Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Gagnrýn hugsun er besta sparnaðarráðið!

Höfundur: Fjóla Dögg Helgadóttir

Af hverju er gagnrýnin hugsun mikilvæg fyrir sálfræðinga? Jú, þar sem við keppumst við að kalla okkur vísindamenn, þá verðum við einfaldlega að notast við gagnrýna hugsun í vísindum okkar til þess að mark sé tekið á okkur. Yfirhöfuð þá snýst þetta um að sjá heiminn á raunsæjan hátt og sætta sig við að það þurfi að vinna að markmiðum sínum, frekar en að treysta á töfralausnir til að hlutirnir gangi upp.

Menn gætu lesið þetta og hugsað með sér, og hvað með það? Auðvitað, þetta er skjálfsagt  mál sem hún Fjóla er að skrifa um. En ég vil benda á að ég á samtöl við mjög margt klárt, hámenntað fólk þ.m.t. sálfræðinga, sem líta svo á að gagnrýnin hugsun sé bara eitthvað í skólabók sem þau lærðu fyrir  mörgum árum síðan. Inn og út! Eins og skot!

Til dæmis hefði verið ágætt ef einhver þeirra sem sat við stjórnvölin á Íslandi í góðæri undanfarinna ára, hefði spurt sig, hvaðan komu peningarnir? En mikilvægara er þó að viðkomandi stjórnandi hefði ekki sætt sig við óskýr svör á borð við þau að útrásin væri möguleg í krafti þess auðs sem Íslendingar hafa safnað sér í gegnum einstakt lífeyrissjóðakerfi. Frekar haldið áfram að spyrja þangað til botn hefði fengist í málið enda hefði þá komið í ljós að útrásin var öll fengin að láni.

Miðlar og alternatívar aðferðir

Miðlar hafa mikla sérstöðu á Íslandi. Einfaldlega vegna hinna samþykktu trúar landans að látið fólk gangi aftur sem vofur eftir að það deyr. Þessu trúði ég til margra ára. Ég vissi fyrir víst að Fjóla amma mín sem dó þegar ég var 12 ára væri alltaf að gæta mín. Það er kannski ekkert slæmt að trúa því  að einhver sé alltaf að passa mann. Lógíkinn sem fylgir, getur þó verið hættuleg. Ég trúði því innst inni að ekkert agalega slæmt gæti komið fyrir mig útaf þessari fylgju minni, og slæma hluti túlkaði ég sem einhvers konar lærdómsleik frá ömmu gömlu. Þegar ég pantaði mér fjögurra mánaða ferð til Asíu, ein á ferð, datt mér ekki í hug að eitthvað slæmt gæti komið fyrir. Því amma myndi nú redda þessu.

Þessi trú á hina framliðnu og trú mín á ofurömmuna er alls ekki eitthvað sem ég fann upp. Auðvitað ekki, ég fór til miðils sem sagði mér frá þessum „mikilvægu upplýsingum“ þegar ég var 16 ára gömul. Þessi trú á hina látnu er víðtæk í íslensku samfélagi og það að mæla á móti þessu þykir púkó. Þingmenn koma fram í fjölmiðlum og segjast sjá fortíð, nútíð og framtíð og maður spyr sig: ef einhver þessara miðla sæji alla þessa framtíð, af hverju fóru þeir svona hljótt með að Ísland væri á hengiflugi fjármálakreppu? 

En hvað kemur þetta sálfræði við?

Ef við erum með syrgjanda fyrir framan okkur. Einhvern sem hefur misst elskuhuga sinn, jafnvel fyrir 13 árum, sem enn er mjög þunglyndur, með krónískt verkjavandamál og í miklum fjárhagsvandræðum sem engu að síður greiðir þó mjög háar upphæðir vikulega til að „hitta“ elskuhugann í gegnum miðil. Ég bara spyr, má þetta? Hvar er gagnrýna hugsunin? Ætti ekki að vera einhvers konar kerfi sett á sem tilkynnir svona hluti? Allavega þarf engann sálfræðing til að sjá að viðkomandi hefði getað slitið 13 ára draugasambandinu (þar sem engin vísindaleg gögn sýna fram á tilvist drauganna) og hafið nýtt líf, sparað pening með gagnrýna hugsun að vopni.

