Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Upphaf sálfræðiþjónustu á LSH, stærsta vinnustað sálfræðinga

Höfundur: Eiríkur Örn Arnarson

Árið 1965 var Gylfi Ásmundsson ráðinn fyrsti sálfræðingur við Kleppsspítala, varð síðan yfirsálfræðingur og forstöðusálfræðingur við geðdeild Landspítala (LSP) og byggði upp sálfræðiþjónustu. Það var gott að eiga Gylfa að og leita til, því ekki aðeins var hann glöggur og vel menntaður fagmaður heldur einnig drengur góður, traustur og tryggur. Margir minnast föðurlegrar handleiðslu hans. Gylfi sagði starfi sínu lausu árið 2000 og sneri sér alfarið að rekstri eigin sálfræðistofu og tengdum verkefnum, en hann lést fyrir aldur fram árið 2001. Hann var dósent í sálarfræði við læknadeild H.Í. frá 1974 til 1994. Að auki stundaði hann ýmis kennslustörf, fræðslu og rannsóknir í sínu fagi. Gylfi þýddi og staðfærði MMPI-prófið auk margra annarra sálfræðiprófa. Fjöldi greina um sálfræðileg efni liggur eftir hann og er skemmst að minnast svara hans við lesendabréfum í Morgunblaðinu, þar sem hann fræddi og útskýrði málin á sinn einstaka hátt.

 

Gylfi gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir sálfræðinga og má nefna að hann átti sæti í nefnd á vegum Heilbrigðis- og Tryggingarráðuneytis til að meta umsóknir sálfræðinga um sérfræðingsviðurkenningu, var fyrsti formaður námsmatsnefndar S.Í. og svo má lengi telja. Gylfi tók virkan þátt í starfi Geðverndarfélags Íslands, sat í stjórn þess um áraraðir og í ritnefnd Geðverndar um skeið.

Gylfi naut hvarvetna trausts og var virtur og vel látinn í starfi. Hann var  gagnmenntaður með langa klíníska reynslu og margir eru þeir skjólstæðingar sem nutu hjálpar hans bæði á sjúkrahúsi og á stofu. Gylfi var hjartahlýr, laus við hleypidóma og hafði ríka samkennd með náunganum. Skemmtilegur félagi var hann, glaður á góðri stund og höfðingi heim að sækja.

Gylfi var víðlesinn, unni góðum bókmenntum og listum, einkum myndlist. Hann hafði yndi af að ferðast um landið og þekkti vel til staðhátta.   Gylfi var byrjaður að rita  Sálfræðingatal nokkru áður en hann lést, að frumkvæði Sálfræðingafélags Íslands, en entist ekki ævin til að ljúka því verki. Væri verðugt verkefni fyrir fagfélag okkar að taki upp þráðinn og ljúka því.

 

Þegar ég tók til starfa á geðdeild LSP í nóvember 1979 störfuðu sálfræðingar einungis á geðdeild fullorðinna á Kleppi, í nýreistri geðdeildarbyggingu á Landspítalalóðinni og á BUGL við Dalbraut. Við áttum með okkur sameiginlega fundi í hverri viku á skrifstofu Gylfa Ásmundssonar, yfirsálfræðings, sem þá var staðsettur á Kleppi. Á fundina mættu auk Gylfa og undirritaðs, Eva Júlíusdóttir, Guðrún Theódóra Sigurðardóttir og Ingólfur Guðjónsson. Álfheiður Steinþórsdóttir hafði nýverið látið af störfum þegar hér var komið sögu, en síðar bættust í hópinn Baldvin Steindórsson, Jóhann Loftsson, Einar Gylfi Jónsson, Ása Guðmundsdóttir , Oddi Erlingsson og Ævar Árnason og fundirnir færðust í geðdeildarbygginguna við Hringbraut. Sálfræðingar frá BUGL Guðrún Theódóra Sigurðardóttir, Þorgeir Magnússon og Páll Magnússon voru duglegir að mæta, en undir aldamótin fór að draga úr þátttöku barnasálfræðinga.

 

Á árunum 1984-6 starfaði undirritaður sem yfirsálfræðingur á geðdeild Borgarspítala. Þar störfuðu þá sálfræðingarnir Maja Sigurðardóttir, Sigurgísli Skúlason og Heiðdís Sigurðardóttir. Ernir Snorrason, sálfræðingur vann þá á Grensásdeild BSP, m.a. við mælingar á leiðsluhraða í heilastofni. Hann mun fyrstur sálfræðinga hafa hafið störf á vefrænum deildum sjúkrahúsa hér á landi. Eftir að hann lét af störfum tók María K. Jónsdóttir við störfum taugasálfræðings á Grensási. Síðar bættust fleiri sálfræðingar við á BSP, Svanhvít Björgvinsdóttir, Þórunn Finnsdóttir og Guðrún Íris Þórsdóttir á endurhæfingu í Kópavogi, Már Viðar Másson á geðdeild  BSP, Berglind Magnúsdóttir á Landakoti, Halla Þorvaldsdóttir á krabbameinsdeild BSP og Andri heitinn Clausen á krabbameinsdeild LSP.

 

Þegar ég sneri aftur til starfa á LSP voru Jakob Smári, Júlíus Björnsson og Hörður Þorgilsson komnir til starfa. Seinna bættust Margrét Bárðardóttir og Eiríkur Líndal í hópinn. Ég læt hér staðar numið að telja upp sálfræðinga, sem unnið hafa á LSP, BSP og LSH. Enn starfa nokkrir þeirra á LSH og margir hafi bæst í hópinn.

