Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Hugleiðingar

Höfundur: Anna Valdimarsdóttir 

Ég vakna við að mig dreymir þriðja í jólum. Mig dreymir að hjón koma til mín í hjónaráðgjöf utan hefðbundins skrifstofutíma. Það er eitthvert flaustur á mér og ég gríp símann og hringi í konu sem er hjá mér í viðtölum áður en ég fer til dyra. Spyr hana hvort við séum búnar að ganga frá tíma fyrir hana. Það er ekki laust við að henni sé skemmt og hún fullvissar mig um að allt sé klappað og klárt. Þakkar mér samt fyrir að hugsa til hennar.  Ég gríp enhverja pappíra sem liggja á tvist og bast á leið til dyra og opna fyrir hjónunum. Konan er í hjólastól. Við komum okkur fyrir í skrifstofu minni og ég rétti þeim staðlaðan spurningalista sem aðrir hafa samið fyrir fólk í hjónaráðgjöf.

 

Eiginmaðurinn lítur yfir blaðið og hefur á orði að þetta séu góðar spurningar hjá mér en hann vilji helst ekki byrja á að svara þeim því hann óttist að þá fari viðtalið í eitthvað allt annað en það sem honum liggur á hjarta. Jæja, segi ég og tek af þeim blöðin. Byrja samt á að spyrja konuna hans spurningar sem eitthvert af stóru nöfnunum í greininni mælir með að spyrja. Spyr hana hvað hún geti verið þakklát fyrir og hún svarar skilmerkilega næstum eftir formúlunni. Ég sný mér nánast sigri hrósandi að manninum og spyr hvað hann sé þakklátur fyrir.  Hann svarar ekki spurningu minni. Hann horfir staðfastur í augu mér og segir að hann langi til að eiga yngri konu.

 

Viðtalið er að taka óvænta og fremur óþægilega stefnu. En þá bætir hann við: Samt veit ég ekki, þegar ég fer að hugsa um þetta, hvort þetta snýst um að eiga yngri konu eða eitthvað allt annað.  Ég gríp hugrenningar hans á lofti alshugar fegin og spyr: Ef þetta snerist um eitthvað allt annað, hvað væri það þá? Maðurinn opnar munninn og ég sé á svip hans að spurningin hefur snert við einhverju sem skiptir hann máli og að þetta er honum kærkomið tækifæri til að velta henni fyrir sér í heyranda hljóði. En þá grípur kollegi minn fram í sem er á staðnum til að sjá um að ég fylgi forskriftinni. Hann spyr með þjósti hvers lags eiginlega spurning þetta sé. Hún hafi ekkert með hjónabandsvandræðin að gera og terapían sé komin út um víðan völl hjá mér.  

 

Ég er nett pirruð á trufluninni og maðurinn reynir að fullvissar kollega minn um að þetta sé góð spurning. En hugsanagangur hans er rofinn og við fáum ekki að heyra hvað honum lá á hjarta. Ég er að því komin að atyrða kollega minn fyrir slettirekuskapinn en sé mig um hönd. Nógu slæmt er að lenda í valdabaráttu við skjólstæðinga sína, enn verra að lenda í valdabaráttu við samverkamanninn fyrir framan þá. Ég ætla heldur að spyrja hann á sakleysilega spyrjandi nótum, líkt og Columbo í krumpaða rykfrakkanum gerir, hvað hann haldi. Hvað hann haldi um það hvers vegna spurning mín til mannsins hafi farið svo mjög fyrir brjóstið á honum.

 

Spurningin sem liggur undir steini er auðvitað hvað það segi um hann að hafa þótt  spurning mín óviðeigandi og einskis nýt. En hennar mun ég ekki spyrja. Hún fær  að liggja undir steini þangað til  maðurinn veltir honum sjálfur við með svörum sínum.

 

Við þetta vakna ég. Og ég finn strax þar sem ég ligg á svefnsófa á Kanaríeyjum í sjálfskipaðri útlegð að þetta er stórmerkilegur draumur. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart því ég var að lesa stórmerkilega bók eftir Guðmund Andra Thorson þar sem hann talar meðal annars um ásýnd hlutanna. Hvernig maður getur látið glepjast af ásýnd hlutanna og löngunum heimsins.

 

Já, hvað gæti það verið annað sem málið snýst um. Er það kannski ásýnd hlutanna. Löngunin eftir að vera öfundsverður í augum umheimsins eins og menn með yngri konur telja sig gjarnan vera. Að eiga eldri konu, ófríða konu, fatlaða konu er ekki alveg eins fínt.  Ekki alveg eins rakið, ekki alveg eins auðvelt að sýna fram á að sé eftirsóknarvert.

 

Maðurinn fékk ekki að svara spurningu minni. Kollegi minn sem þóttist vita betur stakk upp í hann áður en hann fékk ráðrúm til að svara. Er það kannski dálitið á þann veg í raunveruleikanum? Raddir sem halda fram öðrum gildum en þeim efnislegu eru þaggaðar niður fá ekki að hljóma eru kæfðar í fæðingu í darraðardansi efnahagsábatans, látið líta svo út að þær séu ekki annað en hjáróma raddir þeirra sem hefur ekki tekist að meika það og eru dálítið spældir fyrir vikið.

 

Hvað er verið að segja með því að hafa eiginkonuna í hjólastól?  Hún þarf á manni sínum að halda. Hann á konu sem þarf á honum að halda. Eru það kannski hin æðstu gæði hinn eiginlegi tilgangur lífsins að fá að vera í þeim sporum að aðrir þurfi á manni að halda. Hvað er lífið ef enginn þarf á manni að halda?

