Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Vangaveltur um vinnutíma, virðingu og vönduð vinnubrögð

Höfundur: Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir

Lengi býr að fyrstu gerð stendur einhvers staðar og sennilega er erfitt að losa sig undan ríkjandi hugsun heilbrigðisstétta ef maður hefur lengi talist til þeirra. Frá útskrift úr sálfræðinni árið 1998, starfaði ég á sjúkrahúsum, fyrst í Danmörku og eftir heimkomu, á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (sem þá hét), þar til árið 2007.

Á sjúkrahúsum ræðst vinnutími margra af vaktakerfum og vinnutakturinn á slíkum stofnunum ræðst óneitanlega oft af því fyrirkomulagi. Vaktir eru auðvitað tilkomnar til að tryggja það að starfsfólk þreytist ekki um of en ekki síður til að tryggja að þeir sem verið er að sinna fái bestu þjónustu en ekki þjónustu sem markast af slævðri dómgreind, slælegum vinnubrögðum og viðbragðstíma og fyrringu útkeyrðs starfsfólks. Það velkist vonandi enginn í vafa um mikilvægi slíks þegar bókstaflega er verið að fást við líf og líðan fólks! Þannig er í vinnuskipulaginu tekið tillit til þess að fólk er ekki óbrigðular vélar heldur eru takmarkanir þess viðurkenndar. Þar fyrir utan starfa heilbrigðisstéttir almennt líka eftir siðareglum síns fags þar sem mikilvægi þess að meta eigin færni og getu (eða skort á sama) raunhæft er undirstrikað og virðing fyrir manneskjunni er í fyrirrúmi.

Um daginn heyrði ég viðtal við fiskvinnslukonu vestur á Fjörðum sem er vön að vinna í afkastatengdu bónuskerfi (viðtalið var í tengslum við umfjöllun um afkastatengdar greiðslur til skurðlækna á sjúkrahúsi hér í grenndinni). Í viðtalinu sagði hún með blöndu af vissu og nokkrum hæðnistóni í röddinni að hún væri nú ekki spennt fyrir því að vera sjúklingur skurðlæknis sem ynni eftir slíku kerfi. Konan fyrir vestan talaði af reynslu og vissi vel hvaða áhrif það hefur á vinnubrögðin þegar afköstin ganga framar öllu.

Alveg síðan bankakerfið hrundi og kreppan skall á hafa vangaveltur þessu tengdar verið kraumandi í kollinum á mér, þó það kunni að virka heldur langsótt. Í umræðunni hefur stóru orðin ekki vantað. „Guð blessi Ísland” yfirlýsing þáverandi forsætisráðherra minnti auðvitað einna helst á að stórkostlegur mannskaði hefði annað hvort orðið í landinu eða væri í það minnsta yfirvofandi. Talað var um áföll og kreppur og allt hitt sem við þekkjum orðið mæta vel. Ekki ætla ég mér að gera lítið úr ástandinu eða lýsingu á því en var vinnulagið í framhaldinu í samræmi við það? Hvaðan er vinnulag í slíkum aðstæðum sótt – hvað ræður för – er sú þekking til í banka- og stjórnsýslugeiraranum?

Þegar ég kom til starfa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1999 og settist í áfallateymi spítalans var vinnan í tengslum við snjóflóðin á Flateyri og Súðavík auðvitað fólki enn í fersku minni. Mikilvægi þess að til væri plan sem hægt væri að ganga að, ef og þegar næstu hamfarir brystu á, var öllum ljóst. Í því tilliti var lögð rík áhersla á nauðsyn skýrrar verkstjórnunar og vaktafyrirkomulags í slíku bráða/björgunarástandi, fyrst og fremst sem fyrirbyggjandi aðgerð. Fyrirbyggjandi varðandi tilhneigingu fólks í slíkum aðstæðum til að horfa framhjá eigin takmörkunum, sem gerir það að verkum að það vill halda endalaust áfram, treystir engum betur en sjálfu sér, sér sjálft sig sem algerlega ómissandi, „enginn getur mokað eins og ég” og svo framvegis. Hugsunarháttur sem auðvelt er að setja sig inn í en um leið mjög bjagaður og óraunhæfur! Um leið er hætta á ákveðinni firringu, þar sem moksturinn sjálfur verður aðalatriðið, án þess endilega að hugað sé að því hvernig best sé að moka eða hvar eða til hvers það sé!

Einhvern veginn varð það svo hjá sjálfri mér, „uppalinni” í heilbrigðiskerfinu, að þessar hugsanir skutu upp kollinum aftur og aftur þegar dugnaður ráðamanna og bankafólks var tíundaður í okkur hvað eftir annað dagana eftir hrunið og „Guð blessi Ísland”. Fréttamenn þreyttust ekki á lýsingum á maraþonfundum sem stóðu daga og nætur svo sólarhringum skipti. Hvað áttum við hin að gera – stara stóreyg á, full aðdáunar á vinnusemi ráðamanna eða…? Sjálf gat ég ekki annað en hugsað til baka í áfallaskipulagið og dómgreind eða dómgreindarleysi þeirra sem eru orðnir útkeyrðir af vinnu við rústabjörgun – það var jú ómögulegt að skilja „Guð blessi Ísland-aðgerðina“ öðruvísi… Að mér læddist til dæmis sá grunur að sjón fólks og yfirsýn gæti verið farin aðeins að daprast og þar með kannski líka tilfinningin fyrir raunverulegri þýðingu þess sem verið var að sýsla með. Sömuleiðis hvarflaði að mér að símtal til Bretlands hafi vegna langvarandi álags bara orðið „enn eitt símtalið sem þurfti að taka“ en ekki símtal sem skipti sköpum fyrir trúverðugleika heillar þjóðar í útlöndum! Eða ef horft er lengra til baka að afkastatengdar greiðslur bankanna hefðu orðið til þess að „bara“ var verið að höndla með peninga í sjóðum en ekki raunverulegan eftirlaunasjóð fólks sem lífsafkoman átti að byggjast á í framtíðinni.

Hvar voru siðareglurnar, virðingin fyrir fólkinu sem átti peningana? Hversu ígrundaðar eru ákvarðanir sem teknar eru að nóttu til eftir margra sólarhringa vinnu? Má treysta því að þær séu nægilega vel ígrundaðar til að líf heillar þjóðar geti um árabil byggst á þeim?

Getur verið að þrátt fyrir mikla þekkingu hagfræðinga-, viðskiptafræðinga og stjórnmálamanna hefði verið skynsamlegt fyrir þá að horfa út fyrir sinn ramma og sækja þekkingu um vinnu í neyðaraðstæðum, áhrif langvarandi álags á dómgreind og vinnu fólks, í aðrar áttir – til dæmis í heilbrigðisgeirann? Hefði þurft að leggja áherslu á siðareglur í peningamálum eins og heilbrigðismálum fyrir löngu síðan? Ég spyr og get ekki annað.

Auglýsingar

Comments are closed.