 

Árið 1983 var stofnuð eins árs námsstaða fyrir sálfræðinga í starfsþjálfun á geðdeild LSP. Fyrst til að njóta hennar var Ása Guðmundsdóttir, þá Júlíus Björnsson og að lokum Auður Gunnarsdóttir í tvö ár. Þá harðnaði á dalnum og skorti fé til að fjármagna stöðu sálfræðing á BUGL og draumurinn var úti. Síðan hefur ekki tekist að koma á fastri námsstöðu fyrir sálfræðinga í starfsnámi á LSH.

 

Af fyrrgreindri upptalningu má sjá að það er stór hópur sálfræðinga, sem hefur starfað um lengri eða skemmri tíma á LSP og BSP og síðar LSH. Allir hafa þeir sótt menntun sína til annarra landa að hluta eða öllu leyti. Það tel ég hafa verið styrk íslenskrar sálfræði og komið í veg fyrir einsleitni. Sú var raunin að fólk fékk að þróa sitt starf og styrkja sig á þeim sviðum, sem það hafði lagt sig eftir í menntun sinni.

 

Höfuðstöðvar geðdeildarinnar voru þá enn inni á Kleppi og var sá siður að menn söfnuðust vikulega á morgnana í skrifstofubygginguna. Ég man þegar Gylfi kynnti mig fyrst til leiks og sagði Jakobi Jónassyni, geðlækni að kominn væri nýr sálfræðingur til starfa og hvort ekki vantaði sálfræðing á D III.  Jakob tuldraði í barm sér að hann þyrfti lítið á sálfræðingum að halda. Það varð samt úr að ég fór að vinna með Jakobi og tókst með okkur afar gott samband. Ég naut handleiðslu hans um þriggja ára skeið og fáum læknum hef ég kynnst, sem hafa haft eins viðamikla þekkingu á sálfræði og hann. 

 

Á geðdeild LSP fannst mér ég koma í psykodynamiskt umhverfi. Engu að síður var víðsýni og ég fékk ráðrúm til að þróa atferlismeðferð, sem ég hafði lært í Englandi, en enski skólinn í sálfræði leggur áherslur á röksemdir byggðar á athugunum. Mér fannst nauðsynlegt að fara af stað með námskeið í atferlisfræðum fyrir starfsfólk á Deild III, sem féll í góðan jarðveg. Jakob og Ingólfur Sveinsson, sem var með Deild I, studdu framtakið. Deild I (síðar 11) var þá endurhæfingardeild, sem síðar var lögð niður. Baldvin Steindórsson kom að kennslunni með mér og ekki skemmdi fyrir að Örn Bragason var starfsmaður á deildinni. Hann skrifaði á þeim tíma BA-verkefni um kerfisbundna notkun táknrænnar styrkingar (token economy) undir minni handleiðslu. Það tókst því vel að setja upp atferlismeðferð á Deild I og III með þátttöku starfsmanna.

 

Á níunda áratugnum var gróska í fjölskyldumeðferð og kom ekki ómerkari fræðimaður en Virginía Satir og hélt námskeið. Í kjölfarið komu Kristín Gústafsdóttir, félagsráðgjafi og Karl Gustav Piltz, sálfræðingur frá Svíþjóð. Þau héldu mörg námskeið í dynamiskri fjölskyldumeðferð. Þó ég hafi ekki lag mig eftir þeirri nálgun hafði hún mikil áhrif á starf geðdeildarinnar og höfuðvígið var í Víðihlíð, þar sem Oddur Bjarnason, geðlæknir, réð ríkjum.

 

Ég fór að fá áhuga á meðferð sem þá var ný af nálinni, hugrænni atferlismeðferð (HAM), og flutti fyrst opinn fyrirlestur á vegum Geðhjálpar um „Hugræna meðferð á depurð“ í febrúar 1984, en hafði áður fjallað um meðferðina á fundum sálfræðinga og lækna á geðdeildinni. Ég hafði þá sem nú áhuga á hugrænni atferlismeðferð við kvíða, depurð, átröskun og sálvefrænum kvillum. Árið 1987 komu við saman sjö sálfræðingar sem áhuga höfðu á HAM og stofnuðum Félag um Hugræna Atferlismeðferð. Félagið hefur vaxið og dafnað og félagsmenn nú vel á annað hundrað. Framhaldsnámið í HAM, sem það rekur í annað sinn í samvinnu við Oxford Cognitive Center og Endurmenntunarstofnun H.Í. hefur vaxið og dafnað undir dyggri forystu Auðar Gunnarsdóttur, formanns FHAM. 

 

Það er gaman að rifja upp að við Ingvar Kristjánsson, geðlæknir, sem þá starfaði aðallega á göngudeild geðdeildar 31E, unnum saman í mörg ár við meðferð á lystarstoli og lotugræðgi. Við komum úr sitt hvorri áttinni og hann dynamiskur í afstöðu sinni. Samstarfið gekk með ágætum og í anda breskrar hefðar að bera virðingu fyrir öðrum meðferðarviðhorfum, að því gefnu að hver væri sjálfum sér samkvæmur og gæti fært rök fyrir afstöðu sinni.      

[1] Eiríkur Örn Arnarson og Guðrún Theódóra Sigurðardóttir, minningargrein Mbl. 17. janúar 2001

Auglýsingar

One response to “Upphaf sálfræðiþjónustu á LSH, stærsta vinnustað sálfræðinga

  1. Álfheiður Steinþórsdóttir 25.2.2009 kl. 14:24

    Það var gott að fá þetta yfirlit frá þér Eiríkur og sjá söguna opnast fyrir okkur. Í hraða dagsins er mikilvægt að missa ekki tenginguna. Takk