Annað dæmi er að horfa upp á fólk deyja úr krabbameini, því það kýs sér „óhefðbundnar“ aðferðir og deyr fyrir vikið. Óhefðbundnar lækningar eru huggulegar, með reykelsi og múnkatónlist sem segjast 100% geta hjálpað þér í stað hvítra læknasloppa sem segjast geta hjálpað þér með ákveðinni prósenta líkum. Fyrir þann sem þjáist, hljómar fyrri kosturinn betur, líka það er yfir höfuð álitið hipp og kúl að vera í svona alternatívu dóti, en hvað? Af hverju má fólk ekki gera það sem það vill? Nú af því að við viljum flest halda áfram að lifa og við viljum nota bestu lausnirnar sem eru í boði, sem þúsundir krabbameinsvísindamanna vinna að daglega. Hér er ekki bara um peningalegan ávinning af því að notast við gagnrýna hugsun, heldur er þetta upp á líf og dauða.

Leyndarmálið

Rhonda Byrne skrifaði á dögunum bókina um leyndarmálið. Hún hefur notið gríðarlegra vinsælda með hjálp Opruh Winfrey og félaga. Rhonda tók ýmis vel rannsökuð lögmál úr hugrænni atferlismeðferð úr öllu samhengi og blandaði inn í fræðin bylgjum og orku, hugmyndafræði sem gengur ekki upp ef þú heldur áfram að spyrja „af hverju“. Til dæmis af hverju virkar þessi hugmyndarfræði bara á vesturlöndum? Hvað með öll börnin í heiminum sem deyja úr hungri daglega? Af hverju geta þau ekki nýtt sér leyndarmálsbylgjur Rhondu? Vilja þau ekki nógu mikið fá að borða?

Röksemdarfærslan er á þessa leið. Við hlið mér situr nú ósýnilegur grænn álfur. Ég get sannað það að þessi álfur sé við hliðina á mér með því að jörðin er kringlótt en ekki flöt. Þrátt fyrir að kringlótt jörð og grænn álfur eiga ekkert sameiginlegt, virðist þessi tegund skýringa vera nóg til að gabba fólk. Það versta við marga peningaplokkara eins og Rhondu er að þeir fullyrða að þeir séu að notast við „vísindi“ til að selja vöru sína, því er ákaflega mikilvægt að fletta upp nákvæmlega þessum lögmálum í t.d. leitarvélinni PsychInfo og sjá hvaða „vísindi‘  verið sé  að tala um.

Skoðum tvö dæmi hvernig þetta getur tengst sálfræðimeðferðum:

Viðkomandi er í blóma lífsins, um þrítugt, þjáist þó af alvarlegu þunglyndi. Síðastliðið ár hafði viðkomandi eytt rúmum $2.100 dollurum sem eru rúmar 178.500 ISK (verður örugglega annað gengi á morgun þó) í að hitta orkuþerapista (Allt er nú til). Sá þerapisti hafði sérhæft sig í orku leyndarmálsins. Fyrir utan 2.100 dollarana, þá þurfti að kaupa aukalega video og bækurnar hennar Rhondu. Allt til þess eins að sitja upp í sófa og „óska sér“ hitt og þetta. Þunglyndið breyttist ekkert og það sem verra var að þunglyndið versnaði því hugmyndafræðin felur í sér að ef hlutirnir ganga ekki upp, þá er það þér að kenna, þér langaði ekki nógu mikið í það sem þú óskaðir þér, er þetta hjálplegt? Nei! Við sálfræðingar þurfum að leiðrétta þann misskilning sem virðist ríkja í samfélögum, að þegar komi að andlegri heilsu, eigi fólk að gera  minni kröfur en þegar það leitar sér að lækningum við krabbameini eða öðrum líkamlegum sjúkdómum. Við erum svo heppin nú á dögum að við höfum mjög skýr skilaboð frá fræðunum, um hvað við getum gert til að hjálpa fólki.

Að lokum er annað dæmi, ung stúlka með alvarlega áráttu og þráhyggju, bendir á að vandamál hennar hafi aukist heilmikið eftir að hún les leyndarmálið, því þarna eru hrein og bein rök að hennar mati fyrir því að hún er að valda óförum annarra með beinum hætti, með hugsunum sínum einum. Þegar mamma hennar og vinkonur lesa líka leyndarmálið og ræða þetta í saumaklúbbum getur verið erfitt fyrir viðkomandi að skilja hverslags skandall þetta er í raun.

