Vefrit Sálfræðingafélags Íslands

– Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar

Fyrsta íslenska sálfræðiþingið 2009

Höfundur: Pétur Tyrfingsson


Stjórn Sálfræðingafélags Íslands og Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands hafa gert með sér samkomulag um að standa árlega fyrir „Íslenska sálfræðiþinginu“ og ríðum við á vaðið og höldum fyrsta þingið nú í vor þann 30. apríl. Um kvöldið verður einnig haldin árshátíð sálfræðinga. Hér er kominn vísir að árvissum viðburði þar sem sálfræðingar koma saman sem fræðafólk, verkmenn, vinir og félagar og halda eins konar uppskeruhátíð… eða eigum við kannski að kalla það töðugjöld?

Hvers vegna sálfræðiþing?

Að stofna til reglulegs ársþings er þýðingarmikill áfangi í vexti og viðgangi sálfræðingastéttarinnar. Hugmyndin að baki þinginu er að stuðla að því að sameina alla sálfræðinga í einu samfélagi hvort sem þeir stunda fræði og rannsóknir, kennslu eða hagnýt störf á hvaða sviði sálfræðinnar sem er.

Samkvæmt lögum er „sálfræðingur“ lögverndað starfsheiti. Öll vitum við þó að það eru miklu fleiri sálfræðingar til en þessir löggiltu. Sálfræði er nefnilega fræði- og vísindagrein sem hefur býsna breytt svið. Við stöndum frammi fyrir því verkefni að sameina alla sálfræðinga hvort sem þeir hafi heimild til að vinna hagnýt störf samkvæmt lögum eða stunda fræði og rannsóknir. Við stöndum frammi fyrir því að hvetja til breytinga á lögum um sálfræðinga annars vegar og hins vegar að byggja upp Sálfræðingafélag Íslands sem félagasamtök allra þeirra sem hafa sálfræðimenntun umfram grunnnám í háskóla. Eitt af því sem miðar í þessa átt er að koma á fót árlegu sálfræðiþingi.

Hvers konar þing hæfir íslenskum sálfræðingum?

Íslenskt samfélag er smátt og lítið og sálfræðingar eru ekki fjölmenn stétt. Með okkur er ekki að vænta að spretti fjölbreytilegt ráðstefnulíf eins og í stóru löndunum. Þess vegna þurfu við að sameina helstu áhugasvið allra sálfræðinga á hinu áralega þingi. Íslenska sálfræðiþingið verður því ekki einskorðað við erindi, veggspjöld og skýrslur af vísnindalegu rannsóknum. Við reiknum með að þingið starfi í þremur deildum í framtíðinni eða dagskráin sé á þremur greinum:

1. Deild vísinda og rannsókna.

Dagskrárefni undir þessum lið eru kynningar á vísindalegum rannsóknum hvort sem er í formi fyrirlestra, stuttra erinda eða veggspjalda. Þegar hefur verið skipuð nefnd til að hafa umsjón með þessum hluta dagskrárinnar.

2. Deild hagnýtrar og klínískrar sálfræði

Dagskrárefni undir þessum lið geta verið kynningar og jafnvel fræðsla um hagnýt og klínísk efni á öllum sviðu sálfræðinnar. Hér er vettvangur sálfræðinga til að kynna þau störf sem þeir vinna á ýmsum stofnunum þjóðfélagsins, úrræði af ýmsu tagi og jafnvel má hugsa sér í framtíðinni að undir þessum lið falli fræðslufyrirlestrar og stutt námskeið.

3. Deild um sálfræðinga og samfélag

Dagskrárefni undir þessu lið eru erindi eða umræður um réttindamál sálfræðinga, stöðu þeirra í samfélaginu, stefnu þeirra sem fagstéttar í þjóðþrifamálum og svo framvegis. Gæta þarf þess frá upphafi að dagskrá undir þessu lið verði ekki um of sjálfhverf.

Stefnt að ráðstefnuriti

Það er einlægur vilji þeirra sem vélað hafa um ársþingið að aukahefti Sálfræðiritsins komi út fyrir eða eftir þingið með efni sem tengist því. Hvort okkur tekst þetta í ár og hve myndarlega verðum við að láta ráðast. Að því verður þó keppt. Óneitanlega væri það mikil lyftistöng fyrir sálfræðina í landinu að Sálfræðiritið sem nú kemur staðfastlega út á haustin geti einnig komið út á vorin – og þá bara ekki með útdráttum úr rannsóknarskýrslum eða erindum heldur jafnvel með heilum greinum ef efni standa til.

Stefnum að myndarlegu ársþingi!

Fyrsta íslenska sálfræðþingið 2009 verður ef til vill smátt í sniðum. Ef vil vill verður dagskráin ekki viðameiri en svo að einn dagur nægi og engir fundir haldnir samtímis. Sjálfur er ég þó svo bjartsýnn að ég reikna með að strax á þessu fyrsta þingi munum við þurfa að hafa samhliða fundi þannig að fólk þurfi að velja milli erinda. Þannig verður það örugglega í framtíðinni.

Ég hvet alla sálfræðinga til að líta í eigin barm og kringum sig og gera tillögur um dagskrárefni fyrir þetta fyrsta þing. Beint liggur við að senda inn útdrætti um rannsóknir sem ekki hafa verið kynntar hér á landi. Okkur þykir kannski ekki eins augljóst að kynna störf sálfræðinga. En þetta er þýðingarmikill þáttur. Sálfræðingar starfa víða og eru önnum kafnir við að hanna og bjóða úrræði af margvíslegu tagi og gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi margra stofnana. Þetta þarf að kynna og hafa í hámæli meðal stéttarinnar. Ég hvet félagsmenn og aðra til að gera tillögur um dagskrárefni á þessu sviði feimnislaust.

Nánar auglýst síðar

Við gerum okkur grein fyrir því að fyrirvarinn er stuttur en treystum á skjót viðbrögð sálfræðinga. Okkur hlýtur öllum að vera nokkuð mikið niðri fyrir og margir hljóta að geta dregið upp úr pússi sínu boðlegt framlag til þingsins. Á næstu dögum mun stjórn Sálfræðingafélagsins senda út auglýsingu sem gerir grein fyrir því hvernig félagsmenn og sálfræðimenntað fólk getur komið sér á framfæri við þá sem hafa umsjón með þinginu.

Auglýsingar

2 responses to “Fyrsta íslenska sálfræðiþingið 2009

  1. Pingback: Íslenska sálfræðiþingið og starfsdagur á geðsviði LSH « ΝΟΥΣ

  2. Jón Bragi Sigurðsson 22.3.2009 kl. 11:44

    Mér finnst að formaðurinn ætti að taka á sig rögg og koma í veg fyrir að íslenskir sálfræðingar stundi þá vafasömu iðju að reka eigin stofu sem ekki er annað en smáborgaralegur kapítalismi.