 

Og hvar værum við stödd aumar, veikburða manneskjur ef enginn kæmi okkur til hjálpar?  Engin dýrategund er jafn hjálparvana jafn lengi og mannsbarnið. Eru einhver skilaboð fólgin í því?

 

Og af því að þetta er jóladraumur langar mig að minnast á að táknmynd guðdómsins í kristinni trú er grátandi, hjálparvana ungabarn.  Ekkert er jafn máttugt og grátandi ungabarn. Því verður að sinna og lítil börn eru frá náttúrunnar hendi þannig úr garði gerð að þau mýkja hjarta þeirra sem á þau horfa. Hvílíkt snilldarbragð.

 

Tákn guðdómsins er hjálparvana og svo óburðugt að það líður undir lok ef ekki koma til meðbræður og meðsystur sem annast það.

Og hvað gerist svo. Því er fórnað á krossi. Verð að játa að mér hefur alltaf þótt það dálítið vulgar.

 

En þar sem ég sit um miðja nótt og hamra inn þennan texta kemur mér í hug að önnur túlkun er líka möguleg. Honum var fórnað – ekki til  að friðþægja fyrir syndir okkar mannanns heldur vegna þess að þegar hann óx úr grasi ógnaði hann viðteknu verðmætamati.  Jesús kom til eignar sinnar og menn þekktu hann ekki. Hann hjálpaði hrelldum og hrelldi hofmóðuga og það er alltaf nóg af þeim eins og okkar tímar bera vitni um.  Rödd Jesú ógnaði tilveru þeirra sem töldu sér trú um að þeir ættu betra skilið, væru rétthærri eða betri en aðrir menn. Og það þurfti að þagga niður í honum. Hann var byltingarmaðurinn og það hefur orðið hlutskipti margs byltingarmannsins að láta líf sitt.  Já að láta líf sitt, gefa líf sitt fyrir málstað sem er svo göfugur svo stór.  Það er eiginlega alveg óþarfi að blanda erfðasynd og Drottni á himnum inn í þetta dæmi.  Þetta er alveg nógu áhrifamikið án þess. Jesús var uppreisnarmaður í besta skilningi þess orðs sem kom róti á hugi samferðamanna sinna og ógnaði þægilegri heimsmynd.  Rödd hans þurfti að kveða niður.  Hlutskipti uppreisnarmanna á svo kölluðum friðartímum jafnvel uppgangstímum eins og okkur var sagt að ríkti hjá okkur undanfarin ár, er einmitt þetta að vera útskúfaðir, sniðgengnir, hafðir að háði og spotti, lagt til annarlegar hvatir eins og öfundsýki, minnimáttarkennd að bara almenn hallærismennska. Um þetta höfum við dæmin í íslensku þjóðfélagi. Þeir sem reyndu að vara við voru kallaðir úrtölumenn, menn sem voru bara á móti öllu og þá aðallega framförum. Já, það er nú kapítuli út af fyrir sig að velta fyrir sér í hverju raunverulegar framfarir eru fólgnar. Hvað gerir þjóðfélag að góðu samfélagi? Og ýmsum hefur verið fórnað í þessum leik.  Fjölskyldum sem misst hafa húsin sín, fyrirvinnuna, öryggið og framtíðaráformin. Og gleymum heldur ekki óhörðnuðu ungu mönnum og ungu konunum sem héldu að þau væru að gera góða hluti og uppfylla það sem til væri ætlast af þeim í samfélagi þeirra tíma?  Útrásarvíkingarnir eru sumir ungir að árum eins og Egill Skalla-Grímsson var þegar hann kvað vísuna Stend ég frammi í stafni   og sá fyrir sér framtíð í takt við sinn tíma. Já mér kemur í hug maður sem pantaði tíma hjá mér og sagðist vera einn af þessu útrásarvíkingum. Og ég verð að viðurkenna að ég sá fyrir mér ábúðarmikinn mann  í teinóttum jakkafötum. En þegar hann kom reyndist þetta vera ja eiginlega stráklingur, kornungur maður óöruggur og ráðvilltur. Það sem hann hafði upp á að bjóða og var talið bæði gjaldgengt og gott á ekki upp á pallborðið lengur. Heimsmyndin breyttist nánast á einni nóttu og það sem hann lagði af mörkum og var hampað fyrir er orðið skammaryrði dagsins.

 

Jesús kom til eignar sinnar og menn þekktu hann ekki. Mér finnst þetta mögnuð setning. Hún hefur með ásýnd hlutanna að gera. Það liggur ekki í augum uppi hvað verður okkur til hamingju. Það er ekki einu sinni sýnilegt frekar en sumargolan eins og Guðmundur Andri lýsir svo fagurlega í bók sinni: Segðu mömmu að mér líði vel.

 

Hamingjan felst hvorki í kynþokkafullri yngri konu né vöðvastæltum yngri manni (svo jafnréttis sé gætt).  Ef eitthvað má um hana segja væri það kannski helst að hún felist í því að tengjast öðru fólki, náttúrunni og andartakinu sem er að líða.  Og það skoðum við  ekki með berum augum og ekki venjulegu stækkunargleri heldur. Þar þarf stækkunargler af öðrum toga, stækkunargler sem stöðvar tímann og gerir okkur kleift að skynja hina afmörkuðu stund.  Eitt slíkt stækkunargler er vakandi athygli eða gjörhygli. Að veita athygli því sem er að gerast einmitt núna og taka því opnum örmum og opnum huga. Andartakið er liðið um leið og ég nefni það og orðið fortíð. Og henni verður ekki breytt. En ég get miklu ráðið um það hvaða lærdóm ég dreg af henni.

Auglýsingar

Comments are closed.