukið atvinnuleysi eitt og sér hefur leitt af sér aukið ofbeldi í nánum samböndum og því er næsta líklegt að yfirstandandi árferði muni leiða til alvarlegra bresta hjá mörgum fjölskydum.  Ein alvarlegasta birtingarmynd slíkra erfiðleika er ofbeldi.  Gríðarlega mikilvægt er að huga sérstaklega að þessum þætti. Leggja þarf áherslu á  forvarnir í formi fræðslu og almennri umræðu.  Þá þarf sérstaklega að leggja áherslu á fræðslu til þeirra fagaðila sem sinna börnum og konum.  Meðferð fyrir gerendur,  þolendur og börn  þarf að auka og huga sérstaklega að öryggissjónarmiðum kvenna og barna sem búa við ofbeldi.

Mikilvægt er að huga snemma að þessum þáttum vegna þess að því fyrr sem gripið er inn í, því líklegra er að hægt sé að fyrirbyggja alvarlegri afleiðingar ofbeldis fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Auglýsingar

Comments are closed.