Hver eru skilaboðin?

Ekki má misskilja mig þegar ég tala um gagnrýna hugsun í sálfræðimeðferðum. Eins og við öll vitum eru ótal nýjungar að líta dagsins ljós á sálfræðilegum meðferðum. Dæmi um það eru nýjar meðferðir byggðar á módeli Clark & Wells (1995) fyrir félagsfælni sem búið er að prófa í mörgum klínískum rannsóknum undanfarið. Ekki fyrr en við höfum nógu margar rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi einstaka hluta meðferðarinnar, getum við verið örugg að við séum að notast við vísindi. Aðferðir Clark og Wells, sem þeir kalla hugræna meðferð, er að sýna mun meiri árangur en hefðbundinn hugræn atferlismeðferð, sem kallar á  endurnýjun, ef rannsóknirnar halda áfram að sýna fram á betri árangur. En við verðum þó að vera varkár í þessu ferli okkar, því oft virðast myndast ákveðin „költ“ innan ramma sálfræðinnar, þar sem slagorðið „nýtt er alltaf betra“ virðist virka eins og t.d. við notkun EMDR við áfallastreituröskun. Þurfum við endilega að bæta augnhreyfingunum við hugræna atferlismeðferð, hvernig nákvæmlega virkar þetta á taugafræðilegu stigi? Við verðum að vera varkár til að halda utan um stöðu okkar sem vísindamenn.   

Ég fæ oft spurningar bæði frá skjólstæðingum og starfssystkinum  um hitt og þetta, t.d. hvað með nýjasta antifílakúrinn eða bollustrengs kúrinn, og er ég fljót að benda fólki á að ég er enginn alfræðiorðabók og veit ekkert meira heldur en viðmælendur mínir, heldur hef lært að afla mér gagna á vísindalegan hátt og því er svarið yfirleitt það sama: lærðu að gera rannsókn með vísindalegum hætti, lærðu tölfræði og farðu inn í gagnagrunna á netinu, og finndu þitt eigið svar við spurningum þínum. Þetta er ókeypis, þar sem landsaðgangur er frá Íslandi inn í hina ýmsu gagnagrunna sem getur sparað þér ótal peninga!

Lausn

Við sálfræðingar eigum að sameinast, birta lista fyrir neytendur okkar, til að segja þeim hvað við teljum vísindalegt og hvað ekki, því ef við gerum það ekki, þá munu án efa peningaplokkarar af einhverri gerð taka það að sér að fræða almenning og sjá sér leik á borði til að féflétta fólk.

Auglýsingar

4 responses to “Gagnrýn hugsun er besta sparnaðarráðið!

 1. Hafrún Kristjánsdóttir 2.3.2009 kl. 15:03

  Takk fyrir þetta Fjóla. Gæti ekki verið meira sammála þér. Við nokkrir sálfræðingar tókum okkur saman og opnuðum síðu sem kallast Húmbúkk og er á http://www.eyjan.is. Þar reynum við að sýna fólki fram á hvað er húmbúkk og afhverju. Við höfum meðal annars talað um talnaspeki og hómópatíu.

 2. Reynir Harðarson 3.3.2009 kl. 14:30

  Takk, Fjóla.
  Á kjaftæðisvakt vantrúar (http://www.vantru.is/kjaftaedisvaktin/) má lesa um life-wave-plástra, jen-fe-plásturinn, gervisykur, spákvisti, glútamaníu, hveitigrös, Q-link-hálsmen, áhrif hugsana á vatn, græðara, eyrnakerti, Bowen-tækni, aspartam, steinarugl, sálfræðistjörnuspeki, DNA-heilun, svæðameðferð, lithimnulestur, orkusvið, bænir o.s.frv. o.s.frv.

 3. Þórður Örn Arnarson 5.3.2009 kl. 21:05

  Heyr Heyr!

  Ég skrifaði einmitt einhvern tíman pistil á vantru.is um secret bullið:

  http://www.vantru.is/2007/10/12/07.48/

 4. Fjóla Dögg Helgadóttir 13.3.2009 kl. 01:34

  Kærar þakkir fyrir frábærar ábendingar.

  Allra bestu kveðjur frá Sydney Ástralíu
  Fjóla